Tónleikaprógröm Guðrúnar Guðmundsdóttur

Gudrun_Gudmundsdottir

Tónlistarsafni Íslands barst gjöf úr dánarbúi Guðrúnar Guðmundsdóttur. Gjöfin fólst í tónleikaskrám, en hún hafði sótt reglulega tónleika allt frá árinu 1943. Um er að ræða 5 fullar möppur sem gefa vandað yfirlit yfir tónleikalífið í Reykjavík allt fram á fyrsta áratug 21. aldarinnar.
Guðrún Guðmundsdóttir fæddist á Kópaskeri 14. apríl 1922. Hún lést á Landakotsspítala 16. janúar síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Kristjánsson, f. 1. júní 1884 á Víkingavatni í Kelduhverfi, d. 18. desember 1965, og Björg Indriðadóttir, f. 18. ágúst 1888 í Keldunesi í Kelduhverfi, d. 22. janúar 1925. Alsystkini Guðrúnar voru: Árni og Indriði, sem létust í frumbernsku, Jónína Sigurveig, f. 1916, d. 2006, og Björn, f. 1918, d. 2006. Hálfsystkini hennar voru: Kristján, f. 1933, d. 1975, Árni Ragnar, f. 1935 og Björg, f. 1944.

Guðrún ólst upp á Víkingavatni í Kelduhverfi og á Kópaskeri. Hún varð gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1941. Eftir gagnfræðapróf vann hún við húsmæðraskólann á Ísafirði en fluttist til Reykjavíkur 1943. Hún vann um nokkurt skeið á skrifstofu Olíuverslunar Íslands í Reykjavík. Í lok ársins 1948 hóf Guðrún störf við bókhald hjá Áfengis- og lyfjaverslun ríkisins, síðar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hún var aðalbókari frá 1957 til starfsloka 1992.

Guðrún var mikill unnandi klassískrar tónlistar. Um nokkurra ára skeið stundaði hún nám í píanóleik, söng, tónfræði og tónlistarsögu við Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hún var um tíma í Samkór Reykjavíkur og var ein af stofnendum Söngsveitarinnar Fílharmóníu, þar sem hún söng í nokkur ár. Eiginmaður Guðrúnar var Eggert Eggertsson, f. 14. ágúst 1909, aðalgjaldkeri hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Þau hófu sambúð um 1960 en hann lést 11. febrúar 1969. Eftir fráfall Eggerts hélt Guðrún heimili með systur sinni Jónínu Sigurveigu, allt þar til Jónína lést sumarið 2006. Eftir það bjó hún ein í íbúð þeirra systra á Dalbraut 16.

Heimild: Morgunblaðið (Opnast í nýjum vafraglugga)

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is