Meira um píanóleikara, fiðluleikara og aðra listamenn

Á næsta tímabili verður talað um píanóleikara, fiðluleikara og aðra listamenn, sem þá koma fram. Meðal þeirra eru píanóleikararnir Ásgeir Beinteinsson, Guðrún Kristinsdóttir, Gísli Magnússon, Guðmundur Jónsson og Jón Nordal, Meðal þeirra eru ennfremur fiðluleikararnir Einar G. Sveinbjörnsson, Ingvar Jónasson, Jón Sen og Þorvaldur Steingrímsson og klarínettleikarinn Gunnar Egilson. Sumir þessara listamanna voru þegar komnir fram á þessu tímabili og orðnir kunnir í tónlistarlífinu fyrir einleik á nemendatónleikum Tónlistarskólans, samleik á kammermúsíktónleikum, auk þess sem fiðluleikararnir og klarinettleikarinn léku í hljómsveitum. Á næsta tímabili halda þeir sjálfstæða tónleika og leika einleik með Sinfóníuhljómsveitinni. Jón Nordal var þá orðinn kunnur sem tónskáld, en eftir það kemur hann fram sem píanóleikari með Sinfóníuhljómsveitinni nokkrum sinnum og leikur eitt sinn með hljómsveitinni píanókonsert eftir sjálfan sig.

Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari hafði þá í mörg ár leikið á veitingastöðum bæjarins, lengst af í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, en á næsta tímabili, (1955) leikur hann frægt fiðluverk með Sinfóníuhljómsveitinni „Spánska sinfóníu“ (Symhonie espagniole) eftir Lalo.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is