Horft um öxl

Að lokum verður hér með fáum orðum undirstrikuð meginatriðin í þróun sönglistar hér á landi á 19. öldinni.

Á fyrri helming aldarinnar ríkti þjóðlegt sönglíf í landinu. Þá er enn blómaöld tvísöngsins. Rímurnar, „gömlu lögin“ og önnur íslenzk þjóðlög eru uppstaðan í sönglífi þjóðarinnar. Þá fara að myndast ný íslenzk þjóðlög, fyrir erlend áhrif, sem eru líflegri en þau eldri, sem flest eru fremur þunglamaleg. Sálmalög eru snar þáttur í alþýðusöngnum og undir þeim eru veraldleg kvæði og jafhvel drykkjuvísur sungnar.

Um miðja öldina hefst „viðreisnin“ í söngnum með Pétri Guðjohnsen og eftirmönnum hans, Jónasi Helgasyni, Steingrími Johnsen o. fl. Þeir innleiða þau sönglög, sem þá eru sungin á Norðurlöndum og víðar. Með þeim kemur fjórraddaður kórsöngnr til sögunnar og allri söngþekkingu hjá þjóðinni fer mikið fram. En þessir viðreisnarmenn sæta mikilli mótspyrnu hjá gamla fólkinu, sem heldur fast við hinn gamla söng og hefur tileinkað sér tóneðli hans, en unga kynslóðin fylkir sér undir merki „hins nýja söngs“, sem á sigurinn vísan.

Þannig eru tvennskonar straumar í sönglífinu á seinni helmingi aldarinnar, en hinn „nýi söngur“ vinnur stöðugt á og er undir lok aldarinnar orðinn einn um völdin.

Bjarni Þorsteinsson stóð með gamla fólkinu og benti á gildi hinna gömlu íslenzku þjóðlaga, sem þá voru smáð og fyrirlitin af leiðandi mönnum í sönglífi þjóðarinnar. Þetta er ekki sagt þeim til lasts. Þeir voru að Þessu leyti börn síns tíma líkt og margir samtímamenn þeirra, sem voru áhrifamenn í tónlistarlífinu á Norðurlöndum. En síðan hefur viðhorfið breyzt. Í dag þekkja menn gildi þjóðlaganna og vita, að á þeim verður þjóðleg íslenzk tónlist reist.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is