Stjórn Musica Nova (222)

Tónleikarnir komu öllum í opna skjöldu (nema kannski Atla Heimi og myndlistarmönnum). Atli Heimir var hinn ungi, djarfi einstaklingur sem algjörlega var óbundinn öllum hefðum og skoðunum, enda fékk hann umtal í samræmi við djarfleika sinn. Þessir tónleikar voru sýnishorn þeirra tilrauna sem fólu í sér mótmæli í garð hefðarinnar, leit listamanna að nýjum leiðum og sameiningu listforma í verkum sínum. Oft höfðu ýmsar uppákomur átt sér stað á vegum myndlistarmanna, en tónleikagestum sem fram til þessa höfðu sýnt vilja sinn og áhuga í garð nýrrar tónlistar með því að sækja reglulega tónleika félagsins, var misboðið. Á þessu áttu þeir ekki von. Þessi uppákoma gerði næstum út af við félagið og þóttu mönnum sér misboðið með skrípalátum og fíflaskap eins og þegar Paik rak beran bossann út í áhorfendasalinn. Af þessu tilefni byrjuðu gárungarnir að kalla félagsskapinn “Bossa Nova”.
Nú á dögum skoðast slíkar tilraunir sem hluti músíksögunnar og þykir engum mikið um. En vorið 1965 þegar hópur íslenskra tónleikagesta fékk að “sjá” og heyra það nýjasta í tónlistartilraunum vesturheims verður lengi í minnum haft. (223)
Þrátt fyrir þessa Fluxus-uppákomu lægði öldurnar smám saman og haustið 1965 héldu Musica Nova og Tónlistarfélagið sameiginlega tónleika. Þar voru þar á ferðinni íslenska tónskáldið Þorkell Sigurbjörnsson og bandaríski fiðlusnillingurinn Paul Zukofsky. Léku þeir eingöngu 20. aldar verk eftir W. Riegger, Charles Ives, Georg Crumb, D. Martiono,

222 Þjóðviljinn: 25. maí 1965.
223 Um upphaf og þróun þessarar stefnu má lesa í bókinni Musikalsk Modernisme eftir Jan Maegaard, bls. 83-90.

Webern, Penderecki og Leif Þórarinsson. Á því ári var Zukofsky 22 ára gamall og þekktur af fiðluleik sínum. Poul Zukofsky verður seinna í sögunni minnst sem stofnanda og stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Æskunnar, og á hin yngsta kynslóð íslenskra hljóðfæraleikara honum mikið að þakka að fá tækifæri til að leika undir hans stjórn nokkur stærstu verk hljómsveitartónbókmenntanna.
Tónleikahald á vegum félagsins hélt áfram og flutt var innlend og erlend 20. aldar tónlist. Í mars (224) 1966 héldu fjórir meðlimir Musica Nova – Ingvar Jónasson, Gunnar Egilsson, Pétur Þorvaldsson og Þorkell Sigurbjörnsson, tónleika í Stokkhólmi. Fluttu þeir Svíum þverskurð af íslenskri kammermúsík, allt frá verkum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar til verka Jóns Nordal og Þorkels Sigurbjörnssonar o.fl. Hópurinn fékk stórkostlegar móttökur hjá Svíum og lofsamlega umfjöllun í blöðum um verkin og flutning þeirra.
Þau íslensku verk sem hópurinn frumflutti í Svíþjóð – þ.e. eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Leif Þórarinsson voru síðan flutt á tónleikum í Austurbæjarbíói 8. maí sama ár. Á þeim tónleikum voru einnig flutt ýmis erlend verk.
Félagið var sjaldan jafn virkt eins og fyrri hluta ársins 1966. Í júní voru haldnir tvennir tónleikar á vegum félagsins, aðrir voru helgaðir tónlist Igor Stravinskys og var m.a. flutt verkið Saga hermannsins, en á hinum tónleikunum voru flutt verk eftir íslensk og erlend tónskáld, Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, S. Revuelts, Ch. Ives., Erik Satie, J.K. Randall. S. Wholpe og D. Milhaud. Einleikari á báðum tónleikunum var Paul Zukowsky.
Vegna aukinnar starfsemi félagsins jókst vinnan og álagið á einstaka félagsmenn samtímis og útgjöldin jukust. Svo var komið að STEF krafði félagið um flutningsgjöld (mynd 6 á næstu síðu) af verkum sem flutt voru á vegum félagsins og var það einnig þess valdandi að tónleikahaldið varð dýrara. Félagið naut nokkurra opinberra styrkja, eða um 100.000 króna á ári. Á árunum 1968-71 hélt félagið tónleika sem hér segir:

1968:
Tvennir tónleikar, þar af aðrir með nýrri íslenskri tónlist.
1969:
Tvennir tónleikar í júní. Þeir fyrri með verkum eftir íslensk tónskáld og þeir seinni með kanadíska flautuleikaranum Robert Aitken. Á þeim tónleikum var m.a. flutt verkið Sonorities III sem er verk fyrir píanó og segulband eftir Magnús Blöndal Jóhannsson.

224 Nánar tiltekið 13. og 16. mars.

Dæmi 6
1970:
Í febrúar voru haldnir tónleikar helgaðir austurrískum tónskáldum en í október voru tvennir tónleikar, aðrir með verkum íslenskra tónskálda en hinir með verkum íslenskra og erlendra tónskálda, m.a. Webern og Britten.
Þar sem ekki komu til auknir styrkir til starfseminnar var farið var að halla undan fæti fjárhagslega fyrir félaginu. Samdráttur var óumflýjanlegur. Fór svo að gjaldkeri félagsins til margra ára, Sigurður Markússon, varð persónulega að greiða útgjöld og brúa þar með bilið fram að styrkveitingu næsta árs.
1971:
Þetta ár voru haldnir einir tónleikar á vegum félagsins en þeir voru helgaðir verkum Arne Nordheim. Flytjendur voru þekktir danskir hljóðfæraleikarar, Mogens Ellegaard harmónikkuleikari, Ingolf Olsen gítarleikari og Bent Lylloff slagverksleikari. Auk þeirra sá tónskáldið um að stýra segulböndum, en verkin voru öll fyrir hljóðfæri og segulband.

1972:
Starfsemi á vegum félagsins lá niðri.
1973:
Eins og sagði í upphafi þessa kafla þá var Musica Nova grasrótarhreyfing. Stofnendur félagsins þáðu aldrei laun fyrir vinnu sína á vegum þess. Upphaflegt markmið þeirra var að koma starfseminni af stað en svo tækju aðrir við og héldu henni áfram. Ein síðasta ósk félagsmanna var að halda veglega tónleika til minningar um Jón Leifs og í framhaldi af því hljóðrita nokkur kammerverka hans til útgáfu á hljómplötu. Æfingar voru hafnar á verkunum og ætlunin var að hljóðrita þau í Kaupmannahöfn en kostnaður við útgáfuna varð þessum áhugasömu og drífandi tónlistarmönnum ofviða og hætt var við verkefnið. Sama gilti um hátíðartónleikana eftir að Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika með verkum Jóns Leifs.
Síðust tónleikar á vegum félagsins í höndum frumkvöðlanna var umsjá þeirra á tvennum tónleikum á alþjóðlegri ISCM hátíð í Reykjavík árið 1973 (sjá nánar um hana síðar).

Tónleikastarfsemi á vegum Musica Nova lagðist niður um sinn eða fram undir 1981. Þó var félagið aldrei formlega lagt niður. Árið 1981 kom saman hópur tónskálda og hljóðfæraleikara og hélt starfseminni áfram undir merkjum félagsins. (225) Á næsta áratug átti starfsemin eftir að vera mjög blómleg á vegum þessarar nýju kynslóðar tónlistarmann, en vegna breyttra þjóðfélagshátta hefur starfsemin smátt og smátt lagst í dvala án þess þó að henni hafi þó formlega verið hætt. Það er aldrei að vita nema ungir baráttumenn eigi eftir að koma fram enn á ný undir merkjum félagsins með nýjar stefnur, ný viðhorf og nýja tónlist.

225 Í inngangi að tónleikaskrá félagsins Musica Nova fyrir veturinn 1983-1984 kemst Áskell Másson svo að orði: “Það var fyrir tveim árum, eða 1981, að hópur tónskálda og hljóðfæraleikara kom á fót félagsskap sem skyldi leggja áherslu á að kynna nýja tónlist með vönduðum flutningi á áskriftatónleikum, sem gerði þar með reglulega tónleika með nýrri tónlist í höfuðborginni að veruleika.” Í upphafinu hefði frekar átt að standa “fyrir tuttugu og tveimur árum, eða 1959….”

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is