Þessi texti er upphaflega skrifaður sem handit að útvarpsþætti sem var á dagskrá Ríkisúvarpsins, Rás 1 , 16. nóvember 1999.
Við skulum nú halda áfram að rifja upp þætti úr íslenskri tónlistarsögu.
Ég skildi við ykkur síðast þar sem ég minntist aðeins á Jón Ögmundsson biskup á Hólum og kennara þann sem hann réði til að kenna söng og versagerð hjá sér – hin franska Rikini. Við kvöddum heiðinn tíma með því að hlýða á Sveinbjörn Beinteinsson kveða úr Hávamálum og einnig heyrðum við fyrsta þáttinn úr óperunni Þrymskviða eftir Jón Ásgeirsson. Við skulum nú halda áfram þar sem frá var horfið.
Skólinn á Hólum var lengi við líði. Hann var enn til á 14. öld á dögum Lárenzíusar Kálfssonar biskups en hann mun einnig hafa verið mikill söngmaður. Í tíð Lárnzíusar gengu aldrei færri en 15 nemendur í skóla hans og má ætla að þeir hafi breitt út hinn kaþólska söng víða um land eins og fyrirrennarar hans. Hann kallaði gjarnan presta og djákna til söngæfingar fyrir allar stórhátíðir. Hann tók sjálfur að sér forsönginn á stærstu hátíðunum en hann lét undirmönnum sínum eftir forsönginn á almennum dögum. Lárenzíus átti sér eigið gildismat um menn – það byggði m.a. á því hve vel menn sungu og lásu í heilagri kirkju. Ekki er þetta ólíkt mati því og séra Eggert Sigfússon í Vogsósum hafði um sína sveitunga í Kotstrandarsókn um síðustu aldamót, en hann flokkaði þá í Skúma eða lóma, allt eftir því hvað honum þótti um mannkosti þeirra.
Í þessum elstu skólum kirkjunar var lítið sem ekkert annað kennt í söngtímum en hinn kaþólsi kirkjusöngur og hinar viðamiklu tíðareglur. Þessi söngur hefur gjarnan verið kallaður í íslenskri tónlistarsögu “hinn kaþólski kirkjusöngur” en við sjáum andstæðuna við hann í krikjusöngnum eftir siðaskiptin – hinn lútherska sálmasöng. Kaþólski söngurinn er frekar hægur og byggir á hinum svokallaða Gregorsöng, þ.e. sá söngur sem kenndur er við Gregor hinn mikla, páfa í Róm á árunum 590-604. Söngurinn er allur í hinum svokölluðu gömlu kirkjutóntegunum, þ.e. það form sem andstætt er við dúr-og moll tóntegundakerfið. Þessi tónlist er það sem maður myndi kalla ákaflega taktlaus og ræður textinn miklu um framgang tónlistarinnar. Textinn er oftast órímaður og er hann lesmál úr biblíunni frekar en rímaður skáldskapur.
Við skulum heyra dæmi um 13. Aldar sálmasöng í flutningi The Schola Gregoriana of Cambridge. Dæmið sem við heyrum gefur nokkra hugmynd um sálmasöng í upphafi kristninnar hér á landi.
Allur sá söngur er prestarnir urðu að kunna í hinum kaþólska heimi var skráður niður. Hann var skráður í bækur sem ganga undir heitinu Antiphonarium. Biskupar lögðu mikla áherslu á að bækur þessar væru til í kirkjunum og í eftirlitsferðum sínum um héruðin fylgdust þeir ekki aðeins með að bækur þessar væru til heldur og voru prestar yfirheyrðir um kunnáttu í innihaldi þeirra. Fyrir kom að menn misstu embætti fyrir það eitt að vera lélegir í nótnalestri og lítt kunnandi á Antifónarumið.
En hvað var það svo sem þeir þurftur að kunna:
Sjálf messan.
Í Kaþólskri kirkju hefur hver dagur kirkjuársins sína sérstöku messu, og er messulögunum breytt í samræmi við texta dagsins. Kollekta, pistill og guðspjall eru lesin eða tónuð en sönglöunum má skipta í tvo flokka. Í öðrum flokknum eru þættir sem skipta um texta eftir dögum kirkjuársins. Sá flokkur sem hefur sömu föstu textana allt kirkjuárið, heitir Ordinarium missae og hefur fimm þætti. Kyre – ákall á nafn Guðs, Gloria, – lofsöngur, Creto, – trúarjátning, Sanctus, – Heilagur, heilagur er Drottinn og Agnus Dei, – Ó guðs lamb er bar heimsins syndir.
Hinn flokkurinn, þar sem skipt er um texta eftir því sem á við guðsþjónustu dagsins heitir proprium missae og eru í honum eftirtaldir þættir: Introitus (inngangur, messu inngangur) Graduale (þrepsöngur; nafnið er dregið af því að í fornkirkjunni stóð kórinn á þrepunum, sem liggja upp að altarinu, meðan hann söng lagið (gradus=þrep). Alleluia (fagnaðaróp í texta og tónum) Offertorium (offursöngur), textarnir eru úr Davíðssálmum; meðan sungið var gengur fleiri eða færri af kirkjugestum upp að altarinu með offrið handa prestinum; síðar var sá siður tekinn upp, að ganga með samskotabauk um krikjuna. Þá er Communio (kvöldmáltíð) sem er helgasta athöfnin. Upphafsliðir messunar vaxa stöðugt upp að þessu hámarki. Síðan eru messulok (Post communio) Presturinn kveður söfuðinn með orðunum : Ite, missa est; þar af er orðið messa dregið. Setningin þýðir: Farið, guðsþjónustunni er lokið.
Bænagjörðir.
Í kaþólskri kirkju eru ákveðnar stundir til bænagjörða, svokallaðr tíðir. (Officium) Tíðasöngurinn upptók mjög klerkana og má segja að þeir hafi verið syngjandi nótt og dag. Venjulega voru tíðirnar taldar sjö með hliðsjón af orðunum: “Sjö sinnum á dag lofa ég þig”. Þó í upptalningunni hér á eftir séu þær 8.
Tíðir.
Þær heita Matutina, (ótta, óttusöngur) kl. 3 um nóttina; Prima (morguntíð) kl. 6 á morgnana; Tertia (dagmálatíð) kl. 9 árdegis; Sexta (miðdagstíð) kl. 12 á hádegi, Nona (eyktartíð) kl. 15 síðdegis; Vesper (aftantíð, aftansöngur) kl. 18 síðdegis og, Náttmálatíð kl. 21 og Vigilia, (Miðnættisttíð) kl. 12 á miðnætti.
Hverri tíðagjörð tilheyrði ákveðinn texti og söngur þar með. Þetta þurftu menn að kunna allt utan að og byggðist starf og staða margra á því að kunnátta þessi væri í lagi. Textinn var einkum lofsöngvar, þakkargjörðir, bænir og textar úr ritningunni, einkum úr Davíðssálmum.
Það sem síðar gerist er að sjálf messan verður sjálfstætt listform og úr því þróaðist margslunginn fjölradda söngstíll sem var orðinn þó nokkuð þróaður á 15 öld hjá meisturum Niðurlanda eins og Josquin des Pres en á þeim komponista hafði Marteinn Lúter miklar mætur á. Nú þá má minnast á Orlando di Lasso sem starfaði seinustu 40 ár sín í Munchen og Pierluigi da Palestrina sem var söngstjóri Péturskirkjunnar í Róm. Nú svo ekki sé talað um síðari tíma meistara eins og Bach.
Áður en við höldum lengra skulum við aðeins átta okkur á hvað tóskáldin úti í Evrópu voru að gera á tímum kaþólskunnar hér á landi. Við miðum gjarnan við að kaþólskan hafi liðið undir lok hér á landi 1550. Suður á Ítalíu var tónskáld sem hét Giovanni Pierluigi da Palestrina en hann lést árið 1594. Við skulum heyra upphafið af fjögurra radda messu – Missa Ave Maria. Við skulum heyra Gloria þáttinn.
Við heyrðum Gloria þáttinn úr Messa Ave Maria eftir Palestrina í flutningi kórs Westminister dómkirkjunnar í London. Það var James O’Donnell sem stjórnaði.
Svona verk komponeruðu menn gjarnan úti í heimi á þessum tíma.
En á Íslandi komponeruðu menn ekki stórar kórmessur né upplifðu menn hljómsveitir við tónleikahald á þeim tímum sem hljóðfæratónlistin náði inn í kirkjum eftir 1600. Þessar svokölluðu konsertmessur náðu hámarki sínu í h-moll messu Bachs og Missa Solemnis eftir Beethoven. En þessi umræða verður ekki tekin upp hér.
Kíkjum aðeins á merka heimild sem til er á Íslandi um kaþólskan kirkjusöng fyrri alda hér.
Þorlákstíðir.
Líklega er einhver dýrmæstasta arfleifð sem við eigum frá þessum tíma hinar þekktur Þorlákstíðir sem Robert A. Ottósson skrifaði sína doktorsritgerð um. Þessar tíðir taka einnig mikið pláss í Þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar og hefur hann ritað heilmikið um þær.
Eins og ég nefndi hér áðan þá varð ákveðið uppgjör hinnar kristinnar kirkju í samfélögum meginlandsins í kringum árið 1000. Kirkjan krafðist smám saman meiri valda yfir sér og sínum og varð þessu ekkert öðru vísi farið hér á landi með tímanum. Kirkjan hér á landi var hluti af þjóðveldinu og var háð landslögum. En um leið var hún grein hinnar Rómversk-kaþólsku kirkju. Hún byggði á alvaldi páfans sem var duglegur við að ná til sín alvaldi yfir kirkjunni. Mikil deila var í kringum 1100 um það hvor skyldi ráða yfir kirkjunni, Páfinn eða keisarinn en með sáttagerð þeirri er gerð var í Worms 1122 náði Páfinn yfirráðum yfir flestum málum kirkjunnar. Um leið og erkibiskupsstóllinn var stofnaður í Niðarósi árið 1152 opnaðist greið leið til íslands. Hér kemur maður til sögunnar á Íslandi landi sem hét Þorlákur Þórhallson bikup. Við skulum aðeins heyra hvað íslenskur söguatlas segir um Þorlák þennan:
Þorlákur Þórhallsson var kosinn biskup í Skálholti eftir Klæng Þorsteinsson og var vígður í Niðarósi 1178. Sumarið 1179 fór hann í yfirreið um Austfirði og setti þar fram kröfur kirkjunnar um forræði hennar yfir kirkjustöðum. Þessi krafa var í samræmi við kröfur hinnar alþjóðlegu kirkju en í algerri andstöðu við hina íslensku kirkjuskipan. Felstallir kirkjubændur í Austfirðingafjórðungi létu undan kröfum Þorláks og afsöluðu sér kirkjueignum en fengu kirkjustaðinn að léni. Með þessu viðurkenndu þeir yfirráðarétt kirkjunnar á kirkjueignum en fengu að búa á kirkjustaðnum áfram og njóta einhvers af þeim hlunnindum sem staðurinn hafði að bjóða.
ennfremur segir:
Biskup barðist ekki aðeins fyrir forræði eigna kirkjunnar heldur einnig fyrir því að almenn lög kirkjunnar væru haldin. Annað helsta stefnumál Þorláks var baráttan fyrir bættu siðferði, sérstaklega meðal íslenskra höfðingja. Erkibiskupinn í Niðarósi sendi íslendingum bréf 1174 þar sem hann vítti þá harðlega fyrir syndsamlegt líferni. Helstu höfingja landsins, þá Jón Loftsson í Odda og Gissur Hallsson í Haukadal, sakað hann um að lifa “búfjárlífi”. Samkvæmt kenningum kirkunna var hjúskapurinn heilagur, hann mátti ekki sundur slíta og innan hans skyldu menn stunda sitt kynlíf og eignast börn. Bæði Gissur og Jón vor kvæntir menn en héldu auk þess nokkrar frillur og áttu með þeim börn. Meðal frillna Jóns Loftssonar var Ragnheiður, systir Þorláks og áttu þau saman soninn Pál, sem síðar var biskup í Skálholti. Margir íslenskir höfðingar héldur frillur og það fleiri en eina, stundum til að afla sér pólítisks stuðnings ættmenn frillunnar en einnig af öðrum ástæðum og meðan svo var hlaut siðaboðskapur kirkjunnar að víkja.
Biskupsdómur Þorláks markaði þrátt fyrir allt þetta tímamót í kirkjusögunni. Hann hafði töluverð áhrif á almenning og tengdu menn ýmis kraftaverk nafni hans. Hann fékk smám saman eins konar mynd hins heilga manns. Fimm árum eftir andlát hans, 1198, var lögtekið á Alþingi að heita mætti á Þorlák biskup sem helgan mann og skipaðar tvær hátíðir til heiðurs honum, dánadægur hans, 23. desember (Þorláksmessa) og dagurinn sem tekinn var upp helgur dómur hans, 20. júlí, Þoláksmessa á sumri
Heilmargt er til ritað bæði í bundnu og óbundnu máli um heilag Þorlák og er merkast þeirra rita tíðasöngurinn um hann – hinar margfrægu Þorlákstíðir. Tíðasöngur þessi er skráður í gamalli skinnbók sem varðveitt er í Stofnun Árna Magnússonar hér á landi og er hún messusöngbók frá dómkirkjunni í Skálholti og líklega rituð nálægt aldamótunum 1400. Texti þess er allur rímaður og um leið allur á latínu. Bjarni Þorsteinsson segir þennan söng afskaplega merkilegan og til að vitna beint í hann þá segir hann m.a.:
Söngur þessi er mjög merkilegur ekki aðeins fyrir það hver gamall hann er, heldur einkum fyrir hitt, að hann er orktur á Íslandi, af íslenzkum mönnum, um íslenzkan mann, eptir íslenzkum rímreglum og undir íslenzkum bragarháttum. Virðist því mjög líklegt að lagið við tíðasöng þennan sje íslenzkt, tilbúið af einhverjum hinna katólsku klerka, og það því fremur, sem hvorki hefur tekist að finna textann nje lagið í nokkrum útlendum nótnabókum frá þeim tíma.
Það sem Bjarni segir einnig er að því sé ekki að neita að söngurinn byggi á útlenskum grundvelli eins og hann orðar það og að söngurinn sé allur í anda Gregós páfa. Hann segir einnig að fyrirmyndin sé útlensk. Í honum séu hásöngvar og lágsöngar á víxl, laudate, magnificat, responsorium, antiphona, seqentia, versus et pslami. Máli sínu til stuðnings um það að söngur þessi sé íslenskur segir Bjarni einnig að hann hafi hitt ýms menn í Svíþjóð og hafi þeir ekki þekkt til Þorlákstíða. Né heldur hafi hann fundið heimildir um hann í Norskum bókum frá þessum tíma og því hljóti þetta allt að vera íslenskt.
Hér er eitt dæmi um það hve rannsóknir á sögu íslenskrar tónlistar eru komnar skammt á veg. Þó svo handrit þetta sé ritað um 1400 má ætla að innihald þess sé miklu eldra. Fullyrðing séra Bjarna stenst ekki að um alíslenskt handrit sé að ræða. Eins og við sáum hér að framan, þá komu menningaráhrif til Íslands sunnan úr Evrópu. Það er eins og Séra Bjarna hafi ekki verið það alveg ljóst hve mikil þau voru. En það var dr. Róbert A. Ottósson sem sýndi fram á í doktorsritgerð sinni að lögin við Þorlákstíðirnar eiga svo að segja öll fyrirmyndir í sálmasöng enskra svartmunka á 13. öld. Í sumum tilfellum eru lögin alveg óbreytt og oftast er náin samsvörun milli textanna. Það má því til sannsvegar færa að Þorlákstíðir taki af allan vafa um það djúptæk erlend áhrif – nota bene, önnur en norræn – hafi borist hingað til lands, einnig í tónlistinni.
Lítið hefur verið fjallað um Dr. Róbert undanfarna áratugi. Þeir sem muna hann eiga um hann stórkostlega minningu. Eins og ég sagði þá varði hann doktorsrigerð sína um Þorlákstíðir. Það var árið 1959. Ég fann stutt viðtalsbrot við Róbert sem tekið var daginn fyrir vörnina, 9. Október árið 1959. Það er Hendrik Ottósson sem talar við hann. Það vill svo til að þetta brot á 50 ára afmæli þessa dagana og því vel til fallið að leyfa ykkur að heyra það.
Við heyrðum stutt viðtal við Dr. Róbert A. Ottósson í tilefni af doktorsvörn hans um þorlákstíðir.
En það var ekki aðeins þetta viðtal sem ég fann niðri í kjallara. Eins og mörgum er kunnugt um þá stjórnaði Róbert nokkrum kórum hér á landi á árum áður, og meðal þeirra kóra var Útvarpskórinn. Við eigum þó nokkrar hljóðritanir með þeim kór. Meðal þess efnis sem þar er að finna er einmitt stutt brot úr Þorlákstíðum. Ég er ekki alveg viss um hvenær þetta brot var hljóðritað, en samkvæmt skýrslu sem liggur með bandinu var það fyrst sett á dagskrá í desember árið 1963.
Við heyrðum nokkra meðlimi úr útvarpskórnum flytja brot úr Þorlákstíðum undir stjórn Dr. Róberts A. Ottóssonar.
Nánast allt það sem við eigum hér af tónlist á skinnblöðum er úr kaþólskunni. En þau benda mjög til þess að þau eigi uppruna erlendis. En vera má að sá háttur sem efnið var notaður á hafi tekið einhverjum breytingum hér frekar en sjálfur efniviðurinn. En við skulum á sama tíma gera okkur ljóst að stíll Gregorsöngvanna hefur haft veruleg áhrif á tónskyn landans og má sjá þessi áhrif í sjálfum þjóðlögunum. Við skoðum það nánar síðar.
Þættinum er lokið í dag
Verið þið sæl.