Íslensk tónlist

Upp úr 1930 fór íslenzk tónlist smám saman inn á nýjar brautir og verður fjölbreyttari en áður. Fram að þessu höfðu íslenzk tónskáld einskorðað sig við sönglagið, en lítið sinnt öðrum greinum listarinnar. En með nýrri tónskáldakynslóð, sem nú fer að láta að sér kveða, verður breyting á þessu. Áhuginn beinist nú að hljóðfæralist, því að þessi unga kynslóð hafði haft kynni af hljómsveit og allskonar hljóðfæraleik. Fyrstu tilraunirnar voru sumar fálmkenndar og tónsmíðarnar minntu á skólastíla, en með vaxandi tökum á efninu urðu til tónsmíðar fyrir hljóðfæraleik, sem eru íslenzkri tónlist til sóma.

Það er að vísu of fast að orði kveðið, að íslenzk tónskáld hafi ekki samið hljóðfæralög fyrir 1930. Sveinbjörn Sveinbjörnsson var þegar fyrir aldamótin búinn að semja píanólög, fiðlulög og hljómsveitarverk. Sönglögin urðu samt mikill meiri hluti af tónsmíðum hans. Jón Leifs var búinn að semja sín fyrstu hljómsveitarverk fyrir 1930 og Þórarinn Jónsson sitt fræga fiðluverk „Prelúdía og tvöföld fúga um nafnið BACH“. En þetta eru undantekningar. Íslenzk tónskáld fram að 1930 eru öll, að Jóni Leifs undanteknum, fyrst og fremst söngvatónskáld. Sum þessi söngvatónskáld sömdu þó síðar einstaka hljómsveitarverk.

Áður en þessu tímabili lýkur (1950) er þjóðin orðin auðugri að allskonar hljóðfæraverkum, fyrsta píanósónatan (Hallgr. Helgason) var þá fyrir löngu samin, sömuleiðis strokkvartett (Helgi Pálsson) og hljómsveitarverk (Karl 0. Runólfsson o. fl.). Þjóðin hafði eignast íslenzka óperettu („Í álögum“ eftir Sigurð Þórðarson, 1944); en íslenzk ópera og íslenzk sinfónía voru þá enn ósamdar. Þessi verk komu síðar, óperan 1963 (Þorkell Sigurbjörnsson) og sinfónían sama ár (Leifur Þórarinsson).

Hér eru ekki tök á að gera viðhlítandi skil öllum þeim íslenzku tónverkum, sem flutt voru opinberlega í Reykjavík á þessu tímabili. Kórarnir, bæði karlakórar og blandaðir kórar, sungu ávallt mikið íslenzk lög, mörg ný. Minnst hefur áður verið á óratóríu Björgvins Guðmundssonar og kantötuna hans „Íslands þúsund ár“, svo og á Alþingishátíðarkantötu Páls Ísólfssonar og kantötu Karls 0. Runólfssonar („Vökumaður, hvað líður nóttunni“).

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is