Cellóleikarar

Erling Blöndal Bengtson. Hann er nú heimsfrægur cellósnillingur, en þegar hann lék hér í fyrsta sinn í Reykjavík í Gamla Bíó um vorið 1946 var hann drengur á fermingaraldri, – og undrabarn. Sannarlega var hann undrabarn og kunnátta hans og hæfileikar undrunarefni öllum, sem á hann hlýddu. Það er alkunnugt, að flest undrabörn hverfa af sjónarsviðinu eftir fáein ár og gleymast. En þeir sem gleggst kunnu um að dæma, þóttust skynja í list hins unga snillings þann kjarna, sem með vaxandi þroska og aldri myndi gera hann að skínandi stjörnu á himni listarinnar. Og þetta rættist á ótrúlega skömmum tíma.

Eftir þessa tónleika fann Tónlistarfélagið í Reykjavík sér blóðið renna til skyldunnar, því að Erling er íslenzkur í móðurættina, og kostaði hann til náms í Bandaríkjunum. Erling fór þó fyrst heim til Danmerkur, en kom aftur til Reykjavíkur seint í nóvember 1940 og hélt cellótónleika í Austurbæjarbíó. Héðan fór hann síðan til Bandaríkjanna og stundaði nám hjá rússneska cellósnillingnum Pjatigorsky (f. 1903) við Curtis-tónlistarskólann í Fíladelfíu. Ári síðar var Erling orðinn eftirmaður kennara síns við skólann og gegndi því starfi árin 1950-53, en síðan hvarf hann heim til Kaupmannahafnar og var sama ár, 1953, skipaður prófessor við konunglega tónlistarskólann þar í borg, þá aðeins tvítugur að aldri.

Erling Blöndal Bengtson er fæddur 8. marz 1932 í Kaupmannahöfn, sonur Vald. Bengtson fiðluleikara. og konu hans Sigríðar, fædd Nielsen. Sigríður er dóttir hjónanna Þórunnar Blöndal og Sophusar Nielsen, kaupmanns á Ísafirði. Þórunn er dóttir Gunnlaugs sýslumanns Blöndals og Sigríðar konu hans, en Sigríður er dóttir Sveinbjarnar Egilssonar rektors, hins stórmerka málfræðings og skálds. Langamma cellósnillingsins og skáldið Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson eru systkini.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í Egilsenættinni og Blöndalsættinni eru listrænar gáfur. Egilsenættinni eru þjóðkunn skáld og drátthagir menn og í Blöndalsættinni eru söngmenn góðir og listhneigðir gáfumenn, þar á meðal einn bezti listmálari þjóðarinnar, Gunnlaugur Blöndal. Í báðum ættum eru menn, sem kunnir eru fyrir hljómlistargáfur og hafa iðkað þá list í tómstundum. Það er því ástæða til að ætla, að cellósnillingurinn hafi fengið nokkuð af listeðlinu úr íslenzku ættinni.

Erling Blöndal Bengtson kom í fyrsta sinn fram opinberlega 4 ára gamall. Þá lék hann á jólakonsert, sem blaðið Politiken gekkst fyrir. Hann lærði fyrst hjá föður sínum og síðan hjá Fritz Dietzmann, dönskum cellóleikara, sem lék hér í Reykjavík 1927. Loks lærði hann hjá Pjatigorsky, eins og áður er sagt.

Erling lék hér í Reykjavík í fyrsta sinn í Gamla Bíó um vorið 1946, þá nýlega orðinn 14 ára, og aftur í Austurbæjarbíó í nóvember 1948, þá 16 ára gamall, og enn aftur á sama stað í september 1949. Dr. Victor Urbancic aðstoðaði hann á öllum þessum tónleikum. Eftir það hefur hann komið hingað nokkrum sinnum, haldið sjálfstæða tónleika og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveitinni, en frásögn af þessum tónleikum tilheyra næsta tímabili. Erling hefur haldið tónleika um alla Evrópu, einnig í bandaríkjunum og á Austurlöndum.

Í norsku músíkleksikoni (Gurvin og Anker), sem kom út í Osló 1959, er listamanninum lýst þannig:„Hann hefur mikinn og fagran tón, er 1jós og skýr og hefur sterka stílvitund, og er af mörgum álitinn einn af beztu cellósnillingum, sem eru uppi í heiminum.“

Erling Bengtson er talinn danskur, hvar sem hans er getið , enda er faðirinn danskur og móðirin í föðurættina af dönskum ættum, og svo er hann fæddur í Danmörku, uppalinn þar og mótaður af danskri menningu. En hinum íslenzka uppruna sínum gleymir hann ekki, enda veit hann, að það eru góðir stofnar.

Einar Vigfússon. Fremsti íslenzki cellóleikarinn fram að þessu er Einar Vigfússon. Hann kemur fram á sjónarsviðið í lok þessa tímabils, en saga hans tilheyrir næsta tímabili. Á Chopin- tónleikum í Tripólileikhúsinu 30.okt. 1949 lék hann Tríó með þeim Birni Ólafssyni og Jórunni Viðar. Á þeim tónleikum lék hann ennfremur cellósónötu eftir Chopin.

Einar er fæddur í Reykjavík 24.febrúar 1927, sonur Vigfúsar Einarssonar, skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu, og seinni konu hans Guðrúnar Sveinsdóttur, en hún er systurdóttur Herdísar, fyrri konu Vigfúsar, og Elínar Laxdal, báðar dætur skáldsins Matthíasar Jochumssonar. Þær voru báðar söngkonur og Herdís ennfremur píanóleikari.

Einar Vigfússon lærði í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1941-45, og síðan í konunglega tónlistarskólanum í Lundúnum (Royal College of Music) 1946-49. Síðan hefur hann verið kennari hér við Tónlistarskólann, leikið í Sinfóníuhljómsveitinni frá byrjun og komið þar fram sem einleikari, m.a. í Cellókonsert í a-moll, op. 33, eftir Saent Saäns (1954) og oftar.

Dr. Heinz Edelstein. Þýzkur cellisti, sem ráðinn var hingað árið 1938 til að kenna í Tónlistarskólanum, en fór af landi burt eftir ca.15 ára dvöl hér. Hann er fæddur í Bonn árið 1902, gekk þar í menntaskóla og stundaði síðan nám í tónfræði og heimspeki við háskólana í Freiburg, Berlín, Bonn og Köln, og varð dr. phil. Eftir það stundaði hann cellóleik hér og þar, meðal annars sem einleikari við kammerhljómsveit leikhússins í Dusseldorff, var nokkur ár tónlistargagnrýnandi og síðan cellókennari í Freiburg. Hann var og cellisti í strokkvartett Ernst Drucker, er ferðaðist um Þýzkaland og hélt tónleika. Hér í Reykjavík lék dr. Edelstein á kammarmúsíktónleikum og í Sínfóníuhljómsveitinni. Hann var gagnmenntaður tónlistarmaður og fágaður cellisti.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is