Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847 – 1927)

Árið 1922 veitti Alþingi höfundi þjóðsöngsins heiðurslaun. Hið aldraða tónskáld var þakklátt og ákvað að flytjast búferlum heim til Íslands fyrir fullt og allt. Sveinbjörn kom með frú sína til Reykjavíkur 27. nóvember 1922 og settist þar að. Hann var þá orðinn 75 ára.

Útivistin var orðin löng. Haustið 1868, fyrir 54 árum, settist hann að í útlöndum. Á þeim tíma hafði hann aðeins tvisvar sinnum heimsótt Ísland; í fyrra skiptið sumarið 1907, er Friðrik VIII konungur kom til landsins – þá var Sveinbjörn heiðursgestur þjóðarinnar sem höfundur konungskantötunnar – og í síðara skiptið sumarið 1914, en þá hafði hann stutta viðdvöl. Og nú var hann kominn heim á æskustöðvarnar í þeirri trú, að þar ætti hann að bera beinin. Þetta fór þó á annan veg. Hann festi ekki yndi í Reykjavík og þráði fjölbreyttara músíklíf. Hann fór því til Kaupmannahafnar haustið 1924 og var ætlunin að dvelja þar vetrarlangt, en það teygðist úr þessu, og sá hann Ísland aldrei aftur, en bjó í Kaupmannahöfn til æviloka.

Rúmum þremur mánuðum eftir að Sveinbjörn var seztur að í Reykjavík, hélt hann hljómleika í Nýja Bíó (3. marz 1923). Sigfús Einarsson byrjar ritdóm sinn um þá með þessum orðum: „Ákaflega er freistandi að vísa allri gagnrýni á bug, þegar segja skal frá hljómleik þessa góðkunna Nestors, þó ekki væri annað en þetta, að sjá hann – göfugmannlega yfirbragðið, barnslegu gleðina yfir viðtökunum og söngnum – þá var það eitt nægilegt til að reka út illu andana, „kritisku þankana“. (Heimir, söngmálablað, 1923).

„Að sjá hann“ . –  Þessi orð hefur Sigfús með breyttu letri í greininni. Þetta var líka efst í huga allra viðstaddra; löngunin að sjá höfund þjóðsöngsins „Ó, guð vors lands“, sem er eitthvert fegursta lag, sem við eigum.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson er fæddur 28. júní 1847 á Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Faðir hans var Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómari í Landsyfirréttinum. Hann þótti skörungur mikill. Þórður var tvíkvæntur. Síðari kona hans, móðir Sveinbjarnar tónskálds, var Kirstín Katrín, dóttir Lars Mikael Knudsens, dansks verzlunarstjóra og síðar kaupmanns í Reykjavík. Hún var systir Guðrúnar, konu Péturs Guðjohnsens Móðir þeirra systra var Margrét Andrea Hölter, dóttir Lars beykis Hölters í Stykkishólmi. Frá Margréti er mikill ættbálkur kominn og hafa margir niðjar hennar látið að sér kveða í leiklistar- og tónlistarlífi Reykjavíkur. Á sviði leiklistar má nefna dætur Indriða Einarssonar rithöfundar og Lárus Sigurbjörnsson rithöfund. Á sviði tónlistar Emil Thoroddsen tónskáld, Jón Halldórs söngstjóra „Fóstbræðra“, Jórunni Viðar, píanóleikara og tónskáld, að ógleymdri frú Ástu Einarason, sem gift var Magnúsi dýralækni Einarssyni. Hún var á sínum tíma einhver bezti píanóleikarinn í Reykjavík. Faðir hennar, Lárus E. Sveinbjörnsson dómstjóri, var hálfbróður Sveinbjarnar tónskálds. Þeir voru sammæðra ( Lárus var launsonur Edvards kaupm. Thomsens í Vestmannaeyjum, en er Þórður kvæntist móður hans, tók hann Lárus sér í sonarstað og gaf honum nafn sitt. Foreldrar Sveinbjarnar fluttust frá Nesi til Reykjavíkur, þegar hann var 4 ára gamall. Sveinbjörn var tekinn í Latínuskólann 12 ára gamall og útskrifaðist þaðan 19 ára gamall 30. júní 1866. Hann varð 19 ára tveimur dögum áður en hann fékk prófskírteinið. Hann fór í Prestaskólann og útskrifaðist þaðan 29. ágúst 1868 með I, einkunn. Þá var hann aðeins 21 árs að aldri. Hann var eini kandidatinn, sem útskrifaðist úr skólanum það ár. Prestaefnum mun þá ekki hafa verið veitt prestvígsla eða brauð fyrr en 25 ára að aldri. Það hefði þó mátt búast við, að hann myndi, þegar hann hefði aldur til, verða prestur. Það vakti því nokkra furðu, er það fréttist, að hann – maður með embættisprófi – ætlaði að gera píanóleik að lífsstarfi. Ást hans á tónlistinni og góða hæfileika þekktu menn. Hann hafði lært að leika á píanó hjá fræknu sinni, frú Ástríði Melsted, dóttur Helga biskups Thordersens, konu Sigurðar Melsteds kennara við Prestaskólann. Einnig hafði hann lært söng og söngfræði hjá Pétri Guðjohnsen, sem var kvæntur móðursystur hans, eins og áður er tekið fram. En hver maður vissi, að á Íslandi gat enginn maður lifað á tónlist einni saman, jafnvel Pétur Guðjohnsen varð að hafa hana í hjáverkum. En Sveinbjörn hafði mikla trú á hæfileikum sínum og treysti því, að hann gæti rutt sér braut erlendis sem píanóleikari og tónskáld og lifað á tónlistinni.

Haustið 1868 tók hann sér far með seglskipi til Kaupmannahafnar. Hann hreppti harða útivist. Eftir 35 daga siglingu tók skipið höfn í Leith og var þá laskað. Sveinbjörn var þá svo þrekaður af sjóveiki, að hann lá þar eftir í tvo mánuði, áður en hann treysti sér til að halda ferðinni áfram til Kaupmannahafnar. Í Kaupmannahöfn var hann í tæp tvö ár við músíknám. Náminu lýsti hann þannig í viðtali við danskan blaðamann.: „Ég söng hjá Bergreen, lærði hljómfræði og píanóleik hjá Ravn og söng í „Musikforeningen“ hjá Gade.- Anton Ravn var aðalkennari hans. (Dannebrog 1907).

Sveinbjörn hafði kunnað vel við sig í Edinborg og ákvað að setjast þar. Hann fór þangað seint á sumri 1870 og kenndi þar söng og píanóleik. Árið 1872 fór hann til Leipzig og naut þar kennslu sumarlangt hjá Carl Reinecke. Reinecke var þá yfirkennari Tónlistarskólans í Leipzig og og síðan 1860 hljómsveitarstjóri hinnar frægu Gewandhaus-hljómsveitar þar í borginni. Hann var heimsfrægur píanóleikari og tónskáld. Tónsmíðar Reinecke eru í anda Mendelssohns, sem stofnað hafði hljómsveitina og skólann. Er vert að hafa þetta í huga, því að tónsmíðar Sveinbjarnar eru af sama skóla.

Að loknu náminu í Leipzig fór Sveinbjörn aftur til Edinborgar og varð þar vinsæll píanókennari, fékk hann kennsluna vel borgaða og efnaðist vel og varð þar húseigandi.

Þrisvar fór Sveinbjörn til Kanada og dvaldi þá meðal Íslendinga. Fyrsta ferðin var gerð í sept. 1911. Hélt hann þá til hjá séra Jóni Bjarnasyni í Winnipeg og frænku sinni, frú Láru, konu hans. Hann hélt þá fyrirlestra um norræn þjóðlög og hélt hljómleika, bæði í Winnipeg og út um byggðir Íslendinga. Um vorið 1912 hélt hann aftur yfir hafið til Skotlands. Ári síðar fór hann aðra ferð vestur um haf á sömu slóðir, en hafði þá skamma viðdvöl, Seint á sumri 1919 tók hann sig upp með fjölskyldu sína og fluttist til Winnipeg og var ætlun hans að setjast þar að fyrir fullt og allt. Hann var þá farinn að þreytast á kennslustörfum, enda orðinn aldraður maður, 72 ára gamall. Hann hafði orðið fyrir því áfalli að missa allar eigur sínar. Róðurinn var orðinn þungur í Skotlandi. Vestur-Íslendingar reyndust honum vel í ellinni og styrktu hann fjárhagslega. Haustin 1922 fluttist Sveinbjörn búferlum til Reykjavíkur, er Alþingi hafði veitt honum heiðurslaunin. Sú saga hefur verið sögð hér að framan.

Árið 1890 kvæntist Sveinbjörn skozkri konu, Elenor Christie, sem var vel menntuð og glæsileg, en miklu yngri en hann, – hún var þá tvítug, en hann var kominn vel yfir fertugt. Þau eignuðust tvö börn, Þórð lækni í Kanada, og Helen, sem var kennari og gift liðsforingja, Ralph Loyd, sem nú er dáinn.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson andaðist í Kaupmannahöfn 23. febr. 1927 . Hann varð bráðkvaddur; sat að vanda við píanóið og lék á það, er það heyrðist þagna snögglega. Þegar að var komið, var hann örendur. Hann varð 79 ára og átta mánuðum betur. Jarðneskar leifar hans voru fluttar til Reykjavíkur og jarðsettar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu með mikilli viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni.

Tónsmíðarnar

Í Þjóðólfi 29. jan. 1897 er minnst á Sveinbjörn Sveinbjörnsson og segir þar m.a. þetta: „Hið gullfallega lag við þjóðhátíðarsöng Matthíasar: „Ó, guð vors lands“ er hið eina lag, sem Sveinbjörn hefur samið við íslenzkan texta, en það er líka nóg til að halda nafni hans uppi hér álandi“. Það er sérstaklega eftirtektarvert við þessa frásögn, að Sveinbjörn hafði ekki samið nema eitt lag við íslenzkan texta fram að fimmtugsaldri. Og þetta eina lag hafði hann meira að segja samið eftir beiðni textahöfundar. Matthías fékk hann til þess. Um fimmtugt var Sveinbjörn búinn að semja fjölda sönglaga við íslenska texta, píanótónsmíðar og hljómsveitarverk. Hann samdi þessar tónsmíðar fyrir enska heiminn.

Það mun hafa verið um og upp úr aldamótunum, að Sveinbjörn fór að leggja rækt við kvæði eftir skáldin okkar. Fram til þess tíma hafði hann ekki lifað í tengslum við ættjörðina, en úr því fóru Íslendingar á ferðum sínum um Leith að leggja leið sína á heimili hans, og hafa sumir sjálfsagt hvatt hann til að semja lög við íslenzk kvæði. Upp úr aldamótunum urðu svo lögin við íslenzku kvæðin fljótt kunn hér á landi, eins og „Vetur“, „Sverrir konungur“, „Valagilsá“, „Töframynd í Atlanatsál“ o. fl. Þessi lög juku mjög á tónskáldafrægð hans hér á landi.

Tónskáldafrægð Sveinbjarnar hjá þjóðinni hvílir fyrst og fremst á þeim tónsmíðum eftir hann, sem þjóðin þekkir, en það eru lögin við íslenzku kvæðin, og svo þau sönglög við enska texta, sem snarað hefur verið á íslenzka tungu, eins og t.d. „Huldumál“ („Echo“). Það er staðreynd, að þjóðin hefur ekki tileinkað sér sönglög hans við enska texta, þótt þau hafi um áratugi verið til sölu í íslenzkum bókabúðum, eins og „The Vikings Grave“, „The Challenge of Thor“, og fleiri, sem höfundurinn taldi með fegurstu sönglögum sínum. Fólkið þarf að skilja kvæðin til að geta notið laganna og ennfremur þurfa kvæðin að vera vel gerð, til þess að þau verði sungin.

„Ó, Guð vors lands“ er vel gert lag og hátíðlegt. Með réttu hefur verið fundið að því sem þjóðsöng, að það nái yfir stórt tónsvið og sé því vandsungið. En því má ekki gleyma, að lagið er samið sem lofsöngur við sérstakt tækifæri, en þjóðin hefur ósjálfrátt gert það að þjóðsöng sínum. Einhver hefur sagt, að sá maður verði þjóðskáld, sem finnur leiðina að hjarta hvers venjulegs manns. Þetta hefur sannast á höfundum þjóðsöngsins okkar, skáldinu og tónskáldinu.

Á eftir þessari grein er birt grein Birgis Thorlacius ráðuneytisstjóra um þjóðsönginn og sögu hans.

Konungskantatan hefur ávallt verið talin með höfuðverkum Sveinbjarnar. Hún er í fjórum köflum, við texta eftir Þorstein Gíslason. Kantatan er samin í tilefni af heimsókn Friðriks VIII konungs til Íslands sumarið 1907 og er hrífandi fögur.

Einsöngslögin við íslenzka texta eru ekki mörg. Kunnust eru „Sverrir konungur“, „Vetur“ (Hvar eru fuglar), „Við Valagilsá“, „Sprettur“ og „Huldumál“ (Echo). Minna kunn eru lögin við enska texta. Margir þekkja vorsönginn eftir hann við latneska textann: „In vernalis temporis“, sem Þorsteinn Gíslason hefur þýtt á íslenzku.

Á sönglögum Sveinbjarnar er enginn viðvaningsbragur. Hann hefur næga kunnáttu til að tjá það frjálslega í tónum, sem bærðist í brjósti hans, á þann hátt, sem hann vildi. Þess vegna falla lag og ljóð í faðma. „Sverrir konungur“ er svipmikil ballata og túlkar vel efni kvæðisins. Lagið missir því ekki marks, sé það vel sungið af góðum raddmanni. Í „Spretti“ er fákurinn á harða stökki. -Í laginu „Hvar eru fuglar“ er angurvær saknaðarblær. Hvergi verður vart við mikinn sársauka eða kvöl í tónsmíðum hans, jafnvel ekki þar sem þess væri að vænta.  Sorgin er með notalegum þunglyndisblæ.

Mendelssohn sagði einhverju sinni við nemanda sinn, sem færði honum nýja tónsmíð til yfirlesturs: Þessir hljómar eru ekki „gentlemanlike“. Hann notaði enska orðið. Honum fannst raddsetningin ruddaleg. Það hefði engin hætta verið á því, að Sveinbjörn hefði sætt slíkri aðfinnslu, hefði hann verið nemandi hans. Tónsmíðar hans eru fágaðar og göfugar.

Kórlögin eru mikið sungin hér á landi. Samband íslenzkra karlakóra gaf út árið 1932 „Tólf sönglög fyrir karlakór“ eftir hann. Meðal þeirra er Þjóðsöngurinn. Enn fremur eru í heftinu þessi alþekktu lög: „Ó, blessuð vertu sumarsól“, „Ó, fögur er vor fósturjörð“, „Drottinn, sem veitti frægð og heill til forna“, „Töframynd í Atlantsál“, „Lýsti sól“, „Dettifoss“, „Er vindur hvín“, og fleiri frumsamin lög eftir hann. Ennfremur eru þar þjóðlögin „Fífilbrekka“ og „Ólafur og álfamær“ í kórraddsetningu hans. Þá skal nefna kórlögin „Rís þú unga Íslands merki“ og „Nafnkunna land, sem lífið oss veittir“, en síðarnefnda lagið hefur, ásamt þjóðsöngnum, verið tekið í Danmarks Melodiebog.

Karlakórinn „Fóstbræður“ hefur lagt mikla rækt við þessi kórlög og hefur sungið þau inn í þjóðina. Hefur söngstjóranum, Jóni Halldórssyni, fundist blóðið renna sér til skyldunnar, en hann er náfrændi tónskáldsins. Hann verðskuldar þakkir fyrir.

Kórstíll Sveinbjarnar er í mörgu frábrugðinn því, sem var hjá eldri tónskáldum okkar. Sveinbjörn samdi oftast lagið við öll erindin, og hafði yndi af að láta raddirnar ganga á víxl og flétta þær saman. Er þessi kórstíll fjölbreyttur og skemmtilegur.

„Páskadagsmorgun“, samið fyrir blandaðan kór, við texta eftir Valdemar Briem. Þetta er viðhafnarlag, eins og tíðkast hefur í ensku kirkjunni allt frá dögum Purcells (Anthem). Þessi lög eru þó ekki fastur liður í liturgiunni. Hjá okkur hér í Reykjavík hefur þetta lag Sveinbjarnar lengi verið sungið við guðþjónstuna í dómkirkjunni hvern páskadagsmorgun.

Píanótónsmíðar. Af mörgum píanótónsmíðum eftir Sveinbjörn eru þessar þrjár alkunnar: „Vikivaki“, samið um þjóðlögin „Góða veizlu gjöra skal“ og „Hér er kominn Hoffinn“, og „Idyl“, sem samið er um þjóðlagið „Stóð ég úti í tunglsljósi“. Bæði þessi lög hefur Emil Thoroddsen spilað inn á hljómplötur og heyrast þau við og við í útvarpinu. Þriðja lagið er „Pastorale“ Þá þekkja margir hér píanóhefti eftir hann, sem inniheldur frumsamin smálög og útsetningar á vinsælum skandinavískum lögum, sem eru í alþýðusöng okkar. Heftið er ætlað unglingum. (Descripive Pieces for the Young).

Sveinbjörn var góður píanóleikari og handbragðið á píanótónsmíðunum er eins og vænta mátti af slíkum manni.

Fiðlutónsmíðar. Prentaðar tónsmíðar fyrir fiðlu og píanó eru þessar: „Berceuse“,  „Saga“, „Humoresque“ og „Lyrisk stykki“ (1. Romanza, 2. Vöggulag, 3. Moment Musicale). Meðal óprentaðra tónsmíða eftir hann er sónata fyrir fiðlu og píanó. Fiðlutónsmíðum hans hefur í seinni tíð verið gefinn gaumur og heyrast í útvarpinu við og við, og er gott til þess að vita, því að þó þetta séu flest lítil lög, þá eru þau snotur. „Humoresque“ er fagurt lag og skemmtilegt.

Íslenskar þjóðlagaraddsetningar. Margir kannast við heftið með 20 íslenzkum þjóðlögum, sem Sveinbjörn hefur valið og raddsett. Reyndar eru ekki öll lögin íslenzk að uppurna, en öll hafa þau verið í alþýðusöng þjóðarinnar á19. öld og eru það enn. Þetta hefti er einkar vinsælt og raddsetningarnar liprar, eftir smekk hans samtíðar.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson er fæddur á fyrri helmingi 19. aldar (1847) og mótast af þeirri tónlist, sem ríkti á seinni hluta aldarinnar. Hann tilheyrir klassísk-rómantísku stefnu 19. aldarinnar og gætir sérstaklega áhrifa frá Mendelssohn og Gade í tónsmíðum hans. Hann er þó sjálfstæður í list sinni og bera tónsmíðar hans sterk persónueinkenni. Hann er ljóðrænt tónskáld rómantísku stefnunnar og eru beztu sönglögin hans svo vel gerð, að ekki yrði fram hjá þeim gengið í úrvali þess bezta, sem enn hefur komið fram með þjóðinni í sönglagagerð.

Hér á landi hvílir tónskáldafrægð hans á þeim tónsmíðum eftir hann, sem þjóðin þekkir, en það er ekki nema hluti af öllum tónsmíðunum. Þjóðin þekkir aðallega sönglögin við íslenzku textana, og hefi það á tilfinningunni, að hann hafi notið sín bezt í sönglögunum og þau séu veigamest af því, sem eftir hann liggur. Þjóðsöngurinn og bestu sönglögin hafa gert hann að öndvegistónskáldi í augum þjóðarinnar.

Sá, sem þetta ritar, man vel eftir Sveinbirni hér í Reykjavík á árunum 1922-1924: virðulegur öldungur, silfurhvítur fyrir hærum, gáfulegur og göfugmannlegur. Hann var í senn fyrirmannlegur og ljúfmannlegur. Útlendingur hefur lýst manninum þannig: „Við, sem kynntumst manninum sjálfum síðar, fundum, að hann var listamaður af lífi og sál. Hann var hæverskur og yfirlætislaus í framkomu, eins og miklir menn einir geta leyft sér að vera, án þess að minnka í áliti manna. Hann var sannmenntaður maður og hjartahreinn“ (Dagbladet, Kbhvn , 1909).

Sveinbirni var sýnd margskonar viðurkenning í lifanda lífi. Kristján IX konungur gaf honum heiðurspening úr gulli 1874 fyrir hátíðarsönginn, sem síðar varð þjóðsöngur okkar. Friðrik VIII konungur sæmdi hann riddarakrossi Dannebrogsorðunnar fyrir konungskantötuna 1907, og stórriddarakrossi sömu orðu, að loknum hljómleik í Kaupmannahöfn haustið 1909, þar sem kantatan var sungin undir stjórn höfundarins og fleiri lög eftir hann. Árið 1911 sæmdi konungur hann prófessorsnafnbót. Hann naut heiðurslauna úr ríkissjóði frá 1922 ævilangt, eins og áður hefur verið minnst á, og sæmdur var hann Fálkaorðunni 1. desember 1923.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is