2. sýning – Heilbrigð æska

Heilbrigð æska – Pönkið og Kópavogurinn 1978-1983

Fréttatilkynning frá Kópavogsbæ:
Heilbrigð æska“ – pönkið og Kópavogurinn 1978 – 1983

Á morgun, laugardag [19.september 2009] , verður opnuð sýningin „Heilbrigð æska“, pönkið og Kópavogurinn 1978 – 1983.

Sýningin verður opnuð kl. 15.00 í Tónlistarsafni Íslands við Hábraut 2 í Kópavogi (www.tonlistarsafn.is). Sigurrós Þorgrímsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogs, ávarpar. Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs, opnar sýninguna og Dr. Gunni segir nokkur orð um pönkið í Kópavogi.

Klukkan 15.30 hefjast tónleikar í ungmennahúsinu Molanum, sem er í sama húsi og Tónlistarsafnið, þar sem gamlar pönkhljómsveitir í bland við nýjar troða upp. Að loknum tónleikunum er gestum velkomið að ganga niður í gömlu undirgöngin sem verða opnuð á ný í tilefni af sýningunni.

Tilgangur sýningarinnar er að varpa ljósi á pönkmenninguna sem myndaðist í Kópavogi á árunum 1978– 1983. Auk þess verður farið yfir sögu pönksins á Íslandi og verða munir frá tímabilinu almennt til sýnis í safninu. Sýninguna styrkti Lista- og menningarráð Kópavogs en sýningarstjórn er í höndum Aðalheiðar Erlendsdóttur og Péturs Ólafssonar.

Pönk og Kópavogur eru tengd sterkum böndum. Hljómsveitin Fræbbblarnir var stofnuð í MK veturinn 1978 með tónleikum á fyrstu Myrkramessu skólans. Pönkhljómsveitirnar Snillingarnir, Taugadeildin og Þeyr höfðu allar á að skipa meðlimum úr Kópavogi en auk þess var starfræktur fjöldinn allur af hljómsveitum í bænum sem reglulega tróðu upp við margvísleg tilefni líkt og F-8, Dordinglar, Geðfró, Stífgrím og NAST.

Frá Kópavogi barst pönkhljómurinn og hljómsveitir voru stofnaðar víða um land. Því má segja að Kópavogurinn hafi verið vagga pönksins. Pönkæði greip um sig meðal ákveðins hóps ungs fólks og áttu Fræbbblarnir, ásamt öðrum hljómsveitum úr Kópavogi, stóran þátt í því.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is