Aldarafmæli Bjarna Þorsteinssonar 1961

Þátturinn var á dagskrá Rásar 1, 7. mars 2000.


Góðir hlustendur – velkominr á tónaslóð.

Við heyrðum kirkjuklukkur Sigufjarðarkirkju hringja inn til hátíðarathafnar 14. október árið 1961 sem haldin var í tilefni aldarafmælis séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Hátíð þessi var umfangsmikil og glæsileg og stóð hún langt fram á kvöld. Í undirbúningsnefndinni að þessari hátíð stóðu fyrir hönd bæjarbúa, Sigurjón Sæmundsson, Guðbrandur Magnússon, Ragnar Fjalar Lárusson, Sigrid Fr. Bjarnason og Þóroddur Guðmundsson. Að auki tóku þátt í hátíðinni Lúðrasveit Siglufjarðar, Kirkjukór Siglufjarðar og karlakórinn Vísir ásamt stjórnendum sínum. Að auki kom Róbert A Ottósson, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar að undirbúningi tónlistarmálanna.

Við munum í þessum þætti og þeim næsta heyra sögulega hljóðritun frá þessari hátíð, en Sigurjón Sæmundsson, fyrrverandi bæjarstjóri hefur nú afhent Ríkisútvarpinu frumupptökuna frá þessari hátíð og mun ég af því tilefni leika fyrir ykkur valda kafla frá ýmusum viðburðum hátíðarinnar. Vil ég hér með fyrir hönd ríkisútvarpsins færa Sigurjóni þakkir fyrir þessa gjöf.

Einstöku sinnum hefur maður heyrt því fleygt að Siglfirðingar hafi ekki gert nóg til að halda nafni séra Bjarna á lofti. Ég vil hér með vísa þessum orðum algjörlega á bug því ef eitthvert sveitarfélag hefur gert nokkuð fyrir tónskáld síns héraðs þá er það Siglufjörður. Mun þessi fullyrðing fást staðfest í þessum þætti og þeim næstu. Með reglulegu millibili hafa heimamenn slegið upp tjöldum og minnt bæði heimamenn og aðra á nafn og starf séra Bjarna, ekki aðeins í þágu Siglufjarðar heldur og í þágu þjóðarinnar með tónlistarmálum sínum. Og enn blása þeir í lúðrana með væntanlegri Bjarnastofu og þjóðlagahátíð á Siglufirði í sumar. Mun ég fjalla nánar um það í öðrum þætti hér frá.

En nú er ekki úr vegi að hlýða á ávarp undirbúningsnefndar hátíðarinnar sem birtist í prentaðri dagskrá hennar.

“Sr. Bjarni Þorsteinsson var fæddur 14. október 1861. Hann var prestur í Siglufirði 1888-1935. Það má segja að ævistarf sr. Bjarna einkennist af þremur aðalþáttum: Hann var þjónandi sóknarprestur langa tíð, tók virkan þátt í bæjarmálum Siglufjarðar og skiplagningu kaupstaðarins, og loks var hann mikilvirkur rithöfundur og ágætt tónskáld. Nefnd sú, sem bæjarstjórn Siglufjarðar skipaði til að undirbúa hátíðahöldin á hundrað ára afmæli sr. Bjarna, var þegar í upphafi sammála um, að hinna mörgu þátta í ævistarfi hans yrði bezt minnst með útgáfu ævisögu. Nefndinni tókst að fá Ingólf Kristjánsson, rithöfund, til að semja ævisöguna. Er hún nú komin út undir nafninu Ómar frá Tónskáldsævi. Þá hefur nefndin látið setja upp veglega stundaklukku í turni Siglufjarðarkirkju. Klukkan sex á miðaftni leikur hún síðustu laglínuna úr laginu “Kirkjuhvoll” eftir sr. Bjarna. Á stærstu bjöllunni í klukknaspilinu er þetta letrað: Sr. Bjarni Þorsteinsson – 1861 – 14. október – 1961. Klukkuverk þetta er frá J.F. Weule í Þýskalandi. Þá hefur sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju keypt vandað pípurgel í kirkjuna, og var stefnt að því, að það yrði vígt til notkunar á afmælishátíðinni, en af óviðráðanlegum ástæðum seinkar uppsetningu þess um nokkrar vikur. Nefndin vill hvetja bæjarbúa til þess að taka virkan þátt í hátíðahöldunm og heiðra þannig minningu eins merkasta borgara þessa bæjar.

Undir þetta skrifar undirbúningsnefndin.

Líklega hefur ekkert íslenskt tónskáld verðið heiðrað á jafn eftirminnilegan hátt eins og séra Bjarni. Í haust hefur á degi hverjum hljómað stef úr lagi tónskáldsins yfir byggðina í 40 ár. Er hægt að gera þetta betur?

Góðir hlustendur. Við skulum nú sameinast á Vígsluhátíð klukknanna í Siglufjarðarkirkju laugardaginn 14. október árið 1961 og heyra Lúðrasveit Siglufjarðar leika eitthvert þjóðlegasta stef sem Ísland á – Ísland farsælda frón.
Við heyrðum Lúðrasveit Siglufjarðar leika Ísland farsælda frón. Þá var komið að víglu kirkjuklukknanna. það var sóknarpresturinn, sr. Ragnar Fjalar Lárusson sem vígði klukkurnar. Við skulum heyra brot úr vígsluræðu hans:

Við heyrðum séra Ragnar Fjalar Lárusson lesa upp gjafabréf með kirkjuklukkunum í Siglufjarðarkirkju. Þá heyrðum við klukkurnar leika stefið úr laginu Kirkjuhvoll eftir séra Bjarna þorsteinsson og að lokum söng karlakórinn Vísir lagið.

Að þessari athöfn lokinni var gengið í Hvanneyrarkirkjugarð þar sem bæjarstjóri lagði m.a. blómsveig á leiði presthjónanna. Við þessa athöfn lék lúðrasveitin og kirkjukórinn og Karlakórinn Vísir sungu.

Um eftirmiðdaginn bauð Bæjarstjórn Siglufjarðar bæjarbúum til kaffisamsætis að Hótel höfn. Þar hélt forseti bæjarstjórnar, Baldur Eiríksson ræðu þar sem hann rakti starfsferil Bjarna Þorsteinssonar. Við skulum hlýða á brot úr ræðu Baldurs þar sem hann færir okkur mikinn fróðleik um líf og starf séra Bjarna. Við heyrum fyrst þáverandi bæjarstjóra, Sigurjón Sæmundsson bjóða gesti velkomna til samkvæmisins.
Við heyrðum Baldur Eiríksson forseta bæjarstjórnar Siglufjarðar flytja fyrri hluta ræðu sinnar um Bjarna Þorsteinsson. Engum getur dulist af orðum Baldurs um Bjarna að þar var mikilmenni á ferðinni.

Ræðan er miklu lengri og rekur Baldur í henni ýmis afrek sem Bjarni vann í þágu Siglufjarðar. Ég vil benda hlustendum á bókina Ómar frá tónskálds ævi sem er ævisaga Bjarna en þar eru afrek hanss rakin nánar.

En heyrum nú niðurlag ræðunnar:

Já, góðir hlustendur. Séra Bjarni Þorsteinsson var Siglufirði allt í lífi og starfi.

Að kvöldi 14. október héldu Kirkjukór Siglufjarðar og Karlakórinn Vísir tónleika þar sem flutt voru eingöngu lög eftir séra Bjarna. Söngstjórar voru Páll Erlendsson og Róbert A Ottósson, en það var fyrsti skólastjóri tónlistarskólans á Siglufirði og tónlistarkennar þar, Guðný Fanndal sem lék á píanóið. Við skulum nú heyra nokkur lög frá þessum tónleikum. Þessi hljóðritun er ekki síður merkileg fyrir það að af mörgum lögum Bjarna er þetta eina hljóðritunin sem til er og voru á þessum tónleikum nokkur lögin flutt í fyrsta sinni.

En við skulum nú að lokum heyra þrjú fyrstu lögin sem flutt voru á þessum tónleikum, en það eru löging sveitin mín við ljóð Sigurðar Jónssonar, Kvöldljóð við ljóð Huldu og Ísland við ljóð Matthíasar Jochumssonar. Og það er eins og sagði, Kyrkjukór Siglufjarðar sem flytur í hljóðritun frá Hátíðartónleikum í Nýja Bíói á Siglufirði 14. október 1961.
Góðir hlustendur!
Við heyrðum kirkjukór Siglufjarðar flytja þrjú af lögum séra Bjarna Þorsteinssonar, Sveitin mín, kvöldljóð og Ísland í hljóðritun frá árinu 1961.

Við munum heyra fleiri brot frá þessari hátíð í næsta þætti.

Ég þakka þeim sem hlýddu,
Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is