Elektrónísk Tónlist á Íslandi

Inngangur

Fyrstu ritaðar heimildir á Íslandi um tækninotkun í tónlist er lítil grein í dagblaðinu Lögberg frá árinu 1909. Greinarhöfundur er Ólafur Ísleifsson (226) og byggði á ýmsum heimildum sem honum höfðu borist frá Íslandi og fjallar um það sem Ólafur kallar “hljóðritavél”. Vél þessi var uppfundin af Ísólfi Pálssyni á Stokkseyri (227) í kringum aldamótin og samkvæmt greininni mun hafa veri til eintak af vélinni. Til að gera sér örlitla grein fyrir “uppfundingu” þessari birti ég hér meginmál greinarinnar:

Ísólfur Pálsson hefir óvenjulega fjölhæfar uppfundingargáfur og liggur margt í augum uppi. Einna merkilegust mun þykja hljóðritavélin hans. Hann hefur fundið upp nokkurs konar hljóðritavél, sem er þó í engri líkingu við hina áðurfundnu hljóðritavél. Graphophon. Vél þessi ritar á pappír alla þá tóna sem koma fram í því hljóðfæri, sem hún er í sambandi við, og sýnir nákvæmlega hæð, dýpt, varanleik og styrkleik hvers tóns fyrir sig, jafnt hvort spilað er einraddað eða margraddað, og ritast hljóðið meðan það varir, hvort sem stutt er á nóturnar (t.d. forte piano) eða ekki, því sérhvert hljóð sem heyrist frá hljóðfærinu, hvort sem það er rétt eða rangt, ritar vélin.

Það er víst, að hljóðritun þessi mun koma sönglistinni í góðar þarfir; hún er einkar hentug fyrir þá, sem fást við lagasmíði, því það sem þannig er ritað, er samstundis komið í letur og gleymist ekki, heldur geymist. Það mun líka þykja að mörgu leyti stór kostur, að vélin ritar hvert lag upp í svo margar tóntegundir samstundis sem vill, og er það ekki lítill hægðarauki fyrir þá, sem fást mikið við söng og söngkennslu, því oft þurfa þeir ýmist að hækka eða lækka lög og er það seinlegt og vandasamt verk. Loks má geta þess, að letrið, sem vél þessi ritar, er alt annað, og byggist á alt öðrum grundvelli en hið venjulega nótnaletur. Það er að eins punktar og strik, sem ýmist liggja lárétt eða lóðrétt og virðist þeim er sjá það, en þekkja það ekki, það vera ólæsilegar rúnir. En svo haganlega er letri þessu fyrir komið að að eins þarf stuttrar stundar tilsögn til þess að kunna það að fullu, og má kalla þetta atriði í uppfundningunni jafnvel það merkilegasta. Fyrir sönglistina er það ekki síður þarft en hljóðritunin,því eftir þessu letri geta menn, sem áður kunnu ekki að spila, spilað einstakar raddir miklu fljótara eftir hinu vanalega nótnaletri.

Auðvitað er fáum ljóst öll meginatriði þessarar uppfundningar, en það eru miklar líkur til, að þessi maður hafi náð betri tökum á hljóðsveiflunum en hingað til er þekkt. (228)

226 Ólafur þessi Ísleifsson var fæddur 17. janúar 1859 og lést 19. mars 1943. Hann var læknir og nam m.a. í Vesturheimi 1887-93. Hann samdi m.a. smásögur og ritaði greinar í blöð.
227 Ísólfur Pálsson var faðir Páls Ísólfssonar orgelleikara. Ísólfur var mjög athugull fróðleiksmaður og m.a. uppfinningamaður. Fyrir utan þessa hljóðritunarvél er í greininni minnst á aðrar uppfinningar eins og áhald sem vekti fólk ef upp kæmi eldur í húsinu (reykskynjara) og mætti stilla áhaldið eftir vild á hitastig,þ.e. það virkaði á hita. Þá er minnst á tónkvísl sem mun frábrugðin öðrum tónkvíslum. Einnig er minnst á nýtt fyrirkomulag á orgelharmonínum sem ver þau hita og kulda og því hentug í óupphituðum kirkjum og öðrum húsum. Einnig samdi Ísólfur mörg sönglög sem mörg hafa ekki komið fyrir sjónir almennings ennþá – en eru til í handriti.

228 Lögberg: 8. júlí 1909.

Greinarhöfundur bendir á að grein sína byggi hann á vottorðum sem heimildarmenn Ísólfs hafi skrifað um hana og “skoðað hafi vélina”.
Lýsing Ólafs á vélinni vekur margar spurningar sem erfitt er að svara og gefur tilefni til vangaveltna. En fullyrða má að eina hljóðfærið sem Ísólfur hafði aðgang að var orgel harmoníum og líklega það hljóðfæri sem hann studdist við. Ef svo er þá mun hafa verið um einhvern mekanisma að ræða sem tengdist sjálfum mekanisma orgelsins. Þó svo Ísólfur hafi verið gæddur óvenjumiklum gáfum þá tel ég vafasamt að hann hafi haft vald á sjálfir “hljóðsveiflunni” eins og greinarhöfundur gefur í skyn. Þó er ýmsu ósvarað í þessum fullyrðingum þegar hann talar um að vélin hafi ritað hljóðstyrk. Eitt er þó víst að þessi tilraun Ísólfs í þá átt að afrita grafísk tákn sem gefa ýmsar upplýsingar um þá tóna er koma úr hljóðfæri hefur verið mjög merkileg og á sama tíma með því fyrsta sem gert var af slíkum tilraunum í heiminum. (229)

229 Ég hef átt bréfaskipti við Eggert Ólafsson, son Ólafs þess er greinina ritaði. (Bréf frá Eggert dags. 11. október og 19. október 1996) Eggert hefur ekkert fundið um þessa vél í eftirlátnum pappírum föður síns. Eggert hafði samband við Valgeir Sigurðsson ritara á Alþingi og bað hann að leita upplýsinga um þau fylgiskjöl sem fylgdu umsókninni um styrk. Valgeir komst að því að fylgiskjölum var skilað eftir að umsókninni hafði verið hafnað. Eggert hafði einnig samband við Halldór Sigurðsson, sonarson Ísólfs og gat Halldór þess að “afi sinn hafi mælt svo fyrir að pappírar hans skyldu eyðilagðir að sér látunum”. Svo langt er ég kominn í að leita upplýsinga um vél þessa.
Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem tilraunir hafa verið gerðar til að útbúa elektrónískt/tölvu stúdíó á Íslandi fyrir tónskáld og sem einnig þjónar tónsmíðanemendum Tónlistarskólans í Reykjavík, en því miður hefur ekki fengist fjármagn til að fylgja því eftir. Það hefur því verið sjálfsbjargarviðleitni einstakra tónskálda sem hefur gert þeim kleift að geta sinnt tónsmíðum sínum. Þau tónverk sem ekki hafa verið samin í skólastúdíóum bæði austan hafs og vestan, eða í öðrum erlendum stúdíóum, hafa verið samin við eldhúsborð einstakra tónskálda. Tónskáldin hafa smátt og smátt fjárfest í eigin tækjum, segulböndum –hljóðgerflum –tölvum – forritum o.s.frv. Styrkur hins opinbera hefur nánast enginn verið og það litla sem komið hefur hefur ekki dugað til að kaupa eða endurnýja tæki á einn eða neinn hátt. Þetta hefur leitt til þess að tónskáldin hafa þurft að fjárfesta í dýrum tækum sjálf, eða fá afnot af tækjum annarra tónskálda, til að geta sinnt sinni elektrónísku listsköpun
Staðreyndirnar tala sínu máli, því er vart hægt að tala um nokkurn skóla í elektrónískri tónsköpun á Íslandi þar sem ekki er um neinn samnefnara að ræða – annan en þann að sum tónskáld hafa stundað nám undir handleiðslu sama kennara við sömu lista-stofnun erlendis. Ekkert er stúdíóið, engar sameiginlegar tilraunir, engir tæknimenn – aðeins hin einlæga þrá eftir einhverju nýju samtímis því að neita að gefast upp þrátt fyrir sinnuleysi opinbera stjórnvalda.

Til þess að gefa sem nákvæmasta yfirlit yfir þróun elektrónískrar tónlistar á Íslandi hef ég valið að rekja feril hvers tónskálds fyrir sig, eftir því sem þau hafa komið fram á sjónarsviðið. Það geri ég vegna þess að hvert tónskáld er svo sérstætt í sinni list, hvert þeirra hefur unnið fyrir sig og því mjög fáir sameiginlegir þræðir að flétta saman. Magnús Blöndal Jóhannsson er fyrsta tónskáldið sem sinnir elektrónískum tónsmíðum á Íslandi, en Þorkell Sigurbjörnsson er sá fyrsti sem leggur stund á nám í elektrónískum tónsmíðum. Þó svo Þorkell og Magnús hafi unnið að list sinni svo að segja samtímis þá stundaði Þorkell nám sitt og tónsmíðar í Bandaríkjunum, en Magnús semur fyrsta elektróníska verkið á Íslandi og samtímis er fyrsta eletróníska verkið sem flutt er á Íslandi er eftir hann, þá telst hann frumherji elektrónískra tónsmíða á Íslandi.
Ég mun í næstu köflum rekja upphaf og þróun hvers tónskálds fyrir sig og um leið koma inn á helstu viðburði sem tengjast flutningi á elektrónískri tónlist á Íslandi. Umfang hvers kafla fyrir sig mun verða mismikið, allt eftir því hve stóran þátt hin elektróníska tónlist hefur átt í heildartónsköpun hvers tónskálds.

 

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is