Orgelharmoníum í íslenskum kirkjum

Þessi þáttur var á dagskrá Rásar 1, 4. apríl 2000.


Góðir hlustendur!

Velkomnir á tónaslóð.

Við skulum hefja þenna þátt á að heyra Pál Kr. Pálsson leika fyrir okkur kóral og fúgettu í d- moll eftir Björgvin Guðmundsson

 

Við heyrðum Pál Kr. Pálsson leika kóral og fúgettu eftir Björgvin Guðmundsson.

Við erum nú smátt og smátt að kveðja 19. öldina í þessar umfjöllun um íslenskt tónlistarlíf.  Drepið hefur verið niður fæti í ýmsum heimildum frá þessum tíma og reynt að gera sér grein fyrir þeirri byltingu sem varð þegar hinum gömlu sálmasöngslögum sem ríkt höfðu í íslenskum kirkjusöng yfir 200 ár var ýtt til hliðar fyrir ný lög. Umskiptingin varð algjör.  Óhætt er að segja að um hafi verið að ræða kynslóðaskipti því menn tengdu gjarnan hin nýju lög unga fólkinu í landinu og gömlu lögin voru tengd eldri kynslóðinni.

En gamla fólkið var ekki endilega að hugsa um sjálf lögin. Það var ekki síður að hugsa um sjálft guðsorðið. Algengustu rökin á móti orgelum voru að þau stælu ekki aðeins lögunum frá fólkinu heldur og orðinu.  Ég vil nota þennan þátt til að vitna í nokkrar heimildir frá því í lok 19. aldar þar sem koma fram vangaveltur um ástandið í söngmálum kirkjunnar og viðhorfum manna til orgelanna og áhrifa þeirra.

En áður en við höldum lengra heyrum við Pál Kr. Pálsson leika Andante eftir Steingrím Sigfússon

 

Við heyrðum Pál Kr. Pálsson leika Andante eftir Steingrím Sigfússon.

Fyrir skemmstu fletti ég kirkjublaðinu og fann þar í aprílheftinu frá árin 1894 vangaveltur gamals meðhjálpara í grein sem hann kallaði Um söng vorn og sálma. Það eru nokkur athyglisverð atriði sem fram koma í þessari grein. Sem dæmi má nefna er talað um sönginn sem íþrótt, talað er um hin “gömlu lög”  sem forn ólög, Talað er um að orgelið steli orðinu frá fólkinu í sálmunum, fram kemur að menn hafa ekki sálmabækur með sér í messur né séu þær til í kirkjunum og eitt enn sem er mikilvægt. Menn setja samasemmerki með hinum gömlu lögum og gamla fólkinu og nýju lögunum og unga fólkinu. Þessi umbreyting var því ekki aðeins sú að skipt væri algjörlega um sönglög við kirkjuhaldið heldur var á ferðinni kynslóðaskipti – árekstrar sem ekki eru óþekktir í sögu mannkyns.

Til þess að gera sér betur grein fyrir hvað verið er að tala um skulum við heyra Guðmund Ingimundarson frá Bóndhól syngja sálminn Upp, upp mín sál og allt mitt geð í hljóðritun Jóns Pálssonar á vaxhólk frá árinu 1903.

 

Við heyrðum Guðmund Ingimundarson frá Bóndhól syngja sálminn upp, upp mín sál í hljóðritun frá árinu 1903.

Við skulum nú heyra hvernig ástandið var í orgelmálum í nokkrum próföstum landsins í lok 19. aldar.  Í aprílmánuði 1893 birtist lítil grein í kirkjublaðinu undir heitinu Harmonia en þar segir:

Harmonía hafa á síðustu 10-15 árum komið í býsna margar kirkjur hjer á landi og hjeraðsfundaskýrslurnar bera það með sjer, að þeim fjölgar óðum.  Ritstjóri Kbl. leyfir sjer að mælast til þess við prófastana, að þeir hver um sig gefi honum vísbendingu um, í hve mörgum krikjum pófastdæmisins harmónía eru notuð við guðsþjónustu á yfirstandandi ári, því að skýrsla um það frá öllu landinu mundi þykja einkar fróðleg bæði nú og seinna meir.  Það væri og nógu fróðlegt að vita, hve margir af þeim sem á hljóðfærin leika, hafa lært mennt sína hjá Jónasi Helgasyni í Reykjavík.

Tilvitnu lýkur

Á þessum tíma voru kirkjupróföstin 20 og í desembermánuði 1894 birtist svolítil samantekt úr þessari könnun og þar segir:

Af 20 próföstum landsins hafa einir 7 orðið við ítrekuðum áskorunum frá útg. Kbl., að senda blaðinu upplýsingar um það í hve mörgum kirkjum hljóðfæri sjeu notuð við guðsþjónustur.

  1. Í Árnesprófd. eru harmónía í 9 kirkjum af 28, Arnabæliskirkja fjekk fyrst harmóníum 1875 eða 1876, mest fyrir samskot sóknarmanna, er sjera Jens Pálsson gekkst fyrir. Öll hljóðfærin í prfd. eru að meira eða minna leyti gefin af söfnuðum, nema í Eyrarbakkakirkju, það gaf stórkaupmaður Lefolií einn.
  2. Í Rangárvallaprfd. eru harmóní í 6 kirkjum af 20
  3. í Mýrarprfd. eru 4 harmónía, kirkjur 11
  4. Í Vestur-Ísafjarðarpfrd. eru 3 harmónía en kirkjur 10. Þessi harmónía verða þó eigi notuð stöðugt vegna þess, að fastan organista vantar. Eigandi Mýrarkirkju, frú Guðný Guðmundsdóttir, hefir gefið ein harmóníið í þá kirkju
  5. Í Skagafjarðarprófd. eru 9 harmónía en kirkjur 22. Eigandi Víðimýrarkirkju, sjera Jakob Benediktsson, og eigandi Reykjakirkju, Jóhann hreppstjóri Pjetursson á Brúnastöðum hafa gefið hljóðfærin í sínar kirkjur.  Söfnuðir hafa annars að mestu gefið hljóðfærin.  Harmóníið í Hólakirkju var keypt eingöngu fyrir tombólu og lotterípeninga og kostaði hátt á 6. hundrað kr.
  6. Í Eyjafjarðarpófd. eru harmónía í 13 kirkjum, en vantar í 9. Af þessum 13 kirkjum eru 5 bændakirkjur og hafa eigendur 4 þeirra lagt til hljóðfæri að öllu leyti af kirknafje, eða með öðrum orðum gefið þau.  Í flestum hinum kirkjunum eru hljóðfærin fengin með samskotum, sumstaðar með styrk af fje kirkjunnar.  Fyrsta hljóðfæri kom í Akureyrarkirkju, og árið 1876 voru 2 önnur hljóðfæri komin í kirkjur þar í prfd.  Dýrasta hljóðfærið kom í Möðruvalla-klausturskirkju, keypt frá Englandi, og kostaði yfir 600 krónur.
  7. Í Suður – Þingeyjaprfd. eru 7 harmónía, kirkjur 18 og notuð við guðsþjónustur í þriðjungi kirknanna. Flest eru þau komin á síðustu 10 árum og fjölgar árlega. Meiri hlutinn mun gefinn af söfnuðum að einhverju leyti.

Frekari upplýsinga um þetta efni beiðist Kbl. ekki úr þessu.  En eigi væri úr vegi, að einhver fyndi köllun hjá sjer, að víkja að þeirri hættu, sem sumstaðar virðist standa af hljóðfærunum, – og þyrftu eigi langt að sækja dæmi til þess, – að söngurinn verður alveg óskiljanlegur, framburður orðanna kafna í óm hljóðfærisins. Hvað á að gjöra við slíku?

tilvitnun lýkur

Þessar upplýsingar er mjög athyglisverðar og einkum það síðasta. Virðist sem svo að almenn álit hafi ríkt um það að orgelin væru hinn mesti skaðvaldur og hreinlega eyðilegði kirkjusönginn. Ætli trúin hafi verið sterkari í 19. aldarmanninum – var þetta ekki í samræmi við upplýsingastefnuna – hin sterka trú og bókstaflega tilbeiðsla orðsins var á undanhaldi.

Við sklum nú heyra brot úr hljóðritunum Jóns Pálssonar. Það er Bjarni Þorkelsson sem syngur fyrst sálminn Annars erindi rekur, en af tæknilegum ástæðum vantar aðeins framan af sálminn. Síðan tónar hann tónlag sr. Ólafs Pálssonar, prófasts í Reykjavík.

Við heyrðum Bjarna Þorkelsson tóna í hljóðritun frá fyrsta áratug 20. aldar.

En vindum okkur nú í þessa grein sem ég minntist á og ber heitið : Um söng vorn og sálma, og tökum við aðeins þann hluta greinarinnar sem fallar um sönginn:

Um söng vorn og sálma.

(Kirkjublaðið, apríl 1894)

Jeg hefi nú bráðum í full 30 ár átt að segja yfir  sálmasöng í kirkjum og er gamall söngs- og sálmavinur.  Vil jég því leyfa mjer að ónáða hið góða kirkjublað vort  með litlu hálfyrði um söng og sálma hjá oss í seinni tíð,  eptir mínu viti og eptirtekt.

Hvað kirkjusönginn áhrærir, er hann ólíku betri  en hann var í mínu ungdæmi hvað íþróttina snertir; já,  hann er orðinn allur annar víðast hvar, þótt harla mis­jafn sje, því sumsstaðar nær bótin ekki nema til laganna  sem víðast eru sungin eptir vorum nýju nótnabókum,  eða  undir þeim lögum, sem breytt hefir verið úr fornu  ólagi eða innleidd eins og ný lög. Þó er hjer við nokkuð bæði athugavert og miður ákjósanlegt. Hinir eldri, karlar  og konur, eru optlega síður en ekki samróma unga fólk­inu. Mjög víða kvarta, þessir gömlu kirkjuvinir um, að  þeir hafi haft fremur skaða en ábata, á skiptunum ; bæði  segjast þeir sakna, sinna gömlu sálmalaga, sem orðið og  andinn frá æskudögum þeirra, hafi búið í, og þó sje hitt sem út yfir taki: spilið, orgelið, því það – segja þeir – ­steli frá sjer ekki einungis söngnum, heldur og orðinu.  Jeg þekki gamla menn, sem jafnan fylgdu tíðum í fyrri daga, en sem aldrei hafa til kirkju komið síðan orgelið  kom hjer í kirkjuna. Einn af þeim sagði mjer hjer á,  dögunum, að hann gæti varla, ógrátandi litið til guðshúss síns, síðan “þetta, fargan” tók frá honum alla ánægju og  uppbygging messunnar. Prestur minn, sem mjög ann  hinum nýja söng, hefir sagt mjer, að hvar sem hann vitji  sjúkra og fari með söng, spyrji hann fyrst að, hvort við­komandi kjósi heldur hið gamla eða, hið nýja, og kveðst  þá sjálfur syngja fyrir þá gömul vers undir gömlu lögunum. Hann syngur að vísu lítið, sauðurinn, en þá, kveðst  hann mega til, þar fáir hinna yngri vilji þá, byrja. Og  hví skyldu hinir yngri hneykzslast á þessu? Er maðurinn  ekki mestan part vaninn, og er ekki flestum kærast það  sem þeir ungir námu? Og er ekki flestum erfitt að læra gamlir nýja siði eða, listir? Trú og tilfinning, náð drottins og hjartans viðkvæmni er og ekki bundið við mann­legar reglur eða íþróttir. Því má og ekki neita, að  verulegur kirkju- eða, kórsöngur er orðið allt annað nú,  síðan sá, eiginlegi söfnuður er hættur að syngja, og söngurinn er mest-allur í höndum unga fólksins. Hann er að  fá, eins og íþróttalegri en undir eins ókirkjulegri blæ. Opt er það líka að söngmenn vantar og hljóðfærið er nálega eitt og allt, enda bætir þá ekki úr skák, ef spil­arinn er viðvaningur og hljóðfærið eptir því. En gjörum  samt ráð fyrir, að þetta jafni sig; þeir gömlu falla úr sögunni, en hinir yngri læra, fleiri og fleiri góðan söng,  og þegar þeir eldast, syngja, þeir með. En þetta, sem  hjer er bent á, gæti þó bent til þess, að vara þá við,  sem allt vilja, endurskapa, að vera, varkárir í reformum sínum, að þeir ekki rífi hveitikornin upp með ill­gresinu.

Við heyrðum Bjarna Þorkelsson syngja sálminn – Aðfangadagur dauða míns

Á undan sálminum. heyrðum við vangaveltur gamals meðhjálpara. Það er athyglisvert hve ríka áherslu menn lögðu á sjálft orðið – guðsorðið. Einnig hafa menn haft það á orði að gömlu lögin og guðsorðið hafi farið betur saman en guðsorðið með nýju lögunum.  Er ekki laust við að eitthvað sé til í þessu einkum ef haft er í huga að menn voru kannski meiri menn orðisins í framsetningu þess fyrr á öldum og fátt var í hinum gömlu melódíum sem gat truflað þessa framsetningu – ekki var það allavega léttleikinn, glaðværðin og rytminn í laglínunum sem skemmdi þar fyrir.

Páll Kr. Pálsson lék Ostinato og fúgettu eftir Pál ísólfsson

Stefán Guðmundsson frá Fitjum í Skorradal botnaði þessa grein hins gamla meðhjálpara og birtist hún í kirkjublaðinu í mars árið 1995. Ýmislegt kemur þar fram en einkum er athyglisverð hugleiðingin um framburð orðanna – hve mönnum sé misjafnlega tamt að bera þau fram.  Greinin ber yfirskriftina “Um harmónía i kirkjum og kirkjusöng.

Í desember-nr. Kbl. f. á,. er spurt hvað gjöra eigi til að afstýra hættu þeirri, sem í sumum kirkjum virðist stafa af hljóðfærunum, sem sje þeirri: að söngurinn verði alveg óskiljanlegur, og framburður orðanna kafni í hljómi hljóðfærisins. Þetta sama,segir gamli meðhjálparinn í apríl-nr. Kbl. f.á., að hinir gömlu kirkjuvinir kvarti  um. Sjálfur hefi jeg heyrt sömu umkvörtun, og hún er á góðum rökum byggð. Það er æði torvelt að greina í sundur orð sálmanna í þeim kirkjum, sem mikill ómur er í, einkum ef sterkrómað hljóðfæri er brúkað.

Frá kirkjulegu sjónarmiði er það allt annað en æski­legt, að framburður orðanna kafni í hljómi hljóðfærisins; því að jafnaði munu sálmarnir vera, allvíða, það bezta sem fram er flutt í kirkjunni. Sálmarnir eru einkanlega ætlaðir til þess að hrífa og kalla fram hinar innilegustu, göfugustu og heitustu tilfinningar mannlegrar sálar. Þessi áhrif nást því að eins, að menn viti hvað farið er með, heyri eða sjái orð sálmanna, og þessu næst, að þeir sjeu bornir fram með viðeigandi framburði. Mönnum hefir fyrir löngu síðan komið saman um, að söngur væri hinn heppilegasti framburður sálma. Og sönglögin eru ekki annað en ákveðið form hins sönglega framburðar, eða með öðrum orðum, lög, sem sálmarnir eiga að berast fram eptir.

það sem einkum var fundið að hinum eldri kirkju­söng hjer á landi var, að ekki var fylgt af öllum, sem sungu, vissum lögum nákvæmlega. Mönnum var svo hætt við að syngja hverjum með sínu nefi, vildi svo söngurinn verða ósamróma og því ófagur; því fegurð söngsins útheimtir að syngjendur í hverjum söngflokki fylgi stranglega sömu lögum.

Svo komið yrði í veg fyrir að lögin væru rangt sungin; hefir verið tekið upp að brúka harmonia í kirkj­um, því þau þykja einkar vel fallin til að halda syngjendunum við lögin. Og svo til prýðis; því satt er það, að hljóðfærið gefur söngnum mildari og þýðari blæ, og dregur úr því sem ófagurt kann að vera við rödd eins eður annars söngvara., einkum þeirra sem lítt kunna að stýra rómnum og laga hann. Enn fremur þykir flestum hægara og ljettara að syngja með hljóðfæri en án þess, og kemur það sjer vel þar sem fátt er um söngmenn.

Af því að þessir kostir óneitanlega fylgja notkun harmóníanna við kirkjusöng, hygg jeg að ekki væri fram á það farandi að nema þau úr kirkjum, í þeim tilgangi að orð sálmanna heyrðist þá betur, enda mundi lítið vinnast við það; því heyrt hefi jeg líka, umkvörtun yfir söng í kirkjum þar sem ekki er brúkað hljóðfæri, eink­um ef margraddað er sungið: »Jeg heyri ekki greini­lega hvað farið er með ef jeg kann ekki sálminn«. Mun það helzt koma af því, að allir bera ekki orðin fram eins sökum mismunandi málfæris, og máske ekki hverja samstöfu á nákvæmlega jafn-löngum tíma, svo eru sum­ir samhljóðendurnir íslenzku ekki svo þægilegir viðfangs í söng fyrir hvern sem er.

Jeg skal nú segja yður gömlu og góðu kirkjuvinir, og annars yður öllum, sem heyra vilja, kirkjusönginn,­ekki einungis fyrir hljómsins skuld, heldur og orðsins ­frá, ráði sem jeg hefi haft, hafi jeg ekki þótzt heyra sálmana fyrir söngnum : Jeg hefi flett upp í sálmabók­inni minni sálmi þeim, sem byrjað er að syngja, og fylgt með augunum hverju orði jafnóðum og það var sungið, og hefir mjer þá fundizt jeg heyra vel hvað sungið var. Þetta ráð kostar eitt sálmabókarvirði að vísu, og allir geta reynt það, því flestir munu þeir læsir og heilskyggn­ir, er til kirkju koma. Ef hver maður færi að hafa með sjer sálmabók til kirkju, gæti það og orðið til þess, að fleiri tækju þátt í söngnum smátt og smátt, en nú á sjer stað víða, og væri þess ekki vanþörf, þar sem einn eða tveir verða stundum að mestu leyti að halda uppi söng. Jeg heft aldrei heyrt svo góðan mannsraddasöng í kirkjum, að mjer ekki hafi þótt hljóðfærið bæta sönginn, og gjöra hann áhrifameiri, ef lögin voru leikin og sungin rjett, og samkvæmt anda, þeirra.. Söngvarar og hljóðfæraleikendur í kirkjunum eru skyldir til, íþróttar­innar vegna að minnsta kosti, að Syngja lögin eptir kröf­um listarinnar, og gjöri þeir það eptir fremsta megni, mun þeim ekki með rjettu verða brugðið um, að þeir gjöri kirkjusönginn að nokkurskonar kómedíu-gargi. Menn verða að forðast að syngja, bænar og iðrunarsálma með hersöngvahreim eða. sálma sorglegs efnis með gleði­blæ, því sje þess ekki gætt, verður söngurinn ókirkju­legur. Menn ættu sem bezt að temja sjer, að haga söngn­um eptir efni sálmanna, að svo miklu leyti sem hægt er laganna. vegna. En harmónia ættu að komast í hverja einustu kirkju á landinn.

Fitjum í Skorradal 10. febr. 1895

Stefán Guðmundsson  

Í lok þessarar greinar kom örlitil athugasemd frá ritstjóranum:

Engin málsvakning í Kbl. hefir bergmálað jafnvíða og þessi. Ritstjórinn hefir fengið fjölda brjefa frá leik­mönnum, kunnugum og ókunnunugum og nokkrir prestar hafa og lagt orð í með. Allir að kalla kenna hið sama ráð, sem greinarhöfundurinn, þó hallast einn þeirra, sem sent hefir Kbl. greinarstúf, bóndi hjer sunnanlands, rosk­inn maður eptir rithöndinni að dæma, jafnvel að því, að sleppa hljóðfærinu við kirkjusöng, sje ekki auðið »að finna upp það hljóðfæri, sem ekki kæfir eins orðið, eins og harmónia gjöra, því það finnst mjer lítt hafandi«.  Jón bóndi Jónsson á, Munkaþverá, í Eyjafirði kemur með það ráð, að presturinn lesi sálminn á undan »hægt og vel greinilega«. Jeg má fullyrða að sjera Jón Bjarnason sagði mjer, að hann og sennilega hinir aðrir íslenzku prestar í Ameríku hafi þann sið, sem mun vera tekinn eptir þarlendri tízka. Að óreyndu finnst manni, að það hljóti að vera ófagurt og truflandi.

Ráðið, að hver hafi rneð sjer sálmabók til kirkjunn­ar, er eflaust hið allra bezta, en sá, er gallinn á, að bók­in er of dýr til þess að ráðinu verði fylgt. Það er eigi svo að skilja að bókin sje svo dýrt seld eptir stærð sinni, með hinu háa ritlaunagjaldi til endurskoðunarnefndar­innar. Þegar það fellur burt, sem almenningur á fulla heimtingu á, getur bókin selzt innbundin á 2 kr. Og svo má bæta því við, þótt það kunni að láta miður vel í eyrum manna, að það er ekki nema fullur helmingur sálmanna,- segjum tveir hlutir,-sem er og verður sung­inn í kirkjum og heimahúsum.-Sú kemur tíðin, að sálma­bókin verður stytt að mun, og verður bók að betri. Hún á að kosta 1 krónu bundin og komast í vestisvasa, og þá getur hver fermdur safnaðarlimur eignazt hana og yngt hana upp, en það þarf opt að gjöra við mikið notaðar bækur í ljelegum húsakynnum.

Við heyrðum heyrðum Guðmund Ingimundarson syngja tvo gamla sálma.

Við höfum nú heyrt ýmsar vangaveltur manna í hinum kirkjulega geira íslenskrar menningar hvað varðar framfarir í tónlistarmálum kirkjunnar. Auðvitað snerist allt um sálmasöng – annar tónlistarflutnigar var ekki í kirkjunum nema þá kannski forspil og eftirspil organistanna sem það gátu.  Legg ég nú þennan heim til hliðar að sinni.

Við kveðjum þessar vangaveltur um kirkjusönginn á 19. öldinni og heilsum 20. öldinni með sálmalögum fyrir orgel eftir Leif Þórarinsson. Það er Páll Kr. Pálsson sem leikur á orgel Hafnarfjarðarkirkju.

Við heyrðum Pál Kr. Pálsson leika Sálmalög fyri Orgel eftir Leif Þórarinsson á orgelið í Hafnarfjarðarkirkju.

Þættinum er lokið í dag.

Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is