Kirkju- og veraldlegur söngur á miðöldum

Þessi texti er upphaflega skrifaður sem handit að útvarpsþætti sem var á dagskrá Ríkisúvarpsins, Rás 1, 30. nóvember 1999.


 

Góðir hlustendur! – Velkomnir á tónaslóð. Við heyrðum í seinasta þætti dálítið um fyrstu biskupana okkar í Skálholti og á Hólum. Einnig heyrðum við stutt viðtal við Dr. Róbert A. Ottósson í tilefni af doktorsvörn hans árið 1959.

Við höldum nú áfram að fjalla um íslenskan kirkjusöng á miðöldum.

Um fjölraddaðan söng í íslenskum kirkjum á tímum kaþólskunnar er að segja að eitt handrit íslenskt hefur sérstöðu frá þessum tíma en þar er tvisöngur nóteraður. Það er ættað frá klaustrinu á Munkaþverá og skrifað árið 1473. Það er álitið að Jón Þorláksson, sem lengi var í Bolungavík, hafið skrifað handritið. Það er sagt um hann að hann hafi verið besti skrifari á öllu Vesturlandi og hafi skrifað flest allar kirkjusöngsbækur í þeim landsfjórðungi. Ennfremur er þess getið um Jón, að þá er hann var dáinn, stirnuðu ekki þrír fingur á hægri hendi; var þá pennastöng látin milli fingranna, og skrifuðu þá fingurnir þessi orð úr Ave Mari: “Gratia plena, Dominus tecum” – Þökk sé þér Drottinn. Þetta handrit segir okkur það að fleirraddaður söngur var kominn inn í kirkjur seint á 15. öld. Annars var það ekki stíll hinnar kaþólsku kirkju að flytja fjölraddaða tónlist í messunum. Þar var hafði í heiðri hinn svokallaði slétti söngur, sem var einradda. Enda er sagt eftir Lárentíusi Kálfssyni sem var biskup á Hólum (1323-30) að hann hvorki vildi láta Tripla né Tvísyngja, kallaði það leikarasakp. Heldur vildi hann láta syngja sléttan söng eftir því sem tónað væri í kórbókunum.

Bjarni Þorsteinsson skrifar dálítið um þetta handrit í bók sinni um íslensk Þjóðlög, en handritið er varðveitt í stonun Árna Magnússonar og heitir þar AM 80, 8vo. Við skulum átta okkur á að þessi texti er skrifaður um aldamótin 1900. Um skinnblaðið segir Bjarni:

Þetta skinnhandrit í safni Árna Magnússonar á Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn er hið elzta íslenzka handrit, þar sem tvísöngur er nóteraður, og, eptir því sem jeg frekast veit, hið elzta handrit á öllum Norðurlöndum, sem sýnir fleirraddaðan söng. Blaðið er aðeins eitt, og er í arkarbroti, úr gamalli latínskri mesusöngsbók á Íslandi. Ofan til á fremri síðu blaðsins er nóteraður partur af Angus dei, og síðan byrjar Credo, sem er nóterað hjer á eptir, en ekki er það heilt, því blaðið tekur fyr enda. Af Agnus dei er að eins byrjunin með tveimur röddum, en svo hefur skrifarinn sleppt eða gleymt að setja fylgiröddina áfram. Þetta Pergamentsblað er komið frá klaustrinu á Munkaþverá í Eyjafirði, og er skrifað 1473 af Jóni Þorlákssyni. Eptifylgjandi klausa er skrifuð með rauðu bleki neðan undir efri nótnalínuna (en latinski textinn undir hina neðri):

Jón Þorláksson hefir skrifat þessa bók. En hana ljet gjöra Bjarni, son júnkæra Ívars Hólms, og hann gaf hana jungfrú Maríu að Munkaþverá með þeim skilmála, að þau laun, sem María vill honum unna hjer fyrir, vill hann annars heims hafa, þá honum liggr mest á og hans sál varðar mestu og allra þeirra hans náunga, sem hún vill, at þess njóti. Hefir fyr skrifaðr Bjarni lýst þessa bók fyrsta, en hann bjó á Meðalfelli í Kjós suðr. Þá var Einar ábóti á Munkaþverá, biskup Ólafr á Hólum, biskup Sveinn í Skálholte, kóng Kristófur yfir Noregi, Svíaríki og Danmörku. Anno domini milesimo quadrigentesimo septuagesimo tercio. Biðit fyrir Bjarna, munkar!!

Bjarni þessi var af heldri manna ættum og var sonarsonur Vigfúsar ívarssonar Hólms.

Árið 1996 voru haldnir í anddyri Háskóla Íslands tónleikar undir heitinu Norðurljós. Á þeim tónleikum söng hópurinn Voces Thules einmitt upp úr þessu handriti. Við skulum heyra þá félaga syngja Credo af skinnblaði frá árinu 1473, en, eins og Bjarni Þorsteinsson bendir á er þetta elsta þekkta heimild á norðurlöndum um fjölraddaðan kirkjusöng.

Við heyrðum sönghópinn Voces Thules syngja Credo eins og það hefur varðveist á gömulu skinnblaði frá 15. Öld.

Veraldlegur söngur
En fleira var nú víst sungið en kaþólskur kirkjusöngur. Það var ekki þá frekar en nú að bændur landsins og búalið streymdi til kirkju kvurn sunnudag, enda oft messuföll, og þá höfðu menn einnig þörf fyrir að lyfta glasi og láta sér líða vel eins og í dag – ég tala nú ekki brúðkaupin. Vitað er með nokkurri vissu að á tímum kaþólskunnar hér á landi hafi verið sungnar verladlegar vísur á samkomum, bæði danskvæði þegar dansað var og önnur kvæði svo sem maríukvæði og dýrlingavísur. Nú í brúðkaupsveislum í kaþólskri tíð kvað það hafa verið siður að drekka minni krists og syngja um leið. Þá voru sungin vers, eitt eða fleiri og svokallað slæmur – en slæmur voru viðlög í veislusöng. Eftir að forsöngvari eða siðameistari hafði lokið sungið hver tvö vísuorð af versinu söng allt fólkið slæminn. Stóðu brúðkaupsveislur oft í 3 – 5 daga og var oft mikið sungið. Þá fylgdi sérstakur söngur hverju minni og hverri athöfn. Siðamaður sá um að allt færi fram eftir réttum siðareglum. Starfs hans var mikið – hann mælti fyrir öllum minnum og stýrði söng. Mest var sungið þá er Maríuminni var drukkið og átti þá hver maður að syngja eitthvað Maríu til lofs og dýrðar áður en hann drakk minnið. Spilamenn stýrðu hljóðfæraslættinum , ef hljóðfæri voru höfð um hönd á annað borð. Menn sungu aftansöng í kirkjunni áður en brúðkaupsveislan hófst og hlýddu á morgunsöng í veislu lok. Þá var drukkin hestaskál og veislugestir sungnir úr hlaði með sérstökum söng. Telja sumir að þessi veislusiður hafi haldist allt fram undir 1700 þó svo hið forna ákall og dýrkun dýrlinganna hafi horfið að mestu við siðaskiptin.
Mikið var dansað á miðöldum. Arngrímur Jónsson hinn lærði hefur lýst þessum dönsum og söngnum er fylgdi þeim en getur hvergi um hljóðfæri. Hann talar um tvær gerðir dansa – Kyrrðardansa og Hringdansa. Kyrrðardans kallast þeir dansar sem, eins og Arngrímur segir:

… sem fóru fram eptir settu söngsamræmi, þar sem kvæði eða söngvísur voru viðhafðar til að dansa eptir; þar var einn forsöngvari og tveir eða fleiri tóku undir með honum, en hinir dönsuðu á meðan. En hringdans og vikivaki var það, þegar karlar og konur gengu fram á víxl og greindust svo aptur að, eða deildust. Hvorutveggja tegundin virðist bera keim af grískum dansi, nema að hjer stóðu einstakir menn í röð og sungu söngvísur með afmældum þögnum, hálfa vísuna eða allur flokkurinn tók þær upp aptur og söng i einu hljóði. Var svo endurtekið við enda hverrar visu upphaf eða niðurlag fyrsta erindis með nokkurs konar tvöföldun, en stundum án hennar.

 

Þetta má lesa í íslandslýsingu Arngríms lærða rétt eftir 1600 og kvað þetta vera ein elsta lýsing á vikivökum hjá okkur. Til er mikið af vikivakakvæðum undir hinum ýmsu bragarháttum en flest vikivakalögin eru týnd.

Þessi vikivakakvæði viku svo fyrir rímunum og voru þær síðar kveðnar við dans. Þarna eigum við samlíkingu við hina færeysku dansa. Bjarni Þorsteinsson hefur lýsti vikivakalögunum á þennan hátt:

Um fleiri hundruð ár tíðkuðust á Íslandi þjóðlegar gleðisamkomur, er kölluðust vikivakar; þar voru flutt vikivakakvæði, sungin vikivakalög og dansarið vikivakadansar. Vikivakakvæðin voru venjulega fremur löng, stundum ástarkvæði, stundum skopkvæði en oftast sögulegs efnis; þau voru ávallt þannig orkt, að við enda hvers erindis var viðlag, sem alltaf var endurtekið eins, eða nær því eins; stundum var líka viðlag eða janfvel tvö inn í miðju hvers erindis. Vér eigum mesta urmul af vikivakakvæðum undir margvíslegum bragarháttum, vikivakalögin eru færri, því mörg af þeim gleymdust og glötuðust, þegar þessar þjóðlegu skemmtanir voru lagðar nður eftir miðja 18. öld. Lögin og kvæði voru þannig flutt á gleðisamkomum þessum, að einn söng fyrir , eitt og eitt erindi af kvæðinu, en allt fólkið tók undir og söng viðlagið; en á meðan var dansað á margvíslegan hátt, stundum karl og kona saman, stundum margir eða allir í einu, sérstakir dansar við sérstök kvæði.

En ætla má að þessi vikivakakvæði eins og hin veraldlegu þjóðlög hafi verið lituð á einn eða anna hátt af kirkjusöngnum.

Við skulum nú hlýða á eitt vikivakalag sem einmitt eru útsett af séra Bjarna Þorsteinssyni. Flytjendur eru, Guðmundur Jónsson, Kristinn Hallsson, Ingveldur Hjaltested, Sigurveig Hjaltested, Hulda Viktorsdóttir, Hjálmar, Kjartansson, Sverrir Kjartansson og Björn Þorgeirsson ásam söngvurum úr Þjóðleikhússkórnum. Stjórnandi hópsins er Victor Urbancic. Þessi hljóðritun var gerð árið 1958. Kvæðið heitir Frýsakvæði sem er þjóðkvæði. Um þetta kvæði og lag, segir Bjarni Þorsteinsson, sem reyndar kallar það Frísavísa:

Lagið hef jeg fengið af Vestfjörðum, frá síra Kristni Danielssyni. Frísadans og Frísaleikur hefur eflaust verið hafður hjer um hönd áður fyrr á vikivökum, og eru tvær útgáfur af Frísakvæði í vikivakaritgjörð Ólafs Davíðssonar, og má með lítilli breytingu hafa lag þetta við bæði kvæðin. Sjálfsagt hefur þetta: “Frísir kalla” o.s.frv. verið sungið af öllum, eptir að einhver einn, líklega karl og kona á víxl, hafði sungið hverjar tvær hendingar af kvæðinu. Þetta er reglulegt vikivakalag, og gott sýnishorn þess, hvernig þau hafa verið. Kvæðið má lengja eins og vill; fyrst biðu hún föður sinn að leysa sig með gullinu sína (eða búgarðinum sínum), en hann vill ekki; þá biður hún móður sína leysa sig frá Frísum með kápuspennslum hennar, bróður sinn með burstöng hans, systur sína sína með eyrnagulli hennar, en allt fer á sömu leið, enginn vill leggja neitt í sölurnar fyrir hana. Þá snýr hún sjer til unnusta síns og biður hann leysa sig frá Frísum. “Með hverju”, spyr hann. “Gefðu þinn hest og söðul fyrir mig”, segir hún. “Það skal jeg gjarnan gjöra”, segir hann. Þá endar leikurinn með því að hún syngur: Fari, Frísir, Frísir fari, Frændur hafa mig leysta. Einn hefur leikið meyjuna, annar föðurinn, þriðji móðurina os.fra. Þessi leikur hefur einnig áður fyrri tíðkazt í Færeyjum.

Við skulum nú heyra Frísavísu í útsetningu Bjarna Þorsteinssonar.

Við heyrðum Frísavísu í útsetningu Bjarna Þosteinssonar. En það eru fleiri sem hafa búið hafa vikivakana í búningi nýrri tíma. Einn þeirra er Jón Ásgeirsson tónskáld. Við skulum hlýða á Ásudans í útsetningu Jóns Ásgeirssonar. Það er Liljukórinn sem flytur og einsöngvari er Reynir Guðmundsson.

Við heyrðum Liljukórinn undir stjórn Jóns Ásgeirssonar flytja vikivakann, Ásudans í útsetningu stjórnandans. Einsöngvari var Reynir Guðmundsson.

Vikivakar, eða sagnadansar, hafa verið útsettir á fjölbreyttari hátt en fyrir söng. Karl O Runólfsson útetti á sínum tíma 6 vikivaka fyrir hljómsveit. Við skulum heyra þessa dansa í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Páls. P. Pálssonar.

Við heyrðum sinfóníuhljómsveit Íslands flytja sex vikivaka í útsetningu Karls O. Runólfssonar.

Fyrir um ári kom út hjá fyrirtækinu Smekkleysu diskurinn Raddir sem hefurað geyma hljóðritanir úr safni stofnunar Árna Magnússonar með söng íslendinga. Meðal söngvanna sem finna má á þessum diski er sagnadansinn Tófukvæði sem sungið er af Brynjófli Sigurðssyni sem fæddist árið 1915. Um sagnadansa segir Andri Snær Magnússon í bæklingi með disknum:

Uppruna sagnadansa má rekja til Frakklands á 12. eða 13. Öld en þaðan virðist þessi grein hafa breiðst út. Sagnadansar eru þekktir hjá öllum Evrópuþjóðum og líklega hafa þeir fyrst borist til landsins fyrir siðaskipti gegnum Noreg. Tófukvæði er þekkt í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, en Tófa er íslenskun á kvenmannsnafninu Tove. Íslenska gerðin er um margt frábrugðin hinum og gæti verið allgömul. Hættir sagnadansa eru líkir á öllum Norðulöndum, hverju erindi fylgir viðlag en stuðlar og höfuðstafir eru notaðir óreglulega. Talið er að sagnadansar hafi verið kveðnir í dansi áður fyrr líkt og Færeyingar gera enn. Andleg yfirvöld á Íslandi börðust gegn dansi og hann mun hafa lagt alveg niður á 18. Öld en harðindi eru einnig talin hafa átt sinn þátt því. Kvæðið um prestkonuna hefur að öllum líkindum borist hingað frá danmörku á 19. Öld, en kvæðið þekkist einnig í Noregi og Svíðþjóð.

Tilvitnun lýkur.

Við skulum ljúka þættinum í dag á að heyra Brynjúlf Sigurðsson syngja kvæðið um hana Tófu.

Þættinum er lokið í dag,

Verið þið sæl.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is