Ásgeir Beinteinsson píanóleikari

Þátturinn var á dagskrá Rásar 1, 21. nóvember 2000.


Góðir hlustendur!
Velkomnir á tónaslóð.

Í þessum þáttum hefur stundum verið fjallað um einstaka tónlistarmenn og leikin tónlist eftir þá eða í flutningi þeirra. Í dag langar mig að kynna ykkur einn slíkan, sem aldrei heyrist til meira, en var í hópi sinnar kynslóðar einn af bestu píanóleikurum á Íslandi – Ásgeir Beinteinsson. Ég vil hér í upphafi þakka heimildarmönnum mínum, Þóri Þórissyni, Elíasi Mar og Þórgunni Ingimundardóttur á Akureyri, auk Höskuldar Þráinssonar. Að auki hefur Þorvaldur Kristinsson veitt mér ómetanlegar upplýsingar um Ásgeir. Það hlýtur að vera ljóst að vart er hægt að gera listamönnum almennileg skil í þáttum sem þessum og því verður aðeins drepið á það helsta í lífi og fari þeirra en frekar lögð áhersla á að list þeirra njóti sín í þáttunum. Sem betur fer á útvarpið gott yfirlit í formi hljóðritana yfir leik Ásgeirs,svo gott að aðeins kemst hluti þess fyrir í þættinum en vonandi tekst að vekja á ný athygli á þessum mikla listamanni sem vakti undrun og aðdáun fyrir listræna hæfileika og næmni allt frá unglingsárum.

Ásgeir Beinteinsson var fæddur 30. september árið 1929 í Hafnarfirði, og lést á Landsspíatalanum í Reykjavík 5. apríl árið 1992. Hann var sonur Beinteins Bjarnasonar útgerðarmanns og Þórunnar Sigríðar Ágústsdóttur Flyering. Beinteinn, faðir Ásgeirs var sonu hins mikla bjargvættar hinnar þjóðlegu tónlistar, Séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði.

Ásgeir stundaði nám á Akureyri ár árunum 1946-50 og lauk þaðan stúdentspófi. Samhliða menntaskólanáminu stundaði hann píanónám hjá Margréti Eiríksdóttur. Kom hann fram á ýmsum skemmtunum og vakti athygli fyrir mikið næmi og tilfinningu í túlkun sinni. Eitt af þeim verkum sem hann lék opinberlega sem nemandi á Akureyri var Chaconna í d-moll eftir Bach-Busoni.
Góðir hlustendur!
Við heyrum nú Ásgeir Beinteinsson leika Chaconnu í d-moll e. Bach Busoni í hljóðritun frá árinu 1965 en þessi hljóðritun hefur ekki verið leikin í útvarp síðan 6. maí það ár.

Ásgeir Beinteinsson lék Chaconnu í d-moll e. Bach-Busoni í hljóðritun frá árinu 1965.

Ásgeir naut einnig kennslu Árna Kristjánssonar í Tónlistarskólanum í Reykjavík í ein þrjú ár og lauk þaðan einleikaraprófi árið eftir stúdentsprófið. En árið 1951 fór hann til Hamborgar til framhaldsnáms við Tónlistarháskólann þar og naut tilsagnar Eduard Erdman. Ekki eru til neinar hljóðritanir með leik Ásgeirs frá því á námsárunum svo ég viti til, en þó er til ein hljóðritun við Hljóðfræðistofnun háskólans í Hamborg. Samkvæmt upplýsingum frá Höskuldi Þráinssyni við háskóla Íslands þá er um að ræða 10 mínútna langa texta sem lesinn var af Ásgeiri 12. nóvember árið 1951. Tilgangur með þessum lestri er óþekktur en í skýringum með bandinu segir: Upplesarinn, Ásgeir Beinteinsson er Hafnfirðingur og var við nám við Tónlistarháskólann í Hamborg 1951-52. Hefur þessi upplestur verið notaður til framburarrannsókna eins og fram kemur í 1. árgangi af tímaritinu Íslenskt mál árið 1979 í grein eftir Magnús Pétursson hljóðfræðing. Textinn sem Ásgeir las er lýsing á landfræðilegri legu Íslands og nokkrum heildareinkennum á landslagi, líkt og hægt er að lesa í skólalandafræði. Upplesturinn er vel af hendi leystur og hefur upptakan farið fram við bestu skilyrði – eins og segir í greininni. Kannski getum við fengið afrit af þessu einhverntíma frá þeim Hamborgarmönnum til þess að eiga rödd Ásgeirs hjá okkur til framtíðar.

Ásgeir átti við þrálátan sjúkdóm að stríða fram eftir aldri sem var astmi og gátu köst hans staðið allt upp í 10 daga þar sem hann var algerlega frá vinnu og æfingum. Loftslagið í Hamborg var ekki til að hjálpa honum í þessum veikindum sínum þannig að hann stefndi suður á bóginn og flutti sig til Rómar þar sem hann stundaði nám hjá prófessor Rudolf Caproli og var nemandi hans næstu þrjú árin. Auk þess sótti hann sumarnámsskeið hjá hinum fræga píanóleikara þessa tíma, Edwins Fischer í Sviss sumurin 1953 og 54.

Það lá fyrir Ásgeiri eins og flestum öðrum íslenskum hljóðfæraleikurum að halda opinbera tónleika strax að námi loknu erlendis og var frumraun hans á því sviði á vegum Tónlistarfélagsins í Austurbæjarbíói 17. október árið 1955 með kraftmikilli efnisskrá. Lék hann þar m.a. Chaconnuna sem við heyrðum hér áðan, Waldstein sónötu Beethovens, þrjár pelúdíur eftir Debussy og etýður op. 10 nr. og og 12 e. Chopin.

Í Alþýðublaðinu 26. október 1955 má lesa grein eftir Arktos þar sem hann fjallar um tónleikana en þar segir m.a.
Ásgeir stóðst prófraunina með mikilli prýði. Hann hefur þegar náð mikilli tækni og hefur bersýnilega hlotið ágætis skólun, bæði hér heima og erlendis.

Ennfremur segir:

Hin stórglæsilega Etude Revolutionaire var leikið með miklum glæsibrag. Það leynir sér ekki að Ásgeir Beinteinsson hefur hlotið tónlistargáfuna í vöggugjöf, smekklegur flutningur efnisskrárinnar bar þess órækt vitni.

Tilvitnun lýkur.

Fyrir um tveimur árum fann ég einhversstaðar í gömlu dóti úti í bæ segulband með leik Ásgeirs Beinteinssonar og verður það að teljast góður fundur því á því leikur hann 5 etýður op. 10 eftir Chopin og þar á meðal Byltingaretýðuna sem vitnað var í hér að framan í umsögninni um tónleikana. Þar sem þessi hljóðritun hefur aldrei verið flutt í útvarpi sé ég enga ástæðu til að klípa neitt af þessum etýðum og leyfa ykkur að heyra þær allar hér.

Góðir hlustendur!
Ásgeir Beinteinsson leikur 5 etýður op 10 eftir chopin í hljóðritun frá árinum 1960.

Við heyrðum Ásgeir Beinteinsson leika 5 etýður op 10 eftir Chopin í hljóðritun frá árinu 1960.

Á baksíðu Morgunblaðsins daginn eftir birtis mynd af Ásgeir og lítil grein undir yfirskriftinni Hrifning. en í henni segir:

Mikill fögnuður var á hljómleikum Ásgeir Beinteinssonar í Austurbæjarbíói í gærkvöld – Húsið var þéttskipað þó að margir veigri sér nú við að fara að heiman. Var listamanninum fært fangið fullt af blómum og klappi ætlaði aldrei að linna.

Tilvitnun lýkur.

Það sem vitnað er til í þessari grein um að menn hafi veigrað sér við að fara að heiman er að um þær mundir, eftir því sem ég kemst næst, gekk skæður sjúkdómur í Reykjavík og fólk var hrætt við smit af hans völdum.

Nú fór í hönd farsælt starf sem píanóleikar og kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við Tónlistarskólann á Akranesi og í Keflavík. Ásgeir var mjög vinsæll kennari og leiddi hann margann þekktann píanóleikarann á framabrautina á ferli sínu sem slíkur.

Ásgeir kom nokkrum sinnum fram með Sinfóniuhljómsveit Íslands og vakti ávallt athygli fyrir leik sinn þar eins og annarsstaðar. Í desember árið 1961 lék hann Píanokonsert nr. 5 eftir Beethoven með Sinfóníuhljómveit Íslands undir stjórn Jindrich Rohan. Jón Þórarinsson skrifaði m.a. um þátt Ásgeirs í þessum tónleikum:

Önnur viðfangsefni tónleikanna voru fimmti píanókonsert Beethvoens og fimmta synfónía Tschaikowskys og eru þetta efnismestu tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar undir stjórn Jindrichs Rohans til þessa. Ásgeir Beinteinsson lék einleikshlutverkið í konsertinum með ágætri tækni og þeim tilþrifum, mýkt og innlifun, sem þetta mikla verk krefst.

Tilvitnun lýkur

Eins og ég sagði í upphafi er erfitt að gera einstaka listamanni góð skil í stuttum útvarpsþætti sem þessum. Ég vil þó hér í lokin vitna í minningargrein Þóris Þórissonar, en fjöskylda hans var einn af hornsteinum í lífi Ásgeirs seinasta áratuginn sem hann lifði auk Sturlu Tryggvasonar víóluleikara. En Þórir segir þar m.a.:

Ásgeir var ekki þeirrar gerðar, að hann þyldi til langframa álag konsertpallsins. Á honum sannaðist, að hinir fágætustu tónlistarhæfileikar nægja ekki einir og sér til langlífs á tónleikapalli. Jafnvel svo ágætt sambland gáfna og hæfileika sem Ásgeir hafði; háþróað hryn- og formskyn, óvenju næma stíkennd og innsæi í tónlist, hreyfileikni, einlægur tónlistaráhugi og dugnaður í ströngu námi dugðu ekki til að yfirvinna helsta veikleika hans, sviðsbeyginn, þennan óvin sem óx og varð brátt sterkari en þessi viðkvæmi en hæfileikaríki maður fékk við ráðið. þessi veikleiki batt ásamt öðru, sem á eftir fylgdi, enda á feril hans sem einleikara. Í leik hans vantaði þó hvorki skap né átök. Sá einleikari sem endist er líklega sú manngerð, sem sameinar einhvers konar flókið jafnvægi milli tónlistargáfna og persónuleikaþátta. Ásgeir hafði vísast allt sem til þurfti, nema hörku hins sterka egós. Það er þeim mun raunalegra fyrir þá sök, að á listræna sviðinu hafði hann meira að gefa en margur sá er “lengra hefur náð” samkvæmt almennu mati á frama og afrekum á listasviðinu. Oftast er erfitt að átta sig á hvað er orsök og hvað afleiðing í lífi fólks og hegðun, jafnvel þeirra sem við teljum okkur þekkja vel. Ég hygg þó að áfengisneysla Ásgeirs, sem vissulega fór úr böndum er á leið ferilinn, hafi í upphafi fremur verið afleiðing þeirrar erfiðu glímu, sem hann átti í við eigin viðkvæmni og innri spennu, heldur en frumorsök þess að hann hvarf af þeirri braut sem hann hafði markað sér og átti svo brýnt erindi við. Um 1970 varð Ásgeir fyrir heilablóðfalli. Þótt hann jafnaði sig að miklu leyti varð hann aldrei samur og fyrr. Minni hans, sem mun hafa nálgast afburðarminni fyrir áfallið, beið hnekki þótt ekki ylli neinum erfiðleikum í daglegum samskiptum né venjubundum störfum.

Tilvitnun lýkur.

Góðir hlustendur!
Við skulum kveðja þennan mikla listamann með því að heyra hann leika krómatíska fantasíu og fúgu eftir Johan Sebastian Bach í hljóðritun frá því í janúar árið 1960.

Ég þakka áheyrnina

Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is