Koma orgela í Húnavatnssýslu 1872

Þátturinn var á dagskrá Rásar 1, 8. febrúar 2000.


 

Í seinasta þætti heyrðum við innihald greinar sem birtist í Norðanfara 20. mars 1877 þar sem lýst var á máli samtímas ýmsum væntingum í framförum tónlistarmálann.  Í greininni kom fram eitt atriði sem mig langar að staldra dálítið við um stund. Við munum í þessum þætti heyra nokkur lög Friðriks Bjarnasonar tónskálds í flutningi ýmissa tónlistarmanna. En textinn sem mig langar til að staldra við segir:

Þegar hinn góðfrægi dómkirkjuprestur og prófastu, síra Ólafur sálugi Pálsson flutti frá Reykjavík norður að Melstað 1871, sýndi það sig brátt, hver áhrif hið rjetta fagar hljóð, (sem felst í orgelspili og sem hann hafði vanist í mörg ár í R.vík) hafði haft á hann, þar sem hann þegar á fyrsta eða örðu ári á Melstað, útvegaði “Orgel-Harmonium) í kirkjuna þar, sem síðan hefir verið brúkað, og mun þó hafa verið völ á betra söngfólki þar, en víða annarstaðar.  Þetta var mikið loflegt og eptirbreytnisvert fyrirtæki, sem líka leiddi til þess að þeir fetuðu þegar í spor hans.

Þessar upplýsingar skýrðu fyrir mér ýmislegt og m.a. þá spurningu sem ég hef oft spurt sjálfan mig – af hverju fóru menn að kaupa orgel í kirkjurnar?  Ég sló því upp í bókinni Dómkirkjan í Reykjavík sem séra Þórir Stephensen ritaði og gefin var út í tilefni af 200 ára afmæli kirkjunnar. Í bókinni er að finna stutta grein um Séra Ólaf og vil ég leyfa mér að lesa hana fyrir ykkur hér:

Sr. Ólafur var fæddur að Ásum í Skaftártungu 7. ágúst 1814, sonur sr. Páls Ólafssonar, sem síðar var prestur í Holtaþingum og sat í Guttormshaga, og konu hans Kristínar eldri, dóttur sr. Þorvalds Böðvarssonar skálds í Holti undir Eyjafjöllum.  Faðir Ólafs drukknaði 1823.  Eftir það var hann mikið hjá sr. Þorvaldi afa sínum.  Hann varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1834, en guðfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla 1842.  Ólafur vígðist 7. maí 1843 til Reynivalla í Kjós, fékk Holt undir Eyjafjöllum 1846, en fór ekki þangað, því hann fékk þá Stafholt sama ár og varð svo prófastur Mýramanna 1851.  Dómkirkjuna fékk hann haustið 1854 og varð prófastur í Kjalarnesþingi 1856.  Sr. Ólafur var konungskjörinn alþinginsmaður árin 1867-75.  Sr. Ólafur var vandaður maður til orðs og æðis, kennimaður góður og hugþekkur sóknarbörnum sínum.  Þótti að honum mikil eftirsjá, er hann, af heilsufarsástæðum, tók þann kost að flytjast norður að Melstað 1871.  Þar var hann prófastur Húnvetninga og stóð svo til dauðdags hans 4. ágúst 1876.  Str. Ólafur fékkst mikið við ritstörf.  Einkum voru það þýðingar svo sem Landskipunarfræði Platous, Biblíusögur Balslevs, Katekismus Luthers og þjóðsögur á ensku í Pen and pencil sketches í London 1862.  Hann lét einnig eftir sig frumsamið efni svo sem fjölda prédikana, æviminninga, grafskrifta, ritgerða og ljóðmæla.  Á námsárum sínum sumarið 1841 var hann í Svíþjóð með Jóni Sigurðssyni forseta við uppskriftir á íslenskum handritum.  Eiginkona sr. Páls var Guðrún Stephensen, dóttir Ólafs sekretera í Viðey. Þau gengu í hjónaband 15. maí 1843 og eignuðust 8 börn, sem upp komust.

tilvitnun lýkur.

Við heyrðum  lagið Sigling eftir Friðrik Bjarnason í útsetningu Elíasar Davíðssonar.

Hér hefur verið bent á þátt sr. Ólafs Pálssonar í kaupum á fyrsta orgeli sem kom í íslenska sveitakirkju, ef frá er talið orgel það sem Magnús Stephensen rölti með á milli bæja um aldamótin 1800. En þó svo Ólafi sé eignaður þessi heiður þá mun það nú víst hafa verið sonur hans Thódór sem var helsti hvatamaðurinn að þeim kaupum. Við skulum heyra brot úr grein eftir Sigurjón Jónsson sem ber yfirskriftina “Nokkur orð um söng, einkum í Hrútafirði og birtist í tímaritinu Hljómlistin árið 1913 en þar segir m.a.:

Eins og kunnugt er, breiddust hin svo kölluðu nýju sálmalög út til sveitanna mest eftir það er Ari Sæmundsen gaf út leiðarvísi til að spila á langspil 1855 og Pétur Guðjohnsen dómkirkjuorganisti og söngfræðingur gaf út sálmasöngsbóik sína 1861.  Því fjöldi sveitamanna, sem lagði sig eftir að læra hin nýju lög, höfðu ekki annað hljóðfæri sér til hjálpar en langspilið.  Lærisveinar latínuskólans, sem lærðu söng hjá P. Guðjohnsen, voru tiltölulega fáir úti um land, er gátu leiðbeint mönnum í söng, svo fram til þess tíma hefur verið í sumum kirkjum sungið með gamla laginu.  Fram yfir 1870 var lítið hugsað um að fá hljóðfæri í kirkjur; fáir þektu harmoníum og orgelin vor svo dýr, að ógerningur var að kaupa þau, nema þetta eina, sem var í dómkirkjunni.

Theódór sonur Ólafs prófasts Pálssonar, þá á Melstað, braut þar ísinn; hann var fyrsti hvatamaður að því að harmoníum var keypti í Melstaðakirkju 1872 og tók að sér að leika á það, án þess þó að hafa lært hljóðfæraslátt nema lítið eitt á fíólín hjá Jónasi heit. Helgasyni, og tókst honum það þó furðu vel, var líka góður söngmaður og alt hans fólk, svo söngurinn í Melstaðkirkju þótti fyrirmynd í þá daga, og mun þá hafa víða vaknað áhugi manna á að fá hljóðfæri í kirkjur.

tilvitnun lýkur

Við heyrðum karlakórinn Þresti flytja nokkur laga Friðriks Bjarnasonar undir stjórn Jóns ísleifssonar en það var Fritz Seisshappel sem lék á píanóið. Hljóðritunin var gerð í Bæjarbíói í mars árið 1962.

Á árunum 1912 og 13 komu út nokkur tölublöð af tímaritinu Hljómlistin sem Jónas Jónsson ritstýrði.  Jónas var heilmikill fræðimaður á sviði tónlistarinnar – einkum kirkjusöngs –  sem og á fleiri sviðum.  En það var Þorsteinn Konráðsson organleikari á  Eyjólfsstöðum í Vatnsdal einnig.  Í fyrsta tölublaði Hljómlistarinnar árið 1913  birtist greinagerð Þorsteins um komu orgela í kirkjur Húnvetninga, milli Hrútafjarðarár og Blöndu en hún er brot úr annál sem hann skráði um það markverðasta  sem bar við í sýslunni á þeim árum. Í grein sinni fjallar Þorsteinn um þá organista er starfað höfðu á Mel, eins og hann kallar það fram til ársins 1913 er þessi grein birtist í Hljómlistinni. Við skulum heyra hvað þessi mikli færðimaður hefur að segja um organistana á Melstað:

Fyrsta orgelharmoníum, sem kom í kirkju í Húnavatnssýslu er það, sem þangað kom 1872.  Þá var séra Ólafur sál. Pálsson nýkominn að brauðinu og var Theódór sonur hans fyrsti organleikari þar.  En þegar hann flutti til Borðeyrar, tók við organleikarastörfum eftir hann Sigurður Magnússon, sonur séra Magnúsar Sigurðssonar á Gilsbakka og Guðrúnar Pétursdóttur frá Miðhópi.  Hann lærði orgelspil hjá Jónasi Helgasyni í Reykjavík og kostaði söfnuður Melstaðarsóknar nám hans.  hann var mörg ár organleikari og barnakennari þar í sókninni.  Spilaði hann mikið á harmoniku.  Annars skrifaði hann mikið af lögum og jafnvel heilar bækur.  Tvær af bókum þessum veit ég að til eru enn; aðra á Jónas Jónsson þinghúsvörður í Reykjavík, en hin er í eign þess er þetta ritar.  Þegar Sigurður hætti þar organleikarastörfum fór hann héðan af landi burt til Ameríku og tók þá við um eitt ár Stefán nokkur, að mig minnir, Stefánsson, norðan úr Fljótum; hafði hann eitthvað numið harmoníumspil af sjálfum sér, gat að eins tekið þrjár raddir.  Eftir hann tók við Björn Líndal, sonur Jóhannesar bónda á Útibleiksstöðum.  Hafði hann numið harmoníumspil af Jónasi Helgasyni og var svo nokkur ár organleikari á Mel þar til hann fór að stunda nám í latínuskóla Reykjavíkur.  Nú er hann málfærslumaður á Akureyri.  Næstur honum varð organleikari Benedikt Jóhannesson frá Torfustöðum.  Hann lærði hjá Böðvari Þorlákssyni frá Undirfelli, sem þá bjó að Hofi í Vatnsdal og verður hans síðar getið.  Eftir Benedikt varð organleikari á Mel um 2 ár Ragnar P. Leví, sonur Páls hreppstjóra Leví á Heggsstöðum.  Hann hafði fengið tilsögn í harmoníumspili hjá Þorsteini bónda Konrássyni á Eyjólfsstöðum um tveggja ára tíma.  Árið 1906 flutti hann til Reykjavíkur og er nú kaupmaður (tóbakssali) þar.  Organleikarastörfum hætti hann nokkru áður en hann flutti suður og tók þá við af honum Friðrik Arnbjarnason á Stóra-Ósi í Miðrfiðir, sem er þar organleikari síðan.  Söngkraftar og söngþekking mun vera á fremur lágu stigi þar í sókninni.  Hljóðfæri kirkjunnar er Steenstrúps-harmoníum, 4 áttundir, einfalt hljóð.  Í sókninni veit eg ekki til að sé nema eitt harmonía utan kirkjunnar.

tilvitinun lýkur

Við heyrðum Karlakórinn Þrestir syngja lagið Sólríka söguey eftir Friðrik Bjarnason við ljóð Þórodds Guðmundssonar frá Sandi. Það var Friðrik sem stjórnaði og Páll Kr. Pálsson lék á píanóið. Hljóðritunin var gerð í maí árið 1952.

Ætli þessi upptalning Þorsteins hér að framan á organistum kirkunnar sé ekki dæmigerð fyrir aðstæður víða um land í kringum aldamótin 1900. Menn komu og fóru, flestir höfðu lært til að geta orðið stautfærir á þrigga radda sálmabók Pétur Guðjohnsen og flestir höfðu aðeins lært í tvö ár eða þá bara af sjálfum sér.  En það breytir ekki þeirri staðreynd að lögin voru öll sungin eins, eða svipað í öllum kirkjunum, ef það er þá eitthvert markmið.  En það að orgelin koma ekki fyrr í íslenskar kirkjur hefur einnig sína skýringu. Þau voru í sjálfu sér ekkert svo gömul í þessari harmoniumynd. Þó svo ég hafi sagt að fyrsta orgelið hafi komið að Melstað árið 1872 þá á ég að sjálfsögðu við þau orgelharmonium sem áttu eftir að vera svo algeng í íslenskum kirkjum og á íslenskum heimilum, og eru víða enn.  En til að gera smá úttekt á orgelmálum íslendinga frá því í fornöld skulum við rifja upp grein eftir Friðrik Bjarnason sem birtist í Heimi, söngmálablaði árið 1923 og ber yfirskriftina  Harmonium.

Enda þótt Íslendingar hafi yfirleitt fremur lítið fengist við söng og hljóðfæraslátt fyr á öldum, er þó oft getið góðra söngmanna og söngfræðinga, og á nokkrum stöðum er getið um hljóðfæri.  Hjer skal ofurlítið minnst á þau, einkum orgelin í sambandi við harmonium.  Þess er getið í sögu Laurentíusar biskups, að Jón biskup í Skálholti sendi utan á fund Eilífs erkibiskups í Þrándheimi, út af Möðruvallarmálum, Arngrím prests Brandsson í Odda, og sat hann í Þrándheimi um veturinn 1372-28, ásamt Agli presti Eyjólfssyni, er Laurentius biskup sendi af sinni hálfi í sömu erindum.  Í Biskupasögu (I, bls. 866) stendur þetta: “En síra Arngrímur hafði aðra daga, því hann gekk dagliga til eins organsmeistara, er var í Þrándheimi, ok ljt hann svo kenna sjer að gjöra organum, en aldrei flutti hann fyrir erkibiskup um Möðruvallamál”.  Í Ísl. Ann. (útg. G. Storms), Chria 1888, bls 397, er sagt, að síra Arngímur hafi komið út með organið.  Dr. Páll Eggert Ólason kemst svo að orði í bók sinni, “Menn og mentir” (II bls 399-400) um Gissur biskup Einarsson: “Líklega hefir Gissur verið söngmaður og kunnað til söngs, og ef til vill eitthvað í hljóðfæraslætti eftir þörfum kirkunnar.  Hann á t.d. “librum tabulairum”, sem vafalaust hefir verið söngbók eða nótnabók og einkennilegt er það, að hann skuli kaupa organ í vígsluför sinni, sjálfsagt handa Skálholtskirkju, og bendir það í þessa átt”. Þorvaldur Thoroddsen getur eftirfarandi í grein í Landafærðisögu sinni: “Þórður biskup (Þorláksson) var hinn mesti hagleiksmaður og smíðaði margt, hann var söngfróður mjög og ljek á hljóðfæri. – Þórður Þorláksson var í brúðkaupi bróður síns (Gísla biskups á Hólum) og hafi með sjer tvö útlend hljóðfæri, Real og Symphon og ljek á þau í kirkju og stofu, þá er brúðargangur var genginn. – Í æfiágripi síra Hjalta Þorsteinssonar segir um Þórð biskup, að hann hafi verið mjög gefinn fyrir musica instrumentalis, hafði og þar til clavicordium og Symphonie. – Þórður biskup styrkti Hjalta prest til bóknáms í Kaupmannahöfn og kom því til leiðar, að Hjalti, eftir að hann hafði tekið guðfærðipróf, lærði organslátt hjá Elias Radiche organleikara við Rundekirkju”.  Árið 1800 kom Magnús konferenzráð Stephensen frá útlöndum, og hafði með sjer hljóðfæri, sem hann kallaði Orgelverkshljóðfæri. Sjálfur ljek hann á það, því aðrir kunnu ekki.  Var það fyrst sett í Leirárkirkju, og notað við messugjörð þangað til 1803. Þá fluttist Magnús að Innrahómi og hafði hann hljóðfærið með sjer.  1819 var hljóðfærið flutt til Viðeyjar og notað þar við messugjörð þangað til Magnús dó (sbr. íslensk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson).  Sagt er að Magnús hafi kent öðrum að leika á orgel; selt var það aftur til útlanda, að sumra sögn, af því að enginn kunni að leika á það.  1840 kom fyrsta hljóðfærið (orgel) í dómkirkjuna í Reykjavík, og var það notað þar fram að 1877, en svo rifið niður vegna bilunar, og var þá látið harmonium í kirkjuna, og þóttu það viðbrigði, og því sagði Gröndal í “Reykjavík um aldamótin”: þá er kirkjan bar bygð, var sett í hana orgel, sem henni þótti hæfa sem dómkirkju; það var uppi yfr framdyrunum og gagnvart altarinu; þar ljek Pjetur Guðjónsson, og hafði hann lært orgelspil í Danmörku; en eftir lát hans var ekki leikið á orgelið, og því engin gaumur gefinn, og skemdist það svo meir og meir, hefir kannske líka verið farið að bila, en engum duttu í hug, sem heita “eftirlit” og “aðgerð”; var síðan og er enn (um 1900) leikið á harmoníum í kirkjunni, og þykir það nóg; – hver veit, nema einhverntíma komi harmonika”.  Harmoníið var notaði í dómkirkunni fram yfir aldamót, eða þangað til orgelið kom í kirkjuna, sem nú er þar, en það var nálægt 1903. 

Tilvitnun lýkur

Við heyrðum lagið Rökkvar í hlíðum eftir Friðrik Bjarnason en textinn er þjóðvísa. Það var höfundurinn, Friðrik Bjarnason sem stjórnaði en Páll Kr. Pálsson lék á píanóið. Hljóðritunin er frá því í maí árið 1952.

Hér að framan var stuttlega drepið á helstu orgelhljóðfærin á Íslandi fram að dómkirkjuorgelinu. Vera má að einhver fleiri hafi verið til í gegnum aldirnar þó svo ekki sé getið um þau í heimildum, eða þá að upplýsingar um þau eru ekki komnar fram í heimildum.  En Friðrik Bjarnason lætur hér ekki staðar numið heldur fjallar hann lítilsháttar um tilurð harmoníumsins. Hann segir:

Franskur maður, að nafni Grenir, er talin hafa fundið upp harmoníum, þar sem hann nálægt 1810 smíðaði hljóðfæri, sem hann nefndi “orgue expresiv”.  Litlu seinna kom Handel í Wien fram á sjónarsviðið með hljóðfæri sem kallaðist “psysharmonika”.  Á næstu áratugum voru smíðuð hljóðfæri af slíkri gerð með ýmsum nöfnum.  1840 kom fram fyrsta hljóðfærið með mörgum “registrum”; það smíðaði A. Fr. Deboin (f. 1809-1877) í París, og gaf hann því nafnið “harmonium”.  Með útbreiðslu harmoníanna tóku þau skjótlega framförum, sjerstaklega á þremur síðustu áratugum, og hafa þau náð sæti við hlið píanósins, sem viðfeldið hljóðfæri, einkum í heimahúsum, og í minni kirkjum í stað ogelsins. Harmoníið er í rauninni meira framtíðar hljóðfæri í heimahúsum en nokkurt annað, og fá hljóðfæri eru jafn vel fallin til samleiks eins og það.  Þeir sem hafa heyrt leikið saman á harmoníum og píanó, geta best dæmt um áhrif þau og hljómfegurð, sem samleikurinn veitir.  Harmoníið líkir eftir stroku- og blásturshljóðfærum “orkestursins”. Harmoníið svarar furðu fljótt, eins og það er nú úr garði gert, og er vinsælt af tileheyrendunum, þegar það er meðhöndlað af þeim, sem kunna með það að fara, þeim sem þekkja kosti þess og einkenni.  Ein hin nýjasta framför á sviði harmoníumsmíðinnar eru hin svo kölluðu “normal-harmoníum”. Það hefir verið örðugt að semja nokkuð sjerstakt fyrir harmoníum, vegna þess, að hver verksmiðjueigandi hefir látið smíða hljóðfæri sín eftir eigin geðþótta, og registrasamsetningin hefir við það orðið mjög sundurleit.  Á samkomu einni, sem harmoníumsmiðir hjeldu fyrir nokkru, náiðst samkomulag um það að smíða hljóðfæri sem öll væru eins úr garði gerð að því er raddir og registur snerti (normalharmoníum).  Registrin eru sett í ákveðna röð og útbúin með töluröð. Með þessu móti er mögulegt fyrir tónskáldin að semja eitthvað sérstaklega fyrir harmoníum, og sýna nótunum það og það registur, sem óskað er eftir að notað sje í þar að lútandi tónsmíð. Þessi registrasamsetning verður að vera eins í öllum normal-harmoníum, og eru þau nú búin til af flestum stærri harmoníumverksmiðjum.  Eitt af því sem einkennir normal-harmoníum, er tveggja fóta rödd (Æols-Harpa); hún er í bassanum og er notuð við undirspil, þegar sólórödd er viðhöfð í dískanti.  Harmoníumhljóðin minna frekar á orkestur en orgel, og til samanburðar við píanóið eru hljóð þeirra mildari og fjölbreytilegri.  Heppilegra er að hafa gott harmoníum í kirkjur, en lítið og ófullkomið orgel.  Harmoníið er það hljóðfæri sem tekur mestum framförum, ryður sjer altaf meir og meir til rúms.  Kostir þess eru enn ótaldir.  Á heimilinu gerir það sambýlisfólkinu minna ónæði en önnur hljóðfæri, viðvaningar eiga hægara með að leika á það, ódýrara er það en t.d. píanó, fyrirferðaminna og hægara í flutningum.  Nokkur harmoníum hafa verið smíðuð á íslandi, og er smiðanna sumra áður getið hjer í blaðinu.

Tilvitnun lýkur.

Þessi grein Friðriks Bjarnasonar er athyglisverð að mörgu leiti. Ef við minnumst bara á tvö atriði í henni sem getur gefið sögulega skýringu en það fyrra er þetta:  Harmoníið líkir eftir stroku- og blásturshljóðfærum “orkestursins”, og hið síðara er þetta:  Þeir sem hafa heyrt leikið saman á harmoníum og píanó, geta best dæmt um áhrif þau og hljómfegurð, sem samleikurinn veitir.

Eins og sagði áðan þá var þessi grein skrifuð í Heimi árið 1923. Þá voru þeir báðir ritstjórar, Sigfús Einarsson og Friðrik Bjarnason.  Tveimur árum síðar var Hljómsveit Reykjavíkur nr. 2  stofnuð og var Sigfús stjórnandi hennar. Þessi viðhorf Friðriks um ágæti orgelsins og um þá hljómfegurð sem samleikur á þessi hljóðfæri veitir skýrir að sjálfsögðu þá ákvörðun hljómveitarmanna Hljómsveitar Reykjavíkur að kaupa orgel til notkunnar í hljómsveitinni. Hafa menn greinilega verið sammála um þennan hljóm og talið sig slá tvær flugur í einu höggi með því að kaupa orgel í hljómsveitina  því það, eins og Friðrik skriafar: “líkir eftir stroku- og blásturshljóðfærum orkestursins”.  Orgelið átti ekki langan líftíma í Hljómsveit Reykjavíkur og fékk fljótlega að fjúka þegar aðrir menn tóku við.

En úr því við erum búin að tala svona mikið um orgel er ekki úr vegi að heyra einmitt eitt orgelstykki eftir Friðrik Bjarnason.  Það er prelúdía í e-moll og það er Páll Kr. Pálsson sem leikur á orgel Hafnarfjarðarkirkju.

Við munum halda áfram að fjalla um orgelmálin í næsta þætti.

Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is