Hljóðfæraleikarar

„Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur“, sem Helgi Helgason stofnaði 1876, lét oft til sín heyra úti og inni og setti svip á bæjarlífið. Helgi kom stundum fram sem einleikari á horn á skemmtunum.

Brynjólfur Þorláksson var dáður harmoníumleikari, en þetta hljóðfæri var einkar vinsælt á þessum tíma. Brynjólfur kom oftast opinberlega fram sem hljóðafærleikari á skemmtunum af öllum hljóðfæraleikurum í bænum. Björn Kristjánsson o. fl. léku og opinberlega á þetta hljóðfæri. Þessir menn halda ekki sjálfstæða harmoníumhljómleika, heldur er leikur þeirra einn liður af mörgum á skemmtiskránni.

Sama er að segja um píanóleikara á þessum tíma. Pianóleikurinn er undirleikur með söng eða samleikur með öðrum hljóðfærum og stundum einleikur milli annara skemmtiatriða. Þá þekktust ekki píanótónleikar eins og nú tíðkast, þar sem píanóleikarinn leikur einn öll lögin á skránni. Í þá daga voru það eingöngu konur, sem léku opinberlega á píanó, og skal þá nefna frk. Ástu Sveinbjörnsson, dóttir Lárusar háyfirdómara. Hún giftist síðar Magnúsi Einarssyni dýralækni. Anna Pálsdóttir, systir Árna Pálssonar prófessors og Þórðar læknis, hins vinsæla söngmanns, sem síðar verður minnst á, lék og opnberlega á píanó. Eftir aldamótin eru fleiri píanóleikarar komnir fram í hljómlistarlífi bæjarins, allt eru það konur, og verður þeirra nánar getið síðar.

Þorsteinn Jónsson járnsmiður á Vesturgötunni er á þessum árum helzti fiðluleikarinn í bænum og leikur oft opinberlega á skemmtunum. Hann hafði kennt sér sjálfur að leika á þetta hljóðfæri og skorti vitanlega fimleik og æðri kunnáttu, en meðfædd smekkvísi olli því, að gott þótti á hann að hlýða, enda valdi hann sér falleg lög við sitt hæfi. Þorsteinn var góður söngmaður og söng í „Hörpu“ hjá Jónasi. Sjálfur æfði hann og stjórnaði um tíma kór. Gísli Guðmundsson, bókbindari, segir í viðtalsgrein, sem vitnað hefur verið til áður: „Fyrsta söngfélagið, sem ég var í, hét „Svanurinn“, sem Þorsteinn Jónsson stjórnaði. Hann kenndi með fiðlu, bráðmúsíkalskur maður, alveg sjálmenntaður, allt náttúrugáfa. Hann var indæll maður.“

Cellósnillingur á heimsmælikvarða var þá búsettur hér í bænum. Þessi maður var baróninn á Hvítárvöllum, sem hét réttu nafni Boilleau, ættaður frá Bayern í Suður-Þýzkalandi, þar sem þessi aðalsætt var upprunnin. Hann setti svip á bæinn, meðan hann dvaldizt hér, ekki sízt músíklífið. Hann var góður málamaður, talaði klassísku málin, og auk þess frönsku, þýzku og ensku. Íslenzku talaði hann lýtalaust eftir stutta dvöl í landinu.

Árni Thorsteinson, sem kynntist honum, segir um hann: „Var þetta hámenntaður maður, fríðar sýnum, hið mesta glæsimenni og háttvís í framgöngu, eins og sönnum aðalsmanni sæmdi. Auk flygelsins, sem áður er minnst á, átti hann vanda celló, hinn mesta kjörgrip, enda lék baróninn listavel á það hljóðfæri. Held ég jafnvel, að sjálfur Casals hafi ekki tekið baróninum fram á því sviði. Boilleau barón lék oft opinberlega á cellóið í Reykjavíkurklúbbnum og víðar, en aðallega kom hann fram á samkomum góðgerða- og líknarfélaga og tók þá engin laun fyrir.

Saga barónsins verður ekki sögð hér, en nokkur leyndardómur hvíldi ávallt um einkamál hans. Búskapurinn á Hvítarvöllum misheppnaðist. Hann reisti stórt fjós á horni Hverfisgötu og Barónsstígs og var ætlunin að hafa þar kúabú, og dregur Barónsstígurinn nafn af baróninum.

Cellóleikur barónsins var öllum ógleymanlegur, sem á hlýddu, og mun listin aldrei hafa risið hærra í Reykjavík á þeirri öld.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is