Jón Laxdal

jon–laxdalJón Laxdal (1865 – 1928)
Jón Laxdal er fæddur á Akureyri 13. október 1865. Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson hafnsögumaður og kona hans Friðbjörg Guðrún Grímsdóttir bókbindara Laxdal á Akureyri. Ólst hann upp í foreldrahúsum til 12 ára aldurs, en fór þá til Eggerts Laxdals, móðurbróður síns, og starfaði við verzlun hans á Akureyri til 18 ára aldurs. Árlangt var hann bókhaldari við Höpfnersverzlun á Blönduósi í forföllum annars manns (1883-84). Tvítugur að aldri (1885) gerðist hann bókhaldari við Knudtsonsverzlunina í Keflavík og var þar í sex ár, en fór þá um haustið 1891 utan og dvaldi vetrarlangt í Kaupmannahöfn (1891-92). Vorið eftir kom hann heim og gerðist bókhaldari í Reykjavík við sömu verzlun (Knudtson-verzlunina). Um veturinn 1895 varð hann forstjóri Tangsverzlunar á Ísafirði og gegndi því starfi í 13 ár (1895-1909). Árin 1909-1910 var hann erlendis í þeim erindum að kynna sér bankastörf í Danmörku og Skotlandi. Eftir það settist hann að í Reykjavík og gerðist brátt umsvifamikill kaupsýslumaður. Nokkrum árum fyrir andlát sitt varð hann ræðismaður Tjekkoslóvakíu hér á landi. Jón Laxdal varð bráðkvaddur á heimleið til Íslands, eftir heilsubótardvöl erlendis, hinn 7. júlí 1928, og skorti þá tæplega 3 mánuði í 63 aldursárið. Það var hjartað, sem bilaði.

Jón Laxdal lærði ungur að leika á hljóðfæri hjá Magnúsi Einarssyni organleikara á Akureyri og byrjunaratriðin í hljómfræði lærði hann hjá Birni Kristjánssyni, síðar bankastjóra, sem þá var á Akureyri. En ofan á þann grundvöll byggði hann síðan með sjálfsnámi og sýna lög þau, sem hann hefur samið, hve honum hefur orðið ágegnt í þeirri grein.

Jón Laxdal var duglegur kaupsýslumaður, starfsmaður mikill, forsjáll og áreiðanlegur í viðskiptum, enda varð hann vel stæður efnalega. En tónlistin var líf hans og yndi.  Á yngri árum hafði hann verið kirkjuorganisti á Akureyri, þá innan 18 ára aldurs, og flest árin, sem hann var í Keflavík, var hann organisti við Útskálakirkju og stundum einnig við Hvalsneskirkju. Á Ísafirði stóð hann fyrir söngfélögum. Á árunum 1892-95, þegar hann var bókhaldari við Knudtson-verzlunina í Reykjavík, söng hann í karlakórnum „14. janúar“ undir stjórn Steingríms Johnsen. Sigfús Einarsson söng þá einnig í kórnum og segir hann, að Jón Laxdal hafi verið einn af atkvæðamestu meðlimum kórsins og hrókur alls fagnaðar. Jón Laxdal var einn af stofnendum söngfélagsins „17. júní“ árið 1912, og reyndist þá sem fyrr hinn ágætasti félagsmaður, segir Sigfús, sem var söngstjórinn. Þeir Sigfús og Laxdal stofnuðu formlega „Hljómsveit Reykjavíkur“ árið 1925 og var Laxdal formaður hennar meðan hann lifði.

Árið 1907 komu út tvö kunnustu sönglögin eftir hann: „Fuglar í búri“ og „Sólskríkjan“. Bæði lögin voru samin löngu áður og orðin kunn af söngskemmtunum fyrir aldamótin. Árið 1910 kom út safn af sönglögum fyrir fjórar ósamkynja raddir, sem hann hafði tekið saman. Flest lögin eru útlend, en nokkur eru íslenzk, þ.á.m. sex frumsamin eftir hann sjálfan. Af þeim hafa tvö orðið sérstaklega vinsæl: „Oft um ljúfar, ljósar sumarnætur“ og „Drottinn, sem veittir frægð og heill til forna“. Fyrrnefnda lagið mun vera fyrsta sönglag höfundarins og hafði áður birzt í tímariti.

Á aldarafmæli þjóðskörungsins Jóns Sigurðssonar 17. júní 1911 heyrðist í fyrsta sinn hið snjalla lag Jóns Laxdals „Vorvísur“ („Sjá roðann á hnjúkunum háu“) við kvæði Hannesar Hafsteins. Á þeirri stundu vakti ljóð og lag mikla hrifningu. Lagið kom út sérprentað árið eftir, bæði í raddsetningu fyrir karlakór og blandaðan kór.

Jón Laxdal samdi lög við tvo kvæðaflokka eftir Guðmund Guðmundsson: „Helga hin fagra“ og „Gunnar á Hlíðarenda“. Hinn síðarnefndi var sunginn í Bárunni hér í Reykjavík á fimmtugsafmæli tónskáldsins, 13. okt. 1915, af karlakórunum „17. júní“ og einsöngvurum undir stjórn höfundarins. Lagaflokkar þessir komu út árið eftir og urðu sum lögin vinsæl, sérstaklega „Bergljót“ og tvísöngurinn milli Gunnars og Kolskeggs.

Að loknum samsöngnum var tónskáldinu haldið samsæti í veitingasalnum uppi á loftinu í Bárunni. Ræður voru fluttar og heillaóskir bárust og voru lesin upp. Meðal þeirra var kvæði eftir Guðmund Magnússon skáld, sem hljóðar þannig:

Sæll vertu, söngfuglinn góði
sólskin í tónum
hefurðu fært oss á förnum
fimmtíu árum.
Lengi mun nafn þitt, Laxdal,
ljóma í söngvum
ástsæld og aðdáun vafið

Nokkur sönglög Laxdals hafa komið út sérprentuð.

Árið 1910 „Syngið, syngið, svanir mínir“ og árið 1912 „Vorvísur“, eins og áður er sagt. Árið 1916 komu út lagaflokkarnir „Helga hin fagra“ og „Gunnar á Hlíðarenda“. Árið 1925 komu út 11 einsöngslög og árið 1948 heildarútgáfa af öllum einsöngslögum hans, útgefin af Guðrúnu, dóttur hans og miðkonunnar Elínar, dóttur Matthíasar skálds Jochumssonar. Ennfremur hafa þau sönglög Laxdals, sem komið hafa inn í alþýðusöng þjóðarinnar, verið birt í íslenzkum söngvasöfnum og öðrum íslenzkum nótnabókum.

Tónskáldinu lýsti Sigfús Einarsson í minningargrein þannig: „Sönglög hans eru ekki samin af lærdómi, heldur af meðfæddri tónlistargáfu, sem fékk, því miður, aldrei að þroskast til hlítar. Sætti hann að því leyti sömu kjörum og mörg önnur listamannsefni á voru landi. Hann var tilfinninganæmur maður og viðkvæmur í lund, eins og lög hans bera vott um. Þau eru söngræn, innileg og þýð. Hafa sum af þeim hlotið miklar vinsældir og verið sungin um allt land.“

Ennfremur segir Sigfús um þennan góðvin sinn í sömu grein: „Jón Laxdal var vænn yfirlitum, fjörmaður og gleðimaður. Þjóðkunnur var hann fyrir löngu vegna sönglaga sinna, enda eru nokkur þeirra alþjóðareign. Og fyrir þau munu fleiri þakka en vitað er um.“

Jón Laxdal var þríkvæntur. Fyrsta konan var Kristín Egilsdóttir bókbindara Jónssonar. Þau voru barnlaus og slitu samvistum. Önnur konan var Elín Matthíasdóttir, sem áður er nefnd. Dóttir þeirra er Guðrún Laxdal, kaupkona í Reykjavík. Þriðja konan var Inger, fædd Leimeier, ættuð frá Jótlandi. Þau áttu ekki börn.

Elín Laxdal var ein af beztu söngkonum bæjarins og söng oft opinberlega. Hún andaðist úr spönsku veikinni 1918, aðeins 34 ára að aldri. Þau hjón sömdu og gáfu út „Barnasöngvahefti“. Áður hefur verið rætt um þær systur, Elínu og Herdísi, og þátt þeirra í sönglífi bæjarins.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is