Þórarinn Guðmundsson 1896-1979

thorarinn_gudmundsson-17_araÞórarinn Guðmundsson er merkur brautryðjandi í íslenzkri tónlist. Hann er fyrsti íslenzki fiðluleikarinn, sem lokið hefur prófi í þeirri listgrein við erlendan tónlistarskóla og hann hefur haft mikil og víðtæk áhrif á tónlistarlífið með margþættu starfi sínu, bæði sem fiðluleikari, hljómsveitarstjóri, tónskáld og kennari, en nemendur hans í fiðluleik skipta mörgum hundruðum. Í hljómsveitarmálum er hann fyrsti íslenski frumkvöðullinn. Sænsk-danski fiðluleikarinn Oscar Johansen, sem dvaldi í Reykjavík um og eftir 1910, hafði lítinn hljóðfæraflokk, en sá flokkur lagðist niður, þegar Johansen hvarf af landi burt. Þórarinn Guðmundsson er fyrsti Íslendingurinn, sem stofnar hljóðfæraflokk, sem varð vísir að fullkominni sinfóníuhljómsveit. Á öll þessi störf hans verður nánar minnst hér á eftir.

Þórarinn Guðmundsson er fæddur á Akranesi 27. marz  1896. Foreldrar hans eru Guðmundur Jakobsson, trésmíðameistari, og kona hans Þuríður Þórarinsdóttir. Guðmundur var sonur séra Jakobs prests Guðmundssonar að Sauðafelli og er sú ætt alkunn. Guðmundur var útlærður trésmiður og byggði mörg hús í Reykjavík, síðar varð hann byggingarfulltrúi og fyrsti hafnarvörður Reykjavíkur. Áður en hann settist að í Reykjavík hafði hann byggt 12 kirkjur og var þá venjulega nefndur Guðmundur kirkjusmiður. Hann var einmitt að smíða kirkjuna á Akranesi, þegar Þórarinn sonur hans fæddist þar. Á efri árum lærði Guðmundur fiðlusmíði í Kaupmannahöfn. – Þuríður kona hans var dóttir Þórarins Árnasonar, jarðyrkjumanns, og konu hana Jórunnar Sæmundsdóttur ríka að Eyvindarholti undir Eyjafjöllum, Ögmundssonar prests að Krossi í Landeyjum, Högnasonar prestaföður. Er þetta Högnaætt. Jórunn, langamma Þórarins fiðluleikara, og Tómas Sæmundsson á Breiðabólstað voru systkini. Kona Þórarins Árnasonar jarðyrkjumanns var Ingunn Magnúsdóttir, Andréssonar alþingismanns í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, sem Langholtsættin er kennd við.
hljomsveitin_oscars_johansens_i_barunni(1912)
Hljómsveit Oscars Jakobssens
Hljómsveitin Oscars Johansens í Bárunni 1912.
Nöfn hljóðfæraleikara og upplýsngar um störf
Oscars á Íslandi má finna hér.
(Mynd: Magnús Ólafsson)
Á bernskuárum Þórarins voru tækifærin ekki mörg til að læra á fiðlu að nokkru gagni, því þeir voru fáir, sem kunnu með það hljóðfæri að fara og kunnátta þeirra hrökk skammt, enda flestir sjálflærðir. Fyrstu gripin á fiðluna lærði Þórarinn hjá frú Henriettu Brynjólfsson, konu Péturs Brynjólfssonar, konungslegs hirðljósmyndara í Reykjavík. Þá var Þórarinn á ellefta ári. Frúin var dönsk og hafði á sínum tíma gengið á Hornemans-konservatorium í Kaupmannahöfn, og lagði þar einkum stund á píanóleik, en á fiðluna sem aukafag. Eftir nokkurra mánaða nám kom Þórarinn opinberlega fram sem fiðluleikari í Góðtemplarahúsinu, en kennarinn spilaði undir á píanóið. Þetta þótti í þá daga viðburður og var minnst á drenginn í blöðunum og margir litu á hann sem undrabarn. Þegar Oscar Johansen var kominn til bæjarins og farinn að spila á „Hótel Ísland“, leitaði Þórarinn til hans og lærði hjá honum í eitt ár. Oscar Johansen var fiðlusnillingur, afburða kennari og hámenntaður tónlistarmaður. Hann fór héðan til Ameríku. Þórarinn hitti hann í New York árið 1917 og þá var Oscar Johnsen konsertmeistari í annari stærstu sinfóníuhljómsveit borgarinnar.

Þórarinn kom oftar opinberlega fram sem fiðluleikari á þessum árum og lék þá Eggert bróðir hans undir á píanóið.

Gáfur Þórarins þóttu ótvíræðar og var hann því látinn fara utan til náms í tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn. Hann fór þangað um vorið 1910, þá orðinn 14 ára gamall, og lagði stund á fiðluleik sem aðalnámsgrein, en píanóleik sem aukagrein. Prófessor Anton Svendsen kenndi honum á fiðluna. Eftir þriggja ára nám lauk Þórarinn burtfararprófi úr skólanum.

Það er tvennt, sem vert er að vekja athygli á, annað er aldurinn og hitt eru hæfileikarnir. Samkvæmt reglugerð skólana er lágmarksaldur nemenda bundinn við 17 ára aldur, en einmitt 17 ára gamall útskrifaðist Þórarinn úr skólanum, en þá hefði hann eiginlega átt að vera að byrja nám sitt þar. En til marks um það, að kennarar hans hafa talið hann gæddan góðum hæfileikum er það, að hann fékk öll skólaárin annað fríplássið af tveim, sem veitt voru árlega efnilegum nemendum í fiðluleik.

Þórarinn dvaldi áfram í Kaupmannahöfn í eitt ár eftir það og stundaði þá framhaldsnám í einkatímum hjá Peder Möller (1877-1940), eftirsóttasta fiðlukennara Dana á þeim árum.

Á Kaupmannahafnarárunum tók Þórarinn þátt í allskonar hljómleikastarfsemi utan skólans, t.d. var hann í hljómsveit K.F.U.M. sem fyrsti fiðlari, en þetta var stór hljómsveit, sem lék stundum opinberlega, meðal annars í stóra salnum í Oddfellowhöllinni og við það tækifæri kom Þórarinn fram sem einleikari. Í sumarfríum leitaði hann út á landið til baðstaðanna og spilaði þar í hljómsveitum, til þess að fá skilding í vasann, en hjá námsmönnum var pyngjan oft létt.

Eggert bróðir Þórarins var samtímis honum í skólanum. Þeir bræður hurfu heim til Íslands um vorið 1914 og þar tók starfið við, „barátta upp á lít og dauða“, eins og Þórarinn kemst að orði í bók sinni „Strokið um strengi“.

Eggert Guðmundsson Gilfer – hann tók sér ættarnafnið Gilfer – hafði orgel sem aðalfag, en píanó sem aukafag. Kennari hans í orgelleik var Otto Malling (1848-1915) sem var skólastjórinn og var mikilsmetinn í dönsku tónlistarlífi og er afkastamikið tónskáld. Eggert lauk orgelprófi árið 1913 og er fyrsti íslenzki orgelleikarinn, sem lokið heftir slíku prófi við erlendan tónlistarskóla.

Eggert kom nokkrum sinnum fram opinberlega sem orgelleikari í Reykjavík eftir að hann var seztur þar að aftur, en kunnastur varð hann í bæjarlífinu fyrir undirleik sinn á píanóið hjá Þórarni bróður sínum.

Eins og kunnugt er, þá hefur Eggert Gilfer fyrst og fremst unnið lárber sem skákmeistari, og er sú saga glæsileg.

Þórarinn bróðir hans segir svo frá í bókinni „Strokið um strengi“: „Mörgum árum seinna (hann er áður búinn að segja frá  því, að Eggert hafi á námsárunum í Kaupmannahöfn mátað þáverandi heimsmeistara í skák, Casablanca, – að vísu í fjöltefli) sagði Garðar Þorsteinsson lögfræðingur og alþingismaður mér frá því, að hann hafi orðið stoltur af Eggert eitt sinn, er hann fór sem fararstjóri á alþjóða skákmót í Englandi. Fyrst í stað hefði Íslendingum verið lítill gaumur gefinn, en þegar Eggert var búinn að máta Frakklandsmeistara, Englandsmeistara,  Hollandsmeistara, Austurríkismeistara og gera jafntefli við Ameríkumeistara, þá hefðu þeir farið að líta á kortið og aðgæta, hvar þetta Ísland væri á jarðarkringlunni.“

Eggert Gilfer var fæddur í Njarðvík 18. febrúar 1892. Hann samdi nokkur sönglög og orgellög. Hann andaðist í Reykjavík 24. marz 1960.

Þeir bræður héldu eftir heimkomuna saman tónleika í Reykjavík, meðal annars kirkjutónleika. En ekki var hægt að lifa á tónleikahaldi til lengdar í þá daga fremur en nú, nema síður sé. Þessvegna fóru þeir bræður að spila á kaffihúsum og undir kvikmyndum, þar til Þórarinn gekk í þjónustu Ríkisútvarpsins, þegar það tók að starfa árið 1930, og því starfi gegndi hann síðan þar til hann fór á eftirlaun sjötugur að aldri.

Á þeim árum var annar bragur á veitingahúsunum í bænum en síðar varð, þegar tekið var að dansa þar. Þá var lögð áherzla á góðan hljóðfæraslátt og klassíska tónlist. Gestirnir hlustuðu á óperuforleiki og aðra klassíska tónlist, meðan þeir drukku kaffisopann, og klöppuðu hljóðfæraleikurunum lof í lófa, og þegar þeim líkaði lögin sérstaklega vel, þá voru þau klöppuð upp. Þetta var eins og á hljómleikum. Það var einmitt á þessum árum, að útlendingur lét þess getið í bók um Ísland, að Reykvíkingar gerðu kaffihúsin að musterum og dýrkuðu þar músíkgyðjuna.

Þeir bræður spiluðu á helstu kaffihúsum bæjarins, lengst í veitingasölum Rosenbergs, og á árunum 1920-1930 spiluðu þeir jafnframt undir kvikmyndum í Nýja Bíó, en þá voru talmyndirnar ekki komnar til sögunnar. Vinnudagurinn var á þessum árum oft langur, því að mörg og margvísleg verkefni gátu öll borið upp á sama daginn: kennslan, kaffihúsamúsík, músík undir kvikmyndum, leikhúsmúsík, jarðarfarir og dansmúsík. Eftir að Þórarinn var orðinn hljómsveitarstjóri Ríkisútvarpsins upptók það starf starfskraftana, en þó kom hann eftir það oft fram í tónlistarlífi bæjarins utan Útvarpsins. Hann lék í sinfóníuhljómsveitinni eftir að hún tók til starfa, þar til hann varð að hætta þar vegna aldurs.

Hér á eftir verður farið nokkrum orðum um hljómsveitarstjórann, kennarann, fiðluleikarann, tónskáldið og loks um sjálfan manninn.

Þórarinn var hljómsveitarstjóri Ríkisútvarpsins samfleytt í 36 ár, frá því það tók til starfa árið 1936 [1930] og þar til Þórarinn fór á eftirlaun sjötugur að aldri. Útvarpshljómsveitin var framan af fáliðuð, fyrst skipuð 4 mönnum, en stækkaði með árunum og varð síðar skipuð um 20 mönnum, allt valdir atvinnuspilarar. Sjálfur lék hann á fiðlu með hljómsveitinni meðan hún var ung, en er hún stækkaði, sleppti hann fiðlunni og tók tónsprotann. Ennfremur kom hann stundum fram í útvarpinu sem einleikari, einnig í samleik í tríói, strokkvartett og í sambandi við einsöng. Auk hljómsveitarstjórnar hefur Þórarinn haft margvíslegum störfum að gegna í sambandi við dagskrárliðina. Hann hefur lagt sinn skerf til þróunar tónlistarmála Ríkisútvarpsins í 36 ár og segir um það svo í bókinni „Strokið um strengi“:  „Í gegnum öll þessi stig þróunar hef ég verið með og er ánægður yfir því að hafa fengið tækifæri til þess. Allan þennan tíma hefur starfið við útvarpið ekki aðeins verið mér atvinna, heldur listræn tjáning, sem ég þykist hafa rækt af þeirri alúð, þekkingu og hæfni, sem ég hefi ráðið yfir“.

Þá verður minnst á kennslustörfin. Þegar Þórarinn var kominn heim frá námi í Kaupmannahöfn, tóku nemendur að leita til hans, og með árunum var sá hópur orðinn stór, sem hann hafði kennt fiðluleik, að skipta hundruðum manna. Þetta kennslustarf var unnið meðan enginn tónlistarskóli var til í landinu. Einn af fyrrverandi nemendum hans, dr. Hallgrímur Helgason tónskáld, hefur lýst gildi þessa starfs Þórarins í grein um hann sjötugan og segir þar: „Og þá er komið að þeim þætti í ævistarfi Þórarins, sem lengst mun halda nafni hans á lofti, en það er kennslan, enda má fullyrða, að hann hafi kennt öllu Íslandi að leika á fiðlu, þar sem löngun og vilji var fyrir hendi… með grundvallarkennslustarfi hefur Þórarinn reist sér þann minnisvarða, er lengst mun standa. Hann endurreisti fiðluna í íslenzku þjóðlífi.“

Í innganginum að þessari grein var sagt frá því, að Þórarinn er frumkvöðull í hljómsveitamálum bæjarins. Í bókinni „Strokið um strengi“ segir Þórarinn svo á bla. 76: „Það var að vísu ekki fjölskrúðugt tónlistarlíf hér fyrst framan af. Um 1920 var þó svo komið, að mér tókst að stofna „Hljómsveit Reykjavíkur“. Í henni voru meðal annara nokkrir af nemendum mínum, en ég tók strax að kenna, eftir að ég kom heim frá Kaupmannahöfn. Þetta var fyrsta hljómsveitin á Íslandi, sem kallast getur því nafni, og fyrsti vísir að sinfóníuhljómsveit hér.“

Hljómsveitin hélt hljómleika í Nýja Bíó 20. maí 1921 og var þá á hljómleikaskránni nefnd „20 manna hljóðfærasveit“ undir stjórn Þórarins Guðmundssonar. Annan jóladag sama ár hélt hljómsveitin aftur hljómleika í Nýja Bíó og þá er nefnd í hljómleikaskránni „Hljómsveit Reykjavíkur“ undir stjórn Þórarins Guðmundssonar. Síðan segir Þórarinn: „Upp frá þessu hélt hljómsveitin nokkra konserta á hverju ári og kom fram við ýmis tækifæri.“

Í margnefndri bók sinni segir Þórarinn á bls. 218: „Um haustið eftir konungskomuna (konungur kom um sumarið 1921) hófust reglubundnar æfingar og þá var Hljómsveit Reykjavíkur formlega stofnuð, og var ég formaður hennar fyrstu þrjú árin, Sigfús Einarsson ritari og Jón Laxdal gjaldkeri.“

Í Tímariti Tónlistarfélagsins, 5, hefti, í maí 1940, er grein um Tónlistarskólann 1930-1940 eftir Kr. Sigurðsson, sem byrjar þannig „Hinn 11. október 1925 var „Hljómsveit Reykjavíkur“ stofnuð á fundi nokkurra hljóðfæraleikara og áhugamanna um tónlist. Aðalforgöngumenn þessa félagsskapar voru tónskáldin Sigfús Einarsson og Jón Laxdal.“

Samkvæmt framansögðu virðist hér vera um tvær hljómsveitir að ræða, sem báðar heita „Hljómsveit Reykjavíkur“. Mergurinn málsins er sá, að þetta er þó í raun og veru ein og sama hljómsveitin. Uppistaðan í báðum hljómsveitunum voru að mestu leyti sömu hljóðfæraleikaranir, enda ekki völ á öðrum mönnum í hljómsveit í Reykjavík á þessum árum.

Þá er að minnast á fiðluleikarann. Prófessor Anton Svendsen var fiðlukennari Þórarins í hinum kgl. tónlistarskóla í Kaupmannahöfn, eins og áður hefur verið sagt. Hann gaf Þórarni þann vitnisburð, að hann sé „af Naturen særdeles Violinbegavet“. Meðfæddar gáfur Þórarins voru ótvíræðar. Og víst er það, að í „gamla daga“, þegar hann spilaði á kaffihúsum og annarsstaðar, þá hreif hann margan manninn með fiðluleik sínum, sem er persónulegur og innilegur. Sérstaklega lét honum vel að spila ljóðræn stemmningslög, þótt stærri fiðluverk, eins og sónötur eftir Beethoven og Schubert, hafi einnig notið sín vel í meðferð hans. Í þá daga var almenn ánægja með hann sem fiðluleikara og hann var dáður af mörgum. En síðar fóru erlendir fiðluleikarar að venja hingað komur sínar, sumir frægir snillingar, og þá fóru menn smám saman að gerast kröfuharðari. Þórarinn fann hjá sér þörf að ná meiri fullkomnun í list sinni og fór til Þýzkalands árið 1924 til ársdvalar. Hann stundaði fiðlunám, fyrst í Leipzig og síðan í Hamborg, sinn helming tímans á hvorum stað, en vann jafnframt fyrir sér með því að spila í hljómsveitum.

Þrátt fyrir mörg og margvísleg tónlistarstörf er Þórarinn í vitund þjóðarinnar fyrst og fremst fiðluleikari og hann er ávallt manna á meðal kallaður „Þórarinn fiðluleikari“.

Næst verður rætt um tónskáldið. Þess skal getið, að tónfræðikennari Þórarins í tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn var prófessor Otto Malling, sem áður hefur verið nefndur.

Fyrstu sönglögin, sem Þórarinn sendi frá sér, eru „Dísa mín, góða Dísa mín“ (Gestur) og „Þér kæra sendir kveðju“, sem bæði komu út sérprentuð árið 1922. Þórarinn segir frá því í margnefndri bók sinni, að textinn við síðarnefnda lagið sé eftir séra Bjarna Þorsteinsson á Siglufirði. Textinn var áður alkunnur undir sænsku lagi eftir W. Th. Söderberg, en er hvorki stæling né þýðing á sænska textanum. Síðan komu út „Minning“ (Manstu er við sátum) (Jakob Jóh. Smári) og „Þú er yndið mitt yngsta og bezta“. Þórarinn hefur samið nokkur lög eftir Jakob Smára frænda sinn, þar á meðal „Kom þú, ljúfa að kveldi“, sem birt er í „Ljóðum og lögum“, 4. hefti. Þá hefur hann samið snoturt lag við hið alkunna kvæði Jónasar Hallgrímssonar „Yfir kaldan eyðisand“, sem birt er í „Tónum“, harmoníumhefti, sem Páll Ísólfsson safnaði til og bjó til prentunar.  í því hefti er einnig sálmalagið „Vertu, guð faðir, faðir minn“ (Hallgr. Pétursson), sem einnig er birt í kirkjusöngsbókinni frá 1936. Annað sálmalag eftir Þórarinn „Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst“ (Hallgr. Pétursson) er birt í „Samhljómum“ (1934). „Það vorar, það vorar“ (Guðm. Magnússon) er birt í „Ljóðum og lögum“, 1. hefti. Þetta er gott lag og mikið sungið. „Táp og fjör og frískir menn“ (Grímur Thomesn) er„kanónn“, þar sem ein rödd eltir aðra. Höfundurinn er spaugsamur, segir, að þannig sé þetta í lífinu sjálfu, að karlmennirnir elti kvenfólkið, hvar sem er, á röndum. Lagið er prentað í „Nýju söngvasafni“ 1949. Loks skal nefna lýðveldishátíðarlagið við verðlaunaljóð Huldu: „Land míns föður, landið mitt“, sem er þróttmikið og snjallt lag, sungið í fyrsta sinn á lýðveldishátíðinni í Þingvöllum 1944.

Hér hafa verið talin sönglög Þórarins, sem mér er kunnugt um að birtzt hafa á prenti, en í handritum á hann fjölda sönglaga.

Gáfa Þórarins er ljós og björt, og flest lögin eru svo lipur og elskuleg að þau smjúga inn í hvers manns sál. Öll framangreind lög eru þjóðkunn.

Þórarinn er kvæntur Önnu Ívarsdóttur, systur Jóns Ívarssonar píanóleikara og hljóðfærasala í Reykjavík, sem nú er látinn. Hún hefur reynst manni sínum stoð og stytta í lífinu.

Þórarinn fiðluleikari er minni en meðalmaður að vexti, holdgrannur og skarpleitur. Hann er ræðinn og skemmtilegur og orðheppni hans er alkunn meðal vina. Hann er drengur hinn bezti, hreinskilinn og manna alúðlegastur í viðmóti. Hann vill hvers manns vandræði leysa og er því vel til vina og hafa vinsældir hans margoft komið fram, meðal annars þegar hann varð fimmtugur. Þá sótti hann fjöldi manns heim og hljóðfæraleikararnir – vinir hans og samstarfsmenn – komu ótilkvaddir og blésu nokkur lög á lúðra fyrir framan bústað hans honum til heiðurs.

Endurminningar Þórarins fiðluleikara eru í bókinni „Strokið um strengi“, sem margoft hefur verið vitnað í hér að framan. Bókin er skrifuð af Ingólfi Kristjánssyni rithöfundi og kom út 1966.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is