Iðnó

Iðnaðarmannahúsið (Iðnó)
Iðnó var reist laust eftir 1894 og var mikið og vandað hús á þeirra tíma mælikvarða. Þetta var lengi fullkomnasta samkomuhúsið í bænum. Þar voru haldnir hljómleikar, dansleikir, stjórnmálafundir og allskonar mannfagnaður, og síðast og ekki sízt leiksýningar. Í vitund Reykvíkinga hefur Iðnó verið fyrst og fremst leikhús og er það enn.

Framan af voru söngskemmtanir haldnar í Iðnó, t. d. í janúar 1897 er þar samsöngur karla- og kvennakórs, sem syngur bak við tjaldið. Fleira var á skemmtiskránni, harmoníumsóló, hornablástur, karlakór og samleikur á 5 horn, 1 flautu, 3 fiðlur og 2 harmoníum. Síðast á skránni er „Lífið í Reykjavík“ en það eru lög eftir ýmsa, samansett af Helga Helgasyni. Þetta hefur verið fjölbreytt skemmtu.

„Músíkfélag Reykjavíkur“  sem gekkst fyrir fjölbreyttum skemmtunum með söng og hljóðfæraleik, hélt þar hljómleika í janúar 1898 og aftur í maí sama ár. Þá lék Boilleau barón á celló, en hann var snillingur á heimsmælikvarða á það hljóðfæri.

Verða nú ekki taldar fleiri söngskemmtanir í Iðnó. Þegar „Báran“ hafði verið reist laust eftir aldamótin, þótti þar sérstaklega góð hljómskilyrði og var það hús úr því lengi mest notað til hlómleikahalds.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is