Þórarinn Jónsson 1900-1974

Lengi þekkti þjóðin ekki nema eitt lag eftir Þórarinn Jónsson, en það er lagið „Heiðbláa fjólan mín fríða“. Þetta smálag nægði til að gera höfundinn þjóðkunnan. Eggert Stefánsson söng lagið inn á hljómplötu í Berlín árið 1926 og platan var síðan til sölu í hljóðfæraverzlunum hér á landi. Brátt fóru einsöngvarar okkar að syngja lagið opinberlega, og síðar sungu sumir þeirra, eins og Einar Kristjánsson og Elsa Sigfúss, lagið inn á hljómplötur. Brátt varð lagið „á allra vörum.“ Í dag hvílir tónskáldafrægð höfundarins á öðrum veigameiri tónsmíðum sem nánar verður minnst á hér á eftir. Þær tónsmíðar hafa skipað honum í fremstu röð íslenzkra tónskálda.

Þórarinn Jónsson er fæddur á Mjóafirði 18. september 1900. Hann var látinn vinna algenga vinnu, jafnskjótt og hann hafði krafta til, eins og tíðkast hefur hjá alþýðufólki hér á landi. Hann var sjómaður á róðrarbátum, ýmist á Mjóafirði, Norðfirði eða í Vestmannaeyjum. En hugur hans var meira bundinn við tónlistina en fiskinn – hann krotaði nótur með nagla á bátsþiljurnar og árablaðið, þegar blað og blýantur var ekki við hendina. Þegar Þórarinn var kominn til Berlínar og falaðist eftir kennslu hjá prófessor Koch, deildarstjóra tónsmíðadeildar tónlistarháskólans, spurði prófessorinn Þórarinn spjörunum úr um menntun hans. „Barnaskólamenntun!“ sagði prófessorinn og fannst lítið til koma. Þegar Þórarinn sá, að það átti að stranda á þessu, sagði hann: „Hafið er minn háskóli“ og ætlaði út. Þetta líkaði prófessornum að heyra og sagði: „Bíðið bara! Þér eigið að semja.“ Og Koch varð kennari hans. Síðar fól Koch honum að lesa prófarkir af kórverkum, sem hann var að gefa út. Þetta fannst Þórarni mikið traust. Þórarinn var hjá honum þar til prófessorinn lést tveimur árum síðar.

Þórarinn var um tíma í Reykjavík áður en hann fór til Berlínar og lærði á fiðlu hjá Þórarni Guðmundssyni og hljómfræði hjá Páli Ísólfssyni. Árið 1924 fór hann til Þýzkalands og dvaldist eftir það í Berlín til 1950 við nám og ýms störf. Eftir það hefur hann verið búsettur í Reykjavík og unnið aðallega að tónsmíðum.

Það er ekki ýkja mikið af vöxtum, sem þjóðin þekkir af tónsmíðum Þórarins, því fátt eitt hefur verið gefið út. Í konsertsölum og í útvarpi hafa heyrst eftir hann tónsmíðar við og við og nokkrar eru til á hljómplötum. Þórarinn hefur samið fiðluverk, orgelverk, einsöngslög og kórlög. Merkilegasta fiðluverkið er „Prelúdía og tvöföld fúga um nafnið BACH“. Lagið er samið fyrir einleiksfiðlu án undirleiks. Mörg tónskáld hafa spreytt sig á að semja tónsmíðar um tónanna í nafni Bachs og varð Bach sjálfur fyrstur til þess. Frægar eru orgeltónsmíðar eftir Liszt og Reger um þessa þraut og Schumann samdi 6 fúgur um nafnið. Það eitt út af fyrir sig er ærinn vandi að leysa Þá þraut, sem felst í sjálfu forminu, en Þórarinn valdi þann kostinn, sem var þyngstur, því hann samdi verkið fyrir einleiksfiðlu án undirleiks, eins og áður hefur verið sagt, og bætast þá takmarkanir hljóðfærisins við sjálfa bragþrautina. Þennan vanda hefur Þórarinn leyst af hendi með prýði og má af því marka, að ekki hefur hann slegið vindhöggin við námið hjá Koch prófessor. Hvað innihaldið snertir, þá er þetta fögur músík og svífur þar andi Bach yfir vötnunum, eins og vera ber í slíku verki. Tónsmíðin er einstakt afrek í íslenzkri tónlist.

Þetta verk hefur verið leikið beggja megin, Atlantshafsins, en hér á landi er það þekkt í meðferð okkar ágæta fiðlusnillings, Björns Ólafssonar.

Annað fiðlulag eftir Þórarinn er „Humoresque“ (Gletta). Þetta er snoturt lag, sem heyrðist í gamla daga leikið af Þýzkum hljóðfæraleikurum á Hótel Skjaldbreið hér í Reykjavík. Þegar Þórarinn var kominn til Berlínar, notaði hann fyrsta tækifæri til að hlýða á hina frægu fílharmonísku hljómsveit borgarinnar. Hann fékk sæti framarlega í salnum. Meðan hljóðfæraleikararnir voru að stilla hljóðfærin heyrði hann allt í einu Humoreskuna leikna á eina fiðluna. Þetta kom honum á óvart og hann spurði sjálfan sig: Er þetta þá stolið? En þá kom hann auga á kunningja sinn úr hljómsveitinni á Hótel Skjaldbreið meðal hljómsveitarmannanna – hann var að heilsa Þórarni með laginu.

Þriðja fiðlulagið eftir hann er „Hugleiðing fyrir G-streng“ sem leikið hefur verið opinberlega hér í Reykjavík. Þessi þrjú fiðluverk, sem nú hafa verið talin, hafa öll verið gefin út.

Tvær orgeltónsmíðar eftir Þórarinn hafa verið leiknar opinberlega í Reykjavík, önnur er Marche funebre, samin í minningu Sveins Björnssonar forseta við fráfall hans í febrúar 1952, en hin er Sónata fyrir orgel 1956. Í fyrsta kafla orgelsónötunnar er gamla íslenzka sálmalagið „Upp á fjallið Jesús vendi“. Bæði verkin eru veigamikil og vönduð.

Kirkjutónlist hefur ávallt átt huga tónskáldsins, eins og orgelsónatan ber vott um, og ennfremur hefur hann samið sálmalög. Eftirtalin fjögur sálmalög hafa komið út eftir hann fjölrituð: „Ég fell í auðmýkt flatur niður“ (Þorsteinn Þorkelsson), „Nú fölna blóm og bliknar hlíð“, „Þú guð, sem stýrir stjarnaher“ og „Guð, allur heimur“. Þrjú síðasttöldu lögin eru við texta eftir Valdimar Briem.

Einsöngslögin eru vel þekkt. Áður hefur verið minnst á lagið „Heiðbláa fjólan mín fríða“. Önnur þekkt einsöngslög eru: „Ave Maria“ (latneski textinn), „Nú máttu hægt um heiminn líða“ (Þorst. Erlingsson), „Norður við heimskaut“ (Kristján Jónsson), sem hefur sterkan norrænan svip. Þá skal nefna „Hylla skal um eilífð alla“ (Davíð Stefánsson), „Lóan“ (Páll Ólafsson) og loks tvö lög við frumsaminn texta eftir sjálft tónskáldið: „Smalavísa“, sem einnig er nefnt „Pastorale“, og „Vögguvísa“. Hér eru aðeins talin þau einsöngslög, sem oftast hafa heyrst í útvarpi og hljómleikasölum.

Karlakórslögin eru ekki mörg, sem sungin hafa verið opinberlega, en þau eru frumleg og mergjuð, og má segja að þau séu kapítuli fyrir sig í íslenzkri sönglagagerð. Hugkvæmnin í raddsetningu og uppbyggingu laganna er með þeim ágætum, að metnaðargjarnir söngstjórar hafa talið þau verðug viðfangsefni fyrir sig. Fyrst skal nefna „Ár vas alda“ (Völuspá). Stefið er að vísu úr íslenzku þjóðlagi, en tónskáldið vinnur vel úr því og er lagið algerlega sjálfstæð smíð tónskáldsins. Það má því með réttu eigna tónskáldinu lagið á sama hátt og Bach hafa verið eignuð þau gömlu lútersku sálmalög, sem hann hefur raddsett, því þar er stílinn og búningurinn, lagið sem listaverk, eign tónskáldsins. Annað íslenzkt þjóðlag, sem Þórarinn hefur farið höndum um, er „Einum unni ég manninum“. „Úr Lákakvæði“ (Guðmundur Bergþórsson) er eitt af hinum snjöllu lögum Þórarins, sem íslenzkri karlakórar hafa mikið sungið. Ennfremur skal nefna „Verndi þig englar“ (Stgr. Thorsteinsson) og „Ég heilsa þér Ísland“ (Textinn eftir tónskáldið). Loks skal nefna eitt tilkomumesta og viðamesta kórlagið: „Huldur“ (Grímur Thomsen). Þetta lag gerir miklar kröfur til kórsins.

Þórarinn Jónsson er tónskáld í fyllstu merkingu orðsins og er þá átt við það, að tónsmíðar hans eru ekki aðeins samdar af kunnáttu eftir listarinnar reglum, heldur hitt, að hann hefur eitthvað að segja frá eigin brjósti. Tónsmíðar hans eru því annað og meira en bergmál af tónlist annarra, þær eru sjálfstæðar og með persónueinkennum höfundarins. List Þórarins hvílir á hinum klassísk-rómantíska menningararfi 19. aldarinnar, sem mótaði smekk hans á yngri árum. Hinar róttæku stefnur í tónlistinni eru fjarri hans smekk. Það sem skiptir máli í listinni er ekki það, hver stefnan er, heldur hitt, hvort list tónskáldsins sé sönn, því það sem kemur frá hjartanu nær til hjartnanna.

Þórarinn Jónsson er gáfaður maður og vel menntaður, þótt skólagangan hafi ekki orðið löng, eins og áður hefur verið drepið á. Hann er hógvær maður og nærgætinn og vel metinn af collegum sínum sem öðrum sakir hæfileika sinna og mannkosta. Hann er hlédrægur og hefur haft sig lítt í frammi, en hefir vakandi áhuga á því, sem gerist í heimi listarinnar. Sjálfur undir hann sér bezt við tónlagasmíðar í kyrrð og næði.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is