Kristján Kristjánsson hljómsveitarstjóri (KK)

Kristjan_Kristjansson

Tónlistarsafni Íslands hefur borist að gjöf 13 kassar af nótum og gögnum frá Kristjáni Kristjánssyni hljómsveitarstjóra. Verður verðugt verkefni í framtíðinni að minnast starfs hans sem frumkvöðuls í dægurtónlist á Íslandi.

Kristján Kristjánsson fæddist í Syðstakoti í Miðneshreppi 5. september 1925. Hann lést á heimili sínu 2. júní síðastliðinn. Kristján var sonur Sigrúnar Elínborgar Guðjónsdóttur saumakonu, f. 7. október 1904, d. 10. febrúar 1971, og Kristjáns Karls Kristjánssonar prentara, f. 14. nóv. 1902, d. 25. maí 1977. Vegna veikinda móður sinnar ólst Kristján upp hjá móðurforeldrum sínum til fermingaraldurs.

Kristján kvæntist hinn 31. júlí 1949 Erlu Wigelund, f. 31. desember 1928. Foreldrar hennar voru þau Vilborg Dagbjartsdóttir, f. 26. desember 1911, d. 20. janúar 1988, og Peter Wigelund, f. í Þórshöfn 25. júní 1899, d. 22. desember 1974. Börn Kristjáns og Erlu eru: 1) Þorbjörg, f. 7. desember 1949. Dætur hennar eru Erla, f. 23. nóvember 1967, og Elínborg, f. 4. júní 1971, Sigurðardætur. 2) Pétur Wigelund, f. 7. janúar 1952, d. 3. september 2004. Eiginkona hans er Anna Linda Skúladóttir, f. 19. júlí 1957. Börn þeirra eru Íris Wigelund, f. 9. okt. 1980, Kristján Karl, f. 5. nóvember 1984, og Gunnar Eggert, f. 9. febrúar 1989. 3) Sigrún Júlía, f. 4 nóvember 1959, gift Jóhanni Ásmundssyni, f. 30. mars 1961. Börn þeirra eru Auður Elísabet, f. 12. apríl 1982, Ásmundur, f. 5. ágúst 1986, og Ragnar Pétur, f. 7. apríl 1994. 4) Elísabet, f. 7. mars 1958. Börn hennar eru Theodór, Þorbergur, Jónína Guðný og Kristmundur Axel.

Kristján lauk eins árs námi frá Verzlunarskóla Íslands en eftir það lá leiðin til Bandaríkjanna. Hann stundaði nám í saxófón- og klarinettleik árin 1946-47 við Juilliard School of Music í New York. Þegar heim kom, árið 1947, stofnaði hann KK-sextettinn sem hann stjórnaði af mikilli röggsemi allt til ársloka 1961 en þá lagði hann saxófóninn á hilluna. Þrátt fyrir að hljómsveitin leystist upp í kjölfarið hafði Kristjáni tekist að setja mark sitt á íslenska tónlistarsögu, m.a. með því að bera hingað til lands nýja strauma frá Bandaríkjunum. Kristján lagði mikinn metnað í allt sem viðkom hljómsveitinni. Á þeim tíma tíðkaðist það ekki að hljómsveitir æfðu áður en spilað var opinberlega en Kristján krafðist þess að vel væri æft, meðlimir væru í hljómsveitarbúningum og lögin væru vel útsett. Kristján átti einnig stóran þátt í því að fólk fór að líta starf hljómlistarmanna alvarlegum augum. Tónlistin var starf sem fólk hafði að aðalatvinnu en hvorki sem aukastarf né tómstundagaman. Árið 1965 stofnaði hann, ásamt eiginkonu sinni Erlu, Verðlistann við Laugalæk. Árið 1980 stofnaði hann svo Litlu fluguna sem var sérverslun með fluguhnýtingarefni þar sem hann gat samtvinnað tvö af sínum helstu áhugamálum, laxveiðar og fluguhnýtingar. Kristján starfaði þar allt til hann lét endanlega af störfum.
Heimild: Morgunblaðið (Opnast í nýjum vafraglugga)

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is