Bætt sönglíf á 19. öld

Þessi texti er upphaflega skrifaður sem handit að útvarpsþætti sem var á dagskrá Ríkisúvarpsins, Rás 1, 1. febrúar 2000


Við munum nú halda áfram að gera okkur grein fyrir ástandi tónlistarmálanna á 19. öld. Við höfum heyrt ýmislegt í því sambandi og þar á meðal tvær smásögur sem lýsa viðhorfum úrtölumannanna sem engu vildu breyta og sáu skrattann í öllum framförum. Í seinasta þætti heyrðum við aðeins af Pjetri Guðjohnsen og því sem hann gerði til þess að ýta undir framfarir í tónlistarmálunum, en eins og haft hefur verið eftir honum þá sagði hann að Ísland væri 500 árum á eftir ítölum í tónlistarlegum skilningi. Úr því Pétur nefndi Ítalíu þá er ekki úr vegi að leika ítalska tónlist sem samin var á 19. öld í þessum þætti. En við látum ekki þar staðar numið. Við skulum einnig rifja upp blaðagrein sem birtist í Norðanfara 20.mars árið 1877 þar sem Eyfirðingur fjallar um ástand tónlistarmálanna um það leyti og drepur á ýmislegt sem hann telur að geti orðið til bóta fyrir sönglíf þjóðarinnar. Það verður að segjast eins og er að óskir hans eru ekki miklar miðað við það sem við þekkjum í dag, rúmum 100 árum síðar, en um leið skulum við gera okkur grein fyrir að þær eru setta fram miðað við kunnáttu þjóðarinnar í iðkun tónlistar og að því leyti raunhæfar.

Í takt við tímann er vangaveltum pakkað inn í hárómantískt líkingarmál, m.a. um áhrif tónlistarinnar á líkamlega vellíðan, atgerfi og hug mannsins. Einnig koma fram ýmsar hugmyndir um kaup orgela í kirkjur landsins, minnst á séra Ólaf Pálsson, en hann er tónlistarsögu okkar mikilvægur því hann sem prestur, með reynslu úr dómkirkjunni sem hafði orgel, fluttist að Melstað árið 1871 og sá til þess að í kirkjuna kom orgel, fyrsta orgel í íslenska sveitakirkju og munum við fjalla nánar um það síðar. Þá koma fram óskir um útgáfu á 2ja-4ra radda sálmasöngsbóka, kennslubóka á orgel og leiðavísi til að kaupa orgel í kirkjurnar. En áður en við vindum okkur í greinina skulum við hlýða á tónlist. Ég minntist á áðan að Pétur Guðjónsson hefði haft á orði að Ísland 19. aldar hefði verið 500 árum á eftir Ítölum í tónlistarþróun sinni. Við skulum hlýða á brot úr lítilli messu eftir Rossini sem hann samdi árið 1863, 14 árum áður en greinin var skrifuð sem við heyrum á eftir. Við heyrum Kyrie þáttinn.

Við heyrðum Jos van Immerseel og Hollenska kammerkórinn flytja fyrsta þáttinn úr lítilli messu eftr Rossini. En nú hefst lesturinn:

 Það mun mega fullyrða, að vjer Íslendingar höfum tekið talsverðum framförum í sönglegu tilliti, nú seinni árin, eða síðan farið var að kenna söng í latínuskólanum í nýja stýl; og þó mest og almennast síðan “hið Íslenska bókmenntafélag” gaf út “Sálmasöngs- og Messubók með nótum”, eptir Pjetur Guðjohnsen organista í Reykjavíkurdómkirkju (1861). Að vísu má telja “Leiðarvísir til að spila á langspil og til að læra sálmalög eptir nótum” eptir Ara sáluga Sæmundsen (prentaðan á Akureyri 1955), sem hinn fyrsta vísi nú á seinni tíð, til að kenna almenningi hjér á landi, reglulegri og rjettari sálmasöng, en áður var víðast hvar. Þess var líka öll þörf, því víða var orðið mjög hræðilegt og sorglegt, að heyra hvað ómyndir lögin voru orðin; og þó þessari bók, kunni að hafa verið margt ábótavant, tóku þó margir við henni fegins hendi og fóru kappsamlega, að læra sálmalögin eptir henni á langspil, sem voru smíðuð eptir, þeirri tilsögn, sem þar er gefin ásamt skýringu um strenglengd og tónbil í Eðlifræðinni, bls. 196-201. Tókst mörgum manni þetta ágæta vel, eptir því um var að gjöra, og náðu lögunum alveg eins og latínuskóla kandidatar höfðu lært þau þar af Guðjohnsen. Þetta var órækur og gleðilegur vottur þess, að almenningur hafði löngun til aðlæra eitthvað í því tilliti, en hafði ekki þá í bráðina, annað betra við að styðjast. Útkoma bókar þessarar mun líka hafa heldur flýtt fyrir útgáfu hinnar, nl.[nefnilega] sálmalagabókar Guðjohnsens. Þessarar bókar var mikil þörf hjer, þar sem eins og allir vita, er svo lítið um kennslu fyrir alþýðu, bæði í söng og öðru, þeir eru líka margir sem hafa stafað sig furðanlega fram með að læra lögin, eptir þessari bók, og það margir tilsagnarlaust. Það er líka sannast, já það er gleðilegt, hvað söngurinn í kirkjunum hjer norðanlands (einkanlega í Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslum), er orðin betri en fyrir 20-30 árum; hann má vissulega heita hátíðlegur hjá því sem þá var, og er nú þessi árin á hvað beztum framfara vegi.

Sannarlega mátti þakka Guðjohnsen þá framför og það líf, sem virðist vera að færast í sönglistina hjer, hjá oss, nú seinustu árin, og það er líka víst , að hann vinnur kappsamlega, sitt hið fagra dagsverk, eins og getið er um í ágætri ritgjörð um söng í Norðanfara 15. ári 78. bls, þar segir meðal annars:

 Það hafa víst flestir tekið eptir því, hve söngurinn verkar lífgandi og fjörgandi á manninn, hann vekur allar fagrar og háleitar tilfinningar í sálum vorum, hann er stundum svo blíður og viðkvæmur, að hann vekur sæta angurblíða og sára þrá, en stundum grípur hann með ofsa í hverja taug vora, gjörir krapta vora tröllaukna svo vjer færumst í ásmegin og finnum afl færast í hvern vöðva, og getum barist mót öllu böli og andsteymi, til framkvæmda og fullkomnunar. Það má sjá mörg dæmi þess í veraldarsögunni, að fagrir þjóðsöngvar hafa opt gjört ótrúlega mikið til þess, að efla frelisisást manna, og örfa þá til að berjast fyrir rjettum málstað, og breiða um leið einhvern skáldlegan töfrablæ yfir alla tilveru þjóðanna, sem er nauðsynlegur þar, sem menn leita til hinna æðstu og beztu framfara í andlegu og verklegu tilliti.

Við heyrðum Leslie Howard leika umritun Frans Liszt á stefi eftir Rossini.

 Já, hvað getur maður fundið ánægjulegra, og meira uppörfandi, en að heyra fagra söngva? Hvað er unaðsamara í lífi voru, en að koma í guðshús, og heyra þar góða og hjartnæma sálma sungna vel og rjett, með hátíðlegum og hrífandi lögum? Hvað getur hrifið hjarta mannsins meira eða fremur komið því til að auðmýkja sig fyrir Drottni? Mjer finnst alls ekkert, jeg hefi verið svo frá því jeg man fyrst til mína, að það hafi verið hinar unaðarfyllstu og sælustu stundir lífs míns, sem jeg hefi verið í kirkju og heyrt þar vel sungna hina hjarnæmu sálma, tel jeg víst að svo muni fleiri vera, sem sje að fagrir söngvar geti hrifið hjörtu þeirra, mest af öllu, og þessvegna ættum vjer að leggja allt kapp á, að kirkjusöngur vor, fari allsstaðar sem allrabezt fram.

Þess er því meiri þörf, sem telja má víst, að kraptmikilli kenningu guðsorða fari ekki fram í landi voru, og víst er það, að svo lítur út, sem kennimenn vorir, sumir hverjir, sjeu fátækari af “bænum”, en áður voru þeir, þegar aldrei heyrist lesin bæn á stólnum, eptir prjedikun, og ekki svo mikið sem á hátíðum. Þjer munuð segja að það sjeu fá orð í fullri meiningu, hvort heldur það er eitt vers eða fáein bænarorð, og ekki þurfi aðrar bænir, en Drottinlega bæn. En jeg vil aptur á móti spyrja. Munu allir heyrendur geta skilið allt, sem Drottinleg bæn felur í sjer, þó þeir heyri hana lesna (á stundum nokkuð fljótt); og til hvers eru þá bænir prentaðar á voru máli? eða er það einungis til brúkunar í heimahúsum? Kirkjurnar eru þó bænahús, eins og allir vita, og jeg veit að engum þætti lítið til koma, að heyra lesna einhverja af beztu bænum vorum á prjedikunarstól, að minnsta kosti á hátíðum (til hátíðabrigða), og bænadögum.

Það er nú vitaskuld, að hreinn raddsöngur getur verið fagur og fullnægjandi, en þó finnst mjer síðan jeg heyri hljóðfæri brúkað við guðsþjónustu í kirkju, að söngurinn fari enn þá reglulegar fram, og verða meira hrífandi og vekjandi við það sem mannraddirnar blandast saman við hljóðfærishljóminn. það var þessvegna aðal-tilgangur minn með línum þessum, að hvetja til að söfnuðir og umsjónarmenn kirkja leggðust á eitt, allstaðar eða sem víðast, að kostur er á, og útveguðu sjer “Orgel-harmonium”, sem væru síðan brúkuð til að stýra söng við guðsþjónustuna í krikjunum; því það mundi að minni hyggju mest og bezt laga sálmasöng vorn.

Þegar hinn góðfrægi dómkirkjuprestur og prófastu, síra Ólafur sálugi Pálsson flutti frá Reykjavík norður að Melstað 1871, sýndi það sig brátt, hver áhrif hið rjetta fagar hljóð, (sem felst í orgelspili og sem hann hafði vanist í mörg ár í R.vík) hafði haft á hann, þar sem hann þegar á fyrsta eða örðu ári á Melstað, útvegaði “Orgel-Harmonium) í kirkjuna þar, sem síðan hefir verið brúkað, og mun þó hafa verið völ á betra söngfólki þar, en víða annarstaðar. Þetta var mikið loflegt og eptirbreytnisvert fyrirtæki, sem líka leiddi til þess að þeir fetuðu þegar í spor hans. Möðruvallarklausturskirkju-söfnuður varð þannig næst til að skjóta saman fje til sama fyrirtækis og sendi mann vetur að Melstað til að læra nauðsynlegasta grundvöll í orgel-spili og keyptu svo orgel, sem síðan kvað vera brúkað þar í kirkjunni, við guðsjónustugjörðina. Svo hafa Akureyrarmenn og fleiri söfnuðir hjer í nærsýslunum, breytt eptir þessum framfara-fyrirtækjum. Það er líka víst, að margir söfnuðir hjer um nærsveitir, hafa hið sama fastlega í huga. Það er ósk mín og von, að sem víðast og bráðast verði útveguð orgel í kirjurnar, og væri það þörf, fögur og mikil framför í sönglistinni hjá oss, sem söngmenntunin er svo lítil, að bráðra umbóta þarf við, þá mundi hin unga kynslóð vor, læra lögin fljótt og rjett, og söngmenntunin fara dagvaxandi.

 

Við heyrðum Leslie Howard leika umritun Franz Liszt á nokkrum stefja Rossinis.

 

Þegar orgelin fara að fjölga hjer hjá okkur, þá kemur brátt í ljós, að okkur vantar: sálmalagabók á voru máli, með 2, 3 eða 4 röddum, því það er bæði mikið óviðfeldið og óþjóðlegt, að brúka erlenda sálmalagabók. Þar til og með, hefir hin danska Choral-bók ekki nema rúman helming af vorum sálmalögum. Svo þó hún sje keypt, þá þurfum vjer ekki og getum ekki notað hana nema að sumu leyti, en er þó afadýr (8 kr) vantar því samt fjöldamörg af hinum fögrustu lögum vorum, sem jeg veit ekki af, að sje neinstaðar til með röddum, nema Pjetur Guðjohnsen kynni að eiga eitthvað þessháttar (og það mun vera víst).

Jeg leyfi mjer þess vegna að skora á þann eða þá menn af löndum vorum sem til þess eru færastir ( Jeg tel þar til orgnasta Pjetur Guðjohnsen, Svb. Sveinbjörnsson í Edínaborg, og jónas Helgason í Ryekjavík; fleiri þekki jeg ekki, þó kunna þeir vel að vera til. Það er mjög loflegt hvað Jónas hefir komizt áfram í sönglistinni, mest af sjálfsdáðum. Ritum hans hefir líka verið mjög vel tekið, og er óskandi og vonandi, að fjelagið “Harpa” gjöri sitt bezta til að gefa út, að minnsta kosti, eitt eða tvö hepti á ári, álíka stór og þau sem komin eru, jeg veit að margir vona eptir þriðja heptinu, með hverri ferð, og bendir það á að meira þessháttar yrði þegið með þökkum), hið allrafyrsta að gefa út sálmalagabók á íslenzku með 2, 3, eða 4 röddum; þyrfti hún þá líka að vera nægilega rík af þeim lögum, sem nú eru brúkuð við sálma í öllum sálmabókum vorum, sem eru: nýja sálmabókin, Passíu- og Hugvekjur-sálmar, sálmar síra Helga og fleira, líka þyrftu hún að hafa inni að halda, sem flest lög við suma bragarhætti vora, þar eð efni sálmanna er svo margbreytt.

Slíkrar bókar er nú orðin bráð þörf þar sem orgel eru nú brúkuð í einum 10-12 kirkjum hjer á landi, sem jeg veit af, og þar að auki eru mörg kirkjufjelög, sem hafa í hug, að fá orgel hið bráðasta í kirkjur sínar, líka veit jeg nokkra menn, sem vilja læra fylgiraddir við lög; já, það væri mikið ánægjulegt, að eiga á voru máli sálmalagabók með 3 og 4 röddum. Þar sem velviðeigandi íslenzkir textar væru lagðir undir lögin, og sem væri eins vel vönduð að öllu leyti, eins og Bergreens Choral-bók er 5. útgáfa.

Jeg þykist líka vera viss um að P.G. yrði ljúft, að vinna að útgáfu þesskonar bókar, þess heldur, sem hann segir í formála sálmalagabókar sinnar: “Að mínu leyti hefði jeg að vísu helzt óskað, að gefa út bók þessa, með 2, 3 eða 4 röddum, en bæði er það, að hún hefði þá orðið miklu meira en helmingi dýrari, svo að fyrirtæki það, hefði ekki á nokkurn hátt getað borið sig, og líka hitt, að hætt er við, að fleiri raddir kynni að villa þá, sem fyrst fara að reyna til að komast niður í söng eptir bókinni, frá rjettum vegi. Jeg álít líka um sinn ekki alllítið unnið við það, ef almennigi gæti orðið lið í bókinni, eins og hún nú liggur fyrir, og í raunini er þess öldungis ekki að vænta, að menn geti styrktar- og tilsagnar- laust lært af henni meira en lögin, þó hún væri með fleiri röddum.” “Þegar stundir líða fram, mun það koma í ljós hvort sálmalögin, útsett fyrir tvær eða fleiri raddir, geta komið að liði eða orðið meðal til þess að koma samsöng á lopt, hjer á landi, og mun jeg þá, ef lifi, leitast við að ráða bót á þeirri þörf, sem í því efni kynni að láta sig í ljósi”.

Jeg get nú ekki sjeð, að bókin þyrfti að vera mjög dýr, þar eð svo mörg af lögunum mætti prenta, rjett eptir Berggren, og máske nokkur eptir öðrum útlendum Choral-bókum. Það yrðu líklega eitthvað 140-160 sálmalög alls; nú, ef miðað er við söngva Jónasar Helgasonar, sem innihalda 27 lög fjórrödduð, þá yrði hún eitthvað 5-6 sinnum stærri; en bæði má nú gjöra ráð fyrir dýrari pappír, og gis-settari nótum í Choral-bókinni: þó hún yrði 5 eða 6 kr., álít jeg það stórum mun betra, en kaupa hina dönsku Choral-bók, sem þó hefir ekki nærri öll lögin. Það yrði sannarlega fagur minnisvarð yfir Guðjohnsen, ef þvílík bók kæmi út eptir hann, áður en hann safnast til feðra sinna.

Það er næsta tilfinnanlegt, að oss Íslendinga vantar nær því alla þekkingu í hljóðfærafræðinni, eða með öðrum orðum: vjer þekkjum svo fá hljóðfæri, og vitum þessvegna ekki hvaða hljómbreytingar og tilbreytni hinum ýmsu hljóðfærum eru eiginleg. þannig veit jeg margann, sem þó er að myndast við að spila á “harmoniku” að hann viti ekki hvað tónar hennar heita, o.s.frv. og er það þó nú orðið algengasta hljóðfærið, og fáir munu þeir að tiltölu sem hafa nægja þekkingu, til að velja sjer gott hljóðfæri, t.a.m. “Harmoninum”, og þetta er þó nauðsynlegt, ef vjer ætlum að fara að útvega oss þau, í flestar kirkjur vorar. Enn, því er miður, að jeg get ekki gefið fræðandi upplýsingar í þessu tilliti, nema hvað jeg veit að þau (Harmonium) kosta í Danmörku 60 – 1200 króna, og að þau dýrar og stærri, hafa mikla yfirburði yfir hin, bæði í hljóðmagni og ýmsri tilbreytni. Jeg hugsa eptir því sem jeg get komzt næst, að Harmonium fyrir 2-300 kr. nægi í flestar hinar smærri kirkjur, en aptur mundi ekki veita af 4-600 kr. hljóðfæri í hinar stærri, að jeg ekki tali um hinar allra stærstu.

Það væri mikið fróðlegt og nauðsynlegt ef einhver af löndum vorum, sem vel væri heima í þekkingu á ýmsum hljóðfærum, vildi gefa út á prenti nákæma lýsingu af nokkrum þeirra, sem væri helzt hæfileg fyrir okkur Íslendinga, einkum “Orgel-Harmonium”, og þyrft sú lýsing að vera sem fullkomnust og auðskildust, og sjálfsagt ætti þar með að fylgja áætlun um, hve stórt eða dýrt orgel þarf í það hús, sem rúmar svo eða svo mörg teningsfet, t.a.m. 6000 til 30.000 teningsfeta; líka mundi vel við eiga, að geta um hvar bezt væri að kaupa þessi hljóðfæri, eptir verðgæðum og vöndun allri. Einnig væri mjög æskilegt, að gefin væri út á prenti ritgjörð, sem gæti verið skóli handa þeim, er vilja læra að spila á hljóðfæri; það er svo herfilegt til þess að vita, að ekkert ritkorn skuli vera til á voru máli, sem kennir þesskonar list; að jeg ekki tali um leibeiningu handa þeim, sem hafa fagrar og vellagaðar söngraddir, t.a.m. hvernig þeir eigi að beita röddinni við ýmsa tilbreytni og tækifæri, hvað eigi mest að læra, og hvað mest að varast. Það er næsta fögur gáfa að hafa fagra og liðuga söngrödd, og það er líka næsta fögur list að kunna vel að syngja, og það má fullyrða, að það er ekkert til, sem hrífur hjartað meira, eða lyptir hug og hjarta framar til hæða, en fagrir söngvar, og þessvegna ættum vjer, að leggja allt kapp á að efla sönglistina, sem svo lítt hefir verið stunduð hjer hjá oss, hjá því sem er í öðrum löndum.

Já, kæru landar, kostum alls, vilja og kapps til að efla og glæða sönglega menntun hjer á landi voru; þjer sem eruð þess umkomnir, að geta sagt til og leiðbeint öðrum með því: að stofna fjelög til söngæfinga í kirkjusóknum, (þjettbyggðum sveitum og hverfum) og takst sjálfir á hendur tilsöngina, eða fá aðra betri til þess; en þjer sem hafið hæfileika til að nema, með því: að sæta fúslega hverju tækifæir sem býðst til að læra og taka æ meir framför og fullkomnun, og líka vera fúsir til að ganga í fjelög til eflingar sönglistinni og leggja nokkuð í sölurnar efnalega, þar sem þjer sjáið, að það miðar söngmenntuninni til þroska og sjálfum ykkur til sóma. Vjer verðum að hafa allan áhuga á þeim fyrirtækum, sem vjer höfum byrjað, eða kunnum að byrja, þjóð vorri til menntunar og þrifa, því ef áhugann vantar, gengur allt svo seint og þunglamalega (ef nokkuð miðar áfram) þar er því mikið undir áhuganum komið, hve miklum þjóðþrifum vjer getum náð í hverju sem er, því kraptur sjálfra vor er næsta mikill ef vjer beitum honum rjett og vel, og “sigursæll er góður vilji”

Ritað í febrúarmánuði 1877

Eyfirðingur.

Góðir hlustendur. Við höfum hér heyrt væntingar Eyfirðings hvað varðar framfarir og þróun tónlistarmála hér á landi á 19. öldinni. Við höfum heyrt nokkur tóndæmi eftir ítalska tónskáldið Rossini sem samin voru á 19. öld. Við skulum ljúka þessum þætti á að tengja ítalíu og Ísland saman með því að heyra Sigrúnu Hjálmtýsdóttir og Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja La dansa eftir Rossini undir stjórn Robin Stapleton.

Vi heyrðum Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja La dansa eftir rossini undir stjórn RobinStapleton.

Þættinum er lokið í dag,

Verið þið sæl.

 

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is