Fiðluleikarar

Fyrst verður minnst á íslenzka fiðluleikara og ekki aðra en þá, sem hafa haldið hér sjálfstæða tónleika á þessu tímabili. Pearl Pálmason er vesturíslensk, fædd af íslenzkum foreldrum og búsett vestan hafs, en þó talin hér með. Ruth Hermanns er útlendingur, giftist íslenzkum manni og búsett hér. Hún er íslenzkur ríkisborgari og því talin með hér.

Björn Ólafsson er mestur allra fiðluleikara Íslendinga fram að þessu og hefur reynst gagnmerkur maður í íslenzku tónlistarlífi. Um Háskólatónleika hans og Árna Kristjánssonar hefur áður verið talað. Af mörgum sjálfstæðum tónleikum hans skal nefna tónleika í Gamla Bíó 21. sept. 1948, eftir ársdvöl í Bandaríkjunum, þar sem hann var til frekari fullkomnunar í listinni hjá Adolf Busch. Á þessum tónleikum lék hann í fyrsta sinn á hina frægu Guarnerifiðlu, sem eitt sinn var í eigu Händels, og síðar eign frægra fiðlusnillinga. Björn lék þá meðal annars „Systurnar í Garðshorni“ eftir Jón Nordal, æskuverk, sem lýsir vel gáfum og hugkvæmni hins unga tónskálds. Björn hefur sýnt íslenzkum tónskáldum ræktarsemi og leikið fiðluverk þeirra, t.d. eftir Helga Pálsson, Þórarinn Jónsson, Karl Ó. Runólfsson o.fl.

Það yrði of langt mál að telja upp alla þá konserta, sem Björn hefur ýmist haldið upp á eigin spýtur eða með öðrum (kammermúsík), en hann hefur haft á hendinni strokkvartett, sem náð hefur miklum þroska undir hans handleiðslu, enda hefur þessi grein listarinnar verið honum sérstaklega hjartfólgin.

Björn Ólafsson er fæddur í Reykjavík árið 1917, sonur Ólafs Björnssonar ritstjóra, Jónssonar, ritstjóra „Ísafoldar“, hins merk. stjórnmálaskörungs. Móðir Björns fiðluleikara er Borghildur, dóttir Péturs kaupmanns Thorsteinsson frá Bíldudal. Björn er því systursonur Guðmundar heitins Thorsteinsson listmálara (Muggur). Listgáfan er rík í þeim ættlegg. Eftir að Björn hafði lokið burtfararprófi úr Tónlistarskólanum í Reykjavík, stundaði hann í mörg ár nám í tónlistarskólanum í Vínarborg og lauk þaðan prófi með miklu lofi. Hann fékk þá heiðursskjal (Diplom), sem aðeins frábærir nemendur fá. Honum var þá boðin staða í fílharmonísku hljómsveitinni í Vínarborg, en ekkert varð úr því, að hann tæki hana, því ófriðurinn skall á þá um haustið, en Björn var þá staddur á Íslandi. Síðan hefur hann verið aðalkennari Tónlistarskólans í fiðluleik. Hann er ágætur kennari, bæði sakir kunnáttu sinnar og áhuga á starfinu, og hollur áhrifamaður í skólalífinu. Björn var um tíma konsertmeistari í „Tonkünstlerorchester“ í Vínarborg, en konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur hann verið frá byrjun.

Einar Sigfússon og unnasta hans, ungfrú Lilli Poulsen, sem einnig er fiðluleikari, spiluðu hér í maí 1933, síðast í Fríkirkjunni með aðstoð Páls Ísólfssonar, sem þá lék auk þess orgelsóló. Í janúar 1934 héldu þeir Einar og Páll tónleika á sama stað. Um orgelsnillinginn er rætt sérstaklega á öðrum stað. Einar hefur mikinn og fagran tón og lék hin klassísku verk rólega og með föstum tökum. Ungfrú Lilli Poulsen hafði áður leikið opinberlega í Kaupmannahöfn og hlotið viðurkenningu hinna ströngustu listdómara.

Einar er fæddur í Reykjavík 9. desember 1909, sonur Sigfúsar Einarssonar tónskálds og Valborgar konu hans. Hann er bróðir söngkonunnar Elsu Sigfúss. Hann lærði í tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn hjá Anton Svendsen og síðar hjá Gerhard Rafn. Fyrstu opinberu tónleikar Einars eru þeir, sem að ofan getur, í Reykjavík 1933. Einar leikur í borgarhljómsveitinni í Árósum og einnig í fílharmónísku hljómsveit borgarinnar. Hann er kennari við tónlistarskóla borgarinnar.

Pearl Pálmason. Ungfrúin er vesturíslenzk, fædd í Winnipeg af íslenzkum foreldrum. Faðir hennar er Sveinn Pálmason, bróðir Ingvars alþingismanns og móðirin er Gróa Magnúsdóttir, ættuð úr Borgarfirði. Ungfrúin spilað sjö sinnum í Gamla Bíó í júnímánuði 1938 með aðstoð Árna Kristjánssonar, og enn aftur í september sama ár. Hún var þá enn mjög ungur að aldri, en átti þá þegar langt nám að baki hjá ágætum kennurum, síðast hjá Carl Flesch í London. Kunnátta hennar var orðinn geysimikil, skapið stórt, mjög miklir meðfæddir hæfileikar og smekkvísin örugg. Hún lék m.a. „La Folia“ eftir Corelli, sónötu í c-moll eftir Beethoven og konsert í d-dúr eftir Paganini o. fl. Á tónleikunum í september lék hún m.a. Chaconne eftir Bach, sem er sérstætt fiðluverk og talið prófsteinn á getu fiðluleikara, bæði hvað snertir tækni og músíkþroska. Þar gætti hjá ungfrúnni meira hita og æskufjörs en þeirrar rólegu yfirvegunar, sem þetta klassíska verk krefst. Fiðlusónata Cesars Franck, sem var annað aðalverkið á skránni, lá nær listeðli hennar, því hún er ljóðræn og spilaði hún hana fallega, enda ekki hægt að kjósa sér betri stuðning en þann, sem Árni Kristjánsson veitti henni við píanóið.

Ruth Hermanns. Fyrstu tónleikar hennar í Reykjavík voru haldnir í febrúar 1948. Þá var hún búsett á Akureyri. Hún spilaði í Dómkirkjunni með aðstoð Páls Ísólfssonar 19. apríl 1950 verk eftir Vitali, Händel og Bach. Ruth Hermanns er þýzk og hefur haldið tónleika víða í Þýskalandi, ennfemur í Póllandi og Rússlandi. Hún er ein af mörgum, sem fóru úr landi vegna Nazistanna, settist að á Akureyri ráðin þangað sem fiðlukennari. Skömmu síðar fluttist hún til Reykjavíkur og hefur búið hér síðan, gift íslenzkum manni og er íslenzkur ríkisborgari. Ruth Hermanns hefur leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá byrjun og hefur nokkrum sinnum leikið fiðlukonserta og önnur fiðluverk með hljómsveitinni og auk þess hefur hún komið fram sem einleikari við önnur tækifæri. Hún er góður og duglegur fiðluleikari.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is