Nýr Ísmús opnar!

Ísmús er gagnagrunnur á slóðinni ismus.is (Opnast í nýjum vafraglugga) sem geymir og birtir á vefnum gögn er varða íslenska menningu fyrr og nú: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta. Margvíslegur aðgangur er skapaður að þessu efni, m.a. í gegn um efnisorðaleit. Verkefnið er í umsjáTónlistarsafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Opnast í nýjum vafraglugga).

Ísmúsverkefnið á þegar um 17 ára sögu og var í upphafi einungis ætlunin að birta myndir af íslenskum músíkhandritum og upplýsingar um þau. Með tímanum hefur áherslan breyst og nú opnar Ísmús breiðan aðgang að tónlistar- og sagnamenningu og ýmsum heimildum um menningarsögu þjóðarinnar. Hér koma því fram áður óþekktir möguleikar til rannsókna og heimildaöflunar af ýmsum toga, fyrir almenning, sérfræðinga, nemendur og kennara.

Það efni sem Ísmús heldur utan um og birtir má skipta í þrjá meginflokka:

  • Handrit og prent – Nær öll handrit sem innihalda nótur af einhverjum toga og varðveitt eru í íslenskum söfnum auk mynda af nótum í eldri prentuðum bókum. Til að gefa dæmi má nefna skinnhandrit frá kaþólskum tíma, sálma- og messusöngsbækur (t.d. 2. útg. Hólabókar frá 1619 og 6. útg. Grallarans frá 1691) og Íslensk þjóðlög sr. Bjarna Þorsteinssonar sem út kom 1906-1909.
  • Hljóðrit – Meðal annars vaxhólkar Jóns Pálssonar frá 1903 sem eru elstu hljóðrit íslensk sem varðveist hafa. Hljóðritasöfn Jóns Leifs, Jónbjörns Gíslasonar og Hjálmars Lárussonar frá fyrstu áratugum 20. aldar eru hér einnig aðgengileg. Af nýrri söfnum má nefna hljóðrit frá síðustu áratugum 20. aldar sem Fræðafélag Vestur-Húnvetninga lét gera og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hefur skráð, og viðtöl tekin laust fyrir árið 2000 við tónlistarmenn í tengslum við ritun bókar um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lang umfangsmest er þó hið sístækkandi þjóðfræðisafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem að stærstum hluta var hljóðritað á vegum stofnunarinnar og Ríkisútvarpsins á seinni hluta 20. aldar, í öllum sveitum landsins og einnig í Íslendingabyggðum vestan hafs. Hér opnast ómetanlegur aðgangur að fortíðinni með hljóðritunum þar sem yfir 2.000 einstaklingar rifja upp gamla tíma, segja sögur, syngja kvæði og sálma og kveða rímur og vísur.
  • Orgel í íslenskum kirkjum – Nær allar kirkjur landsins hafa verið heimsóttar og ljósmyndaðar utan sem innan. Sálmur hefur auk þess verið leikinn á orgel kirknanna inn á myndband og hljóðfærið skráð. Eldri hljóðfæri hverrar kirkju hafa og verið mynduð og skráð eftir föngum. Ætlunin er að safna hér saman og birta eins ítarlegar upplýsingar og mögulegt er um söng- og músíklíf hverrar kirkju.

Eftirfarandi upptalning gefur hugmynd um það gagnamagn sem nú er aðgengilegt almenningi í Ísmús:

41.966  hljóðrit
     192  handrit og bækur
  2.644  einstaklingar
     438  kirkjur
     514  orgel
12.633  ljósmyndir
     706  myndskeið

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnar Ísmús formlega við athöfn í Salnum í Kópavogi, föstudaginn 8. júní nk. kl. 17:00. Stutt ávörp verða flutt og sýnd dæmi um afar merkilegt efni sem finna má í grunninum. Einnig munu Sigurður Flosason, Pétur Grétarsson og Snorri Sigfús Birgisson flytja tónlist sem byggir á gömlum hljóðritum sem aðgengileg eru í Ísmús.

Nánari upplýsingar gefa:
Tónlistarsafni Íslands:
Bjarki Sveinbjörnsson – sími: 570 1693 / 824 6413
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:
Rósa Þorsteinsdóttir – sími: 525 4020 / 847 0870
Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is