Listamannaþingið 1945

Þessir tónleikar voru haldnir í Tjarnarbíó 27. maí 1945. Þeir vöktu athygli fyrir það, að þar voru færð upp íslenzk nútímatónlist í fyllstu merkingu orðsins, því að öll voru verkin ný af nálinni, og auk þess á sviði hljóðfæralistar. Þarna voru engin verk eftir eldri kynslóðina, heldur eingöngu verk eftir yngri kynslóðina, sem lagt hafði lönd undir fót á slóðum, þangað sem gömlu tónskáldin okkar hættu sér örsjaldan eða aldrei. Hér birtizt vel gerður strokkvartett, fyrsta íslenzka fiðlusónatan, svíta og önnur hljóðfæraverk. Það mátti að sjálfsögðu benda á ýms bernskubrek í sumum þessara tónsmíða, en meira skipti það, að allir þessir höfundar áttu það sameiginlegt, að 19. aldar menn vilja þeir ekki vera. Þeir sækja fram, vilja ekki lengur hjakka í sama farinu og gömlu tónskáldin, og birta hræringar samtíðarinnar í tónsmíðum sínum, hver með sínum hætti. Það er grózka í íslenzkri tónlist eftir þessum tónsmíðum að dæma.

Strengjasveit Tónlistarskólans lék fyrst „Sex íslenzk þjóðlög fyrir strokhljómsveit“ eftir Hallgrím Helgason. Tónskáldin okkar hafa lagt rækt við þjóðlagaraddsetningar, allt frá Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Sigfúsi Einarssyni, sem raddsetti þau vel að gömlum hætti. En eftir að Jón Leifs birti þjóðlagaraddsetningar sínar, þá hefur hann varpað nýrri birtu yfir þjóðlögin og beint og óbeint haft áhrif á önnur íslenzk tónskáld, sem við þau hafa fengist. Þjóðlagaraddsetningar Karls O. Runólfssonar eru athyglisverðar og frumlegar, og þjóðlagaraddsetningar Hallgríms Helgasonar eru sérkennilegar og bera menntun hans glöggt vitni. Sumum mun þykja svipurinn heldur þungbúinn og alvörugefinn hjá svo ungum manni, en ekkert verður um það fullyrt, hvort þetta eru skapgerðareinkenni eða tímabundið fyrirbrigði, en það mun tíminn leiða í ljós. Árni Kristjánsson og Björn Ólafsson léku fyrstu íslenzku fiðlusónötuna og er, hún eftir Karl O. Runólfsson. Karl fer sem endranær sína eigin götu, en sónatan ber merki þess, að um frumtilraun er að ræða í þessum stíl. Jón Nordal var þá ungur maður, innan tvítugsaldurs. Átti hann þarna verk fyrir fiðlu og píanó, er hann nefndi „Systurnar í Garðshorni“, en þær heita Ása, Signý og Helga: Ennfremur lék strengjasveit eftir hann tvo dansa. Jón er kunnáttumaður góður, þótt ungur væri, og bera þessi verk vitni um fágaðan smekk, eru með ljóðrænu ívafi, sem, gera þau heillandi. Mun vart jafn ungur maður hafa farið eins myndarlega af stað sem tónskáld hjá okkur. Helgi Pálsson átti á þessum tónleikum athyglisverðan strengjakvartett, sem samin er sem stef með tilbrigðum og fúgu. Helgi hefur tæknina í lagi og skrifar engar línur í verk sín án tilefnis eða út í bláinn. Eru verk hans þaulhugsuð og vel byggð, í þeim er ljóðræn fegurð, heiðríkja og hógvær andi.

Strengjasveit Tónlistarskólans uppfærði hljómsveitarverkin undir stjórn dr. Victors Urbancic, strengjakvartett skólans lék kvartettinn eftir Helga Pálsson, en þeir Árni Kristjánsson og Björn Ólafsson léku „Systurnar í Garðshorni“, eins og áður er sagt.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is