Þessi texti er upphaflega skrifaður sem handit að útvarpsþætti sem var á dagskrá Ríkisúvarpsins, Rás 1, 3o. nóvember 1999
Góðir hlustendur! – Velkomnir á tónaslóð.
Við erum nú komin fram að siðskiptum í þessum þáttum um íslenska tónlist.
Þegar kom fram yfir 1500 er kirkjuvaldið orðið svo voldugt og sterkt, að konungsvaldinu stendur stuggur af. Bæði stefndu undir niðri að einu og sama takmarkinu: óskertum yfirráðum yfir landi og lýð. í þessari valdabaráttur stóð konungsvaldið höllum fæti, þar til því barst óvænt hjálp upp í hendurnar með trúarbragðahreyfingu Lúthers í Þýskalandi, en sú hreyfing barst óðfluga land úr landi. Kristján III Danakongur var einn af þeim þjóðhöfðingjum, sem höfðu lag á að færa sér skiðaskiptabyltinguna í nyt. Kirkjuskipun sú, sem hann setti í Danmörku árið 1537 var dauðadómur kaþólsku kirkjunnar þar í landi. Hún sópaði burt kirkjuvaldinu og konungsvaldið kom í staðinn. Konungur sjálfur fór úr því með æðstu sjórn allra kirkjumála.
Þega Kristján III var búinn að brjóta alla mótspyrnu á bak aftur í Danmörku, fór hann að snú athygli sinni að Íslandi. Hann sendi vorið 1541 Kristófer Hvítfeld með tveimur herskipum til Íslands og undir niðri var sá tilgangurinn, að Hvítfeld skyldi kúga Íslendinga til hlýðni við konungsvaldið og hina nýju kirkjuskipun. Kirkjuskipun Kristjáns III var svo lögtekin á Alþingi fyrir Skálholtsbiskupsdæmi árið 1541. Áratug síðar sendi konungur lið til Norðurlands með tveimur herskipum til að handtaka Jón biskup Arason og syni hans og kúga Norðlendinga til hlýðni við sig og taka Lúterstrú. Jón Arason og synir hans voru þá fallnir frá – líflátnir í Skálholt 7. nóvember 1550 – en það vissi konungur ekki. Norðlendingar sóru konungi eiða sína 15. júni 1551 á Oddeyri við Eyjafjörð. Til er vísa um þetta:
Herra Christian
Herskip sendi
tvö í Eyjafjörð
með trú hreina.
Menn voru tregir að taka við hinum nýja sið, enda hafði hinni mestu harðneskju verið beitt og margt gert sem særði trúartilfinningu sannkaþólskra manna; krossar brenndir og myndir helgra manna brotnar. En þó var siðbótin – hin hreina trú – sem Christian sendi hingað – sá aflvaki sem færði líf og fjör í íslenzkt menntalíf og íslenskar bókmenntir, en deyfð og drungi hafði ríkt í þessum efnum fyrri hluta aldarinnar eins og á öldinni á undan. Skólar voru settir á stofn, annar á Hólum (1552) og hinn í Skálholti (1553).
Áherlsan var lögð á “hina góður trú”. Mikið var gert til til að útbreiða hana og gróðursetja í hjörtum manna. Allar bækur sem voru prentaðar höfðu trúarlegt innihald enda réði kirkjan yfir prentverkinu. Leitast var við að þýða guðrækilegt efni svo sem hugvekjur, sálma, færðilegar bækur og annað á íslensku. Má þar sem dæmi nefna að Oddur Gottskálksson d. 1556 var fyrstur til að þýða Nýja testamenntið á íslensku . Upp úr þessu öllu fóru íslendingar að eignast sálmaskáld og var líklega mikilvægastur og áhrifamestur í því starfi Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum.
Allt það sem kaþólskt var var bannfært. Eins og áður hefur komið fram þá voru til kirkjusöngsbækur við helstu kirkur landsins og hafa þær verið þó nokkrar. Nú lögðu menn sig fram um að eyða þessum skruddum. Voru þær gjarnan ritaðar á skinnblöð – gjarnan kálfskinn – sem entist vel og var slitsterkt. Var því skinnið notað til hins ýtrasta og í sumum tilfellum var það rist niður til að gera úr því hlífðarkápur fyrir reikningshald og aðrar bækur. Notuðu menn gjarnan messusöngsbækur til slíks og eru mörg skinnbrotin sem við eigum frá kaþólska tímanum einmitt komin utan af þess háttar reikningshaldi og sem hlífðarkápur utan af öðrum bókum.
Menn fyrirlitu allt það sem kaþólskt var. Einverju sinni hitti Áni Magnússon einn helsta bókasafnara Dana á götu. Árni sagði honum að deginum áður hefður hann misst af sjaldgæfri bók sem aðeins var til í einu eintaki. Fór þá danski bókasafnarinn að gráta. Árna þótti það miður og hafði á orði að þetta gerði kannski ekkert til því bókin hafi verið kaþólsk. Grét þá danski bókasafnarinn enn hærra. Árni spurði hann því hvers vegna hann gréti svo hátt. Jú, vegna heimsku sinnar að hafa eitt augnablik saknað kaþólskrar bókar. Svo mikils mátu menn nú hina bóklegu afreifð kaþólska tímans á norðurlöndum.
Líklega er frægust bóka frá þessum tíma í tónlistarlegum skilningi, Hólabókin svokölluð, en Guðbrandur gafa hana út á Hólum 1589. Á undan henni voru komnar þrjár lúterskar sálmabækur, Sálmakver Marteins biskups, prentað í Kaupmannahöfn 1555 og var notað við guðsþjónustur í Skálholti, Sálmabók Gísla biskups Jónssonar, prentuð í Kaupmannahöfn 1588 og sálmabók ólafs biskups Hjaltasonar, prentuð á Breiðabólstað 1562 fyrir Hóla. Í sálmakveri Marteins biskups Einarssonar voru aðeins 35 sálmar, allir þýskir að uppruna.
Til að nefna örfá sálmaskáld frá um og upp úr siðaskiptum má nefna Sigurð Jónsson frá Presthólum, Einar Sigurðsson prestur í Heydölum (1539-1626) og var hann í miklum metum hjá alþýðu manna. Jón Þorsteinsson píslavottur , dáinn 1627. Var hann nefndur píslavottur því hann var veginn af Tyrkjum er þeir rændu Vestmannaeyjar 1627. Hann sneri m.a. Davíðssálmum í sálmaljóð. Nú svo má ekki gleyma aðalmanninum meðal meistaranna, Hallgrími Péturssyni, (1614-1674), Prestur að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, en Matthías Jochumsson orti Hallgrími mikið kvæði sem endar svona:
Trúarskáld þér titrar helg og klökk
tveggja alda gróin ástarþökk
Niðjar íslands munu minnast þín
meðan sól á kaldan jökul skín.
Sagt hefur verið um Odd Oddsson á Reynivöllum í Kjós að hann hafi snúið Davíðssálmum úr frumtextanum í íslenzka sálma og nóterað þá undir áður óþekktum lögum. Þetta mætti skilja þannig, að séra Oddur hafi sjálfur samið lög við Davíðssálma. Þessi lög voru að skoðun fræðmanna talin týnd, en Bjarni Þorsteinsson telur að um 20 af þessum útleggingum og lögum séra Odds séu að finna í sönglagahandritinu Melodia sem er frá því um 1650 en lögin í því handriti er um 200 að tölu. Á meðan ekki hafa farið fram samanburðarrannsóknir á lagahandritum í hinum lútherska heimi þá tel ég óvarlegt að fullyrða nokkuð um tilurð þessara laga.
Nú þá skulum við nefna séra Ólaf Jónsson á Söndum sem dó árið 1627. Um kvæðasafn hans segir dr. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður:
Kvæðasafn þetta hefur inni að halda andleg ljóð og nokkra sálma með mjög sjaldgæfum einkennilegum lögum sem höfundurinn hefur sjálfur samið. Kvæðasafnið er til í pappírshandriti frá 1693 sem Halti prófastur Þorsteinnsson hefur skrifað eftir annari eldri bók. Lögin eru 21 að tölu.
Þessi ummæli eru eftirtektarverð því sagt er berum orðum að séra Ólafur á Söndum hafi samið sönglög, og er hann og Oddur Oddsson prestur á Reynivöllum, sem dó mjög gamall 1649 fyrstu íslensku tónskáldin sem nafngreind verða. Eftir er að koma í ljós við nánari rannsóknir hvort þessir menn eru höfundar laganna eða ekki.
Þá skal að lokum nefna Stefán Ólafsson prófast í Vallanesi. Kvæði hans skiptast í tvo meginflokka eins og reyndar má segja um önnur skáld sem honum voru samtíða. Annars vegar trúarljóð og sálmar, en hinsvegar veraldlegur kveðskapur.
Í tímaritinu Hljómlistin frá árinu 1913 segir ritsjórinn, Jónas Jónsson alþingishússvörður meðal annars um sér Stefán:
Þeir sem ritað hafa ævisögu séra Stefáns Ólafssonar í Vallarnesi minnast lítið á sönglist hans, en geta þess, að hann hafi verið fyrirtaks söngmaður, radddmaður mikill og hafi innleitt mörg fögur lög útlend og sett nokkur saman sjálfur, þ.e. komponerað. Af lögum þeim, sem eftir hann eru þekkjum vér fá, en þó eru til tvö af vorum fallegustu sálmalögum, sem kölluð eru melódíur hans, og mun þá með réttu mega eigna honum þau, enda eru þau ekki til í eldri íslenskum bókum, og í útlendum bókum hafa þau ekki fundist. Þessi lög eru . “Herra, þér skal heiður og litning greiða” og “Kær Jesú Kristí”. Fyrra lagið er frumlegt, en “Kær Jesú kristí” er búið til upp úr gömlu útlendu lagi frá 14. öld “Laus tibi, Christe”.
Þá skulum við minnast dálítið nánar á Hólabókina.
Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum gaf út Hólabókina eða Guðbrandsbók eins og hún hefur einnig verið kölluð, 1589 og það fyrsta íslenska bókin sem gefin er út með nótum. Nóturnar í þessari bók eru mjög ógreinilegar og vantar aftan á flest lögin. En því var svo kippt í liðinn með útgáfu Grallarans nokkrum árum síðar þar sem lögin eru nóteruð í fullri lengd. Guðbrandur endurútgaf þessa bók sína árið 1619 og var hún miklu betur frágengin en sú fyrri. Guðbrandur skrifar formála að bókinni en í honum segir m.a.:
Að andlegur vísnasöngur sje góður og guði þægur ælta ég engum kristnum manni sé óvitanlegt…
og síðar:
…og að jeg sje ekki þess sinnis sem nokkrir villuandar halda, að fyrir evnagelium skuli allar bóklegar listir lagðr verða: heldur vil jeg að allar menntir, einkum sú Músíska og Sönglist, þjónuðu þeim, sem þær gefi og skapað hefur, þess vegna bið jeg alla fróma og kristna menn að þeir sjái sjer vel líka, og mæli þar ekki á móti.
Guðbrandur gefur sjö ástæður fyrir útgáfu bókarinnar og sú síðasta er:
…að af mætti leggjast ónytsamlegir kveðlingar um tröll og fornmenni, rímur, illir mansöngvar, afmorsvísur, brunakvæði, háðs og hugmóðsvísur, og annar ljótur og vondur kveðskapur, keskni, klám og níð og háð, sem hjer hjá alþýðufólki er elskað og iðkað, guði og hans englum til þjónustu, framar meir en í nokkru landi og meir eptir plagsið heiðinna manna en kristinna á vökunóttum og öðrum mannamótum,… sömuleiðis í veislum og gestaboðum heyrist varla annað til skemmtunar haft og gleðskapar, en þessi hjegómlegi kvæðaskapur, sem guði náði.
Einmitt þetta sem Guðbrandur telur upp og vill að af leggist segir okkur mikið um söng alþýðunnar. Hann segir að menn hafi flutt kveðlinga um tröll og fornmenni, kveðið rímur og flutt vísur tengdar ýmsum tilefnum sér til skemmtunar. Vera má að eitthvað sé til af veraldlegum vísum frá þessum tíma, en laglínurnar voru ekki skráðar á blað aðrar en þær sem voru sálmar, en menn ortu gjarnan gamanvísur alls kyns við þekkt sálmalög.
En nú er komið svo að prentuð var og út var gefni á Hólum bók sú er notuð var við messusöng hér á landi næstu rúm 200 árin, en það var
Grallarinn.
En áður en við höldum lengra skulum við heyra brot úr þessari Messusöngsbók Guðbrands biskups en það er Kyrie eleison. Hér hefur verið settir orgelhljómar undir sönginn og er það síðari tíma verk en það eru nokkrar karlaraddir sem flytja og það er Jón Kjartansson sem syngur einsöng. Stjórnandi flutningsins er Róbert A. Ottósson
Við heyrðum kyrie eleison úr messusöngsbók Guðbrands Þorlákssonar biskups.
Eitt mesta afrek Guðbrandar biskups á sviði útgáfu efnis tengt tónlist var Grallarinn. Þessi bók heitir, eins og segir í formálanum:
Graduale, ein almennileg messusöngsbók saman tekin og skrifuð til meiri og samþykkilegri einingar í þeim söng og ceremonium sem í kirkjunni skal syngjast og haldast hér í landi eftir ordinantiunni af H. Guðbrandi Þorlákssyni. Item. Almennileg handbók með collectum og oratium sem lesast skulu í kirkjusöfnuðinum árið um kring.
Bók þessi var fyrst prentuð á Hólum 1594 og ekki ólík í uppsetningu og hinn svokallaði Jespersens Graduele í Danmörku og hafði komið út árið 1573.
Formála að fyrstu útgáfu Grallarans ritaði Oddur Skálholtsbiskup Einasson með fyrirsögninni:
Um þann sálmasöng sem tíðkast í kristilegri kirkju, nokkur undirvísun af lærðra manna bókum þeim til fróðleiks sem það hafa ekki sjálfir lesið.
Við heyrðum Trúarjátninguna úr Grallaranum í flutningi útvarpskórsins undir stjórn Róberts A Ottóssonar. Á plötunni stendur að Resinaius hafi raddsett þessa tónlist árið 1544 sem bendir til þess að laglínan sé tekin úr erlendum bókum og að hún sé þó nokkuð eldri en sjálfur Grallarinn. Svona var þessi tónlist aldrei flutt í íslenskum kirkjum við siðaskiptin.
Oddur biskup talar einnig um í formála sínum, það sem hann kallar að “tvídrægni” hafi ríkt í kirkjusöngnum og leggur áherslu á að “Grallarinn sem H. Guðrbrandur hefir nú á þessu árið prentað látið haldast eftir þennan dag svo vel um allt Skálhotsstifti sem um Hólabiskupsdæmi”.
Hann brýnir fyrir mönnum að þeir:
… hafi ekki meira við sönginn en hóflegt er og sýni þar ei sína fordild með margslungnum hljóðum, klinkunótum og annarri hljóðanna umbreytni…. Nóturnar og tónarnir eiga að þéna orðunum, en orðin eru ekki gjörð fyrir tónana… Hér skal enginn hugsa að menn lasti þá ágætu musicam, þá sönglist sem vér köllum discant, hver eða tíðkast hjá sumum með öðru góðu bóknámi, því að það er ein góð Guðs gánga og hefur sína nytsemi. En annar söngur þénar betur í kirkjusamkundum vegna alþýðunnar.
Hann áminnir einnig kennimenn um…
…að þeir láti þá eina syngja þessa sálma í kirkjunni sem þar hafa góða hljóðagrein til, svo að sú heilaga lofgjörð verði sem best vönduð og sé ekki sem drukkinna manna hróp og kall eða hrynur, þá sitt syngur hver… Þá skulu þeir eð hjá standa og til hlýða, varast að gefa meir gætur að hljóðunum þeirra eð syngja en að sjálfri andlegri meiningu orðanna, hvað án efa verður mörgum gálausum, einkum þeim fávísu sem nálega ekki fara til annar í kirkjuna en að skemmta eyrum sínum og heyra hver fegurst kann að syngja.
Við heyrðum sanctus þáttin, eða Heilagur, heilagur úr Grallaranum í flutningi meðlima útvarpskórsins undirstjórn Róberts A Ottóssonar. Einsöngvari var Jón Kjartansson.
Grallarinn var gefinn út alls 19 sinnum. Aftan við 6. útgáfuna sem prentuð var í Skálholti 1691 er viðbót, – ritgerð eftir Þórð biskup Þorláksson „innihaldandi stutta undirvísun um einfaldan söng fyrir þá sem lítið eða ekki þar út í lært hafa en girnast þó grundvöllinn að vita og sig framar að iðka“.
Þessi viðauki er fyrsta tilraun í prentuðu máli til að kenna íslendingum almenna söngfræði og er ritgerðin endurprentuð í öllum síðari útgáfum Grallarans. Að auki má minnast á að í 11. útgáfuna sem kom árið 1730 er bætt inn nokkrum lögum.
Nafnið Grallari kemur af latneska orðinu Graduale, eða Responsarium Graduale sem þýðir svarsöngur og tíðkaður var, og er í Kaþólsku messunni á eftir pistlinum. Heitið kemur frá þrepunum upp að altarinu, sem kórinn stóð á meðan hann söng svarsöginn. Liber Graduale er bók sem innihélt alla söngva í kaþólsku messunni. Grallarinn okkar inniheldur bæði messusöngva og sálmalög til safnaðarsöngs.
Lögin í þessari bók eru flest þýsk að uppruna. Er þar að finna hin elstu lútersku sálmalög og voru sungin hvarvetna þar sem kenningar Lúters breiddust út, fyrst í Þýskalandi og síðar í norðri. Guðbrandur biskup valdi með aðstoð söngfróðra presta í Hólabiskupsdæmi lögin úr þeim þýskum söngbókum, sem komu út á 16. öldinni, en nokkur lög tók hann úr hinni elstu dönsku sálmabók, sem kennd er við prestinn og skáldið Hans Thomissøn. Í henni eru 260 sálmalög, flest þýsk og nokkur dönsk. Má til gamans nefna að í Grallarann tók Guðbrandur danska sálmalagið Dagur í austri öllum upprennandi nú skín, en það er hið alkunna jarðarfararlag, Allt eins og blómstrið eina. Í 6. útgáfu Grallarans er lagið komið í Lydiska tóntegund og er þar rytmiskt, en í kóralbókum frá seinni tíð er lagið hreint dúr-lag.
Það er engin spurning að lögin í grallaranum eru mörg hver mjög falleg, en gagnrýni sú er beindist að þeim um aldamótin 1800 snerist aðallega að flutningshættinum frekar en að sjálfum lögnum.
Árið 1994 voru þættir á dagsrá útvarpsins sem hétu Kvöldvaka í umsjón Péturs Bjarnasonar. Í einum þessara þátta flutti séra Björn Jónsson á Akranesi mjög greinagott erindi um grallarann, en um það leyti voru liðin 400 ár frá útkomu hans. Við skulum hlýða á brot úr þessu erindi sem segir um tilurð hans og áhrif hans í íslensku messuhaldi æ síðan.
Við heyrðum brot úr erindi séra Björns Jónssonar á Akranesi sem hann flutti í útvarp árið 1994. Væri þarft verk að endurútgefa grallarann í nútíma textasetningu og hljóðrita lögin í honum til betur að gera okkur grein fyrir innihaldi hans.
Menn hafa greint á að Íslendingar hafi aldrei verið miklir söngmenn á fyrri öldum. En Bjarni Þorsteinsson bendir á að í heimild eftir Arngrím Jónsson lærða sem heitir Anatome Blefkeniiana og kom út á Hólum 1612 megi lesa:
Að því er sönglist og lagfræði snertir, hafa landar mínir ekki verið svo illa að sjer, að þeir hafi ekki getað búið ti hljóðfæri upp á eigin spýtur og tekist vel. Og lagfræðina hafa þeir þekkt allt fram á þennan dag. Sumir hugsa jafnvel upp lög með fjórum, fimm eða fleiri röddum, og syngja þau all-laglega.
Hér er sagt beinum orðum að menn hafi hugsað upp lög, þ.e. samið lög og það í mörgum röddum. Það á við þetta eins og margt annað að við þurfum að rannsaka gömlu handritin miklu betur til að geta gert okkur betur grein fyrir þessum þætti.
Við skulum ljúka þættinum á að heyra úrvarpskórinn syngja lagið Syngið Guði sæta dýrð sem einmitt er úr Grallaranum. Lagið heyrist hér í útsetningu Róberts A Ottóssonar.
Þátturinn verður ekki lengri í dag.
Lesari í þættinum var Lana Kolbrún Eddudóttir
Verið þið sæl.