Erlendir listamenn

Það er ekki fyrr en um 1923 að útlendir listamenn koma auga á Reykjavík sem góðan markað fyrir söng og hljóðfæraleik. Úr því koma þeir á hverju ári, einkum á sumrin, og halda hljómleika. Góðir listamenn fá mikla aðsókn, halda marga hljómleika og og hagnast vel. Meðal þeirra eru heimsfrægir snillingar, eins og fiðluleikararnir Marteau og Telemányi. Verður nú fyrst minnst á söngvarana.

Peter Ottokar Leval, tékkneskur tenórsöngvari, söng nokkrum sinnum í Nýja Bíó í marz 1925; fékk litla aðsókn og fremur ómilda blaðadóma. Johannes Fönss (f. 1884), frægur danskur óperu- og konsertsöngvari, með mikla bassbarytónrödd, söng nokkrum sinnum í apríl og maí 1926. Hann söng óperuaríur og sönglög, þar á meðal þrjú eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

Tvær finnskar söngkonur sungu um sumarið 1924: Hanna Granfeld . (sópran) söng nokkrum sinnum í Nýja Bíó um vorið með aðstoð frú Signe Bonnevie. Hún var ein fremsta söngkona Finna, þegar hún var upp á sitt bezta. Hér söng hún óperuaríur og erlend sönglög og fékk mikla aðsókn. Hún kom aftur til Reykjavíkur sumarið 1926 og söng þá í Nýja Bíó með aðstoð Emils Thoroddsen, og í Fríkirkjunni með aðstoð Páls Ísólfssonar. Hin finnska söngkonan var Signe Liljequist (f.1876), ágæt söngkona, áður fræg óperusöngkona, gift píanóleikaranum Kosti Vehanen (f. 1877), sem oft lék undir hjá frægum söngvurum, eins og Mme Cahier, Tito Rufo, Helge Lindberg, Marian Anderson o. fl. Hann kom þó ekki með konu sinni hingað til Íslands. Signe Liljequist dvaldi lengi í Reykjavík þetta sumar og söng í Nýja Bíó í júní, júlí og ágúst við mikla aðsókn. Undirleikarinn var frú Doris Ása von Kaulbach, sem er af íslenzkum ættum. Signe Liljequist söng fjölda af norrænum lögum, þar á meðal þjóðlög, og ennfremur söng hún íslenzk lög. Í músíkritdómi í „Heimi“ sagði Sigfús Einarsson: „Hún kom, sá og sigraði“ gersamlega, svo að slíks eru engin dæmi hér í bæ, síðan Arthur Shattuck var á ferðinni (1910). Fólk þyrptist saman (þegar þetta er ritað ) til að hlýða á söng hennar – kvöld eftir kvöld. Meðferð hennar á textum og lögum var frábær“.

Signe Liljequist kom aftur til Reykjavíkur í október 1929 og söng nokkrum sinnum í Gamla Bíó með undirleik Carls Brovald píanóleikara. Söngurinn vakti ekki sömu hrifningu og áður.

Henriette Strindberg söng í september 1925 með aðstoð Páls Ísólfssonar og Þórarins Guðmundssonar, allt erlend lög, nema „Vögguvísa“ eftir Pál Ísólfsson.

Erica Darbo (f. 1891), fræg norsk óperu-og óperettusöngkona, söng í Nýja Bíó í júní 1926. Hún hafði fallega sópranrödd.

Mme Germaine de Senne, frönsk óperusöngkona, söng í nóvember og desember sama ár í Nýja Bíó, með aðstoð Emils Thoroddsen. Hún hélt marga konserta við góða aðsókn og söng lög eftir Bizet, Saent-Saens, Schubert, Rachmaninov, Debussy o. fl., einnig , „Ríðum, ríðum“ og „Bíum bamba“ eftir Kaldalóns, ennfremur „Nótt“ eftir Árna Thorsteinson).

Lula Mysz-Gmeiner (f. 1876), víðkunn austurrísk söngkona og söngkennari við músíkháskólann í Berlín, söng í Gamla Bíó og Fríkirkjunni í ágúst 1927 lög eftir Bach, Beethoven, Liszt, Schubert, Händel, Brahms o. fl, einnig þýzk þjóðlög og lög eftir íslenzk tónskáld. Hún söng aftur í Reykjavík, í Gamla Bíó, um haustið árið eftir (1928), með aðstoð píanóleikarans Kurt Haeser. Þá söng hún m.a. lög eftir Schubert, Löewe, Hugo Wolf og Mendelssohn. Hún er ein frægasta romance-söngkona heimsins og sérstaklega viðurkennd sem afbragðsgóð Brahms söngkona.

Vielet Code, ensk söngkona, söng í Nýja Bíó í júní 1930, með aðstoð Emils Thoroddsen. Hún söng lög eftir Rimsky Korsakow, Rachmaninov, Gretchaninoff, Verdi o. fl.

Þá verður minnst á hljóðfæraleikara og verður fyrst talað um píanóleikarana.

Fyrir fyrri heimsstyrjöldina heimsóttu tveir píanóleikarar Reykjavík, báðir frá Vesturheimi. Annar var hinn heimsfrægi snillingur Arthur Shattuck, sem áður er nefndur, en hinn var Vestur-Íslendingurinn Jónas Pálsson, söngkennari í Winnipeg. Jónas spilaði í Bárunni í ágúst 1912. Síðan leggja útlendir píanóleikarar ekki leið sína hingað fyrr en árið 1923. Þá heldur Doris Asa von Kaulbach hér píanóhljómleika í ágústmánuði og lék lög eftir Mozart, Chopin, Liszt, Palmgren o. fl. Hún er af íslenzkum ættum. Móðir hennar, Fride Schytte, er dönsk, en með íslenzkt blóð í æðum, og er frægur fiðlusnillingur. Hún hélt hljómleika víða í Evrópu undir listanafninu Scotta. Hún giftist frægum þýzkum listmálara Fr. von Kaulbach árið 1897 og lék sjaldan opinberlega eftir það. Doris Asa von Kaulbach kom hingað árið eftir með Signe Liljequist og lék þá undir söngnum. Einnig lék hún þá píanósóló milli þátta hjá söngkonunni.

Þetta sama sumar (1923) lék píanóleikarinn Hans Beltz frá Leipzig (f. 1897) nokkrum sinnum í Nýja Bíó. Hann var þá ungur og ágætur listamaður. Haraldur Sigurðsson frá Kaldaðarnesi var þá einnig að halda píanóhljómleika hér í bænum og var mikið rætt um þessa snillinga manna á meðal. Sigfús Einarsson líkti í músikritdómi Haraldi við Friðþjóf frækna, en Beltz við Björn – bardagamanninn með víkingslundina, sem skorti nokkuð á yndisþokka og viðkvæmni, og segir síðan: „En Liszt-leikari er hann ágætur. Allt hið stórbrotna og glæsilega á ytra borðinu tekur hann snillings tökum. Ungversk Rhapsodia nr. 12 var t.d. frábærlega vel flutt – „restløs. Hans Beltz var orðinn píanókennari við tónlistarskólann í Leipzig árið 1919, 22 ára gamall, síðan var hann píanókennari í Berlín og prófessor þar síðan 1934. Hann hefur ferðast um Evrópu og haldið hljómleika.

Johanne Stockmarr (1869-1944), kgl. hirðpíanóleikari og einn frægasti píanóleikari Dana á þeim tíma, hélt hljómleika í Nýja Bíó um haustið 1924 og lék lög eftir Schubert, Mendelssohn, Liszt, Grieg o. fl. Þessi ágæta listakona þótti góður gestur og fékk mikla aðsókn.

Otto Stöterau, ungur píanóleikari frá Hamborg, sem áður er nefndur, hélt hljómleika með Þórhalli Árnasyni cellóleikara í Nýja Bíó um vorið 1925. Áður hefur verið minnst á þá félaga. Otto Stöterau er fæddur í Flensborg árið 1900, nú músíkprófessor í Hamborg, ágætur píanóleikari, sem síðar varð kunnur í þýzka heiminum. Hann hefur lengi verið framkvæmdastjóri (direktör) Karlakórs Hamborgar, sem stofnaður var árið 1823 („Hamburger Liedertafel 1823“).

Charlotte Kaufman, píanóleikari, lék í Gamla Bíó í sept. 1929 (Beethoven, Chopin, Bach, Raumeau o.fl.).

Tveir þýzkir píanóleikarar, sem báðir voru þá búsettir hér á landi, spiluðu opinberlega í Reykjavík á þessum árum, Kurt Haeser, píanókennari á Akureyri, hélt hljómleika í Nýja bíó um haustið 1923 og aftur um haustið 1925. Kemur oftar við sögu í músíklífi bæjarins. Hann lék lög eftir Bach, Brahms, Chopin o.fl., og „Intermezzo“ úr hljómkviðu fyrir stóra hljómsveit eftir Jón Leifs, í píanóútsetningu höfundar. Kurt Haeser er píanóleikari af þýzkum skóla, hæfileikamaður með mikla kunnáttu, en fékk minni aðsókn en hann átti skilið, Ernst Schacht var búsettur í Reykjavík og lék í tríói (fiðla, cello og píanó) á Hótel Skjaldbreið, allt þýzkir listamenn, sem léku klassíska músík. Ernst Schact hélt píanóhljómleika í Nýja Bíó í apríl 1924 og lék verk eftir Bach, Beethoven og Schumann. Hann var ágætur listamaður og góður píanóleikari. Mun vart hafa verið betri kaffihúsamúsík í Reykjavík en hjá þeim félögum. Ernst Schacht kom nokkrum sinnum fram sem píanóleikari þann stutta tíma, sem hann dvaldi hér.

Fiðluleikararnir, sem heimsóttu Reykjavík á þessum árum, voru afburðamenn í listinni. Johan Nilson, fæddur í Kaupmannahöfn 1893, lék í Nýja Bíó í júní 1924. Hittu þar ýmsir fyrir gamlan kunningja frá því að hann hélt hér hljómleika árið 1913, þá tvítugur að aldri. Hann er frábær listamaður og kynnti klassísk úrvalsverk. Hann hafði ágætan mann sér til aðstoðar, þar sem Ernst Schacht var, sem var þaulvanur samleik. Líkt má segja um Emil Thoroddsen, sem leysti hann af hólmi, og Pál Ísólfsson, sem aðstoðaði í Dómkirkjunni.

Emíl Telemányi (f. 1892), ungverskur fiðlusnillingur, hélt hljómleika um haustið 1925 í Nýja Bíó, með aðstoð Emils Thoroddsen. Hann lék í fyrsta sinn opinberlega 17 ára gamall í Berlín árið 1911. Síðan hefur hann verið á konsertferðalögum í Evrópu og Ameríku, alstaðar viðurkenndur sem eitt af fáum mikilmennum fiðlunnar. Hann kvæntist danskri konu, dóttur tónskáldsins Carls Nielsen, og hefur verið búsettur í Kaupmannahöfn síðan 1919. Þar hefur hann látið mikið að sér kveða í músíklífinu, einnig sem hljómsveitarstjóri. Telemányi hefur síðan komið tvisvar sinnum til Íslands og haldið hljómleika í Reykjavík, árin 1939 og 1946; þá lék hann í Tripolíleikhúsinu á Melunum á Amati-fiðlu sína, hinn mesta kjörgrip, með undirleik seinni konunnar, Önnu Schiöler, sem er dönsk eins og fyrri koman, sem hann skildi við. Í list Telemányis leynir sér ekki hinn ungverski uppruni, tóngleðin, hárviss hljómfallskennd og stórbrotið listamannsskap.

Wolfgang Schneiderhahn er austurrískur, fæddur í Vínarborg 1915. Hann lék í Gamla Bíó í júní 1926 sem undrabarn, 11 ára gamall, með undirleik Willy Klaesen. Verkefnin voru fiðlusónötur eftir Schubert, Beethoven (Vorsónatan og Kreutzersónatan), fiðlukonsert eftir Paganini o, m, fl. Hann hélt marga konserta og fékk góða aðsókn; mörgum var forvitni að sjá og heyra undrabarnið, sem kallaði sig „Wolfi“, og þá mátti sjá mörg andlit meðal áheyrenda, sem annars sáust ekki á hljómleikum í Reykjavík. Seinna varð „Wolfi“ heimsfrægur fyrir hárfína túlkun á klassískri list. Hann varð 1933 konsertmeistari Wiener-filharmonisku hljómsveitarinnar. Stofnaði 1937 strengjakvartett, sem við hann er kenndur („Sehneiderhahn-kvartettinn“). Hann kvæntist 1948 söngkonunni Irmgard Seefried. Þar sem þau hjón eru góðkunningjar Reykjavíkinga frá því að þau héldu hér hljómleika í Háskólabíó í febrúar 1963, sem mörgum eru í fersku minni, skal sagt nánar frá þessari ágætu listakonu. Hún er þýzk, fædd í Bayern 1919. Hefur sungið á helztu óperusviðum vestan hafs og austan, í Vínaróperunni, Covent Garden í London, La Scala í Milanó og Metropolitan í New York, og víðar. Þar á meðal í Kaupmannahöfn sem gestur. Hún er talin einhver bezta Mozart-söngkonan, sem nú er uppi og sem slík hefur hún verið ráðin til að syngja á tónlistarhátíðum í Salzburg, Edinborg og Luzern. Þessi fræga óperusöngkona er jafnvíg á óperuaríur og ljóðræn sönglög, sem hún syngur í konsertsal.

Issay Mitnitsky, frægur fiðlusnillingur, lék í Nýja Bíó um vorið 1927, með aðstoð Valborgar Einarsson. Ennfremur lék hann í Fríkirkjunni með aðstoð Páls Ísólfssonar, sem lék þá orgelsóló milli þátta. Mitnitzky fékk mikla aðsókn.

Florizel von Reuter, amerískur fiðluleikari, fæddur 1890, spilaði hér um vorið 1929 í Gamla Bíó með aðstoð Kurt Haeser, og í Fríkirkjunni með aðstoð Páls Ísólfssonar. Af mörgum kennurum hans er franski fiðlusnillingurinn Henry Marteau einn. Florizel von Reuter var forstjóri músíkakademíunnar í Zürich árin 1916-20, prófessor við músíkakademíuna í Vínarborg 1932-34, kennari við tónlistarskóla Klindworth-Scharwenka í Berlín 1939. Búsettur í Bandaríkjunum frá 1951. Hann er frægur fiðluleikari og tónskáld. Ennfremur eru eftir hann músíkrit um fiðluverk og fiðlutækni.

Sá, sem þetta ritar, heyrði hann í Leipzig í desember 1922 leika Beethovenssónötur. Hann lék þá 10 fiðlusónötur þessa meistara á þremur hljómleikum, allar í tímaröð. Hann fékk góða aðsókn og var vel tekið.

Henry Marteau (1874-1934) er einhver mesti afburðamaður í fiðluleik um sína daga. Faðirinn franskur, móðirin þýzk, en franskur að fæðingu, menntun og menningu. Hann vakti á sér athygli sem undrabarn 10 ára gamall, þegar hann lék fiðlusóló með Wiener-filharmoniska orkestrinu; ferðaðist síðan um Þýzkaland, Austurríki, England og síðan lauk hann fiðlunámi hjá Leonard í París. Þá tóku aftur við konsertferðalög, fyrst um Ameríku, síðan um Rússland og Skandínavíu, Þar sem hann síðan hefur oft leikið opinberlega.

Árið 1908 var Marteau ráðinn eftirmaður Joachims við fiðludeild tónlistarháskólans í Berlín. Á því má marka, hvert álit var á honum, því hann var þá ekki nema 22 ára gamall og ennfremur útlendingur. Í fyrriheimsstyrjöldinni varð hann að fara úr þessari stöðu, því hann var að nafninu til franskur liðsforingi (Reserve-offiséri). Þá fór hann til Svíþjóðar og varð sænskur ríkisborgari. Hér verður ferill hans ekki rakin lengra að öðru leyti en því, að eftir þetta ferðaðist hann sem fiðluleikari víða um lönd, en var jafnframt kennari við tónlistarskóla, m.a. í Prag, Leipzig og Dresden. Þrátt fyrir snilli og miklar gáfur átti hann stundum erfitt uppdráttar hin síðari árin – einhver brestur hefur verið í manninum.

Eins og áður er sagt er Marteau einn af merkustu fiðlusnillingum á síðari tímum. Í list hans eru beztu einkenni belgíska skólans samfara þýzkum áhrifum, og var hann afbragðsgóður Bachspilari. Hann lék oft ný fiðluverk eftir samtímatónskáld, sem gjarnan tileinkuðu honum verkin, t.d. Carl Nielsen, sem tileinkaði honum fiðlusónötuna í A-dúr.

Marteau var einnig tónskáld, samdi óperuna „Meister Schwalbe“ (1921), sinfóníur, fiðlukonserta, cellókonserta, svítur, strokkvartetta, orgelverk og sönglög.

Hér í Reykjavík spilaði Marteau nokkrum sinnum í apríl 1930 með aðstoð Kurt Haeser. Verkefnin voru eftir Bach, Mozart, Beethoven, Schubert, Gociard, Boccerini og Bizet. Carmen-fantasía, sem hann spilaði í eigin útsetningu, varð mörgum minnisstæð.

Peder Möller (1877-1940), danskur fiðluleikari, spilað í júlí 1930 í Gamla Bíó með undirleik Emils Thoroddsen. Verkefnin voru m.a, eftir Vitali, Mendelssohn, Schubert, Saraste o. fl. Hann lærði í París 1896-98 og var síðan næstu tíu árin konsertmeistari í frægri hljómsveit þar í borg. Hann settist að í Kaupmannahöfn 1910 og lék í kgl. hljómsveitinni. Einnig kenndi hann við tónlistarskólann. Hann sagði þessum stöðum lausum eftir nokkur ár og helgaði sig hljómleikahaldi og kennslu í einkatímanum. Hjá honum lærði Þórarinn Guðmundsson, eins og áður er sagt. Peder Möller var ágætur fiðluleikari og konunglegur kammermusicus að nafnbót.

Ekki er getið um nema einn útlendan cellóleikara, sem lék opinberlega í Reykjavík á þessum árum. Danski celloleikarinn Fritz Dietzmann, fæddur í Kaupmannahöfn 1898, hélt hljómleika í júní 1927 með aðstoð Folmer Jensen. Einnig kirkjuhljómleika með aðstoð Páls Ísólfssonar.Var mikill fengur að kynnast frægum cellotónsmíðum , sem hann lék, m.a. eftir Grieg, Brahms og Saint-Saens. Dietzmann var orðinn konsertmeistari í kgl. hljómsveitinni í Kaupmannahöfn, þegar hann kom hingað. Hann hefur haldið hljómleika í Bandaríkjunum og Skandinavíu.

Georg Kempff, þýzkur orgelleikari, fæddur 1893, lék í Dómkirkjunni í ágúst 1930. Hann var prestur í Wittenberg þegar hann kom hingað, en gekk síðan músíkinni algerlega á hönd og hefur ferðast um og haldið orgelhljómleika. Hann er góður raddmaður og kunnur óratóríusöngvari og syngur gjarnan með eigin undirleik á orgelið milli stóru verkanna. Fleira hefur hann sér til ágætis, m.a. það, að hann er píanóleikari eins og yngri bróðir hans, Wilhelm Kempff, sem hélt hljómleika í Reykjavík fyrir stuttu síðan. Georg er ekki eins frægur og bróðirinn, en er víðkunnur orgelleikari og hinn mesti snillingur á það hljóðfæri. Hér lék hann m.a. verk eftir Bach og Händel. Það er kirkjutónlistin, sem er sérgrein hans, og eru eftir hann rit um þau efni.

Stórmerkur viðburður í músíklífi bæjarins eru hljómleikar Hamborgar fílharmonísku hljómsveitarainnar („Hamburger Philharmronisehes Orchester“) sumarið 1926, undir stjórn Jón Leifs. Hljómsveit Þessi var um eða yfir 40 menn, en þegar mikið er viðhaft og viðfangsefnin krefjast þess, er hún miklu stærri, yfir 80 menn, og jafnvel aukin upp í 120 menn, þegar stórverk krefjast þess. Hér lék hljómsveitin tónsmíðar eftir hin gömlu klassísku tónskáld, sem kennd eru við Vínarborg, þá Mozart, Haydn, Beethoven o.fl., en þessi tónskáld þekktu ekki hljómsveit, sem var stærri en sú, sem hingað kom. Hljómsveitin var hér í júní og fram yfir miðjan þann mánuð, og hélt átta hljómleika í Iðnó og fimm í Dómkirkjunni, alla undir stjórn Jón Leifs. Af verkefnum skal hér nefna 2., 3. og 7. sinfóníu Beethovens og Corolian-forleikinn eftir sama höfund. Eftir Mozart var leikin g-moll sinfónían, fiðlukonsert í A-dúr og píanókonsert í A-dúr, sem Annie Leifs lék með mikilli prýði. Enn fremur voru leikin verk eftir Bach, Wagner, Reger, Max Bruch o.fl., og sérstakir hljómleikar voru helgaðir Straussvölsum. Þá voru leikin verk eftir Jón Leifs, Minodrama og sorgargöngulag úr „Galdra Lofti“ og forleikurinn „Minni Íslands“.

Hljómsveitin setti svip á bæinn þann tíma, sem hún var hér. Hún er ein af frægustu hljómsveitum í Evrópu og voru hljómleikarnir ógleymanlegir þeim, sem á hlýddu.

Tveir karlakórar frá Norðurlöndum heimsóttu Reykjavík á þessum árum, Handelstandens Sangforening frá Oslo, sem söng hér um sumarið 1924, og Den danske Studentersanforening, sem söng hér um sumarið 1925. Þetta voru góðir gestir og var þeim vel fagnað. Um þessa kóra hefur áður verið rætt.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is