Um kirkjusönginn eftir siðaskipti

Þessi texti er upphaflega skrifaður sem handit að útvarpsþætti sem var á dagskrá Ríkisúvarpsins, Rás 1, 7. desember 1999.


 

Góðir hlustendur!

Velkominir að þættinum á tónaslóð – þar sem raktir eru þættir úr sögu íslenskrar tónlistar.

Við höfum í seinustu þáttum verið að rekja þróun tónlistarmálanna eftir því sem ég hef fundið heimildir um fram yfir siðaskiptin. Í seinasta þætti var fjallað lítilsháttar um þá messusöngsbók sem hin íslenska kirkja studdist við nær eingöngu í rúm 200 ár eða frá 1594 og fram að c.a. 1800.

Ýmis lög eru þekkt sem komu út í grallaranum á sínum tíma, en ég mun ekki fjalla sérstaklega um þau nú. En það sem hlýtur að vekja áhuga okkar nú er flutningshátturinn á þessum lögum og öðrum sálmalögum í hinum svokallaða gamla stíl. Eitt er víst að lögin voru sungin afar hægt. Einhvers staðar las ég að menn álitu að hvert atkvæði sálmsins ætti að syngja svo ört sem púlsslag í fullorðnum manni í hvíld. Það er að segja um það bil 60 slög á mínútu. Öðrum þótti þetta helmingi og hratt og vildu að tvö púlsslög kæmu á hvert atkvæði. En það var ekki aðeins hraði laganna sem var sérstakur, heldur og flutningshátturinn. Við skulum nú heyra hvað Hallgrímur Helgason segir um grallaralögin í bók sinni, Tónmenntasaga Íslands: Prentuðu Grallara-lögin voru yfirleitt erlend siðbótalög. En fólki hefir fljótt fundist þau vera full beinagrindsleg. Þurrstruntulegt vara að skammta einni samstöfu aðeins einn einstakan tón, úr því á annað borð var farið að syngja. Það var eins og að fá ekki nema einn blóðmörskepp í sláturtíð. Brátt fer því að bera á aukningu tóna á einu atkvæði, ekki sízt ef þetta atkvæði var hluti af veigamiklu, myndríku orði, því samstöfuþrælbundinn söngur var liðamótalaus og líflaus. Það nálgaðist meinlæti að píra einni nótu á eitt atkævði. Dragnótur Grallarans voru þá frekar eftirsóknarverðar. Þær minntu á katólska sönginn. Og ljúft var að minnast liðinnar tíðar. Katólskur söngur hafði verið einradda söngur, hljóðfærislaus. Svo var og siðaskiptasöngur. Hér mættust þá gamall og nýr tími í Grallara-söng. Þessi söngur varð svo enn ástfólgnari fólki eftir tilkomu Passísálma Hallgríms Péturssonar, en flestir þeirra vísuðu á lagboða Grallarans. Grallara-lög urðu þannig lausalög, margbreytileg og formfrjáls. Lagkjarni var að vísu greinanlegur, en út frá honum kvísluðust tenginótur og skrúðtónar, einu nafni viðhafnarnótur (melismur), óútreiknanlegt streymi skapandi augnabliks. Hugkvæmisþörf var hér fullnægt, ekki síður en í fylgirödd tvísöngs. Fjöldamargara mismunandi gerðir voru því til af einu og sama lagi, vegna ólíkra ringja og sveipa, sem hver og einn tileinkaði sér. Líklegt er, að klinkunótur Odds biskukps Einarssonar í 1. Útgáfu Grallarans sé í ætt við þetta óslétta heimfall, eins og það var kallað í upphafi þessarar aldar. En eldri menn töluðu um að hafa mikið við í söng, og sá þótti beztur söngmaður, sem mesta sýndi viðhöfn
Við skulum nú heyra dæmi. Jón Pálsson, einn af hinum músíkölsku bræðrum á Stokkseyri um síðustu aldamót, en auk hans má nefna Bjarna Pálsson, föður Friðriks Bjarnasonar og Ísólfs Pálsson, faðir Páls Ísólfssonar, hljóðritaði fyrstur íslendinga á vaxhólka upp úr síðustu aldamótum sálmasöng nokkurra manna. Meðal þeirra var Guðmundur Ingimundarson frá Bóndhól. Um hann segir Hallgrímur Helgason í bók sinni Tónmenntasaga Íslands þar sem hann fjallar um það sem hann kallar skrúðstíl hinna íslensku söngmanna:

Getið er margra afburðasöngvara í þessum skrúðstíl. Þó skal aðeins einn nafngreindur hér, nefnilega Guðmundur Ingimundarson á Bóndhól í Mýrarsýslu, fæddur 1827 og dáinn 1913. Hann var um 50 ára skeið forsöngvari í Borgarkrikju og kunni um 400 lög. 1907 efndi hann til söngskemmtunar í Bárubúð í höfuðstaðnum og flutti eingöngu Grallara-lög, sem í Þingeyjasýslu voru nefnd villt lög. Fjölmenni var á óvenjulega samkomu og dáðust menn að rómgæðum og raddstyrk þessa áttræða söngvara. Mun þetta vera einn hinn þjóðlegasti kosert sem haldinn hefir veri í landnámsborginni, ekki síður en rímnakveðskapar-skemmtun stærðfræðingsins þjóðkunna, dr. Ólafs Dan. Dnaíelssonar, í Reykjavík 1912. Gömlu lögin voru í kirkju oft aukin með tvísöngsrödd. Fór þá jafnvel prestur sjálfur upp, ef hann var góður raddmaður, og inntónaði yfirfmmund við safnaðalag. Má hér tilnefna síra Stefán Benediktsson í Hjarðarholti. Var tvísöngur hans rómaður fyir fagra áferð og mikla velhljóman.

Við skulum nú heyra dæmi um söng Guðmundar úr hljóðritunum Jóns Pálssonar á Vaxhólka á árinum 1903-12. Jón hafði hljóðritað söng barna á Eyrarbakka fyrir aldamótin en þeir hólkar brotnuðu allir. En þessar hljóðritanir hans eru ómetanlegar fyrir okkur því söngur Guðumundar er fölskvalaus og án nokkurra tilauna til stælingar því eins og hann syngur sungu menn sálma fyrr á öldum. Við skulum heyra hann syngja sálmana Upp, upp mín sál og allt mitt geð og Jurtagarður er herrans hér. Hér er um ræða tæplega 100 ára gamalar hljóðritanir og um 30 ára gamlar afritanir af vaxhólkunum. Hér koma að sjálfsögðu fram truflanir og einhverjar skemmdir í hólkunum, einkum þó í seinni sálminum en ég vil samt leyfa ykkur að heyra þessar hljóðritanir til að við getum gert okkur betur grein fyrir flutningshætti þessara sálma.

Við heyrðum Guðmund Ingimundarson syngja tvo sálma.

Áður en við skiljum við Grallarann skulum við heyra útsetningar Fjölnis Stefánssonar tónskálds á þremur lögum úr Grallaranum en það eru lögin, Lausnarinn kóngur kriste, Játi það allur heimur hér og Svo vítt um heim sem sólin fer. Þessar útsetningar voru fluttar á öðrum tónleikum Musica Nova 11. Apríl árið 1960 af 9 meðlimum Fílharmoníukórsins, Peter Ramm flautuleikara, Karel Lang óbóleikara og Sigurði Markússyni fagottleikara. Stjórnani var Róbert A. Ottósson. Hljóðritunin sem við heyrum er frá sama tíma.

Við heyrðum útsetningar Fjölnis Stefánssonar á þremur lögum úr Grallaranum í hljóðritun frá árinu 1960.

Ekki er mikið til af heimildum um sönglífið hér á landi á 17. Og 18 öld en samkvæmt ýmskum skrifum í upphafi 19. Aldara þar sem fram koma lýsingar á sönghefð landans I kirkjum virðist um algjöra upplausn hafa verið að ræða. Upphaf endurreisnar íslensk söngs hefst með útgáfu Aldamótabókarinnar árið 1801 og skulum við nú fjalla örlítið um þennan þátt tónlistarlífsins, þ.e. sjálfan tónlistarflutninginn. Ég mun bera niður í ýmsum frásögnum frá þessum tíma þar sem söngnum er lýst. En til að undirbúa okkur undir þetta skulum heyra alveg skelfilegan flutning tveggja manna það sem þeir syngja Ísland farsælda frón í tveimur röddum. Þessi hljóðritun er frá árinu 1926 úr fórum Jóns Leifs.

Við heyrðum tvo kalla kyrja ísland farsælda frón.
Um Aldamótabókina er það að segja að hún hefst á þessum orðum:

Í næstum 207 ár hefur Ísland haft fyrir sig að bera einungis eina messusöngsbók til brúkunar í kirkjum sínum, nefnilega Grallarann”. Af útgáfu Aldamótabókarinnar hafði mestan vanda Magnús Stepensen dómsstjóri (1762-1833), en formála bókarinnar ritar Geir Vídalín biskup (1761-1823)

Fullt heiti þessarar bókar er ” Evangelisk-kristilig messusöngs- og sálmabók, að kununglegri tilhlutun samatekin til alemennilegrar brúkunar í kirkjum og heimahúsum og útgefin af því Konunglega íslenska landsuppfræðingarfélagi.” En áður en við höldum lengra skulum við átta okkur á því hvað var að gerast í Evrópu.

Á seinni hluta 18. aldar varð mikil breytgin á andlegu lífi manna um alla Norðurálfu. Kenningin um “mannréttindin” var þá farin að ryðja sér til rúms og koma róti á hug manna og vakti almenning upp af værum svefni.

Fram að þessum tíma voru veraldleg og andleg gæði að miklu leyti séreign æðri stétta og “lærðu” mennirnir sátu svo að segja einir inni með alla bóklega þekkingu. Alþýðan, í þrengri merkingu þess orðs, var fáfróð og fyrirlitin og bar skarðan hlut frá borði lífsins. Mannréttindahugsjónin fól í sér viðurkenningu á tilverurétti hennar og það hratt af stað nýrri menningarstefnu, hinni svonefndu “skynsemishyggju”.

Trúarlíf manna fór kólnandi því í hönd fór tími skynsemistrúar. Þetta hafði áhrif á krikjusönginn. Í bók þýska organistans Wilhelm Stahl um þróun evangelískrar kirkjutónlistar og út kom í Berlín 1920 segir hann um kirkjusönginn:

Á þessari vantrúaröld komst kirkjusöngurinn á lakara stig en áður. Mörgum gömlum, kjarngóðum sálmum Lúthers og samtíðarmanna hans var með öllu hafnað sem úreltum, en öðrum breytt eftir tíðarandanum, og var þá meginreglan sú, að fella úr allt það, sem snerti ritningarstaði, hefðbundinna trúarkenningar og dulræn efni. Samfara þessari hreinsun textans voru sálmalögin færð í búning samtíðarinnar. Gömlu kirkjutóntegundirnar áttu ekki lengur við smekk tímans; þær urðu því að víkja fyrir dúr og moll, en í þeim tóntegundum voru nú sálmalögin raddsett. Hin gömlu, djörfu og stórfenglegu tónskref lagsins voru fyllt upp með millibilsnótum. Hin mikla fjölbreytni í hljóðfalli, sem áður ríkti, hvarf nú með öllu. Þessi umsköpun á gömlu lögunum var þó ekki gerð snögglega, heldur smátt og smátt á löngum tíma”.

Hér skal bent á að þetta var lýsin á kirkjusöng í miðevrópu, ekki á Íslandi. En við vitum að breytingar á hinum gömlu lögum áttu sér stað í sömu átt hér á landi á 19. öldinni.

Magnús Stepensen var einhver áhrifamesti forvígismaður upplýsingarstefnunnar hér á landi, enda ágætlega til foryst fallinn sakir gáfna og fjölbreyttrar og víðtækrar þekingar á flestum fræðigreinum. Og margt fleira hafði hann sér til ágætis, sem gerði hann sjálfkjörinn í þetta hlutverk, eins og það, að hann var einlægur ættjarðarvinur og brann af löngun til að vinna þjóð sinni allt það gagn, sem hann mátti, en hann var maður nýja tímans og leit svo á að upplýsing alþýðunnar væri höfuðskilyrði fyrir öllum framförum. í þessar baráttu stóð Magnús vel að vígi að því leyti að hann hafði jafnan undir höndum prentsmiðju landsins og réð því einn, hvað prentað var, en með útgáfu fræðandi bóka reyndi hann að vekja almenning og láta hann skilja kröfur tímans.

Umbótastarf Magnúsar á sviði kirkjustöngsins var, eins og vænta mátti, í anda upplýsingastefnunnar. Eins og fram kemur á titilblaði bókarinnar var það fyrir tilstili konungs að Aldamótabókin varð til, eins og verið hafði um Grallarann tveimur öldum fyrr. Hafði hann með bréfi 24. apríl 1784 falið þáverandi biskupum að velja efni í nýja sálmabók, en þessu verki þótti miða hægt, svo að nýstofnuðu Landsuppfræðingafélagi var falin framkvæmdin með kansellíbréfi 24. október 1795, og það áréttað með konugnsbréfi 22. júlí 1796. þar sem boðið er €að nefnd messusöngs-, sálma- og handbók megi innleiðast til almennrar brúkunar í kirkjum landsins.

Bókin var svp prentuð á Leirárgörðum 1801. Á titilblaðinu stendur:

Evangelisk-kristileg Messu-saungs-og Sálma Bók, að konungslegri tilhlutun samantekin til almennrar brúkunar í Kirkjum- og Heimahúsum og útgefin af konunglega íslendska Lands-uppfræðinga Félagi. Selst almennt í velsku-Bandi. 76. skild.

Það ber talsvert á sjálfsánægju upplýsingarstefnumanna, bæði í formála bókarinnar og vandlætingarsamri leiðbeiningargrein í bókarlok. Þar er að finna ófagrar lýsingar á kirkjusöngnum eins og hann tíðakaðist, a.m.k. sums staðar um þessar mundir.

Skulu nú hér nefnd dæmi þar sem lögð er áhersla á að nauðsynlegt sé að allir syngi með sama hraða í kirkjunni. Í bókinni stendur:

…því að hver óregla getur gert nokkurn söng hræmuglegri en þar sem t.d. nokkrir í kirkju syngja sama lagið í einu fljótt, aðrir í meðallagi og
þriðju teygja endalausa rorru úr hverju atkvæði eða hendingu.

Við skulum átta okkur á að þetta var á tímum forsöngvaranna og eru honum settar strangar reglur um það hvernig hann skuli leiða sönginn og jafnvel er að finna ábendingar um það hvar hann á að anda. Það er talað um þverlynt og fávíst fólk”, minnst á að einhverjir kynna ða vilja..

…með heimsku mótþróa … spilla góðri reglu í útvortis guðsþjónustugerð. Gæfust nokkrir þvílíkir, mót von, er þeirra staður og sæti óhentugast í kór, hver auk þess ekki ætti að vera kjörinn til virðingasæta, heldur sæti fyrir góða, liðuga og viðfelldna söngvara, helst ungmenni.

Við skulum átta okkur á að ekki voru það allir sem voru að hnýta í söngháttinn í kirkjunni. Um 1780 var hér á ferðinni færeysku maður, Nicolaj Mohr og var hann að rannsaka náttúru landsins. Hann hefur ritað eftirfarandi orð um kirkjusönginn hér á landi eins og hann upplifði hann. Líklega er þetta eitt einasta dæmi þess að kirkjusöngurinn er ekki níddur til hins ítrasta:

Kirkjusöngurinn er venjulega í allgóðu lagi, því nóturnar við þann og þann sálm í grallaranum standa við fyrsta versið, en eptir honum hafa flestir prestar lært að sýngja í skólum. Þeir, sem hafa best hljóð sitja opt upp í kór við hliðina á prestinum. Íslendingar syngja reyndar ekki sérlega skemmtilga, því saungur þeirra er laus við alt, sem kallað er skemtilegt á vorum dögum, en kirkjusaungur þeirra fer eins skipulega fram og auðið er, hljóðfærislaust.

Í öðrum heimildum má yfirleitt lesa að kirkjusöngurinn haf verið hin mesta ómynd. Það sem Magnús Stephensen segir um hann að það komi fyrir að:

hvørr gauli í belg og kjeppist máta- og adgreiningar laust, sumir ad grípa hvørr fram fyrir annan, og øndina á lopti, stundum í midjum ordum og meiníngum. og sumir ad draga seyminn í saung hvørr ødrum lengur.

Skömmu síðar segir hann:

Það er ljótt bædi ad heyra og sjá, þegar saungvarar kúga upp skræki á stangli með uppblásnum ædum á høfdi og øllu andliti af ofraun… en svo sem þetta er opt um of, svo er þad allt eins um van, þegar saungurinn verdur ad ólundar rauli á lægsu nótum.

 

Við heyrðum tvo kalla raula Ó, mín flaskan fríða I hljóðritun Jóns Leifs frá árinu 1928
Í 9. árgangi af Norðanfara, nr. 38-42 er líklega besta lýsingin á hinum svokallað gamla söng:

Lagamyndir þessar (sálmalögin eins og þau voru súngin) eru reyndar nokkurskonar lagleysur, með óteljandi dillanda og hringlanda, upp og niður, stundum nærri því sitt lag í hverju vessi í sama sálmi, og víst sjaldgæft að sami saungmaður sýngi sama lagið ætíð eins, heldur hefur saungur þessi í sér það frjálsræði, að það má þá og þá bregða sér á leik, þar og þar, upp eða niður úr, stundum svona, stundum hins vegar, rétt eins og andinn inngefur í það og það skipti, en sá andi er ýmist andi heimskunnar, vanþekkíngarinnar eða tilgjörðarinnar, en ávalt andi smekkleysisins. Af því lögin eru svona laus og hringlandi, þá hlýtur af því, að hver leikur sér í lögunum upp á sinn hátt, eptir því sem hans eigin andi gefur honum inn, svo að þegar sumir leika sér upp eptir, þá leika aðrir sér niður á við og hver fer í sína áttina, og stundum verður einginn öðrum samróma, mikinn part af því, margt opt, að hver vill vera sinn eigin herra, í þessu sem öðru, og hafa það frjálsræði að sýngja eptir sínum vilja og smekk, en ekki annara, en laga sig ekki eptir öðrum, sem betur sýngja og smekklegast. Það er allopt svo í kirkjum, að það er ekki nóg með það, að sinn hefir eiginlega hvert lagið, eða lagmyndina, að nokkru leyti frábrugðið, hver uppá sinn hátt, heldur og keppist stundum hver fram yfir annan, svo einn eða tveir eða svo eru leingst á undan, en forsöngvarinn sjálfur þó, ætla eg, sjaldnast í þeirra tölu; nú þeir stökkva fram yfir hann, þrátt fyrir hans þakk, rétt eins og veðhlaupi —. Svona sýngja menn stundum , rétt eins og í smáhópum, þar sem hver hópur sýngur á undan öðrum, svo dæmi munu til, að þegar hinir fyrstu eru búnir með vess eru hinir síðustu í miðu vessi, svo að þeirra, sem bezt og réttast sýngja, gætir ekki, eða þeir þagna, af því þeim líkar ekki saungurinn. Þegar hver út af fyrir sig sýngur þannig í sjálfræði, reglulaust, upp á sinn eigin hátt, mætti svo kalla, svo sérhver saungmanna þessara sé lagasmiður (Komónist): hver býr til sitt lag.

Í Norðlingi I má finna aðra grein um sama efni. Þar stendur m.a.:

Það er óheyrilegt hvernig menn, sem annars hafa ekki afleit hljóð, afskræma þau með allskonar hnykkjum og rykkjum og dillandi viðhöfn — Það er reglulegt hneyxli að heyra, hvernig saungurinn fer víða fram í kirkjum. Þar er einatt sálmalagið súngið rammskakt og skælt. Sumir eru á undan í vessinu, sumir á eptir, sumir streytast við að belja sem barkinn þolir og hafa lángar lotur, en þó tekur út yfir, þegar einhver, sem hyggst hafa meiri og merkilegri hljóð en hinir, rekur upp gól með glymjandi rödd, sem kallað er að fara í tvísöng. Vér viljum reyndar eigi neita, að tvísaungur, þegar rétt er súngið, getur verið allfallegur —, en í kirkjum á hann eigi við.

Maður fer bara að trú því að þetta hafi verið svona

CD; Jón Leifs: Band 4, Vals 61 frá 0:10 – 0:43 0:33

Við heyrðum karl syngja á sína vísu í hljóðritun Jóns Leifs frá árinu 1928.

Ýmsar fleiri greinar finnast um þetta efni og er tónninn í þeim öllum hinn samni – hálfgert úburðarvæl.

Nú um veraldlega sönginn er það að segja að lítið sem ekkert var til af nótum við veraldleg kvæði. Ýmis tímarit tóku upp veraldleg kvæði í kringum aldamótin 1800 og skólapiltar báru með sér smátt og smáll lögin út um land – en þetta voru allt ný lög sem ekki voru sungin hér áður. Líklega komu nótur fyrst við veraldlegt lag – Þrent eg trúi og treysti á – í VIII bindi af ritum Konungliga Islenska Lærdóms-lista Félags árið 1788. Í ritum Magnúsar Stephensen, Vinargleðini og Gamli og Alvöru – 1789 og 1818 birtast nokkur kvæði með áður óþekktum bragarháttum hér á landi og segir Magnús að þeim sé ætlað að bæta söngsmekk íslendinga. Hann skrifar:

Spyrji nockurr, því skáldin í Vinagledinni hafa ei orkt þessi 7 stycki undir kunnugum Íslendskum lögum? Voga eg fyrir alla hlutadeigendur ad svara: ad þeirra tilgángur var ad fiølga gladværdar løgum í landinu, sem enn á, því midur! hvørki né þeckir eitt, né heldur eitt danslag, en ecki at útnída lystug, nett og þánka-rík efni med verdslegra laga grátkiøklandi edur og rímnagóls tónum, og sídur ad velia þeim andaktar psálmaløg”

Skömmu síðar má lesa:

Nótur máttu fylgia, en þegar Grallararnir sýna, ad vor fánýti saungur þeckir engann takt, án hvørs gód hliód verda óhliód og dírdlegir lofsaungvar greniast fram, fari þá vel øll saunglist og allur íslendskur nótusöngur! fáum þá blindum nótna-bók! þylium heyrnarlausum æfintýri!.

Þessum ákúrum Magnúsar tók fólk illa í fyrstu, en smám saman fóru ný lög að síast inn í samfélagið og eitt er víst að framganga Magnúsar var upphafið að þróun tónlistarinnar á Íslandi til nýrri tíma. Hér talar Magnús um Rímnagól. Þeir líta rímur misjöfnum augum, Magnús Stephens og Ólafur Davíðsson. Hér á eftir kemur fram hverjum augum hann leit sálmaskáldskapinn yfirleitt. Ég vil að lokum vitna í upphaf Ritgerðar Ólafs um rímnakveðskap sem birtist í heftinu, íslenskar skemtanir sem hann safnið og kom út hjá hinu íslenska bókmenntafélagið á árinum 1888-92. Ólafur skrifar:

Nú fer því svo fjarri að lærðir menn yrki rímur eða láti yrkja fyrir sig rímur, að þeir hafa jafnvel margir skömm á rímum, og virðist það alt af vera að fara í vöxt. Eg man ekki eptir því, að eg hafi heyrt þess getið, að nokkur skólagenginn maður, sem nú lifir, hafi ort rímur, annar en Benedikt Gröndal. Hann orti um árið rímur af Göngu-Hrólfi og var í ráði að þær kæmu út á Akureyri, en aldrei varð úr því og er skaði.En þessi munur á hylli rímnanna fyrrum og nú er alveg eðlilegur. Áður báru rímur af flestu öðru, sem kveðið var, eins og gull af eyri. Á 16., 17., og fram á miðja 18. Öld var meginið af því, sem kveðið var sálmar eða þá andleg kvæði og svo rímur. Talsvert var reyndar kveðið af smákvæðum um hitt og þetta og svo lausavísum, og er sumt af því ágætt, eins og mörg vikivakakvæðin, mörg viðkvæði og svo t.d. flestar lausavísur Páls lögmanns Vídalín. En mergurinn málsins í íslenzkum skáldskap um þetta leytir voru þó sálmar og andleg kvæði og svo rímur. Þegar sálmaskáldskapurinn er nú borinn saman við rímurnar, þá lenda allir kostirnir hjá rímunum en allir lestirnir hjá sálmunum. Rímurnar voru að jafnaði vel kveðnar. Sálmarnir óskiljanlega illa kveðnir. Það þarf ekki annað en flett upp í einhverri útgáfu af Grallaranum, til að komast að raun um það. Rimurnar voru optast um eitthvert skemtilegt efni; skáldin ortu þær eftir fornsögum og riddarasögum, eða þá einstökum sinnum eptir nýum atburðum. Sálmarnir voru aptur svo nauðaleiðinlegir, að það er óskiljanlegt, að þeir hafi geta lypt huga nokkurs manns til guðs, og hefir það þó eflaust verið tilgangur þeirra. Rímurnar voru opt og tíðum hnyttnar og smellnar. Sálmarnir aptur svo andlausir og það var eingu líkt. Loksins voru rímurnar þjóðlegar og optast ortar eptir þjóðlegum efnum. Sálmarnir voru svo óþjóðlegir sem framast var unt, margir þýddir eða þá sniðnir eptir útlenskum skáldskap, og þótt þeir væru alveg frumkveðnir, þá voru þeir samt óþjóðlegir í sínu innsta eðli og hlutu að vera það. Og þó voru sálmarnir gull hjá þessum sandi, sem til er af andlegum kvæðum, því þeir voru styttri. Tólfunum kastar fyrst þegar maður les t.d. Einvaldsóð (Eptir síra Guðmund Erlensson í Felli, dáinn 1670, 300 erindi) , Dýrðardikt (Eptir Kolbein Grímsson, lifði að minnsta kosti 1682, 640 erindi hálf) og jafnvel Skritparminníngu (eptir Þorleif Þórðarson d. 1647, 100 erindi), þó hún sé ekki mikið hjá hinum ósköpunum. Einna geysilegust er þó Hugarfró eptir Þorvald Rögnvaldsson á Sauðanesi því hún er hvorki meira né minna en 454 erindi. Náttúrlega eru til sálmar sem eru ágætir, svo sem Passísálmarnir, en það væri líka alveg dæmalaust, ef ekki væri neitt ágætt af þessu óþrjótandi aragrúa, sem til er af sálmum og andlegum kvæðum, bæði prentuðum og óprentuðum.

Já, hér rétt náðu passísálmarnir að standast prófið, en fátt eitt annað.

Eftir allan þennar barlóm og þennan harmasöng um andlega og músíska rekaviði fortíðarinnar skulum við hlýða á hvernig nútíminn getur búið þessar gölmu laglínur í nánast himneskan búning. Við heyrum Hallveigu Rúnarsdóttur sópransöngkonu og Noru Kornblueh flytja fjórar útsetningar Snorra Sigfúsar Birgissonar á lögum í gömlum íslenskum handritum. Útsetningar þessar bera yfirskriftina Lysting er sæt að söng.

Við heyrðum Hallveigu Rúnarsdóttur og Noru Kornblueh flytja Lysting er sæt að söng eftir Snorra Sigfús Birgisson.

Þættinum erlokið í dag,
Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is