Dr. Franz Mixa

Dr. Franz Mixa er fæddur í Vínarborg árið 1902. Hann lauk stúdentsprófi 19 ára. Fór þá strax sama árið á músíkháskólann og var aðalfag hans tónvísindi samhliða heimspeki og sálarfræði. Jafnframt músíknáminu stundaði hann í tvö ár nám við Vínarháskólann og eitt ár í viðbót eftir að hann hafði lokið prófi við músíkháskólann. Doktorsritgerð sína „Die Klarinette beim Mozart“ varði hann við háskólann 1928.

Hingað til lands kom dr. Mixa um haustið 1929. Réði Sigfús Einarsson hann hingað til að æfa hljómsveitina fyrir Alþingishátíðina 1930, en hátíðarnefndin hafði sett það skilyrði, að hljómsveitinni yrði fenginn vanur stjórnandi og kennari frá útlöndum. Hann reyndist bráðsnjall og ötull í öllum störfum.

Þegar Tónlistarskólinn tók til starfa haustið 1930, var dr. Mixa ráðinn kennari við skólann í píanóleik og tónfræði. Hann var góður kennari og vinsæll, og kunni þá list að gera tónfræðina, sem hjá mörgum kennurum verður þur og strembin, lifandi og aðlaðandi.

Jafnframt var dr. Mixa. ráðinn stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur. Tónlistarfélagið rak hvorttveggja, Tónlistarskólann og hljómsveitina, og var skólinn stofnaður fyrst og fremst með það fyrir augum að veita hljómsveitar meðlimunum tilsögn.

Dr. Mixa var mikill leiðandi kraftur í tónlistarlífi Reykjavíkur, meðan hann dvaldi hér, og stjórnaði fjölmörgum tónleikum, sem allir voru haldnir á vegum Tónlistarfélagsins. Af mörgum tónleikum Hljómsveitar Reykjavíkur sem hann stjórnaði, skal nefna tónleika í Gamla Bíó í febrúar 1933. Þá leikur Björn Ólafsson, nemandi í Tónlistarskólanum, fiðlukonsert eftir Vivaldi, og Helga Laxnes, einnig nemandi skólans, píanókonsert í d-moll eftir Mozart. Þá skal ennfremur nefna Mozart tónleika í Gamla Bíó í febrúar 1935. Þá leikur Katrín Dalhoff, nemandi skólans, áðurnefndan píanókonsert eftir Mozart. Í marz sama ár heldur hljómsveitin í Gamla Bíó Bach-Händel tónleika. Loks skal nefna tónleika í Gamla Bíó 15. des. 1937, sem eru eftirtektarverðir fyrir það, að þá er flutt Messan í g-dúr eftir Schubert í heild, í fyrsta sinn hér á landi.

Dr. Mixa átti frumkvæði að hinum vinsælu óperettusýningum, sem á sínum tíma settu mikinn svip á tónlistarlífið í Reykjavík. Sjálfur stjórnaði hann þremur fyrstu óperettunum, en þær eru þessar: „Meyjaskemman“ eftir Schubert, frumsýnd 1. febr. 1934. (Var aftur flutt árið 1938 og þá undir stjórn dr. Victors Urbancic), „Systirin frá Prag“ eftir Wenzel Müller, frumsýnd 30. marz 1937 (þetta er talin vera komisk ópera) og „Bláa. kápan“ eftir Walter Kollo, frumsýnd 2. febr. 1938. Allar óperettunnar voru sýndar í Iðnó. Dr. Mixa reið einnig á vaðið með flutning stórra kórverka með hljómsveitarundirleik, (Messan í g-dúr eftir Schubert), sem síðar urðu mikill liður í starfi hljómsveitarinnar.

Dr. Franz Mixa hvarf af landi brott á árinu 1938 og tók þá dr. Victor Urbancic við störfum hans hjá Tónlistarfélaginu.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is