Listamannaþingið 1950

Listmannaþingið var helgað vígslu Þjóðleikhússins og voru þá flutt verk eftir, Jón Leifs, Pál Ísólfsson og dr. Urbancic, en höfundarnir stjórnuðu þeim sjálfir. Ennfremur voru fluttir tveir kaflar úr píanókonsert eftir Jón Nordal sem höfundurinn lék, en dr. Urbancic stjórnaði hljómsveitinni. Loks var fluttur forleikur að Fjalla Eyvindi eftir Karl O. Runólfsson, en Róbert Abraham stjórnaði hljómsveitinni.

Þá skal minnst á tónleika í Þjóðleikhúsinu 5. maí 1950, þar sem flutt voru íslenzk verk. Leikin var klarínettsónata eftir Jón Þórarinsson, Gunnar Egilsson lék á klarínettinn með undirleik Rögnvalds Sigurjónssonar. Karlakórinn „Fóstbræður“ söng þjóðlög í raddsetningum Þórarins Jónssonar, Þuríður Pálsdóttir söng lög eftir föður sinn, Pál Ísólfsson, með undirleik Jórunnar Viðar, Magnús Jónsson söng tvö lög eftir Björn Franzson og Guðmundur Jónsson söng tvö lög eftir Helga Helgason. Þá var flutt Þjóðlagasamstæða ( fiðluverk) eftir Helga Pálsson.

Það skal tekið fram, að nær allir tónleikar í Reykjavík á þessu tímabili, ef undan eru teknir samsöngvar karlakóra og blandaðra kóra, en þó ekki alltaf, voru fluttir á vegum Tónlistarfélagsins. Þetta á jafnt við um tónleika erlendra sem íslenzkra listamanna, uppfærslur á stórum söngverkum með. hljómsveitarundirleik, svo og tónleika Hljómsveitar Reykjavíkur, kammermúsíktónleika o.fl. Þessir tónleikar voru ávallt auglýstir sem tónleikar Tónlistarfélagsins.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is