Aldarafmæli Bjarna Þorsteinssonar 1961 – ræða Páls Ísólfssonar

Þátturinn var á dagskrá Rásar 1, 21. mars 2000.


Góðir hlustendur!

Velkomnir á tónaslóð.
Við höfum í seinustu þáttum rifjað upp eitt og annað í tengslum við séra Bjarna Þorsteinsson á Siglufirði. Við höfum m.a. hlýtt á tvær ræður sem fluttar voru á hátíð sem haldin var í tilefni af aldarminningu séra Bjarna Siglufirði árið 1961. Við höfum einnig í þessum þáttum hlýtt á nokkur lög séra Bjarna.

En það voru ekki aðeins sönglög sem gerður séra Bjarna frægan. Eitt mikilvægt atriði í tónsköpunarstarfi hans voru hátíðarsöngvarnir sem út komu árið 1899 og voru þeir sungnir í Siglufjarðarkirkju strax þá um jólin í fyrsta sinn. Við heyrðum í seinasta þætti dr Pál Ísólfsson í hátíðarræðu sinni minnast á að í kirkjunum á Eyrarbakka og á Stokkseyri hafi þessir söngvar verið fluttir í heild sinni þessi sömu jól. Um aldamótin 1900 var Jón Pálsson, föðurbróðir og velgjörðarmaður Páls einmitt orgelleikari við Eyrarbakkakirkju og fann ég í handriti hans frásögn þar sem hann segir einmitt frá því þegar hann í fyrsta sinn flutti hátíðarsöngvana á Eyrarbakka. Við skulum af þessu tilefni heyra frásögn Jóns frá þessum atburði:

Þrem vikum fyrir jól þetta ár, (1899) komu út Hátíðasöngvar séra Bjarna Þorsteinssonar – eða réttara: þeir bárust til Eyrarbakka þá, þótt út væru komnir nokkru áður, og var nú tekið til óspilltra málanna með að æfa þá fyrir jólin og nýjárið, enda voru þeir allir sungnir um þær hátíðar og jafnan síðan, sem sem um páska, hvítasunnu o.s. frv. svo, að engin nóta var undanfelld. Þá var það, að sr. Jón Helgason minntist þess í “Verði ljós” eða “Kirkjublaðinu” síðar, með lofi, að við Eyrbekkingar hefðum verið á undan höfuðstaðarbúum landsins með það, að syngja hátíðarsöngvana alla. Annars man ég ekki að hafa séð þetta.

Áður en hátíðasöngvarnir komu til sögunnar voru “aftansöngvar” haldnir, bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka. Var þegar byrjað á þessu í tíð Bjarna sál. bróður míns og kvöldsöngvar þessir ávalt haldnir um jól og nýjár. Gleymi ég aldrei ýmsum lögum, er þá voru sungin, t.d. “Nú sefur grund og bjarkablómi”, “Við ár hvert takmkörk tíða”, “Guð í hæstu hæð” og “Gud Jehova, vi priser dig” (sungin í þýðingu, allur sá flokkur, tví, þrí- og fjórraddaður eins og hann er í 1. hefti Sange til skolebrug nr. 1 í Bergreensheftunum. Lagið eft J.G.P.Schultz). Við kvöldsöngva þessa tónaði presturinn skólabænina, er byrjar svo: Sé nafnið drottins Jesú Kristí blessað o.s.frv. og hafði séra Bjarni Þorsteinsson, sem þá var í latínuskólanum, sent Bjarna sál. bróður mínum nóturnar, skrifaðar með eigin hendi og mjög fallega. Átti ég þær nótur lengi síðan, en hefi nú tapað þeim fyrir löngu.

tilvitnun lýkur

Bjarni bróðir Jóns Pálssonar var faðir Friðriks Bjarnasonar tónskálds I Hafnarfirði. Mun ég gera þessum bræðrum miklu betri skil við síðara tækifæri.

Á þessum texta mætti lesa út að hátíðasöngvarnir hafi aðeins verið sungnir á Eyrarbakka. En ég fékk fyrir skemmstu aðgang að rituðum minningum Ísólfs Pálssonar en þar segir m.a. eftir að hann hefur fjallað um kuldann í kirkjunni á Stokkseyri og samvinnuna við Síra Ólaf Helgason á Stórahrauni:

Ég minnist, í þessu sambandi, á áhuga hans, lipra samvinnu, er hátíðasöngvar sír. Bjarna Þorsteinssonar voru inneliddir í kikjusönginn, enda var strax á fyrsta ári full æft fyrir hverja hátíð, og notaði hann þá oft til sam-æfinga, með söngkórinn þau tækifæri er jarðaför var á staðnum. Hátíða söngvar þessir voru og um sama leyti æfðir við Eyrarbakka kirkju. Þetta þótti mikil viðfangsefni í þá daga, og á báðum stöðum tekið til starfa af heilum hug og svo æft að söngur þótti prýðilegur. Einmitt þessir söngvar juku mjög á aðsókn til kirku, einkum lengra að, um plássbúa á báðum stöðum, þurfti ekki að tala þá. Þá var vani að allir fóru sem það gáðu, oft í æði harðdrægu veðri.

tilvitnun lýkur.

Þessi minningarbrot bræðranna, Jóns og Ísólfs Pálssona tekur af allan vafa að hátíðasögnvar séra Bjarna voru fluttir bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri á jólum 1899.

En hafa skal í huga að mikil samskipti voru milli þessara staða og má í því sambandi nefna að Jón Pálsson stofnaði árið 1888 söngfélagið Báruna á Eyrarbakka en hann bjó þá ennþá á Stokkseyri. Hann fór út á Eyrarbakka annan hvern dag, og um helgarnar til að kenna þessum vinum sínum nokkur lög, eins og hann kallaði það, en hann fluttist síðan til Eyrarbakka árið eftir, eða 1889, þó svo hann teldist til heimilis hjá Pálmari bróður sínum til ársins 1895 er hann kvæntist. 14. desember árið 1890 var kirkjan vígð á Eyrarbakka og tók þá Ísólfur bróðir Jóns við orgelleikarastörfunum og barnakennslunni á Stokkseyri. En heilmikið samstarf var áfram á milli bræðranna.

Við skulum nú aðeins staldra við í þessum vangaveltum og hlýða á eitt af lögum séra Bjarna sem sjaldan heyrast, en það er lagið Burnirótin við ljóð Páls J. Árdal. Það er karlakórinn Þrestir undir stjórn Jóns Ísleifssonar sem flytur. Það er Einar Sturluson sem syngur einsöng í laginu. Hljóðritunin var gerð á tónleikum kórsins í Bæjarbíói í mars árið 1962.
Við heyrðum karlakórinn Þresti undir stjórn Jóns ísleifssonar flytja lagið Burnirótin eftir Bjarna Þorsteinsson við ljóð Páls J. Árdal. Einar Sturluson söng einsöng og það var Fritz Weisshappel sem lék á píanóið.

Við heyrðum fyrir skemmstu sagt frá því að nokkrar af þjóðlagabókunum hefðu lent í hirðuleysi og fólk ekki getað nýtt sér þær sem skyldi. En það átti aldeilis ekki við um allar bækurnar. Mér segir hugur að flestar þeirra hafi verið lesnar spjaldanna á milli og nýttar til bæði að læra lögin í henni og það sem ekki er minnst mikilvægt – bókin hefur lengi verið uppspretta íslenskra tónskálda til tónsköpunar eða útsetninga. Við skulum heyra eitt slíkt dæmi af mörgum. Í kvöldsamsæti á Hótel Hvanneyri árið 1961 stóð Páll Ísólfsson upp og sagði frá tengslum sínum við Þjóðlagasafn séra Bjarna. Við skulum heyra brot af þessari stuttu ræðu Páls:

Við heyrðum Dr. Pál Ísólfsson leika brot úr Chaconnu sinni sem hann byggði á upphafsstefi Þorlákstíða og var verkið samið í tilefni af norrænu kirkjutónlistarmóti í Kaupmannahöfn árið 1939.

Eins og ég sagði þá komu hátíðarsöngvar séra Bjarna út árið 1899. Síðastliðið haust var haldin enn ein hátíðin til heiðurs séra Bjarna, og nú í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá því hátíðarsöngvarnir komu út. Þá var efnt til mikilla hátíðahalda á Siglufirði, í ætt við þá frá árinu 1961 og við höfum heyrt dæmi frá.

Það sem einkenndi þessa hátíð var einkum eitt og það var það að Siglfirðingar spurðu sjálfa sig að því hvað þeir gætu gert frekar til að heiðra minningu séra Bjarna. Var slegið á ráðstefnu, eftir að tónleikum lauk þar sem flutt voru lög í þjóðlagasafninu, og voru haldin nokkur framsöguerindi sem tengdust þjóðlögum og hugsanlegu þjóðlagasafni á Siglufirði er bæri nafn séra Bjarna. Ég mætti á staðinn með hljóðnema og hljóðritaði ýmislegt sem þar fór fram. Á fundi sem haldinn var að lokum þessara tónleika héldu framsöguerindi Gunnsteinn Ólafsson, Njáll Sigurðusson, Sigurður Rúnar Jónsson og sá er hér talar og ekki sagt annað en andi framkvæmdanna og andi áhugans sveif um safnaðarheimilið.

Ekki gefst tækifæri hér og nú til að leika þessar hljóðritanir fyrir ykkur að einni untantekinni, en það er framsöguræða Gunnsteins Ólafssonar sem um tíma hafði unnið að því að kynna mönnum hugmynd um setur tileinkað séra Bjarna á Siglufirði.

Fundarstjóri var séra Bragi Ingibergsson og kynnti hann ræðumenn. Við heyrum fyrst brot úr inngangi séra Braga og í framhaldi af því framsöguræðu Gunnsteins Ólafssonar.

Um margt af því sem kom fram í máli Gunnsteins mætti halda langar ræður og verður það sjálfsagt gert í framtíðinni.

En það sem gerst hefur síðan Gunnsteinn flutti þessa framsögu er að stofnuð hefur verið nefnd um stofnun þjóðlagaseturs á Siglufirði, efnt verður til mikillar þjóðlagahátíðar í sumar á Siglufirði í samvinnu við menningarborg 2000 og unnið er að því að gera Siglufjörð að miðstöð flutnings þjóðlegrar tónlistar á Íslandi. Nú, til þess að þetta allt verði nú sem auðveldast í framtíðinni þá hefur alþingi í huga að bora göng frá Ólafsfirði til Siglufjarðar til að auðvelda, einnig tónlistarmönnum til að komast þangað og stunda þjóðlega tónlist allt árið. Verður ekki annað sagt að heimamenn haldi minnigu séra Bjarna á lofti, svo og alþingi íslendinga – Vera má að aðrir hafi aðra sýn á þessi gangnamál en ég.

Ég vil ljúka þessari umfjöllun um Bjarna þorsteinsson að sinni með því að leyfa ykkur að heyra syrpu af lögum Bjarna í útsetningu Jóns Þórarinssonar fyrir hljómsveit. Það er Sinfóníuhljómsveit Íslands sem leikur undir stjórn Páls Pampichler Pálssonar.

Við heyrðum útsetningar Jóns Þórarinssonar á nokkrum laga Bjarna þorsteinssonar í flutningi Sinfóníuhljómsveitar íslands undir stjórn Páls P. Pálssonar.

Þættinum er lokið í dag.

Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is