1056
— Ísleifur Gissurarson vígður fyrsti biskup Íslendinga í Brimaborg (Bremen). 1056 „er hefðbundið upphafsár biskupsdóms á Íslandi*, [árið er þó] ekki öruggt fremur en sumar aðrar ársetningar íslenskrar sögu á 10. og 11. öld. Í vígsluför Ísleifs var stofnað biskupsdæmið Ísland og Íslendingar teknir í tölu siðmenntaðra þjóða.“ (Björn, 60)
Af fornum heimildum má sjá að sagnaritarar höfðu fyrst og fremst áhuga á heldri mönnum og höfðingjum og segja fátt um þræla og vinnulýð. Ritaðar heimildir gefa þannig ekki rétta mynd af þjóðinni við upphaf byggðar (Björn, 17). Eins segja fornar heimildum fátt um tónlistariðkun sérstaklega. Þó hefur tónlist í einhverri mynd að sjálfsögðu alltaf verið iðkuð í landinu því hún fylgir samfélagi manna – skemmtan og trúarlíf má nefna í þessu sambandi. Þó fátt megi þannig segja með vissu um hina fyrstu tónlist á Íslandi má e.t.v. draga óbeinar ályktanir af eftirfarandi:
— Á víkingaöld (800-1066) voru norrænir menn víðförulir og ferðuðust um alla Evrópu, e.t.v. mest með ófriði en væntanlega líka með friði. Landnámsmenn hafa því vafalaust haft einhver kynni að evrópskri tónlist; alþýðutónlist áreiðanlega og ekki er útilokað að einhverjir hafi komist í kynni við lærða tónlist þess tíma. Í liði landnámsmanna var líka fangið fólk og þrælar frá ýmsum stöðum. Þetta fólk hefur að einhverju leyti haft með sér sína tónlistarmenningu.
— Íslendingar 11. og 12. aldar þvældust líka víða:
Leiðir þeirra lágu vestur til Grænlands og Vínlands… þeir lögðust í víking með Norðmönnum; þeir gerðust væringjar í þjónustu Miklagarðskeisara; þeir börðust í her krossfara við Nikeu 1097; og þeir stunduðu pílagrímsferðir allt austur til Landsins helga. Í Grágás er tekið fram, að menn skuli gjalda tíund af eignum sínum, þótt þær séu austur í Garðaríki, þ.e. Rússlandi.
Íslendingar voru svo ferðaglaðir á 12. öld, að Nikulás ábóti á Munkaþverá (d. 1159) tók saman Leiðarvísi, lýsingu á leiðum pílagríma allt suður til Jórdanar….
Á 12. öld, blómaskeiði íslenskra miðalda, voru suðurgöngur til Rómar hvað algengastar. Þá voru nöfn 12 íslenskra pílagríma skráð í gestbók í klaustri á Eynni auðgu (Reichenau) í Bodenvatni í Sviss. Um 1200 varð Páll biskup Jónsson að takmarka utanferðir presta svo að ekki skorti kennimenn í Skálholtsbiskupsdæmi. (Björn, 80-81)
— „Ísleifur biskup í Skálholti hélt skóla til að mennta íslenska prestastétt. Ari segir að „höfðingjar og góðir menn… seldu honum margir sonu sína til læringar og létu vígja til presta,“ en tveir þeirra urðu síðar biskupar, Jón Ögmundsson á Hólum og Kolur Þorkelsson biskup í Víkinni í Noregi. Þó setti Ísleifur Gissur son sinn (f. 1042) til mennta á Saxlandi, trúlega í Herford í Westfalen þar sem hann hafði sjálfur numið klerkleg fræði. Annar prestvígður höfðingi, Sigfús Loðmundarson í Odda á Rangárvöllum, sendi einnig son sinn utan til náms, Sæmund, sem síðar var nefndur hinn fróði. Sæmundur er sagður hafa lært í „Frakklandi“, en þá mun átt við lönd Franka (Franconíu) við Rín; Frakkland sjálft var fremur nefnd Valland. Þeir Gissur og Sæmundur urðu forystumenn nýrrar kynslóðar og skipuleggjendur kirkjunnar á íslandi.“ (Björn, 63).
Á fyrstu öldum byggðar í landinu hafa Íslendingar því víða ferðast. Víst má telja að á ferðum þessum hafi menn komist í kynni við tónlist, leikra manna sem lærðra. Að auki hafa forystumenn íslensku kirkjunnar á þessum tíma, íslenska yfirstéttin, verið hálærðir og sigldir menn. Í námi sínu hafa þeir áreiðanlega kynnst og numið tónlist.
* Undirstrikunum er ætlað að draga athygli að fullyrðingum um að eitthvað hafi gerst í fyrsta sinn, sé elst eða á annan hátt einstakt.
1106
— Jón biskup helgi Ögmundsson kjörinn fyrsti Hólabiskup (biskup til 1121). „Kjöri hans hafa ráðið þeir Gissur Ísleifsson biskup, Sæmundur fróði í Odda og Hafliði Másson í Breiðabólstað í Vesturhópi, en hann var þá fyrir höfðingjum nyrðra og kvæntur Rannveigu Teitsdóttur úr Haukadal, bróðurdóttur Gissurar biskups. Í vígsluför heimsótti Jón páfa og hefur þá hlotið samþykki hans fyrir stofnun stólsins á Hólum.“ (Björn, 67)
„Jón biskup stofnar skóla á Hólum og lét reisa skólahús, hið fyrsta sem um getur á Íslandi.“ (Björn, 67) Til skólans „var ráðinn söngkennari frá Frakklandi að nafni Richini og kenndi hann þar sönglist og versagerð.“ Þetta mun vera elsta heimild um tónlistarkennslu á Íslandi. (Bjarki, xiii)
„Elstu heimildir um dans og danskvæði á Norðurlöndum eru íslenskar. Í sögu Jóns biskups helga segir að hann hafi bannað sterklega þann leik að ‘í dansi skyldi karlmaður kveða til konu blautleg kvæði og regileg og kona til karmanns mansöngsvísur.’“ (Páll Kr., 130). „Um þessar mundir voru Íslendingar farnir að dansa og kveða í dansinum um ástir og unað. Jón Hólabiskup bannaði slíka siðspillingu, og í Grágás segi: „ef maður yrkir mansöng um konu, og varðar það skóggang.“ Vísuhelmingur gat kostað mann lífið að lögum, enda hefur fátt af danskvæðum goðaveldisaldar varðveist nema stefið: Mínar eru sorgir þungar sem blý“. (Íslandssaga, 67)
1133
— Fyrsta íslenska klaustrið stofnað á Þingeyrum. Talið er að Jón biskup Ögmundsson hafi lagt drög að stofnun þessarar reglu Benediktína. Í Eyjafirði voru klaustur á Þverá (Munkaþverá; 1155) og á Saurbæ (um 1200). Nunnuklaustur var stofnað á Reynisstað í Skagafirði (1296) og munkaklaustur á Möðruvöllum um svipað leyti. Önnur klaustur voru í Þykkvabæ í Álftaveri (1168), á Helgafelli (stofnað í Flatey 1172 en flutt tólf árum síðar), í Viðey (1226) og í Kirkjubæ á siðu (1186). (Björn, 76)
Auk þess var klausturlíf í Hítardal síðasta þriðjung 12. aldar og e.t.v. vísir að klaustri á Keldum á Rangárvöllum um 1200, og 1493 var stofnað Skriðuklaustur í Fljótsdal, sem hélst til loka kaþólsks siðar.
Klaustur voru lærdómssetur, bókasöfn og miðstöðvar bókagerðar. Sum áttu á annað hundrað skinnbóka, bæði íslenskar og innfluttar. Úr klaustrum komu margir biskupar og aðrir forystumenn íslensku miðaldakirkjunnar. (Björn, 76)
Tónlist eins og annar lærdómur hefur verið varðveitt, iðkuð, numin og kennd í íslenskum klaustrum. Um það bera vitni fáein skinnhandrit sem varðveist hafa. Eftir siðaskipti hafa miklar gersemar frá kaþólskri tíð farið forgörðum eða verið fargað meðvita.
1197
— „Páll biskup Jónsson í Skálholti [lýsir] yfir því á Alþingi að mönnum væri leyfð áheit á hinn sæla biskup, Þorlák [dáinn 1193], og skyldu menn syngja honum tíðir á andlátsdag hans (23. des.). Þorlákstíðir eru að mestu til enn í tíðabók frá Skálholti. Talið er að biskuparnir Páll í Skálholti og Guðmundur góði Arason hafi samið þá tíðabók í sameiningu…. Talið er að á þessum tíma hafi messusöngur risið einna hæst á Íslandi.“ (Páll Kr., 130)
1323
— Lárentínus Kálfsson gerist biskup á Hólum. „Hann var sönglærður og strangur í trúarefnum. Hann bannaði ‘að tripla eða tvísyngja’, vildi hafa ‘sléttan söng’ tónaðan eftir kórbókum. Þetta bendir til að forni tvísöngurinn hafi verið farinn að smjúga inn í kaþólska messusönginn.“ (Páll Kr., 131)
1329
— Arngrímur Brandsson, klerkur í Odda, kemur til Íslands með organum (orgel) sem hann hafði sjálfur smíðað. Hljóðfæri þessarar tegundar hafði ekki fyrr verið flutt til landsins svo vitað sé. „Fjögur hljóðfæri gnæfa hæst upp úr tónmenntasögu Íslands: Organum Arngríms prests 1329, regal Þórðar biskups 1691**, orgelhljóðfæri Magnúsar Stephensen 1799 og dómkirkjorgel Péturs Guðjohnsen 1840.“ (Hallgrímur 1992, 27-28)
** Hér greinir Hallgrím á við Helgu Ingólfsdóttur því samkvæmt grein hennar, „því hann vildi sitt regal hljóma láta í Skálholtskirkju“, kemur Þórður til landsins með hljóðfæri sín árið 1658.
1473
— Handrit frá Munkaþverá sem talið er frá þessu ári inniheldur tvísöngsnótur við trúarjátninguna (Credo). „Þetta er elsta handrit af tvísöng, sem fundist hefur á Norðurlöndum“,
…en þess ber að geta að eftir siðbót [1550] voru viljandi og óviljandi eyðilögð svo að segja öll nótnahandrit í landinu. Auk fárra nótnabóka eru það skinnbókablöð, sem notuð hafa verið til bókbands við önnur rit, það helsta, sem varðveist hefir. Munkaþverárhandritið er aðeins eitt blað, en þó má sjá af því, að föst skipan hefir verið komin á tvísönginn á þessum tíma. Í lok kaþólsks siðar hér á landi hefir tvísöngurinn komist til vegs og sóma innan kirkjunnar og haldist vel við fram til þessa dags. (Páll Kr., 131)
1542
— Í skrá sem Guðbrandur Jónsson tók saman fyrir Landsbókasafn 1931 er minnst á fornbréf varðveitt í Ríkisskjalasafninu í Hamborg. Bréfið er dagsett 14. mars 1542 í Hamborg og stílað á Gissur Einarsson biskup í Skálholti (1540-1548). Farið er fram á að biskup greiði eftirstöðvar vegna orgelkaupa uppá 20 mörk og 10 skildaga. Orgelið hafði Ögmundar Pálssonar keypt en hann var fyrirrennari Gissurar og síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti (1521-1540). Þetta eru sennilega elstu skjalfestu heimildirnar um hljóðfærakaup til Íslands og sýna að orgel var í Skálholti þegar í kaþólskri tíð.
1549
— Ólafur Hjaltason (1491(?)-1569), fyrsti lúterski biskupinn á Hólum (1552 til dauðadags), gaf út sálmabók þar sem í fyrsta sinn eru sálmar sem þýddir höfðu verið yfir á íslensku. Ólafur dvaldi í Danmörku og Þýskalandi á vegum Jóns biskups Arasonar veturinn 1542-1543. Í grein um Ólaf á Wikipedia segir að Jón biskup hafi bannfært Ólaf og svift embætti fyrir að hann sýndi kenningum Lúthers áhuga eftir þessa utanför. Í annari heimild segir:
Um Olaf Hjaltason vitum vér að hann lét fyrstur manna syngja lúterska sálma í ísl. þýðingu í Laufáskirkju árið 1549 er hann var prestur þar og komst þess vegna í ónáð Jóns biskups Arasonar, svo hann var þegar settur frá kjól og kalli. (Hljómlistin. 1. árg. 1912-1913. 6. tbl., bls 51)
1550
— 7. nóvember: Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi, hálshöggvinn ásamt sonum sínum í Skálholti. Í kjölfarið fylgdu mikil pólitísk, menningarleg og tónlistarleg umskipti í landinu. Klaustur voru aflögð og eignir þeirra færðar undir konung. Einu skólar landsins voru í Skálholti og á Hólum – megin hlutverk þeirra var að mennta presta fyrir kirkjuna. Allt sem kaþólskt var missti gildi sitt eða var með markvissum hætti eyðilagt. Kaþólskur messu- og tíðasöngur, sem að mestu hafði farið fram á latínu, vék fyrir sálmum á Íslensku sem sungnir voru við þýsk- og danskættuð lög.
1589
— Nótnaprentun hefst á Íslandi er Hólabókin, sálmabók Guðbrands biskups Þorlákssonar (1542-1627), var prentuð á Hólum. (Hallgrímur 1992, 35)
1594
Graduale— Grallarinn(Graduale) kemur út í umsjá Guðbrands biskups Þorlákssonar (1542-1627). Alls var þessi messusöngsbók gefin út í 19 útgáfum fram til 1779. (Hallgrímur 1992, 36) „Frumútgáfunni fylgdi ítarlegur inngangur eftir Odd biskup Einarsson, eins konar kennslubók í messusöng og er það fyrsta prentuð söngfræði á íslensku.“ (Páll Kr., 131). Ekki skal hér gerður greinarmunur á „söngfræði“ á prenti og „fræðsluriti í söng“ en eins og sjá má undir árinu 1691 telur Hallgrímur Helgason að þá hafi fyrsta fræðsluritið í söng komið út. Um þennan formála segir í Íslenskum gátum…: „Formáli þessi er það fyrsta, sem prentað er á íslenzku um saung, en annars er lítið á honum að græða. Biskupinn talar mest um saung hjá Gyðíngum og í kirkjum í fornöld, en kennir alls ekki að þekkja nótur, né sýngja eptir þeim. Nótur eru valla nefndar í pistlinum.“ (Íslenskar gátur… II, 237)
1658
— Þórður Þorláksson, síðar biskup í Skálholti (1674-97), kemur til Íslands með regal og symfón, sem hann lék sjálfur á. (Helga Ingólfsdóttir)
1691
— „Örstutt ágrip af söngfræði eftir Þórð biskup Þorláksson kemur út aftan við 6. útgáfu Grallarans.“ Þetta er fyrsta fræðslurit í söng sem gefin er út á Íslandi. (Hallgrímur 1992, 36)
1780
— Essay sur la musique ancient et moderne eftir Benjamin de la Borde og Roussier kemur út í París. Í þessu riti eru prentuð 5 íslensk þjóðlög. Johann Ernst Hartmann (afi J.P.E. Hartmann) „hafði skrifað þau upp eftir Jóni Ólafssyni frá Grunnavík.“ Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk þjóðlög birtast á prenti. (Páll Kr., 132; Sequentia 1999)
1800
Magnus Stepheseb (1762-1833)— Magnús Stephensen (1762-1833) kemur til Íslands.
Magnús Stephensen kom frá útlöndum árið 1800, hafði hann með sér hljóðfæri nokkurt, er hann sjálfur kallar Orgelverks-hljóðfæri [Eptirmæli 18. aldar, bls. 560] (Harmonium?). Lék hann á það sjálfur, því ekki kunnu það aðrir. Var það fyrst sett í Leirárkirkju í Borgarfirði og haft þar við messugjörð þangað til 1803. Þá fluttist Magnús að Innrahólmi og hafði hann hljóðfærið með sér. Árið 1819 var hljóðfæri þetta flutt til Viðeyjar og haft þar við messugjörð þangað til Magnús dó. Jón Espólín segir að Magnús hafi kennt öðrum að spila á þetta hljóðfæri; en hljóðfærið var selt til útlanda aptur, skömmu eptir dauða Magnúsar. (Bjarni Þorsteinsson, 61)
1801
— Magnús Stephensen lætur prenta messusöngs- og sálmabók að Leirárgörðum við Leirá. Í bókinni, sem nefnd var Aldamótabókin (stundum uppnefnd Leirgerður) birtir Magnús
þrjú sálmalög með nútímanótnaskrift, rituð í sópran-lykli (c-lykli). Aftan við bókina er Útskýring um reglulegan sálmasöng, sem er örstutt ágrip af söngfræði. Linan og harðan söng yfirtekur hann þar úr Grallara og kveður lög með þessum tvennskonar söngmáta vera annarsvegar sorgleg og leiðinleg, hinsvegar lystug og falleg. Hér er og í fyrsta sinni kennt að slá fjórskiptan takt.
Magnús var maður upplýsingarinnar og ósáttur við söngiðkan sinnar samtíðar.
Magnús segir, menn gauli í belgog hann heyrir þá kúga upp skræki á stangli, með uppblásnum æðum og ofraun.En ekki eru heldur vikivakar, að hans áliti, sæt söngsamhljóðan, né heldur bera þeir vott um góðan smekk. Þá fá ekki rímur betri útreið. Þær eru fullar af marklausu þvættings bulli,og kveðskapur er ófagurt ýlfur og heimskulegt rímnagól.Loks er tvísöngur byggður á röngum reglum söngs, fullyrðir Magnús. (Hallgrímur 1992, 41-42)
Í bók Magnúsar eru 100 lagboðar og 3 sálmar með nótum. „Þetta eru fyrstu lög prentuð með nútíma nótnaletri á Íslandi.“ (Páll Kr., 133)