Söngvarar

Nú verður minnst á þá listamenn, hljómsveitir og kóra sem koma fram í tónlistarlífi Reykjavíkur á árunum 1930 til 1950 og verður fyrst talað um söngvara.
Söngvarar
Birgir Halldórsson, vesturíslenzkur tenórsöngvari, sem söng í Gamla Bíó í júlí og aftur í október 1945 með undirleik dr. Victors Urbancic. Röddin er ekki þróttmikil, en söngurinn fágaður. Birgir settist að hér heima og hefur komið síðan fram í sönglífi borgarinnar við ýmis tækifæri.

Einar Markan. Fæddur í Ólafsvík 17. júlí 1902. Af mörgum söngskemmtunum þessa raddmikla barýtónsöngvara skal hér nefna minningartónleika um tónskáldið Markús Kristjánsson árið 1935. Einar söng 9 lög eftir Markús með aðstoð Gunnars Sigurgeirssonar. Um haustið 1939 söng Einar í Gamla Bíó, allt lög eftir hann sjálfan, með undirleik Carls Billich.

Eggert Stefánsson. Hann söng í Dómkirkjunni í nóv. 1937 með undirleik Páls Ísólfssonar, og aftur í Gamla Bíó í júní 1938 með undirleik Carls Billich. Loks söng hann í Dómkirkjunni í febrúar 1947. Þetta voru kveðjuhljómleikar haldnir í tilefni af því, að nú hafði söngvarinn kvatt sönginn fyrir fullt og allt. Eggert var sérkennilegur maður. Barítónrödd (tenór-barítónn) hans var hreimfögur, en raddsviðið lítið. Hann valdi sér lög við hæfi raddsviðsins og söng einkum íslenzk lög. Íslenzk tónskáld standa í þakkarskuld við hann fyrir að hafa kynnt þjóðinni sönglög þeirra, einkum bróðir hans, Sigvaldi Kaldalóns.

Einar Kristjánsson. óperusöngvari. Þessi glæsilegi tenórsöngvari var orðinn Reykvíkingum kunnur fyrir söng sinn áður en hann fór utan til söngnáms, en hann lærði að syngja í óperuskólanum í Dresden 1931-33. Síðan var hann ráðinn lýrískur tenór við ýmsar óperur, eins og hér segir: Dresden 1933-36, Stuttgart 1936-38, Duisburg 1938-41, Hamborg 1941 til 31, júlí 1946 og Kaupmannahöfn 1949 til 31 júlí 1962. Auk þess söng hann um lengri eða skemmri tíma við óperuhús í öðrum borgum, t.d. í Stokkhólmi 1948, Berlín, München, Vínarborg og víðar. Í konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn var honum einkum falin hin vandsungnustu hlutverk í nýtízku óperum.

Er samningurinn við konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn rann út í júlílok 1962 fluttizt Einar með fjölskyldu sína til Reykjavíkur og tók þar við söngkennslu í Tónlistarskólanum. Hann söng þó jafnframt við og við opinberlega hér í borginni, meðal annars í óperum, t.d. Traviata 1953, en sú saga tilheyrir næsta tímabili.

Einar hélt fyrstu sjálfstæðu söngskemmtun sína í Reykjavík um vorið 1933 og var þá enn á námsbrautinni. Síðan söng hann opinberlega oft eftir það, í ágúst 1934, júlí 1936, í ágúst 1946, í apríl, júní og sept. 1947, og í sept, 1948, margar söngskemmtanir hverju sinni. Þess skal sérstaklega getið, að hann söng „Vetrarferðina“ eftir Schubert í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, með undirleik dr. Urbancic, textinn í íslenzkri þýðingu Þórðar Kristleifssonar kennara á Laugarvatni.

Einar sameinað í það tvennt, að vera góður óperusöngvari og góður ljóðsöngvari. Hann var framúrskarandi Schubertssöngvari.

Einar var fæddur í Reykjavík 24. nóv. 1910 og andaðist hér í borginni 24, apríl 1966.

Einar Sturluson. Hann söng í Gamla Bíó í júlí 1946 með aðstoð Páls Kr. Pálssonar, og aftur á sama stað í janúar 1950. Einar hefur ljóðræna tenórrödd, sem er hreimfögur, en ekki þróttmikil. Hann lærði að syngja í Svíþjóð hjá góðum kennurum, meðal annars hjá hinum heimsfræga tenórsöngvara Hislop. Einar hefur sungið óperuhlutverk í Osló og víðar í Noregi. Hann er smekkvís söngmaður og syngur músíkalskt.

Guðni Albertsson söng í Gamla Bíó í apríl 1947 með undirleik Carls Billich og Gunnar Kristinsson, barítónn, söng í Gamla Biói 2. okt. 1947 með undirleik Urbancic. Gunnar erkunnur kórmaður og hefur síðar sungið smálhlutverk í óperum.

Britta Held og Magnús Gíslason. Þau sungu í Gamla Bíó um sumarið 1944 ljóðræn lög. Ungfrúin er sænsk, en hann íslenzkur, bæði við nám í Svíþjóð. Hún hefur viðkunnanlega sópranrödd, en hann hljómfagra bassarödd. Ber að líta á þetta sem nokkurskonar nemendatónleika, en þetta voru efnilegir nemendur og fengur góðar viðtökur. Magnús Gíslason var síðar kunnur skólamaður, fyrst skólastjóri Skógaskóla, síðan námsstjóri í Reykjavík. Þau hjónin eru nú búsett í Svíþjóð.

Guðmundur Jónsson óperusöngvari. Hann er fæddur í Reykjavík 10. maí 1920. Hin fyrsta sjálfstæða söngskemmtun Guðmundar var haldin í Gamla Bíó í september 1943 með undirleik Einars Markússonar. Báðir voru þeir þá á förum til Vesturheims, Guðmundur til náms í söng, en Einar í píanóleik. Guðmundur var þegar orðinn Reykvíkingum kunnur fyrir söng sinn í Jóhannesarpassíunni og Árstíðunum áður um veturinn. Eftir Það söng Guðmundur í Gamla Bíó í nóvember 1944, ágúst 1945, janúar 1947 og janúar 1949, ávallt með undirleik Fritz Weisshappel. Auk þess kom Guðmundur fram sem einsöngvari með Karlakór Reykjavíkur, sem hélt árlega söngskemmtanir. Loks kom hann fram á nemendahljómleikum Péturs Á. Jónssonar óperusöngvara í Gamla Bíó 23. marz 1950, en þá sungu þar þrír nemendur Péturs, Þeir Guðmundur Jónsson, Magnús Jónsson, báðir síðar kunnir óperusöngvarar, og Bjarni Bjarnason læknir, sem var góðkunnur söngmaður.

Guðmundur Jónsson lærði fyrst söng hjá Pétri Á. Jónssyni, sem hafði tröllatrú á honum. Síðan lærði hann í Los Angeles í Bandaríkjunum í tvö ár, og enn síðar í óperudeild konunglega tónlistarskólans í Stokkhólmi. Hann var orðinn kunnur söngmaður meðan hann var enn við nám, eins og áður er sagt. En Það var ekki fyrr en óperur með íslenzkum kröftum voru fluttar hér í Reykjavík, að það rann upp fyrir mönnum, hve stórbrotinn söngmaður hann er. Þá fyrst sáu menn hann og heyrðu í því umhverfi, þar sem hann naut sín bezt. Fyrsta sönghlutverk hans á sviði þjóðleikhússins var Rigoletto í samnefndri óperu eftir Verdi (1951). Þar vann hann fullnaðarsigur. Síðan söng hann þetta hlutverk sem gestur í kgl. leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Hér skulu talin nokkur óperuhlutverk hans: Germont í Travíata eftir Verdi, Toníó í Pagliacci eftir Leancovallo, Alfio í Cavalleria rusticana eftir Mascagni, Marcello í La Boheme eftir Puccini og Scarpia í Tosca eftir sama höfund. Guðmundur er góður leikari og hefur einnig komið fram í óperettum, eins og Bláu kápunni, Leðurblökunni og Nitouche. Allur landslýður þekkir hans barítónrödd, sem er hreimfögur, voldug og sterk.

Hreinn Pálsson. Hann söng í Gamla Bíó haustið 1936 með undirleik Páls Ísólfssonar við góða aðsókn. Hann er oft áður búinn að syngja í Reykjavík, en eftir þetta heyrist hann sjaldnar. Hann hefur hrifið fólk með hinni ljóðrænu tenórrödd sinni, sem er í senn blæfögur og þróttmikil, og hann syngur smekklega. Lögin eru flest við íslenzka texta og við alþýðuskap.

Hreinn Pálsson hefur fengist við margt um ævina, fyrst skipstjóri og útgerðarmaður í Hrísey, útibússtjóri K. E. A. þar og oddviti í 6 ár. Forstjóri Olíuverslunar Íslands h.f. í Reykjavík síðan haustið 1948, en hefur nú látið af störfum sakir heilsubrests. Söngurinn hefur verið honum algjört tómstundastarf og hann lærði að syngja til að fullnægja löngun sinni að fullkomna fallega rödd. Listhneigðin er honum í blóð borin og metnaður hans var, að geta sungið eftir listarinnar reglum. Hreinn er fæddur í Ólafsfirði 6. júní 1901.

Kristján Kristjánsson. Hann er fæddur 6. júlí 1905. Hann hélt afmælistónleika í Gamla Bíó í júní 1945 í tvöföldum skilningi, bæði sem fertugur maður og tvítugur listamaður. Honum til aðstoðar voru þeir Fritz Weisshappel (píanó), Þórir Jónsson (fiðla) og Þórhallur Árnason (celló). Kristján hafði stundað opinberan söng um langt skeið og skapað sér vinsældir. Meðal annars söng hann lag eftir föður sinn, „Til fánans“, og var það vel til fundið, svo mætur söngmaður sem hann var á sinni tíð.

Kristján hefur bjarta tenórrödd, en styrkur hans er í því fólginn, hvernig hann syngur. Hann hugsar viðfangsefni sín og syngur þau síðan á listrænan hátt. Það var ávallt yndisþokki yfir söng hans og framburður hans var oft til fyrirmyndar. Íslendingar hafa vart átt annan söngvara músíkalskari og þar við bætist, að hann er söngvari hjartans. Vinsældir hans komu vel fram á þessum afmælistónleikum og voru fagnaðarlætin hlý og áköf.

Marínó Kristinsson. Fæddur 17. sept. 1910. Prestur í Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Hann söng í Fríkirkjunni í febrúar 1937 með aðstoð Páls Ísólfssonar. Tenórrödd hans er blæfögur, allmikil, og hann söng smekklega. Hann var kunnur í sönglífi Reykjavíkur fyrir einsöng með kórum og við önnur tækifæri.

Pétur Á. Jónsson óperusöngvari. (Sjá bls. 205). Eftir að Pétur var seztur að í Reykjavík varð hann mikill kraftur í sönglífi bæjarins, söng í óperettum, „Systurinni frá Prag“ eftir Wenzel Müller (1938), „Bláu kápunni“ eftir Walter Kollo (1938) og „Meyjarskemmunni“ eftir Schubert í desember sama ár (1938). Ennfremur söng hann í óperettunni „Brosandi land“ eftir Franz Lehar síðar. Auk Þess kom Pétur fram sem einsöngvari við ýms önnur tækifæri, stundum í sambandi við kórsöng.

Pétur er fæddur í Reykjavík 21. desember 1884 og varð sextugur árið 1944. Þá voru haldnir afmælishljómleikar í Gamla Bíó, sem voru með hátíðarsvip. Áður en söngurinn hófst, mælti Páll Ísólfsson nokkur orð fyrir minni söngvarans og dvaldi við þann kaflann í ævi hans, er frami hans var mestur á óperusviðum Þýzkalands og gat þess meðal annars, að frægir tónsnillingar hefðu talið sér sóma sýndan, ef Pétur var látinn syngja aðalhlutverkin í óperum eftir þá. Á eftir orðum Páls var söngvarinn hylltur með húrrahrópum, og svo hófst söngurinn.

Á söngskránni voru nokkur helstu trompin frá liðnum árum, bæði óperuaríur og íslenzk lög. Það var einmitt á óperusviðinu, sem Pétur naut sín bezt. Hann hafði raddstyrkinn, raddþolið og raddfegurðina. Þegar hann var á bezta skeiði, var ljóðrænn hreimur í hetjutenórrödd hans. Nú gætti þessara einkenna ekki eins mikið og áður, því raddirnar breytast með aldrinum, en ennþá var raddþrótturinn sá sami og einnig skapið. Óperuaríurnar á afmælishljómleikunum voru sungnar með yfirburðum hins þaulreynda söngmanns. „Sverri konung“ hefur enginn Íslendingur sungið betur en hann og sama er að segja um „Heimir“ Kaldalóns. Sérstaklega tilþrifamikil var meðferð hans á „Die beiden Grenadier“ eftir Schumann

Þessir hljómleikar sýndu að því fór fjarri, að Pétur væri búinn að syngja sig út þrátt fyrir sextugsaldurinn. Þótt hinsvegar því sé ekki að neita, að hann er ekki lengur jafngóður og í gamla daga, enda flestir tenórar löngu þagnaðir á hans aldri. Dr. Victor Urbancic lék á slaghörpu undir söngnum snilldarvel. Hljómsveit Reykjavíkur lék undir síðustu lögunum undir hans stjórn.

Sigurður Skagfield óperusöngvari. Hann dvaldi langdvölum erlendis, mest í Þýzkalandi og syngur þar í óperum. Hann syngur í Reykjavík, þegar hann heimsækir landið, meðal annars í Dómkirkjunni árið 1935, með aðstoð Páls Ísólfssonar, og söng þá lög við sálma eftir Matthías Jochumsson, og lagði þannig fram sinn skerf til 100 ára minningar skáldsins. Ennfremur söng hann hér í Reykjavík árið 1937. Á stríðsárunum var hann fyrst í Noregi og síðan í Þýzkalandi og söng þar í óperum. Undir stríðslokin slettist upp á vinskap hans við Nazista og var hann þá settur í fangabúðir, en úr þeim frelsuðu Bandamenn hann. Hann kom til Reykjavíkur eftir stríðslokin og söng í Austurbæjarbíó í febrúar 1948 með aðstoð Fritz Weisshappel, og í Dómkirkjunni með aðstoð Páls Ísólfssonar sama ár. Sigurður Skagfield hafði þróttmikla og glæsilega hetjutenórrödd.

Um söng konu hans, frú Inge Hagen Skagfield, er talað sérstaklega hér á eftir.

Stefán Íslandi. Hann er fæddur 1907 að Krossanesi í Seiluhreppi í Skagafirði. Söngferill hans er í fáum orðum sem hér segir: Hann lærði söng hjá. E. Caronna í Mílanó og kom fyrst fram á óperusviðinu árið 1933 í Florenz, þá söng hann Cavaradossi, aðalhlutverkið í „Tosca“. Síðan söng hann sem gestur í ýmsum óperum á Ítalíu og var á konsertferðalögum um Evrópu á árunum 1935-40. Árið 1938 var hann ráðinn sem gestur við konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn og var fyrsta hlutverk hans þar Pinkerton í „Madame Butterfly“. Hann var fastráðinn þar 1940 og söng þar síðan sem ljóðrænn tenór við góðan orðstír í nær þrjá áratugi, þar til hann tók við söngkennarastöðu við Tónlistarskólann í Reykjavík árið 1965. Meðan Stefanó var við kgl. leikhúsið í Kaupmannahöfn, söng hann þess á milli í Stokkhólmi og víðar, en oftast í Reykjavík. Hann var gerður að konunglegum hirðsöngvara árið 1949.

Hér í Reykjavík söng Stefán sumar eftir sumar, jafnan marga konserta við mikla aðsókn, t.d. í Gamla Bió 1937, 1938 og 1939. Síðan syngur hann ekki, af skiljanlegum ástæðum, öll stríðsárin, en sumarið 1946 kemur hann hingað með konu sína, Elsu Brems, sem er nafnkunn söngkona, og héldu þau hjónin hljómleika saman. Á hana verður nánar minnst síðar. Enn heldur Stefán söngskemmtanir hér í bænum sumrin 1948 og 1949.

Stefán er frægur fyrir sína viðhafnarmiklu og ljóðrænu rödd með hinum gullna ljóma. Þeir sem fylgst hafa með söngferli hans frá byrjun, vita, að hin fagra rödd hans er gjöf að ofan, en ekki árangur af löngu námi. Hann hefur samt ávaxtað sitt pund vel, því að þessa rödd hefur hann þjálfað rækilega í ítölskum skóla. Fögur hljóð út af fyrir sig gera engan mann að söngmanni, ef hann hefur ekkert annað til brunns að bera. Þau koma ekki fremur að gagni en vopnið þeim, sem kann ekki að beita því. Leyndardómurinn við söng Stefáns er sá, að hann hefur skap, fjör og snerpu og aðra persónulega eiginleika, til að gefa söngnum innihald. Þessvegna er jafnan bragð að því sem hann syngur, þótt honum geti verið mislagðar hendur, eins og öllum dauðlegum mönnum. Þessir eiginleikar, sem hafa gert hann að góðum söngvara, eru náttúrunnar gjöf eins og röddin, og þegar allt þetta er samfara fullkominni söngkunnáttu og stílvitund, þá er hann orðinn það sem hann er: söngvari par exellence.

Lengi framan af söng hann hér undir sínu rétta skírnarnafni Stefán Guðmundsson. En síðar tók hann sér nafnið Stefan Islandi. Nafnið skapaðist ósjálfrátt í meðförum blaðanna í Ítalíu. Í söngdómum var hann ýmist nefndur Stefán Guðmundsson eða hinn ungi Stefanó frá Íslandi, er loks varð úr: Stefanó Islandi. Var honum ráðlagt að taka það nafn upp, því það yrði Ítölum tungutamara og festist betur í minni. Þetta gerði hann. Eftir að hann hvarf frá Ítalíu nefndi hann sig íslenzka skírnarnafni Stefán – Stefán Islandi.

Töfrar raddarinnar ruddu honum veginn upp á óperusviðið, fyrst í Ítalíu og síðan í Kaupmannahöfn, en þar var hann aðaleinsöngvarinn við Konunglega leikhúsið síðan 1938, eins og áður er sagt, og til 1965. Hér hefur hann sungið í eftirtöldum óperum: Rigoletto, Carmen, Tosca, en sá söngur tilheyrir næsta tímabili.

Þorsteinn Hannesson óperusöngvari. Hann er fæddur 19. marz 1917. Eftir byrjunarsöngnám hjá Sigurði Birkis fór Þorsteinn um haustið 1943 til Englands og innritaðist í Royal College of Music í London. Að loknu námi var hann ráðinn sem hetjutenór að Covent Garden óperunni í London og þar var hann fastráðinn söngvari. Námsárin í London voru þrjú (1943-46). Fyrsta hlutverk hans við Covent Garden óperuna var Radames í „Aida“ eftir Verdi. Síðan söng hann þar mörg stór hlutverk, meðal annars í Wagnersóperum.

Áður enn Þorsteinn fór til Englands hélt hann kveðjuhljómleika í Gamla Bíó með að stoð dr. Victors Urbancic. Hann var þá orðinn kunnur fyrir söng sinn í Reykjavík við ýms tækifæri en nú var hann að kveðja. Hann skrapp hingað heim í sumarleyfum og söng í Gamla Bíó um haustið 1945, og í Tripolíleikhúsinu í apríl 1947 og enn söng hann í Reykjavík í júní 1949, þá búinn að dvelja í London samfleytt í 6 ár. Dr. Victor Urbancic aðstoðaði hann á öllum þessum hljómleikum.

Tenórrödd Þorsteins er þróttmikil og björt. Hann syngur skynsamlega, alveg eftir efni ljóðanna, og er söngurinn fyrir það áheyrilegur. Söngur hans í óperum hér í Reykjavík tilheyrir næsta tímabili, en hann hefur sungið hér eftirtalin hlutverk: Canio í „Pagliacci“ eftir Leancovallo, Cascada greifa í „Kátu ekkjunni“ eftir Lehar, Taminó í „Töfraflautunni“ eftir Mozart og korporal Mollberg í „Ulla Winblad“ eftir Carl Zuckmayer.

Nemendahljómleikar Péturs Á. Jónssonar, óperusöngvara í Gamla Bíó 23. marz 1950. Á þessum hljómleikum sungu þrír nemendur Péturs, þeir Bjarni Bjarnason læknir, Guðmundur Jónsson og Magnús Jónsson, báðir síðar óperusöngvarar. Allir áttu þeir söngferil að baki sér og voru þá orðnir góðkunnir söngmenn. Bjarni læknir hefur ljóðræna tenórrödd, er söngglaður og kunnur fyrir söng sinn í óperettum og við ýms önnur tækifæri. Um Guðmund Jónsson hefur áður verið talað, en hér verður nú minnst á Magnús nokkrum orðum. Magnús Jónsson, óperusöngvari, er fæddur 31. maí 1928 í Reykjavík. Eftir söngnám hjá Pétri Á. Jónssyni lærði hann í þrjú ár í Milano og síðar fjóra mánuði í Stokkhólmi. Hann var ráðinn sem lyriskur tenór við konunglega, leikhúsið í Kaupmannahöfn og söng þar í 10 ár (1957-67). Hér í Reykjavík söng hann Rodolfo í „La Boheme“ árið 1955, og árið eftir söng hann í „Kátu ekkjunni“ eftir Lehar. Ennfremur hefur hann nokkrum sinnum haldið sjálfstæðar söngskemmtanir í Reykjavík. Röddin er ljóðræn tenórrödd, töfrandi fögur, og söngurinn fágaður og smekkvís. Allt þetta tilheyrir næsta tímabili.

Þá verður hér minnst á erlenda söngvara, sem sungu í Reykjavík á Þessum árum.

Roy Hickman, brezkur barítónsöngvari. Hann var setuliðsmaður. Hann söng með aðstoð dr. Victors Urbancic í Listamannaskálnum í ágúst 1945 og í Gamla Bió í marz 1946. Ennfremur söng hann í „Messías“ eftir Händel í Fríkirkjunni í febrúar 1946. Hann var góður söngmaður og fékk góða aðsókn.

Einar Nörby, bassbarítónn, óperusöngvari og konunglegur hirðsöngvari, söng í Gamla Bíó í júlí 1946, með aðstoð konu sinnar frú Gudborg Nörby. Röddin var hljómmikil, blæfögur, karlmannleg og skýr sem málmur. Hann naut sín bezt í óperulögunum og var söngur hans með miklum menningarbrag.

Julius Colman söng hér í nóvember 1948 með aðstoð Fritz Weisshappel. Hann fékk fremur strangan dóm fyrir sönginn hjá dr. Urbancic í Morgunblaðinu.

August Giebel, þýzkur bass-barítónsöngvari, söng í Gamla Bíó í ágúst 1949 með aðstoð dr. V. Urbancic. Hann er víðkunnur óperu- og ljóðasöngvari, og sérstaklega kunnur fyrir hlutverk sín í Mozarts óperum. Hann söng hér lög eftir Mozart, Schumann, Loewe og Hugo Wolf. Framúrskarandi snjall söngmaður.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is