Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur

Á árinu 1948 var svo komið hljómsveitarmálunum, að Hljómsveit Reykjavíkur var hætt störfum vegna ýmislegra erfiðleika, en í sambandi við Tónlistarskólann starfaði strengjasveit og voru kennarar skólans máttarstoðir hennar. Félag íslenzkra hljóðfæraleikara hafði sett saman hljómsveit, sem varð mjög skammlíf. Hún hélt tónleika í Tjarnarbíó í maí 1944 undir stjórn Róberts Abrahams og er síðan úr sögunni. Síðan stofnuðu hljóðfæraleikararnir Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur, en hér var þó í raun og veru ekki um nýja hljómsveit að ræða, heldur nýtt nafn á Hljómsveit Reykjavíkur. Hljómsveitin hélt meðal annars tónleika í Austurbæjarbíó 2.janúar 1948 undir stjórn dr. Urbancic og aftur á sama stað 9. marz sama ár, Mozarttónleika undir stjórn Róberts Abrahams. Enn hélt hljómsveitin tónleika á sama stað 8.desember 1949 undir stjórn dr. Páls Ísólfssonar. Einnig þessi hljómsveit virtist naumast geta átt langt líf fyrir höndum. Hingað til höfðu hljóðfæraleikararnir í hljómsveitinni unnið kauplaust, en þeir voru flestir atvinnuspilarar og eðlilegt að þeir vildu fá vinnu sína borgaða. Það varð því að finna traustan fjárhagsgrundvöll fyrir rekstri hljómsveitar. Þá var Sinfóníuhljómsveitin stofnuð, sem nú er rekin með styrk frá Ríkinu, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpinu og Þjóðleikhúsinu. Hinn 9. marz 1950 hélt hin nýja Sinfóníuhljómsveit fyrstu tónleika sína, og við þann dag miðar hún aldur sinn.

Saga Sinfóníuhljómsveitarinnar tilheyrir næsta tímabili og verður þar sögð, en geta verður hér þeirra manna, sem mest og bezt hafa unnið að hljómsveitarmálunum fram að þessu, en það eru forystumenn Tónlistarfélagsins, sem rak hljómsveitina og skólann. Páll Ísólfsson hefur alltaf átt mestan þátt í marka stefnuna og sér við hlið hefur hann haft ötula framkvæmdamenn, þá Ragnar Jónsson forstjóra í Smára og Björn Jónsson, fyrrverandi kaupmann, og síðar framkvæmdastjóra Tónlistarfálagsins. En hér verður einnig að nefna Björn Ólafsson fiðluleikara. Hann hvarf hingað heim frá framhaldsnámi í Vínarborg skömmu fyrir 1940 og hefur síðan verið meginstoð alls hljómsveitarstarfs í Reykjavík og kennari allra yngri fiðluleikara.

Af merkum tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrsta starfsárið eru Sibeliusartónleikar í Þjóðleikhúsinu 27. júní 1950. Þá lék hljómsveitin undir stjórn Jussi Jalas meðal annars Finlandia, Valse triste, þætti úr svítunni „Pelleas og Melisande“. Ennfremur sinfóníu nr. 2 í d-dúr. Jussi Jalas er hljómsveitarstjóri í Helsingfors, fæddur 1908. Hann er tengdasonur Sibeliusar.

Annar merkur tónlistarviðburður er flutningur óperunnar „Brúðkaup Figaros“ eftir Mozart í Þjóðleikhúsinu í júní 1950. Söngvararnir voru frá konunglegu óperunni í Stokkhólmi, en hljómsveitarstjórinn var Kurt Bendix. Söngvarar voru m.a. Joel Berglund (barítónn), forstjóri kgl. leikhússins í Stokkhólmi. Hann söng Figaró. Hjördís Schymberg (sópran) söng Susönnu, Helga Görlin (sópran) söng greifafrúna Sigurd Björling (barítónn) söng greifann. Öll eru þau hirðsöngvarar að nafnbót og víðfræg enda var söngurinn frábær.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is