Björn Kristjánsson (1858-1939)

Björn Kristjánsson flúði úr sveitinni 16 ára gamall; er fyrst vinnumaður á Eiði á Seltjarnarnesi, en tveimur árum síðar er hann í Reykjavík og lærir þar skósmíði. Það hefði þótt með ólíkindum, ef sagt hefði verið um þennan blásnauða sveitapilt, sem þá þekkti enga söngnótu, að hann yrði nokkrum árum síðar orðinn einn af leiðandi mönnum í sönglífi höfuðstaðarins. En þetta undur gerðist. Sjö árum, síðar (1883) er hann orðinn söngstjóri og opinber hljóðfæraleikari í Reykjavík.

Áður hefur verið sagt frá söngfélagi karla og kvenna, sem Björn og Steingrímur Johnsen stofnuðu. Í ummælum „Þjóðólfs“ (12. jan. 1884) um fyrstu söngskemmtun félagsins er tekið fram, að þeir hafi stjórnað söngnum hvor að hálfu, og síðan er sagt: „Hornin eru þekkt hér áður (Helgi Helgason blés á horn nokkur lög), og allir þekkja hina ágætu kunnáttu og snotru rödd St. J.; en B. K. var hér ókunnur flestum. En það má fullyrða, að það sé almannarómur, að hann spili ágæta vel ( á harmonium) og eins, að söngstjórnin hafi farið honum vel úr hendi.“ Þessi söngflokkur söng oft opinberlega og hefur áður verið minnst á lagavalið og raddgæðin. Árin 1876-79 lifði Björn á skósmíði. Það er ekki féhyggja, sem heillar hann, heldur tónlistin.

Um 1880 fór hann til Kaupmannahafhar og lærir þar tónfræði og orgelleik. Þótt námstíminn hafi verið stuttur, þá var þar lagður sá grundvöllur, sem hann síðan með sjálfsnámi byggði ofan á, og varð hann með söngfróðustu mönnum þessa lands. Hann fékk marga titla síðar í lífinu: kaupmaður, alþingismaður, bankastjóri og ráðherra. Á þessum árum var hann oft titlaður söngfræðingur. Það var til hans leitað og honum falinn yfirlestur og athugun á sönglagaútgáfum. Jónas Jónsson segir í formálanum fyrir hinum fjórrödduðu Passíusálmalögum, sem hann valdi og gaf út 1906-1907: „Hvað raddsetninguna snertir, þá hefur hún sérstaklega verið valin eftir því, sem bezt á við harmonium, og hefur Björn Kristjánssoa, kaupmaður í Reykjavík, hjálpað mér mest í því vali; hann hefur einnig farið yfir öll lögin og víða lagað raddsetningu þeirra. “ Sigfús Einarsson tekur fram í formálunum fyrir Kirkjusöngsbókinni 1906, að Björn Kristjánsson hafi lesið prófarkir að fyrra helming bókarinnar og veitt honum aðstoð við starfið á margan hátt.

Eftir námið í Kaupmannahöfh er Björn organleikari á Akureyri 1881-82. Hann sezt síðan að í Reykjavík 1833 og stofnar þar árið 1888 verzlun þá, sem við hann er kennd og enn er rekin. Það er sérstök saga að segja frá sveitapiltinum, sem með þrautseigju og kjarki brýzt áfram efnalaus og kemur upp stórverzlun á íslenzkan mælikvarða. Hann stjórnaði sjálfur verzluninni í 20 ár og verzlaði með vefnaðarvörur, leðurvörur og ritföng. Það er fyrir utan ramma þessarar greinar að lýsa stjórnmálamanninum og opinberum störfum hans, en drepið skal á það, að þeir Ísafoldar-Björn og Björn Kristjánsson voru samherjar í stjórnmálum og mun sá fyrrnefndi hafa fengið nafna sinn til að bjóða sig fram til þings. Björn Kristjánsson var þingmaður Gullbringu-og Kjósarsýslu í 30 ár og lét mikið að sér kveða í mörgum málum, eins og t, d, járnbrautarmálinu. Átti hann drjúgan þátt í, að hlaupið var yfir járnbrautarstigið í samgöngumálum landsins. Björn var bankastjóri Landsbankans 1909-1918 og fjármálaráðherra 1917. Eitt hugðarefni Björns Kristjánssonar var efnafræði og steinafræði. Hann var kominn yfir fimmtugt, þegar hann fór suður í Þýzkaland, sezt þar á skólabekk og lærir efnafræði og efnagreiningu. Eftir það fékkst hann mikið við efnafræði og rannsóknir á steinafræði landsins.

Tónlistin mun Þó hafa staðið hjarta hans næst. Þrítugur samdi hann kennslubók í söngfræði, „Stafróf söngfræðinnar“ (Rvík. 1888). Sú bók var endurprentuð í Reykjavík 1922. Hann samdi sönglög, sem eru í alþýðusöng þjóðarinnar: „Rósin“ („Það var um morgun“), prentað í „Íslenzku söngvasafni“ II, nr. 136, og í „Ljóðum og lögum“IV, nr . 44, og „Einn fagranmorgun vors það var“, prentað í „Íslenzku söngvasafni“ I, nr. 21, og í „Skólasöngbókinni“, 2, hefti, Rvík. 1920, nr. 7. Tvö sálmalög eftir hann eru í kirkjusöngsbókum okkar frá 1906 og 1936: „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ og „Ó, blessa, guð, vort feðra frón.“ Hið fagra lag Mozarts úr „Töfraflautunni“ heyrist oftast sungið við fyrrnefndan sálm Valdimars Briem og mun Valdimar hafa ort sálminn undir því lagi. Lag Björns Kristjánssonar við sálminn er gott lag, sem verðskuldar, að því sé sómi sýndur.

Björn Kristjánsson er fæddur 26.febrúar 1858 að Hreiðurborg í Sandvíkurhreppi. Hann var í foreldrahúsum til 6 ára aldurs, en síðan hjá ömmu sinni til 14 ára aldurs. Hann var i vinnumennsku árin 1872-76, fyrst í Búrfellskotií Grímsnesi og síðan á Eiðiá Seltjarnarnesi. Hann lærði skóaraiðn hjá Jóhanni Árnasyni í Reykjavík, fluttizt með honum til Ísafjarðar og setti síðan upp eigin vinnustofu sjálfur.Ferli hans að öðru leyti hefur verið lýst í stórum dráttum hér að framan. Í minningargrein um Björn látinn segir Valtýr Stefánsson ritstjóri: „Björn Kristjánsson var alveg einstakur maður. Ævisaga hans var lærdómsrík, því hún var ævintýri úr íslenzku þjóðlífi. Hann var maður, sem reis upp úr mestu fátækt, sem átti ekkert vegarnesti nema eldheita framfaraþrá, þjóðarhollustu og trú á mátt sinn og megin.“ Síðan er minnst á kaupsýslumanninn, stjórnmálamanninn og vísindalegan áhuga hans. Loks segir Valtýr: „Listhneigð til hljómlistarinnar var það í fari hans, sem mótaði hann mest.“

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is