Aldamótabókin 1801

Á seinni hluta 18. aldar varð mikil breyting á andlegu lífi manna um alla Norðurálfu. Kenningin um „mannréttindin“ var þá farin að ryðja sér til rúms og kom róti á huga manna og vakti lýðinn. Kjörorð frönsku stjórnarbyltingarmannanna seint á öldinni var: frelsi, jafnrétti og bræðralag. Hér er ekki staður til að ræða þau áhrif, sem mannréttindakenningin hafði á pólitískan gang sögunnar, heldur verður með fáum orðum vikið að því, hvern þátt hún átti í að móta menninguna og þjóðlífið.

Fram að þessum tíma voru veraldleg og andleg gæði að miklu leyti séreign æðri stéttanna og „lærðu“ mennirnir sátu svo að segja einir inni með alla bóklega þekkingu. Alþýðan, í þrengri merkingu orðsins, var fáfróð og fyrirlitin og bar skarðan hlut frá borði lífsins. Mannréttindahugsjónin fól í sér viðurkenningu á tilverurétti hennar og það hratt af stað nýrri menningarstefnu, hinni, svonefndu upplýsingarstefnu, sem nefnd er á útlendu máli Rationalismus, en sú stefna hafði það tvennt að markmiði, að efla vísindin og að hefja almenning á hærra menntunarstig. Þetta var því í senn vísinda- og fræðslustefna.

Upplýsingarstefnan er vísindaleg rannsóknarstefna og í ritun guðfræðinganna er beitt sögulegri gagnrýni, sem  hefur verið bókstafstrúarmönnum fyrr og síðar stöðug hneykslunahella. Trúarlíf manna fór þá kólnandi, því að þetta var tími skynsemistrúar. Og þetta hafði áhrif á kirkjusönginn, eins og kirkjuorganistinn Wilhelm Stahl segir í bók sinni um sögulega þróun evangelískrar kirkjutónlistar (Berlín 1920). Um liturgíuna segir hann: „Á tímum upplýsingarstefnunnar ríkti skynsemistrú, sem risti ekki djúpt. Þessi stefna spillti mjög guðsþjónustuforminu. Í almennri guðsþjónustu skyldi fella niður þættina með latnesku (og grísku ) nöfnunum (Kyria, Gloria, Credo, Präfation), því þeir voru taldir „óviðeigandi í evangelískri kirkju“. Ennfremur var iðulega þýzkum liturgískum þáttum sleppt. Oft var guðsþjónustan ekki annað en prédikun og nokkrir sálmar, sem söfnuðurinn söng. Sálmarnir voru nú ekki lengur valdir eftir dögum kirkjuársins, en miklu fremur var kosið að láta söfnuðinn syngja einhverja andlega söngva. Þar sem guðsþjónustuforminu var haldið, varð að gera á því breytingar eftir kröfum tímana. Gömlum og góðum textum var breytt í anda upplýsingarstefnunnar, og í stað gregoríönsku laganna komu nú lög samin af samtíðarmönnum“.

Um kirkjusönginn segir sami höfundur: „Á þessari vantrúaröld komst kirkjusöngurinn á lakara stig en áður. Mörgum gömlum, kjarngóðum sálmum Lúthers og samtíðarmanna hans var með öllu hafnað sem úreltum, en öðrum breytt eftir  tíðarandanum, og var þá meginreglan sú, að fella úr allt það, sem snerti ritningarstaði, hefðbundnar trúarkenningar og dulræn efni. Samfara þessari „hreinsun“ textans voru sálmalögin færð í búning samtíðarinnar. Gömlu kirkjutóntegundirnar áttu ekki lengur við smekk tímans ; þær urðu því að víkja fyrir dúr og moll, en í þeim tóntegundum voru nú sálmalögin raddsett. Hin gömlu, djörfu og stórfenglegu tónskref lagsins voru fyllt upp með millibilsnótum. Hin mikla fjölbreytni í hljóðfalli, sem áður ríkti, hvarf nú með öllu. Þessi umsköpun á gömlu lögunum var þó ekki gerð snögglega, heldur smátt og smátt á löngum tíma.“

Þessi ummæli hins þýzka kirkjusöngfræðings er vert að hafa í huga, þegar rætt verður um Aldamótabókina hér á eftir.

Þótt áhrif upplýsingarstefnunnar á kirkjusönginn hafi ekki verið góð, þá voru þau því betri á öðrum sviðum þjóðlífsins. Hér á landi var Magnús Stephensen (1762-1833) áhrifamesti forvígismaður þessarar menningarstefnu, enda ágætlega til forustu fallinn sakir gáfna og fjölbreyttrar og víðtækrar þekkingar á flestum fræðigreinum. Og margt fleira hafði hann sér til ágætis, sem gerði hann sjálfkjörinn í þetta hlutverk, eins og það, að hann var einlægur ættjarðarvinur og brann af löngun til að vinna þjóð sinni allt það gagn, sem hann mátti, en hann var maður nýja tímans og leit svo á, að upplýsing alþýðunnar væri höfuðskilyrði fyrir öllum framförum. Í þessari baráttu stóð Magnús vel að vígi að því leyti, að hann hafði jafnan undir höndum prentsmiðju landsins og réð því einn, hvað prentað var, en með útgáfu fræðandi bóka reyndi hann að vekja almenning og láta hann skilja kröfur tímans. Hann samdi sjálfur og gaf út ágætar alþýðubækur, eins og Vinagleði, Gaman og alvöru, Smásögur, og hann samdi „Eftirmæli 18. Aldar“, sem er góð bók í sinni röð. Ennfremur samdi Magnús rit sögulegs og vísindalegs efnis, og hann varð fyrstur manna til að gefa út innlend tímarit, Klausturpóstinn og Minnisverð tíðindi, sem fluttu landsmönnum fréttir af því, sem var að gerast með öðrum þjóðum, en öll uppfræðslustarfsemi hans laut að því, að koma Íslendingum í samband við umheiminn og þá menningarstrauma, sem þar voru ráðandi.

Umbótastarf Magnúsar Stephensens á sviði kirkjusöngsins var, eins og vænta mátti, í anda upplýsingarstefnunnar. Eftir nokkurn aðdraganda, sem hér verður ekki rakinn var Landsuppfræðingarfélaginu falið að endurskoða sálmabókina, þ.e. grallarann, og þegar lokið var endurskoðun á helgisiðaformi dönsku kirkjunnar, var félaginu með konungsbréfi 22. júlí 1796 veitt leyfi til útgáfu á sálma- og altarisbók, eins og það var orðað. Bókin var síðan prentuð í Leirárgörðum 1801. Á titilblaðinu stendur „Evangelísk- kristileg Messu-saungs- og Sálma Bók, að konunglegri tilhlutun saman tekin til almennrar brúkunar í Kirkjum- og Heimahúsum og útgefin af konunglega íslendska Lands-uppfræðingar Félagi. Selst almennt í velsku-Bandi. 76 skild.“ Þessi sálmabók er Aldamótabókinsvonefnda, en uppnefnd „Leirgerður“ af þeim, sem andvígir voru þeim breytingum, sem hún fól í sér.

Það var talið sjálfsagt, að samræmi væri í helgisiðum íslenzku og dönsku kirkjunnar og var það tilefni bókarinnar. Magnús Stephensen réð mestu í Landsuppfræðingarfélaginu og þótt Geir biskup Vídalín undirriti formálann með honum, þá má telja víst, að Magnús hafi ritað hann og bókin sé fyrst og fremst hans verk. Í formálanum er þess getið, að við val, yfirskoðun og niðurröðun sálmasafnsins sé fylgt sömu reglum og í hinni nýju messusöngsbók dönsku kirkjunnar, en sú bók kom út 1798. Ennfremur er tekið fram í formálanum, að margir nýir sálmar hafi verið teknir í bókina., en gamlir sálmar „lagaðir“.

Í sálmabókinni eru 100 lög, eða réttara sagt 100 lagboðar, og eru upphafsnótur laganna tilgreindar með bókstöfum. Þrjú sálmalög eru þó prentuð þar með nútíðarnótum, en ekki með grallaranótum, og er það í fyrsta sinn sem slíkar nótur eru prentaðar hér á landi.

Á liturgíunni er gerð róttæk breyting, því guðsþjónustuformið er slitið úr tengslum við hina gömlu, sögulegu hefð. Magnús taldi „þann eldgamla messusaung úreltan“ og þurfa mikilla endurbóta við. Hinir fornu liturgísku þættir (Introitus, Gloria, Hallelújah, Credo) voru felldir niður, en í staðinn sungnir sálmar eftir frjálsu vali prestsins. Í staðinn fyrir Credo skyldi syngja sálm, sem presturinn hafði valið og „fundið hlýða uppá sitt ræðu efni“. Áður var það skyldugt að syngja í kirkjunni sálma de tempore, það er að segja sálma, sem fyrirskipaðir voru eftir tíðum og kirkjudögum ársins. Magnús var í fyrstu hikandi að víkja frá þeirri gömlu reglu, en það varð úr, að sporið var stigið til fulls.

Af því, sem að framan hefur verið sagt, er ljóst, að þær meginreglur upplýsingarstefnunnar í kirkjusöng, sem þýzki organistinn W. Stahl lýsir í bók sinni og áður hefur verið minnst á, voru nú teknar upp í dönsku og íslenzku kirkjunni . Í Aldamótabókinni er stutt söngfræði, aðeins 9, blaðsíður. Þetta er fyrsta söngfræðin, sem prentuð er hér á landi síðan Grallari Þórðar biskups Þorlákssonar kom út (1691).

Aldamótabókin mætti mikilli mótspyrnu í fyrstu, en var þó almennt notuð í kirkjum og heimahúsum í 70 ár, og kom út 13 sinnum, með nokkrum breytingum, síðast í Reykjavík 1866.

Þegar Grallarinn var felldur úr gildi, höfðu Íslendingar enga bók með prentuðum nótum að styðjast við í meira en hálfa öld. Sálmasöngurinn var orðinn ömurlegur á 18. öld, en nú hrakaði honum og komst hann á lægra stig en hann hefur nokkru sinni verið hér á landi, enda átti almenningur víðast ekki þess kost að fá leiðbeiningar í sönglegum efnum. Magnús Stephensen unni mjög söng og hljóðfæraleik, eins og sjá má af ævisögu hans, Autobiographia Dr. Magnúsar Stephensens, sem prentuð er í Tímariti bókmenntafélagsins, IX, árgangi, 1888 (Brot). Hann segir þar frá því, að faðir hans, Ólafur stiptamtmaður, hafi kennt honum að syngja og að þeir feðgar hafi oft sungið tvísöng í rökkrinu á kvöldin, en Magnús kvaðst hafa haft í æsku góð og hvell sönghljóð, en á fullorðinsaldri sterk og karlmannleg. Hann getur þess, að faðir hans hafi látið öll börn sín, sem komust af æskuskeiði, læra á langspil, en öll hafi þau hneigst til sönglistar. Ennfremur segir Magnús í sjálfsævisögu sinni, að hann hafi lært að blása á flautu af vini sínum og lagsbróður á Bessastöðum, Pétri Valetin Klów, stjúpsyni Thodals stiptamtmanns. Magnús segist hafa vanrækt þessa list á efri árum, en þó gripið til flautunnar einstökum sinnum, „helzt við lífsins sorglegu tilfelli, af hverjum hans seinni ár voru svo auðug.“

Árið 1800 kom Magnús frá útlöndum og hafði með sér hljóðfæri, sem hann kallaði Orgelverkshljóðfæri. Hann lék sjálfur á þetta hljóðfæri og kenndi öðrum, eftir því sem Espólín segir. Þetta hljóðfæri hefir þó ekki verið harmoníum, hið alkunna stofuorgel hér á landi, því að músíksagan segir að það hljóðfæri sé fundið upp af frönskum manni, Grenie að nafni, árið 1810. Sennilega hefur þetta stofuorgel Magnúsar verið skylt því hljóðfæri. Orgelverkshljóðfærið var notað við messugjörð í Leirárkirkju, Magnús flutti það með sér að Innra Hólmi og síðan til Viðeyjar og þar var það notað við messugjörð þangað til Magnús andaðist (1833).

Í ferðabók G, Mackenzie: „Travels in Iceland 1810“ er skemmtileg lýsing á músík- og menningarheimilinu á Innra Hólmi. Mackenzie fer mörgum orðum um það, hversu góðan söng hann og félagar hans hafi heyrt þar á heimilinu. Hann getur þess, að meðan þeir sátu undir borðum um kvöldið niðri í stofunni, hafi þeir allt í einu heyrt músík uppi á loftinu. Þeir urðu hrifnir og hlustuðu vandlega og héldu að verið væri að leika á píanó, en þeim var sagt, að þetta væri íslenzkt hljóðfæri, sem héti langspil. Eftir kvöldmat fengu þeir að sjá langspilið og lýsir Mackenzie því síðan í bók sinni. Þeim fannst hljóðin úr þessu einfalda hljóðfæri þægileg, ef hlustað væri úr nokkri fjarlægð, t.d. í öðru herbergi, en síður ef hljóðfærið væri nærri manni. Dóttir Magnúsar Stephensens gaf ferðamönnunum síðan sitt langspil. Maekenzie segir, að Stephensens fjölskyldan sé sú eina, sem fáist við músík nokkuð að ráði á Íslandi og að hann spili sjálfur á stofuorgel, sem hann hafi nýlega komið með frá Kaupmannahöfn.

Landsmenn kunnu almennt ekki að meta endurbótastarf Magnúsar Stephensens . Margir reiddust framfara- og menntunartilraunum hans, en Magnús ritaði margt þarflegt um búskap og hagnýt efni almenningi til leiðbeiningar og fannst mörgum áminningar hans óþarfar. Ennfremur undu margir því illa, að hann skyldi vera einráður um alla bókaútgáfu í landinu, Þó var allt starf Magnúsar unnið af góðum hug og víst er það, að ekki græddi hann fé á bókaútgáfunni, en það þoldi hann vel, því hann var stórauðugur maður. Hann varð fyrir árásum, sem honum sárnaði, en hann var þannig gerður, að hann tók slíkri mótstöðu ómjúkum höndum og endurgalt í sömu mynt. Af slíkum deilum er frægust sú, sem Aldamótabókin gaf tilefni til.

Áður hefur þess verið getið, að í formálanum fyrir þeirri bók sé tekið fram, að ýmsir sálmar í henni hafi verið „lagaðir“, og er þá vitanlega átt við það, að þeim hafi verið breytt  í anda skynsemistrúarstefnunnar. Þegar Jón Þorláksson á Bægisá sá, að Magnús hafði gert breytingar á sálmum hans í sálmabókinni að honum forspurðum, reiddist hann og orti kvæðið Rustasneið, sem er níð um prentsmiðjuna, sem hann kallar „Leirgerði“ („Far vel, Leirgerður, drambsöm drilla, drottnunargjörn og öfundsjúk“) og um forstjóra hennar, Magnús sjálfan („Skáldskapur þinn er skothent klúður, skakksettum höfuðstöfum með“). Magnús fékk séra Arnór Jónsson á Hesti til að svara fyrir sig í ljóðum og orti þá séra Arnór Greppssálm, nærgöngular, persónulegar skammir. Út af þessu spannst hin megnasta níðkvæðadeila, sem háð hefur verið hér á landi. Þegar séra Arnór á Hesti varð prófastur, orti skáldið á Bægisá vísu, sem það nefndi Verkalaunin og er þannig:
Prestur setti saman,
svei mér, ef ég lýg
vondslegt vísnagaman
og vann ei fyrir gýg,
prófastsdæmi fyrir það fann,
nær sem verri býr til brag,
biskup verður hann.
Þegar Magnúsi þótti nóg komið, hótaði hann Jóni málssókn og embættismissi. Tók þá séra Jón þann kostinn að yrkja bragarbót og biðjast friðar. Veitti Magnús það drengilega og sýndi aldrei neinn kala til hans fyrir allt það óþvegna níð, sem Jón hafði um hann ort, og mjög ómaklega að mestu. Jón tileinkaði Magnúsi stærsta verk sitt, þýðinguna á „Messias“ eftir þýzka skáldið Klopstoek. Við andlát Jóns orti Magnús um hann minningarljóð sem er fallegt að efni til og prentað var í Klausturpóstinum. Þessi framkoma lýsir manninum vel og sýnir, að hann var veglyndur höfðingi í lund.

Andstæðingar Magnúsar Stephensens eru nú flestir gleymdir, nema skáldið á Bægisá, sem var á sínum tíma mest metið allra íslenzkra skálda. Eftir bragarbótina, sem það gerði, tóku þeir upp gamla vináttu. Um Magnús Stephensen orti séra Jón þetta kvæði:
En þú föðurlandsins ljómi,
lif og skín og vert vor sómi,
villumyrkrum vertu hel!
Á þinn legstein harðan höggvi
harmatár, sem aldir glöggvi:
„Hann var ljós og lýsti vel!“

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is