Dr. Victor Urbancic

Dr. Victor Urbancic (1903-1958). Hann hélt lengi hinum þýzka rithætti á nafni sínu (Urbantschitsch), en tók síðar upp annan rithátt til hægðarauka fyrir Íslendinga og ritaði þá nafn sitt Dr. Victor Urbancic.

Dr. Victor Urbancic er einhver fjölgáfaðasti og bezt menntaði tónlistarmaður, sem starfað hefur í tónlistarlífi Reykjavíkur. Hann var mikill starfsmaður og hverjum vanda vaxinn, svo að segja má með sanni, að allt léki í höndum hans, sem hann snerti á, enda urðu afrek hans mikil og góð, eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Dr. Victor Urbancic var fæddur í Vínarborg 9. ágúst 1903 og var faðir hans prófessor í læknisfræði við háskólann þar. Ættin er af júgóslavneskum stofni. Hann lærði tónlistarfræði við háskólann í Vínarborg hjá hinum víðkunna fræðimanni og rithöfundi Guido Adler, og tónfræði og tónsmíði (Komposition) hjá Josep Marx. Píanóleik lærði hann hjá dr. Paul Weingartner, hljómsveitarstjórn hjá Clemens Kraus, sem er frægur stjórnandi hljómsveita og söngleika í Vínarborg og víðar.

Áður en dr. Urbancic kom hingað til 1ands hafði hann á hendi hljómsveitarstjórn í Max Reinhards-leikhúsinu í Vínarborg (1923-26), og síðan í óperuleikhúsinu í Mainz í Þýzkalandi í sjö ár (1926-33). Um veturinn 1934 stjórnaði hann sem gestur óperum í þjóðleikhúsinu í Belgrad. Um haustið var hann ráðinn varaskólastjóri óperu- og tónlistarskólans í Graz í Austurríki, og jafnframt kennari í píanó- og orgelleik við skólann. Einnig gegndi hann með þessum störfum lektorsstöðu í tónvísindum við háskólann í Graz og var jafnframt stjórnandi hljómsveitar háskólans. Í Graz var hann til haustsins 1938, en þá fór hann til Íslands.

Árið 1925 varð hann dr. phil. fyrir ritgerð um sónötuform Brahms og hefur sú ritgerð verið gefin út. Hann var þá ekki nema 22 ára gamall, en doktorsritgerðin þykir svo merkileg, að hennar er getið meðal helztu heimildarrita um tónskáldið í Asehhaugs Musikleksikon, sem gefið var út í tveim bindum í Kaupmannahöfn 1957.

Dr. Victor Urbancic hefur samið mörg tónverk og hafa ýms verið prentuð. Eru þetta verk fyrir hljómsveit, píanó, kammermúsíkverk, kantata fyrir kór og hljómsveit, sem flutt var í (Graz við ágætar viðtökur). Sönglög hans hafa oft verið sungin í Þýskalandi. Urbancic er ágætur píanóleikari, og hélt víða erlendis píanótónleika, áður en hann fluttist til Íslands, meðal annars í Vínarborg, Budapest, Amsterdam og fleiri borgum. Hér í Reykjavík var dr. Urbancic mikið eftirsóttur undirleikari hjá söngvurum og fiðluleikurum. Einnig kom hann fram sem orgelleikari.

Eins og áður er sagt var dr. Urbancic ráðinn eftirmaður dr. Mixa hjá Tónlistarfélaginu. Hann tók þá við kennslustörfunum í píanóleik og tónfræði í Tónlistarskólanum og jafnframt við hljómsveitarstjórastarfinu. Ekki verður hér getið um einstaka tónleika Hljómsveitar Reykjavíkur aðra en þá, þar sem flutt eru stór kórverk, en dr. Urbancic flutti hér fyrstur óratoríur og önnur skyld stór kórverk meistaranna, og tók þar upp þráðinn af dr. Mixa , sem flutti Messuna í g-dúr eftir Schubert árið 1937, eins og áður hefur verið sagt frá. Helztu kórverkin eru þessi: „Messías“ eftir Händel (1940 og 1948), „Judas Makkabeus“ eftir sama höfund (1947), „Requiem“ eftir Mozart (1942 og 1949), „Jóhannesarpassían“ eftir Bach (1943) og „Jólaóratóríu“ eftir sama höfund (1947). Loks skal nefna „Stabat mater“ eftir Rossini (1951) og „Davíð konung“ eftir Honegger, sem flutt voru í Þjóðleikhúsinu. Flutningur þessara verka þótti ávallt mikill tónlistarviðburður.

Þjóðleikhúsið tók til starfa vorið 1950 og var dr. Urbancic þá ráðinn þar hljómsveitarstjóri og söngstjóri og gegndi þeim störfum fram að andláti sínu. Hann var áður stjórnandi við óperuhús erlendis og vanur starfinu, og nú varð hann brautryðjandi í óperuflutningi á Íslandi. Leikstjórnina hafði annar maður á hendi, oft útlendur, en sönglega hliðin var í hans hendi. Áður hafði hann stjórnað hér óperettunni „Brosandi land“ eftir Lehar í Iðnó árið 1940. Í Þjóðleikhúsinu hafði hann á hendi söngstjórn og hljómsveitarstjórn í eftirtöldum óperum og óperettum: „Káta ekkjan“ eftir Lehar (1956), „Sumar í Tyrol“ eftir Benatsky (1957), hvorttveggja óperettur, og óperunum „Rigoletto“ (1951), „Traviata“ (1953), báðar eftir Verdi, „Cavelleria rusticana“ eftir Mascagni og „Pagliacci“ eftir Leancovallo, báðar sýndar á sama kveldi (1954). Ennfremur „Tosca“ eftir Puccini (1957) og „Töfraflautan“ eftir Mozart (1956). Loks skal þess getið að hann var söngstjóri í „Úlla Winblad“ eftir Carl Zuckmayer, en leikritið er um Bellman, sýnt 1958, en dr. Urbancic andaðist á því ári.

Í kaflanum. um kórsöng hér á eftir verður nánar talað um afskipti dr. Urbancic af kórsöng, en hann var söngstjóri Tónlistarfélagskórsins og síðar Þjóðleikhúskórsins. Ennfremur verður þá minnst á kórstjórn hans í Landakotskirkjunni, en hann var kaþólskur og organisti og söngstjóri kirkjunnar.

Dr. Urbancic var fæddur Austurríkismaður, en öðlaðist íslenzkan ríkisborgararétt. Hann var sannur Íslandsvinur og hafði áhuga á íslenzkum þjóðlögum, safnaði þeim og raddsetti fyrir kóra. Hann var hámenntaður listamaður, en ljúfur og vinsæll af þeim, sem þekktu hann og lutu hans stjórn í listinni. Minningarsjóðurinn, sem Þjóðleikhúskórinn stofnaði um hann, ber vott um þá ást og virðingu, er hann naut.

 

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is