Upphaf útvarpshljómsveitarinnar

Tilraunasendingar Ríkisútvarpsins hófust haustið 1930. Þá strax voru þeir Emil Thoroddsen og Þórarinn Guðmundsson fastráðnir til að sjá um tónlistarflutning í útvarpinu. Þeir fengu nóg að starfa og var í fyrstunni megnið af þeirri tónlist, sem útvarpið flutti, fiðluleikur með píanóundirleik. Svo langt gekk í þeim efnum að farið var að tala um þá félaga sem “verstu fjandmenn” hlustenda. Með tímanum urðu þeir sjálfir þreyttir á þessu einfalda formi og fóru nú að athuga þann möguleika að koma á stofn einhverjum hljóðfæraflokki til þess að leika alþýðulög í útvarpið. Emil hafði þá í huga að með því móti væri hægt að fá fólk til annars vegar að hlusta á hljóðfæraleik – en ekki eingöngu söng – og á sama tíma að auka vinsældir útvarpsins. Ekki voru allri tónlistarmenn á þessari skoðun. Vildu þeir láta leika “góða” klassík fyrir hlustendur og venja þá á þann hátt við garðann. Mun verða fjallað um það að leika “góða klassík” fyrir útvarpshlustendur hér á eftir.
Emil tók sig til og útsetti syrpur af íslenskum þjóðlögum fyrir kvartett, þ.e. tvær fiðlur, selló og píanó. Þeir sem bættust í þennan hljóðfæraflokk voru Karl Matthíasson sem lék á 2. fiðlu og Axel Wold, norskur sellóleikari sem þá dvaldi hér á landi. Nú samanstóð hópurinn af fjórum hljóðfæraleikurum. Þeir léku fyrst þessar útsetningar, á ýmsum tímum og síðan fast í hverri viku í fjölda ára. Um 10 árum síðar voru orðnar til um 80 slíkar syrpur auk fjölda smálaga.
Eftir að útvarpið flutti í Landsímahúsið árið 1932 var flokkurinn stækkaður í 6 hljóðfæraleikara. Við bættust Eggert Gilfer sem lék á harmoníum, og Bjarni Böðvarsson á kontrabassa, en Þórhallur Árnason var þá tekinn við sellóinu af Axel Wold. Árið 1936 tók Katrín Dalhoff Bjarnadóttir við stöðu 2. fiðluleikara en í forföllum voru hljómsveitinni til aðstoðar Fritz Weishappel, sem lék á píanó, Þorvaldur Steingrímsson á fiðlu og Hans Stöcks á selló. Það er ljóst að svo fáir hljóðfæraleikarar réðu ekki við að flytja nema takmarkaðan útdrátt tónbókmenntanna. En hópurinn kom þó ekki alltaf fram saman. Við að skipta hópnum niður í tríó og kvartetta, voru leikin þekkt kammerverk eftir hin miklu klassísku tónskáld. Tríóhópurinn mun hafa verið einna virkastur – bæði með “lifandi” flutningi og af hjómplötum jafnvel svo sumum þótti nóg um. Í Útvarpstíðindum fyrir vikuna 4.-10. desember 1938 má lesa hlustendabréf um tónlistarflutning útvarpsins, en þar segir m.a.:

Mér finnst, að plöturnar séu of einhliða valdar, hvað hljóðfæraval snertir, og á ég þar við þann flokk, sem kallaður er einleikur á ýmis hljóðfæri (af hljómplötum). Þegar þessar plötur eru spilaðar, eru nærri því einungis valdar plötur með píanó eða strokhljóðfærum (fiðlu eða selló). Einleikur á blásturhljóðfæri heyrist varla. (91)

Þetta einhliða val mun hafa stafað af því að útvarpið átti fáar hljómplötur og gjaldeyrishömlur komu í veg fyrir plötukaup. Aðrir íslenskir samspilshópar voru fágætir á þessum árum. Þó hafði Tónlistarfélagið á að skipa tríói er í voru Árni Kristjánsson píanóleikari, Heinz Edelstein sellóleikari og Hans Stepanek fiðluleikari, er einnig lék fyrir útvarpshlustendur.

91 Útvarpstíðindi: 7. hefti 1. árgangur, vikan 4.-10. desember 1938, bls. 104.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is