Magnús Einarsson organisti á Akureyri

Þátturinn var á dagskrá Rásar 1, 4. apríl 2000.


Við skulum hanga dálítið lengur í 19. öldinni í þessari upprifjun um íslenskt tónlistarlíf. Á ég þá einkum við umfjöllun um menn sem fæddir voru á 19. öldinni og störfuðu að mestu í því umhverfi sem þá var algilt.

Stundum gæti maður haldið að allt tónlistarlíf og iðkun þess hafi farið fram í Reykjavík og að þar hafi menn einir kunnað til verka. En svo var nú aldeilis ekki. Um landið fundust hæfileikamenn sem eftir getu reyndu að halda gangandi tónlistarlífi í sinni sveit eftir því sem kraftar og aðstæður leyfðu.

Við höfum í þessum þáttum minnst á þá Pétur Guðjohnsen og Jónas Helgason organista dómkirkjunnar á 19. öld. Þeir höfðu m.a. þann starfa, auk þess að að vera söngstjórar dómkirkjunnar, að kenna mönnum utan af landi sem þess óskuðu. En það voru margir aðrir sem tóku þátt í orgelkennslunni. Einn þeirra manna var Magnús Einarsson organisti á Akureyri.

Það má teljast fremur sjaldgæft að bækur komi út um íslenska tónlistarmenn, sama á hvaða stigi þeir eru. En nú innan skammst kemur einmitt út Ævisaga Magnúsar Einarssonar sem hinn mikli fræðimaður, Aðalgeir Krisjánsson hefur ritað. Verður mikill fengur að því að fá þessa bók, ekki síst til þess að gera sér grein fyrir kjörum og aðstæðum íslenskra tónlistarmanna fyrr á öldum. Ég vil því helga Magnúsi þennan þátt svona rétt til að minna á hann og starf hans að tónlistarmálum.

Magnús hefur ekki týnst alveg í sögunni. Ýmsir hafa gert sitt til þess að halda minningu hans og lofti og er það aðallega tveir menn sem það hafa gert en þar er fyrstur að nefna Snorri Sigfússon sem ritaði grein um Magnús i söngmálablaðinu Heimi árið 1939 og hélt síðar útvarpserindi um hann, en hinn er einmitt Aðalgeir Kristjánsson sem ritaði tvær greinar um Magnús í tímaritinu Samvinnan árin 1984 og 85. En nú er sem sagt að koma út ævisaga Magnúsar rituð af Aðalgeir.

Magnús Einarsson fæddist að Björgum i Köldukinn í Suður Þingeyjasýslu 8. júlí árið 1848. Hann fór unglingur til vandalausra og varð allt frá barnæsku að vinna fyrir sér. Einhverja tilsögn fékk hann í lestri og skrift en hann var iðinn við sjálfsnámið og náði sér í mikla þekkingu með því. Magnús hneigðist snemma að söng og var sí syngjandi fram undir fimmtugt, en þá gaf röddin sig, sennilega bæði vegna kunnáttuleysis í beitingu hennar svo og vegna þorsta hans í tónana.

Um miðjan febrúar sagði ég frá því í þessum þáttum að fyrsta orgelið í íslenska sveitakirkju hefði komið í kirkjuna á Melstað í Miðfirði árið 1872. Árinu áður hafði Sr. Ólafur Pálsson, fyrrverandi dómkirkuprestur flust að Melstað og fyrir tilstilli sonar hans, Theódórs, var keypt orgel í kirkjuna.

Ég vil í þessu sambandi vitna í fyrri grein Aðalgeirs í Samvinnunni:

Fyrsta tilsögn sem hann fékk var hjá Firðrik Theódór á Melstað í Miðfirði.. Þar dvaldist Magnús hluta úr vetri 1875-1876 og lærði á orgelið hjá Theódór syni prestsins, séra Ólafs Pálssonar. Veturinn eftir lagði hann leið sína til Reykjavíkur til frekara náms hjá Jónasi Helgasyni – frænda sínum, og að því námi loknu hefir han gerst organleikari við Akureyrarkirkju því að í sóknarmannatali Hrafnagils 1877 er Magnús titlaður “organisti” Þá á han heima í húsi nr. 22 á Akureyri og býr þar ásamt Aðalbjörgu systur sinni. Um þetta leyti kom orgel í Akureyrarkirkju og þá mun Magnús einnig hafa eignast hljóðfæri. Nokkuð jafnhliða því að hann tók við starfi sínu við Akureyrarkirkju, byrjað hann á að kenna ungum mönnum orgelleik og varséra Sigtryggur Guðlaugsson einn fyrsti nemandi hans. Hann gerðist síðar forgöngumaður í söngmálum sveitar sinnar og svo var um nemendur Magnúsar Einarssonar vítt um land.

Tilvitnun lýkur.

Af þessu má sjá að áhrifa Magnúsar gætt víða og mun hann hafa liðsinnt mönnum í tónlist víðar en maður áttar sig á.

Lífsganga Magnúsar var enginn dans á rósum. Við skulum líta aðeins nánar í grein Aðalgreirs í Samvinnunni:

Ekki verður annað séð en Akureyringum hafi þótt góð tilbreyting að því að fá orgel í kirkjuna, en hitt er einig ljóst að þeir gátu vel hugsað sér að láta einhvern annan en Magnús Einarsson sitja við það. Magnús mun hafa verið ölkær um þessar mundir og því hætt við forföllum, t.a.m. við kennslu á orgelið. Sigtryggur Guðlaugsson getur hans meðal þeirra sem beittu sér fyrir stofnun bindindisfélags á Akureyrir í bréfi 10. frebrúar 1879 og það bendir til þess að hann hafi haft góðan vilja til þess að vinna bug á þessum bresti sinum. Líf hans hafði tekið ákveðna stefnu og hann farinn að sinna þeim hugðarefnum sem hugur hand hafði lengi þráð, en brátt varð breyting á. Árið 1881 var Björn Kristjánsson ráðinn organleikari við Akureyrarkirkuj og Magnús varð að standa upp frá orgelinu og kveðja Aureyri um sinn.

Tilvitnun lýkur.

Magnús fluttist nú til Húsavíkur um sin og gerðist organisti þar. Hann dvaldist þar aðeins fá ár en fluttist árið 1885 að nýju til Akureyrar – þá kominn með bústýru sem Kristveig Jónsdóttir frá Máskoti hét. Þau giftu sig tveimur árum síðar. Magnús bjó alla æfi eftir þetta á Akureyri.

Hugur Magnúsar stefndi alla tíð til frekara náms. Gerði hann margar tilraunir til að fá styrki til þess að feta í fótspor frænda sinna, Jónasar og Helga helgasona og fara til Kaupmannahafnar til frekara náms. Hann skrifar bæjarstjórninni á Akureyrir eftirfarandi bréf 14. janúar árið 1893:

Ég hef um nokkur undanfarin ár gjört ýmsar tilruanir til þess að fullnægja þeirri löngun minni að geta ferðast til Kaupmannahafnar til þess að frama mig sem kennari í sönglist og leitað styrks bæði til þings og sýslunefndar og ávallt fengið sama svarið – neir – , en nú hefi ég byrjað á hinni síðustu tilraun, og hefir söngfélagið Gígja nú afráðið að sækja um leyfi til að stofna tombólu í því skyni að styrkja mig svo framarlega að von væri um viðbót útr einhverri annarri átt. Nú dettur mér í hug að fara þess á leit við hina háttvirtu bæjarstjórn, hvort hún sjái sér ekki fært að styrkja mig á einhvern hátt it nefndrar ferðar; mér væri engu síðiur kært að geta fengið fé til láns, en líf mitt er ekki í ábyrgð svo ekki mun til neins um slíkt að ræða, að öðru leyti en því, að ef bæjarstjórnin sæi sér fært að veita mér styrk ú bæjarsjóði sem eg skuldbyndi mig til að borga aftur svo framarlega sem mér entist líf og heilsa til þess. Eg ersannfærður um að það hefði mjög mikla þýðingu fyrir framtí mína ef mér gæti auðnast að framkvæma þetta umgetna og langþráða ferðalag. Akureyri, 14. janúar 1893, Virðingarfyllst, MEinarsson.

tilvitnun lýkur.

Magnúsi tókst að afla sér nokkur hundruð króna og kom hann til Kaupmannahafnar í lok maí árið 1893. Dvaldi hann þar um sumarið og stundaði nám hjá m.a. Viggo Sanne sem starfaði sem hornleikari í konungulegu kapellunni í kaupmannahöfn. Magnús lærði bæði að leika á horn svo og eitthvað í tónfræðum. Hann kom svo heim um haustið og hóf söngkennslu í barnaskólanum og auk þess hóf han að æfa lúðrasveit. Hún lék t.d. við vígslu samkomuhússins á Akureyri árið 1894.

Ég mun nú ekki sjálfur fara nánar ofan í æviatriði Magnúsar heldur skulum við nú fyrst heyra örstutta frásögn Sigurjóns Sæmundssonar á Siglufirði af kynnum sínum Magnúsi:

MD: Trac 3 5:30

TD-811 – Band 1 – Júnínótt 1.20

Við heyrðum frásögn Sigurjóns Sæmundssonar af kynnum sínum af Magúsi Einarssyni og í framhaldi af því Karlakórinn Geysi syngja lagið Júnsöngur eftir Jóhann Ó Haraldsson undir stjórn Árna Ingimundarsonar við undirleik Kristins Gestssonar. Hljóðritunin á söng kórsins var gerð árið 1960

Sigurjón minntist þarna á Snorra Sigfússon námsstjóra. Í tilefni af 100 ára minningu Magnúsar Einarssonar árið 1948 hélt Snorri einmitt erindi í útvarpið þar sem hann sagði lítilsháttar frá Magnúsi Einarssyni, afrekum hans og kynnum sínum af honum. Vil ég nú í tilefni af þessari upprifjun um Magnús Einarsson leyfa ykkur hlustendur góðir að heyra þetta erindi Snorra, sem hljóðritsað var 23. júlí árið 1948.

DB-625 22:00

Við heyrðum erindi Snorra Sigfússonar fyrrverandi námsstjóra um Magnús Einarsson organista á Akureyrir en þetta erindi var flutt í ríkisútvarpinu árið 1948 í tilefni af 100 áraminningu magnúsar.

Við skulum nú hlýða á tvö lög að auki með karlakórnu Geysi á Akureyri í hljóðritun frá árinu 1960. Þð eru lögin Vornótt eftir Bjarna Þorsteinsson við ljóð Einars Kvaran og Lóan kemur eftir Sigurð Sigurjónsson, en ekki kemur fram á skýrslunni hver ljóðahöfundurinn er né hver syngur einsöng í laginu. Söngstjóri er Árni Ingimundarson.

TD-811
3:45
Við heyrðum karlakórinn Geysi syngja lögin Vornótt eftir Bjarna Þosteinsso við ljóð Einars Kvaran og Lóan kemur eftir Sigurð Sigurjónsson en ekki kemur fram á skýrslunni með þessari hljóðritun hver ljóðahöfundurinn er né hver syngur einsöng. Kannski einhverjir hlustendur geti hjálpað mér við að laga þennan ágalla. Þessi hljóðritun var gerð á samsöng karlakórsins Geysi árið 1960. Stjórnandi var Árni Ingimundarson en á píanóið lék í á þessum tónleikum Kristinn Gestsson.

Ég vil hér í lokin vitna örstutt í formála Snorra Sigfússonar sem hann ritaði í sönskrá Heklu, sambands norðlenskra karlakóra sem hélt sitt 6. söngmót 11-13 júni árið 1948 til minningar um 100 ára afmæli Magnúsar Einarssonar organista, en þar segir:

Magnús Einarsson bar bæði ljóða og lagasmiður. Hann orkti bæði margt hnittið og smellið erindið, og fjölda sönglaga samdi hann. En prentuð hafa verið og útgefin aðeins 12 þeirra, árið 1909 fyrir karlaraddir.

Tilvitunun lýkur.

Vil ég nú beina fyrirspurn til hlustenda þess efnis hvort einhver viti hvar handritn að lögum Magnúsar eru niðurkomin. Naujðsynlegt er að afrit af þeim liggi hjá íslenskri tónverkamiðstöð, en þangað leita flestir tónlistarmenn þegar finna á íslenska tónlist. Miðstöðin hefur þegar þessi 12 karlakórslög sem gefin voru út, en gaman væri að frétta af sjálfum handritunum.

Hér hjá ríkisútvarpinu er aðeins eitt lag eftir Magnús til í hljóðritun en það er lagið Mikli guð við ljóð Halldórs Friðjónssonar. Við skulum ljúka þessari stuttu umfjöllun um Magnús Einarsson organista á því að heyra Þjóðleikhússkórinn undir stjórn Hallgríms Helgasonar flytja lagið. Hljóðritunin var gerð árið 1963.

TD-1106 2:00

Við heyrðum þjóðleikhússkórinn undir stjórn Hallgríms Helgasonar flytja lagið Mikli Guð eftir Magnús Einarsson við ljóð Halldórs Friðjónssonar. Ég vil að lokum benda áhugasömum hlustendum á að von er á æfisögu Magnúsar sem rituð er af Aðalgeir Kristjánssyni.

Þættinum er lokið í dag,

Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is