Karl O. Runólfsson 1900-1970

Karl O. Runólfsson er fæddur í Reykjavík 24. okt. 1900 og hefur átt þar heima mestan hluta ævinnar. Hann hefur verið áberandi kraftur í tónlistarlífinu, spilað á trompet og fiðlu
í hljómsveitum, síðast í Sinfóníuhljómsveitinni, stjórnað lúðrasveitum, kennt í Tónlistarskólanum, en í vitund þjóðarinnar er hann fyrst og fremst tónskáld.

Foreldrar hans eru Runólfur Guðmundsson frá Árdal í Andakílshreppi í Borgarfirði og kona hans Guðlaug Margrét Guðmundsdóttir frá Saltvík á Kjalarnesi. Runólfur stundaði algenga vinnu til sjós og lands, en síðast var hann vegavinnuverkstjóri.

Hugur Karls hneigðist snemma að tónlist. 13 ára gamall byrjaði hann að spila í Lúðrasveitinni Svani hjá Hallgrími Þorsteinssyni. Hjá Hallgrími lærði hann seinna tónfræði og hjá Þórarni Guðmundssyni fiðluleik. En þetta var nú allt til gamans gert, því ætlunin var að læra prentiðn – það var þó lífvænleg atvinna. Hann lauk námi í prentiðn 18 ára gamall og var við þau störf næstu árin á eftir. En tónlistin lét hann ekki í friði og hann tók þá ákvörðun, að leggja prentiðnina á hilluna og ganga óskiptur tónlistinni á hönd. Það kostaði hann nokkra baráttu að velja þessa leið. Röddin í brjósti hans benti honum á hana, en efasemdirnar kvöldu hann. Prentarastaðan hefur ávallt verið talin góð atvinna, og á þeim árum var hún trygg en  að öðru máli er að gegna um störf tónlistarmanna, ekki sízt á þessum árum, þegar hvorki var til útvarp, tónlistarskóli né hljómsveit með launuðu starfsliði. Var ekki hyggilegra að hafa tónlistina í hjáverkum? Hann reyndi að hamla á móti og þagga niður röddina í brjósti sínu. Hann eyðilagði handritin af þeim tónsmíðum, sem hann var búinn að semja, og þagði í nokkur ár. En þá kom að því að stíflan sprakk og hann samdi „Den farende Svend“, þetta litla sönglag, sem er hrein perla. Síðan hefur hann ekki reynt að hætta að semja lög.

Þegar þessi ákvörðun var tekin var Karl orðinn 25 ára gamall. Hann fór þá til Kaupmannahafnar, lærði að leika á trompet hjá Lauritz Sörensen og á fiðlu hjá Axel Jörgensen, en báðir þessir kennarar hans voru í konunglegu hljómsveitinni. Ennfremur lærði hann að útsetja lög fyrir hljómsveit hjá Dyring, sem var stjórnandi lífvarðarsveitar konungsins. Í Kaupmannahöfn var hann í tvö ár, en nokkrum árum síðar hélt hann áfram námi í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lærði þá tónsmíði, fyrst hjá dr. Franz Mixa og síðan hjá dr. Victor Urbancic, á árunum 1934-1938, svo og að útsetja lög fyrir hljómsveit. Í skólanum lærði hann ennfremur fiðluleik hjá Hans Stepanek.

Meðan Karl dvaldi í Kaupmannahöfn lék hann í hljómsveitum, m.a. í öllum Beethovensinfóníunum, nema þeirri níundu, svo og helztu sinfóníum Mozarts og Haydn og fleiri frægum hljómsveitarverkum. Þetta var góður skóli og í honum fékk hann náin kynni af þeim hljóðfærum sem notuð eru í hljómsveitum. Þá fékk hann þar og fyrstu kynnin af nýtízku tónlist, sem þá þótti harla öfgafull, eins og t.d. tónsmiðum Stravinskys. Ef til vill má rekja til þessara ára áhrifin í mörgum síðari tónsmíðum Karls, sem eru djarfar og með nýtízkubrag þótt á annan hátt sé en hjá hinum miklu fyrirmyndum í tónlistinni.

Eftir að Karl var kominn heim frá Höfn var hann í Reykjavík við ýms störf, en þá fór hann til Akureyrar og var þar við kennslu og þjálfun lúðrasveitar bæjarins í fimm ár. Hann settist aftur að í Reykjavík árið 1934 og hefur síðan verið hér virkur kraftur í tónlistarlífinu. Hann fór þó öðru hvoru út á land til að þjálfa lúðrasveitir, meðal annars á Ísafirði og víðar, en í Reykjavík hefur hann stjórnað Lúðrasveitinni Svani í 21 ár, lengur en nokkur annar, og ennfremur stjórnaði hann lúðrasveit í Hafnarfirði í 3 ár. Og ekki eru þó öll hljómsveitastjórn hans þar með talin, því að hann stjórnaði hljómsveit Leikfélags Reykjavíkur um skeið. Jafnframt þessum störfum var hann hljóðfæraleikari í hljómsveitum hér í Reykjavík, fyrst Hljómsveit Reykjavíkur, þar sem hann lék fyrst á fiðlu og síðar á trompet, og í Sinfóníuhljómsveitinni til ársins 1955, þar sem hann lék á trompet. Loks skal geta þess, að Karl var á árunum 1939-1964 kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík í hljómfræði og trompetleik, en frá 1955 hefur hann stjórnað Lúðrasveit barna- og unglingaskóla Reykjavíkur.

Af þessi upptalningu má sjá, að tónlistarstörf Karls hafa verið mörg og margvísleg, en á sviði lúðrasveitanna hefur hann verið einn helsti forystumaðurinn.

En merkastur er Karl O. Runólfsson sem tónskáld. Fyrstu tónsmíðar hans eru sönglög, bæði einsöngslög og kórlög. Þau eru ljóðræn og samin í hefðbundnum 19. aldar stíl, en með persónueinkennum höfundarins. Meðal þeirra eru einsöngslögin „Den farende Svend“ , „Hirðinginn“, „ Í fjarlægð“ og, karlakórlögin „Förumannaflokkar þeysa“ og „Nú sigla svörtu skipin“. Í íslenzkum sönglagaheftum birtust síðar eftir hann smálög fyrir kórsöng, sem sum hafa vekið verðskuldaða athygli, eins „Hrafninn situr á hamrinum“ (Þorst. Gíslason), „Heimir gekk með hörpu sína“ (Jóhannes úr Kötlum) og „Maríuvers“, sem er úr leikritinu „Jón Arason“, frumlegt lag og sérkennilegt. Í þessum lögum er stíllinn orðinn fastari en í hinum fyrstu sönglögum hans, sem sum eru fremur losaraleg í byggingu. Af þessum sönglögum má sjá, að Karl er frumlegt tónskáld með ljóðræna og dramatíska æð.

Þegar frá leið varð stílbreyting á tónsmíðum Karla og má rekja hana til þess að hann fær rækileg kynni af ströngum kontrapunkt hjá kennara sínum dr. Mixa, og um leið myndast hjá honum alveg nýtt viðhorf til tónlistarinnar. Dr. Mixa benti honum á, að mörg íslenzk þjóðlög væru samin á þeim öldum, er strangur kontrapunktur var allsráðandi í tónlist, og þessvegna væru þau vel fallin til slíkrar raddsetningar í línum og hljómum. Karl fór þá að glíma við þjóðlögin okkar og raddsetti þau m.a. fyrir hljómsveit eingöngu og eru þær raddsetningar frumlegar og skemmtilegar. Hann er tónskáld, sem hugsar „orkestralt“.

Með vaxandi tökum á efni og formi óx Karli áræði og réðst þá í stærri verkefni. Hann semur þá einkum hljóðfæralög, sum í stóru broti eins og sónötur og sinfóníur. Jafnframt verður hann djarfari í hljómum, því hann vill vera nútímamaður í listinni og semja tónverk, sem bera það með sér, að þau eru samin af manni, sem lifir á 20. öldinni, en ekki þeirri 19. Þetta nýja viðhorf tónskáldsins kom fram í fiðlusónötu, sem flutt var á listamannaþinginu í Reykjavík 1945. Sónatan er skapmikil og samin af mikilli vandvirkni, tritonus-spent stef gengur gegnum alla þættina. Í sónötunni er eitthvað nýtt og vilji til að fara ekki troðnar slóðir.

Af því sem að framan er sagt, er ljóst, að Karl vill ekki hjakka í sama farinu og gömlu tónskáldin okkar um aldamótin síðustu. Þeir, sem enn þekkja ekki nema fyrstu sönglögin, og þeir eru margir, geta þó af þeim séð, að þau eru samin af manni, sem hefur hlotið gáfuna í vöggugjöf. Og þeir, sem þekkja einnig hin síðari verk höfundarins, hljóðfæraverkin, sjá, að þau eru samin af framsæknum manni, sem vill birta í list sinni hræringar samtíðarinnar. Karl O. Runólfsson hefur hlotið veglegt sæti á tónskáldabekk þjóðarinnar, og það sæti skipar hann með sóma.

Karl O. Runólfsson er afkastamikið tónskáld á okkar mælikvarða. Hér á eftir verða taldar, nokkrar helztu tónsmíðar hans, en sú upptalning er hvergi nándar nærri tæmandi. Auk þeirra sönglaga, sem áður hafa verið nefnd, skal nefna „Söngur bláu nunnanna“, „Allar vildu meyjarnar eiga hann“, „Vorljóð“ (duett), „Dýpsta sæla og sorgin þunga“. Um þjóðlagaraddsetningar hans hefur áður verið talað, en hann raddsetti sum þjóðlögin fyrir einsöng með undirleik píanós, önnur fyrir blandaðan kór með undirleik hljómsveitar og enn önnur eingöngu fyrir hljómsveit. Þá skal nefna fiðlusónötu, trompetsónötu, strokkvartett, sinfóníu, andante fyrir cello, þrjá balletta, tvær hljómsveitarsvítur, „Á krossgötum“ (hljómsveitarverk) og forleik að leikritinu „Fjalla Eyvindi“ og forleik að leikritinu „Jóni Arasyni“. Ennfremur hefur hann samið sex kantötur.

Eins og að líkum lætur um mann, sem svo mikil skipti hefur haft af stjórn lúðrasveita, þá hefur hann samið hressileg göngulög fyrir hornaflokka, þar á meðal „Reykjavíkurmars“, sem  hann hefur tileinkað og gefið fæðingarborg sinni.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is