Söngvarar

Nú á dögum syngja ekki aðrir en útlærðir söngmenn opinberlega einsöng í Reykjavík. Tími viðvaninganna er löngu liðinn og nú eru gerðar strangar kröfur. Útlærða söngmenn köllum við söngvara, og óperusöngvara köllum við þá, sem unnið hafa til þess. Að baki sér eiga þeir langt og kostnaðarsamt söngnám og hafa þeir lagt út á þessa braut með það fyrir augum að gera sönginn að ævistarfi. Nokkrir Íslendingar hafa fengið frama við óperur erlendis, en aðrir hafa sezt að hér heima og orðið að hafa sönginn að meira eða minna leyti í hjáverkum. Meðal þeirra eru beztu söngmenn þjóðarinnar.

En auk atvinnusöngvaranna hafa margir góðir raddmenn lært söng í lengri eða skemmri tíma. Þótt þeim hafi aldrei komið til hugar að leggja út á hina þyrnum stráðu listabraut. Þeir læra að syngja af sömu ástæðu og margir múskalskir menn læra að leika á píanó. Þetta er þeirra tómstundagaman.

Á síðasta fjórðungi 19. aldar voru Það áhugamenn, en ekki útlærðir söngvarar sem sungu opinberlega í Reykjavík. Þetta voru góðir raddmenn og smekkmenn á söng, sumir með öllu ólærðir, en aðrir höfðu þjálfað rödd sína um lengri eða skemmri tíma hjá söngkennurum í Kaupmannahöfn. Þeir notuðu tækifærið, þegar Þeir voru þar við nám eða önnur störf.

Hér á eftir verður minnst á nokkra helztu söngmenn í Reykjavík á Þessum árum.

Steingrímur Johnsen er fæddur í Reykjavík og ól þar allan aldur sinn, að undanteknum námsárunum í Kaupmannahöfn. Sennilega hefur hann lært söng hjá Jerndorff, því þann mann þekkti hann. Steingrímur var einn mesti söngmaðurinn í Reykjavík á sínum tíma og söng oft opinberlega. Um hann hefurr áður verið rætt.

Geir Sæmundsson dvaldi í Reykjavík meðan hann var í Latínuskólanum. Hann varð stúdent 1887. Þá söng hann einsöng með skólapiltakórnum; röddin var svo fögur og hrífandi á þeim árum, og söngurinn svo innblásinn, að kvenfólkið viknaði, þegar hann söng hjartnans lög. Hann hafði ljóðræna tenórrödd. Þá var Geir enn ekki farinn að læra söng en það gerði hann á námsárunum í Kaupmannahöfn. Geir segir sjálfur svo frá:
Ég var snemma gefinn fyrir söng, og þótti hafa rödd svo góða, að hún væri þess verð, að henni væri einhver sómi sýndur. Var ég svo heppinn að fá söngkennslu hjá einhverjum söngmenntaðasta manni Dana um þær mundir, Pétri Jerndorff, og var ég við söngnám hjá honum í hálft þriðja ár. Ekki varð þó af því, að ég gerði sönginn að ævistarfi mínu, þó að ég með því virtist eiga glæsilega framtíð fyrir höndum, og í rauninni harma ég ekki að svo fór, þó mér verði það stundum að hitna um hjartaræturnar, Þegar ég les um sigurfarir þeirra manna, sem lærðu söng með mér, og ekki gátu talist mér neitt fremri. (Úr Æviágripi Geirs, lesið upp við biskupsvígslu hans á Hólum 10. júlí 1910).
Óperusöngvarinn Jerndorff kenndi framsögn við Konunglega leikhúsið í Höfn. Samtímis Geir við söngnám hjá honum var Vilhelm Herold, sem síðar varð frægur óperusöngvari og dáður konsertsöngvari. Báðir þessir nemendur Jerndorffs urðu fyrir því áfalli, að óperera þurfti á þeim hálsinn, og eftir það höfðu þeir ekki eins fagra söngrödd og áður. Þetta kom fyrir Geir þegar hann bjó enn á Garði, og Herold er hann hafði sungið í þrjú ár við Konunglega leikhúsið. En góðir söngmenn voru þeir eftir sem áður og allur frægðarferill Herolds, bæði utanlands og innan, lá þá framundan.

Að loknu embættisprófi í Kaupmannahöfn í janúar 1894, fór Geir Sæmundsson heim til Íslands og var við kennslustörf í Reykjavík 1894-96. Þá söng hann opinberlega við ýms tækifæri. Eitt sinn héldu Þeir Geir og Steingrímur Johnsen saman söngskemmtun, sungu þá einsöngva til skiptis og auk þess saman nokkra dúetta.

Jón Jónsson Aðils var upplagður óperusöngvari, bæði röddin og persónan voru eins og sköpuð fyrir það hlutverk. Röddin var voldug og hreimfögur barytónrödd. Á stúdentsárum hans á Garði var oft tekið lagið. Danir kölluðu hann „Jónsson med den store stemme“. Það var lagt fast að honum að læra að syngja og ganga þá braut, margir höfðu á honum tröllatrú og buðust til að styrkja hann. Hann var þá enn við nám og bjó á Garði. Hann bað um umhugsunarfrest, sagnfræðin og sönglistin toguðust á um hann – sagnfræðin sigraði.

Árni Thorsteinson varð fyrst kunnur Reykvíkingum sem söngmaður. Tónskáldinu kynntust þeir síðar. Það var ekki fyrr en um aldamótin að farið var að syngja einstaka sönglög eftir hann opinberlega, og þjóðkunnur varð hann sem tónskáld, þegar fyrsta sönglagaheftið eftir hann hafði verið prentað árið 1907. „Í söngfélögum er gott að vera“ er haft eftir honum. Þar kunni hann vel við sig og í karlakórum söng hann allt frá því að hann var í Latínuskólanum og síðast í „17, júní“ undir stjórn Sigfúsar Einarssonar. Hann var við háskólanám í Kaupmannahöfn meðan „14, janúar“ starfaði, en þá söng hann í Stúdentasöngfélaginu danska. Árni hafði barytónrödd og söng 1. bassa.

Árni hætti háskólanámi og lærði ljósmyndafræði í Kaupmannahöfn 1897. Þá lærði hann jafnframt söng hjá prófessor Salmson, gömlum óprusöngvara. Söngnámið var að vísu stutt, aðeins fimm mánuðir, en þá hafði hann lokið ljósmyndanáminu og fór til Reykjavíkur. Hann kvaðst þó hafa haft mikið gagn af náminu, enda stundaði hann það vel. Árni setti síðan upp
ljósmyndastofu í Reykjavík. Hann söng eftir það opinberlega einsöng hér í bænum við ýms tækifæri, og hafði reyndar áður komið fram sem einsöngvari með karlakórnum „14. janúar“ árið 1896. Eitt sinn sungu þeir Árni og Jón Aðils opinberlega dúetta, í Reykjavík (1899).

Þórður Pálsson, síðar læknir í Borgarnesi, var ágætur söngmaður og mikill raddmaður. Hann varð stúdent 1896 og kandidat í læknisfræði 1902. Meðan hann var í Læknaskólanum söng hann oft í Reykjavíkurklúbbnum og á samkomum. Þótt aðrir hefðu meiri raddfegurð til að bera, Þá var Þórður vinsælastur allra söngmanna í Reykjavík á þessum árum, en það átti hann því að þakka, hve andríkur söngur hans var og hve vel hann túlkaði efni textanna. Það var einmitt Þórður, sem fyrstur kynnti hin óprentuðu sönglög eftir Árna Thorsteinson. Árni lýsir þessum vini sínum þannig, að hann hafi verið söngglaður, fjörmaður, gleðimaður og mikill drengskaparmaður. Ennfremur segir Árni; „Ég tel hann hafa verið einhvern mesta söngfugl Íslendinga og beztan allra til að flytja í tónum íslenzk ljóð og efni þeirra.“

Þá skal að lokum nefna nokkra söngmenn, sem komu fram sem einsöngvarar með kórum og við önnur tækifæri.

Benedikt Þ. Gröndal hafði mjúka barytónrödd og söng mikið í kórum, síðast í „17. júní“. Hann orti kvæðið „Um sumardag er sólin skín“ við lagið eftir Franz Abt, sem þessi kór söng og innleiddi hér á landi. Jón Sveinbjörnsson, síðar konungsritari, hafði mjúka einsöngsrödd og hafði þjálfað hana í söngtímum hjá prófessor Salmson, sem áður er nefndur. Hann var ágætur raddmaður, söng í „14. janúar“ og einsöng í viðlögum. Hendrik Erlendsson, síðar læknir í Hornafirði hafði barytónrödd, kórmaður og einsöngvari. Hann var smekkmaður á söng. Nickolín tannlæknir hafði einnig barytónrödd og kom oft fram sem einsöngvari. Júlíus Jörgensen var helzti gamnavísnasöngvari bæjarins, hafði þýða rödd. Hann var stjúpsonur Halbergs hótelhaldara á Hótel Island.

Góðar kvenraddir voru þá í Reykjavík. Guðrún Waage hafði mikla og fagra sópranrödd. Hún lærði söng í Kaupmannahöfn og söng opinberlega hér í Reykjavík við ýms tækifæri.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is