Listamannavikan 1942

Á Hátíðartónleikum listamannavikunnar í Gamla Bíó 22. nóv. 1942 var leikin Introduktion og Passacaglia í f-moll eftir Pál Ísólfsson. Þetta er sama verkið og uppfært var á norrænni tónlistarhátíð í Kaupmannahöfn árið 1938 og veigamesta hljómsveitarverkið, sem fram kom á listamannavikunni. „Fjórir dansar“ eftir Jón Leifs var fyrsta verkið á efnisskránni. Þetta eru íslenzk rímnalög í hljómsveitarbúningi. Þjóðdansarnir eru alkunnir og orðnir hjá okkur nærri klassískir. „Tilbrigði um íslenzkt sálmalag“ eftir Árna Björnsson er viðkunnanlegt verk og aðgengilegt. „Tilbrigði um forníslenzkt sálmalag“ eftir Hallgrím Helgason er mikið hljómsveitarverk og mjög svo eftirtektarvert. Þjóðlagaútsetningar Karls O. Runólfssonar voru frumlegar og skemmtilegar. Hann hefur gott lag á að skrifa fyrir hljómsveit.

Á þessum tónleikum sungu frú Guðrún Ágústsdóttir og Pétur Á. Jónsson nokkur lög. Frúin söng lög eftir Þórarinn Jónsson, en Pétur söng lög eftir Markús Kristjánsson, þar á meðal „Bikarinn“. Dr. Victor Urbancic stjórnaði Hljómsveit Reykjavíkur, sem flutti verkin.

Kammermúsíkkvöld listamannavikunnar var haldið í Háskólanum 25. nóvember 1942. Fyrst lék ungfrú Guðríður Guðmundsdóttir, kennari við Tónlistarskólann, einkar skilmerkilega tilbrigði um lagið „Stóð ég úti í tunglsljósi“ eftir Björgvin Guðmundsson. Þetta er allmikið píanóverk og sýndi tónskáldið á sér nýja hlið með laginu, en hann er fram að þessu aðallega kunnur fyrir sönglög sín. Hann virðist sterkari á svellinu í sönglögunum, ekki sízt kórlögunum. Strokkvartettskafli eftir Emil Thoroddsen var leikinn þarna. Er þetta fallegur kafli, handbragðið listfengt og hljómarnir ferskir. Mesta athygli vakti „Stef með tilbrigðum fyrir fiðlu og píanó“ eftir Helga Pálsson. Þetta verk var líka mjög vel flutt af þeim Árna Kristjánssyni og Birni Ólafssyni. Helgi hafði áður vakið eftirtekt með fiðluverkum sínum, sem höfðu verið flutt á háskólatónleikum og í útvarpinu. Athyglin hefur beinst að þeim einkum fyrir það, hve músíkin er fögur og lifandi og lögin vel samin. Þetta verk hlaut mikið lof erlendra listdómara, þegar það var flutt á norrænu tónlistarmóti, svo og fleiri verk eftir hann. Kristján Kristjánsson söngvari söng nokkur lög eftir Bjarna Þorsteinsson, Árna Thorsteinsson og Emil Thoroddsen með undirleik síðastnefnda tónskáldsins.

Listamannavikan gaf gott yfirlit um það, á hvaða stigi íslenzk tónlist stóð á þessum tíma. Sönglögin voru yfirleitt undir áhrifum rómantísku stefnu 19. aldarinnar, en meðal þeirra voru nokkrar hreinar söngperlur. Hljómsveitarverkin voru ungur gróður sem var stutt á veg kominn en þó höfðu komið fram þroskuð verk, sem spáðu góðu um framahaldið.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is