Um fiðlu og langspil

Inngangur: 5. gr.

Um fiðlu og langspil

67

Þá skal jeg, í sambandi við hinn innlenda söng, minnast dálítið á þau tvö hljóðfæri, sem sjerstaklega eru talin innlend, fiðluna og langspilið.

Fiðla er mjög gamalt hljóðfæri hjá oss og í sannleika innlent, en að líkindum eldra en langspilið. Uno v. Troil, sænskur ferðamaður, (1) sá fiðlu hjer á landi 1775 og lýsir hann henni mjög ógreinilega. Magnús gamli Stephensen lýsir henni einnig og ekkert glæsilega og telur hana þá orðna fremur sjaldgæfa. Hann segir að hún sje optast svo úr garði gjör, að tvinnaður hrosshársstrengur sje strengdur yfir aflangan, holan trjekassa, og svo sje leikið á þetta verkfæri með hrosshársboga; en ekki vilja núlifandi menn kannast við að þessi lýsing sje alls kostar rjett; segjast þeir ekki vita til að fiðlur hafi nokkurn tíma verið með hrosshársstrengjum heldur með vírstrengjum. En þrátt fyrir það getur vel verið að fiðlurnar á 18. öldinni hafi verið með fínum, samantvinnuðum hrosshársstrengjum, ef ekki var annars kostur.

Þegar kom fram á 19. öldina, fóru fiðlur að verða mjög sjaldgæfar, og er þeirra mjög óvíða getið í sóknalýsingunum um 1840; þó er þeirra getið á stöku stað; eru líkindi til þess að þá hafi langspilin verið búin að ryðja þeim að mestu úr vegi. Gísli Konráðsson minnist þannig á hinn orðlagða Fiðlu-Björn: „Björn hjet maður skagfirzkur og kallaður Fiðlu-Björn fyrir því, að hann ljek manna bezt á fiðlu; lagði hann það eitt fyrir sig og fór um hjeruð með íþrótt þá, og hjelt sjer uppi við það; en það var forn trúa, að álfar og ýmsar vættir sæktu þar mjög að, er fiðla var leikin“. Á öðrum stað segir Gísli um Björn þennan: „Hann kvað manna bezt á fiðlu, svo að ærin var íþrótt í“. í Safni til bragfræði íslenzkra rímna bls. 240 lýsir síra Helgi Sigurðsson á Melum fiðlu á þessa leið, þar sem hann minnist á fiðlulag, er hjer verður síðar nefnt: „Fiðlur voru vanalega styttri og víðari en langspil, en höfðu ekkert bogið útskot eins og þau í víðari endann. Þær höfðu tvo strengi, festa á lyklum í annan endann, en á látúnsnöglum í hinn og nótnastokk undir strengjunum. Bogi með taglhársstreng fylgdi með. Á strengina og bogastrenginn var borin myrra, þegar spilað var á fiðluna. Á hana voru spiluð flest íslenzk lög, eptir því sem þau þá voru höfð. Fiðlur þessar sá jeg í ungdæmi mínu, á árunum 1820 til 1830, en hef ekki sjeð þær síðan og munu þær vera liðnar undir lok“.
(1) Erkibiskup frá Uppsölum; gaf út ferðasögu 1777.

Fleiri upplýsingar en þessar um fiðlur eða fiðluspil gat jeg ekki fengið úr þeim bókum, sem jeg hafði haft undir hendi, og voru þær upplýsingar ærið ófullkomnar. Jeg skrifaði því í öll þau hjeruð á landinu, þar sem jeg með nokkru móti gat ímyndað mjer, annaðhvort að gamlar fiðlur væru til, eða þá einhverjir þeir menn, sem hefðu þekkt fiðlur eða leikið á þær í ungdæmi sínu. Ekki eru allar ferðir til fjár og þóttust menn alls engar upplýsingar geta gefið, alls ekki þekkja fiðlur nú orðið og ekki hvernig fiðluspili hefði verið háttað, — nema í einni sveit í Þingeyjarsýslu. Engin gömul fiðla var að vísu þar til svo menn vissu, en þar voru til menn, sem höfðu sjeð fiðlur, sem höfðu heyrt spilað á fiðlu, sem höfðu sjálfir spilað á fiðlu, og sem treystu sjer til að smíða fiðlu, sem algjörlega líktist þeim fiðlum er þeir höfðu sjeð á æskuárum sínum.

Mesta hjálp í þessum efnum veitti mjer trjesmiður Stefán Erlendsson í Ólafsgerði í Kelduhverfi, sonur Erlendar sáluga Gottskálkssonar í Garði, rúmlega fimmtugur maður (f. 1854); smíðaði hann fyrir mig sýnishorn af fiðlu og gaf mjer ýmsar mikilvægar upplýsingar um þetta hljóðfæri og aðferðina við að spila á það. Skal jeg nú reyna að lýsa fiðlu þeirri, er hann sendi mjer, og einnig til færa meginatriði þess, er hann hefur skrifað mjer viðvíkjandi þessu máli.

Fiðlan er aflangur kassi, með hliðum, göflum og botni; hliðfjalirnar og botninn er úr mjög þunnum fjölum; kassinn er hjer um bil 78 cm. á lengd, 14 cm. á breidd í annan endann en 17 cm. í hinn og 14 cm. á dýpt; kassi þessi er ávallt á hvolfi, þegar spilað er. Upp úr botninum fast við breiðari gaflinn standa tveir sívalir trjenaglar, 13 cm. háir, og voru þeir venjulega renndir; þeir lágu niður í gegn um botninn og töluvert inn í fiðluna fast við gaflinn; nálægt 7 cm. voru á milli þeirra, og var mjótt gat í gegn um efri enda hvors þeirra. Utan í hinum gaflinum voru tveir naglar með 7 cm. millibili. Tveir strengir voru á fiðlunni; sinn strengurinn var kræktur vel á hvorn þessara nagla, og svo lágu strengirnir upp yfir gaflröndina, sem var töluvert hærri en botninn. og svo skáhallt upp í efri enda trjenaglanna við hinn gaflinn og gegn um götin á endum þeirra; mátti svo herða á strengjunum og „stemma“ þá svo sem æskilegt þótti með því að snúa trjenöglunum og láta strengina vefjast utan um þá um leið. Með fiðlunni fylgdi ofurlítil, útskorin, þunn smáfjöl, nálægt 14 cm. á lengd og 4-5 cm. á breidd; var henni þrengt á rönd undir báða strengina, svo nálægt mjórri enda fiðlunnar, að strengirnir hjeldu fjölinni fastri; við þetta styttist töluvert sá hluti strengjanna, er hljóð gefur, þegar spilað er, og þá hækka einnig tónarnir. Strengirnir voru venjulegast úr látúnsvír, en stundum úr stáli og stundum úr silfri, og hafðir svo grannir sem unnt var. Þá fylgdi fiðlunni einnig taglhársbogi líkur fíólínboga, og var leikið á strengina með honum. Myrra var borin bæði á strengina en einkum á bogann við og við þegar spilað var. Strengirnir voru báðir stemmdir eins og svo hátt sem menn treystu þeim til að þola. – Fiðlan snýr þannig fyrir þeim, sem spilar á hana, að breiðari endinn er til vinstri handar en fjölin litla og mjórri endi hljóðfærisins snýr til hægri. Bogann hefur maður í hægri hendi, og dregur hann ýmist yfir annan strenginn eða báða, vinstra megin við litlu fjölina (sem opt var kölluð „bretti“). Vinstri handar fingurnir gefa nóturnar þannig að hendin er hálfkreppt á milli botnsins á fiðlunni (fiðludekksins) og þess strengsins, sem nær manni er, og veit handarbakið niður því næst lætur sá er spilar, röð fremstu kjúku þumalfingurs styðjast upp í strenginn, en snertir strenginn með hinum fjórum fingrunum þannig, að kúlur naglanna slái strenginn á víxl eptir því, sem lagið heimtar; sumir brúkuðu og kjúkuflötinn ofan við neglurnar til þess að gefa tónana. Opt kemur fyrir, að sá, er spilar þarf að færa þumalfingurs röðina til á strengnum, ef lagið gengur yfir mörg tónbil. Venjulegast var fiðlan látin standa á borði, þegar spilað var, og stóð þá opt sá, er spilaði, en gat einnig setið. Sumir fiðluleikarar ljetu fjöl (rúmfjöl eða annað) yfir knje sjer, þar sem þeir sátu, settu fiðluna þar á og spiluðu síðan. Tveir strengir voru á hverri fiðlu, og snertu fingurnir að eins annan þeirra, þ. e. þann, sem nær manni var; aptur á móti var boginn opt dreginn yfir þá báða í einu, einkum í sálmalögum og þeim lögum öðrum, er hægt gengu, og mun það líklega hafa verið af þeirri ástæðu, að þá hafði spilarinn meira vald yfir bogadrættinum, en ef lögin gengu fljótt; í kvæðalögum og þeim lögum, er gengu fljótt, var boginn venjulega ekki látinn snerta nema fremri strenginn, og fór það opt vel. Handarbakið var látið hvíla á kassaröðinni til ljettis; af því er auðsætt, að stórhentir menn þurftu að hafa stærra bil frá fiðlunni upp að strengjunum en þeir, er höfðu smáa hönd; en stærð þessa bils var komin undir hæð trjenaglanna og breidd litlu, lausu fjalarinnar, svo og undir því hve miklu brúnin á mjórri gaflinum, (er strengirnir lágu yfir,) var hærri en botn fiðlunnar. Strengirnir voru báðir stemmdir jafnhátt, að minnsta kosti minnist nú lifandi fólk ekki annars; þó er hugsanlegt að undantekning hafi verið frá þessu, hafi fiðlan verið notuð við tvísöng.

Eptir því sem gömul kona sagði Stefáni voru þrír fiðluleikarar töluvert nafnkenndir í Kelduhverfi fyrir 60 árum, (1840-1850), og mun Sveinn heitinn Grímsson, sá er síðar verður nefndur, hafa lært af þeim. Einn þessara þriggja hjet Sveinn Þórarinsson; var hann lengi skrifari hjá Pjetri amtmanni Havsteen á Friðriksgáfu og dó Sveinn þessi á Akureyri nálægt 1870. Hann var maður listfengur og hafði leikið mjög vel á fiðlu; hefur hann að öllum líkindum haft hljóðfærið með sjer að austan til Eyjafjarðar og er ekki ósennilegt að þar kynnu að finnast menn, sem myndu Svein þennan og fiðluspil hans. Hina tvo fiðluspilarana úr Kelduhverfinu nefnir Stefán ekki frekara.

Stefán hefur sjálfur heyrt Svein heitinn Grímsson á Víkingavatni spila á fiðlu milli 1865 og 1870; sat hann á rúmi sínu, lagði fjöl yfir knjen og fiðluna þar á og þannig spilaði hann jafnan. Um þetta farast Stefáni þannig orð: „það eru nú 35-40 ár síðan jeg sá fiðlu og heyrði spilað á hana og var jeg þá unglingur um fermingu. Jeg var svo hrifinn af hljóðfæri þessu, að allt þar að lútandi festist að mjer finnst furðu vel í minni; þó hef jeg leitað mjer upplýsinga hjá glöggum og skýrum mönnum, mjer eldri, um hljóðfærið, og ber algjörlega saman við minni mitt.“

Sveinn þessi á Víkingavatni spilaði mikið á fiðlu fram undir síðustu æfiár sín, en hann dó 1876 rúmlega fimmtugur. Stefán heyrði hann spila lagið Fönnin úr hlíðinni fór, og söng hann erindið með og þótti vel fara; man Stefán það glöggt að Sveinn söng lagið í sama tón og hann spilaði, og svo mun venjulega hafa verið gert; og sjaldan mun hafa verið spilað á fiðlu án þess sungið væri með. Fleiri lög heyrði hann Svein spila á fiðluna t. d. Björt mey og hrein; Sæmundur Magnússonur Hólm; Ekki linnir umferðunum; Hvert er farin hin fagra og blíða; Sat jeg um kvöld við sævar brún; Enginn meini mjer o. fl. Sjerstaklega hefur Stefán leitað sjer upplýsinga um fiðlu og fiðluspil hjá Birni nokkrum Magnússyni (á sjötugsaldri) og Jónínu Þórarinsdóttur (á sextugsaldri), og eru þau bæði upp alin á Víkingavatni þar sem Sveinn heitinn Grímsson var; þeim er enn í mjög fersku minni fiðluspil Sveins og flest það, er snertir þetta mál. Til þess að veita upplýsingum sínum enn meira gildi ljet Stefán þau Björn og Jónínu bæði sjá fiðlu þá, er hann gerði fyrir mig, og las einnig upp fyrir þeim það, er hann skrifaði mjer, og þá er þau höfðu sjeð það og heyrt, gáfu þau skriflega eptirfylgjandi vottorð:

„Við undirrituð, sem höfum sjeð fiðlu þá, er Stefán trjesmiður Erlendsson hefur smíðað fyrir síra Bjarna Þorsteinsson á Siglufirði, vottum hjer með að hún er nákvæmlega eins og fiðlur bær, sem hjer tíðkuðust fyrir nær 40 árum og sem við munum glöggt eptir.

Enn fremur vottum við að upplýsingar þær um fiðlur og fðluspil, sem St. Erlendsson gefur síra Bjarna í brjefi, er við höfum sjeð, eru að okkar dómi í alla staði rjettar.

Víkingavatni, 26. sept. 1905.

Björn Magnússon.    Jónína Þórarinsdóttir.“
(h. s.)
Stefán getur þess, að hann hafi sjálfur ofurlítið leikið á fiðlu milli 1865 og 1870, en ekki sje það teljandi, og aldrei hafi hann reynt það síðan. Hann getur einnig um gamlan nú lifandi fiðluleikara, Einar að nafni, ættaðan þaðan úr sýslunni, úr Núpasveit; sje hann nú austur á Seyðisfirði og orðinn bilaður á geðsmunum fyrir elli sakir.

Þá skal stuttlega minnzt á hitt innlenda hljóðfærið, langspilið. Tíðkaðist það mjög fyrrum að spila á það hljóðfæri, og smíðuðu íslendingar það sjálfir; en ekki er kunnugt, hver hefur fyrstur fundið það upp, nje hvenær fyrst var farið að nota það. Tíðust hafa langspilin eflaust verið hjer á landi á fyrri hluta 19. aldar og um og eptir miðja öldina; en þó er einnig getið um langspil á 18. öld. Eins og áður er getið, gaf Ari Sæmundsen umboðsmaður á Akureyri út bók árið 1855: Leiðarvísir til að læra á langspil og til að læra sálmalög eptir nótum. Þar er kennt að búa til langspil, að nótusetja langspil og að leika á það, og skýrt frá mörgu, sem þar að lýtur. Er þess getið í Norðanfara (XVI, 38) að margir hafi smíðað langspil eptir bók Ara og tekizt vel. Ýmsir þeir, er fóru að fást við hinn nýja söng, höfðu horn í síðu langspilanna og töldu þau flestöll fölsk að nótnaskipun; þar á meðal sjerstaklega Pjetur Guðjohnsen. Segir hann í formálanum fyrir hinni einrödduðu bók sinni, að langspilin muni sjálfsagt eiga mikinn þátt í því, hve sálmalögin hafi afbakazt með tímanum, og segist hann aldrei nógsamlega geta varað nemendur við langspilinu. Þó voru margir málsmetandi menn á gagnstæðri skoðun og töldu langspilið ekki að eins skaðlaust, heldur mjög gagnlegt og gott hjálparmeðal til þess að geta lært lög, er menn fengu nóteruð. Má í því skyni benda á ummæli Benedikts Jónssonar á Auðnum um langspilið, hjer aptar í bókinni; og einnig skal jeg taka hjer upp nokkrar línur úr brjefi til mín frá Finni Jónssyni á Kjörseyri: „Eins og kunnugt er, reyndi Magnús Stephensen konferenzráð að bæta sönginn um aldamótin; en þótt leiðarvísir hans aptan við Sálmabókina (1801) sje furðu góður, og aðgengilegri en leiðarvísirinn framan við bók Guðjohnsens (1861), þá hefur Magnúsi orðið hið sama á og hinum, að benda mönnum ekki á hjálparmeðalið, sem lá svo opið fyrir, en það var langspilið. Þeir, sem þekktu útlend hljóðfæri, hefðu átt að geta hugsað sjer það, að nota langspilið, rjett nótusett, til þess að læra á það ný lög. En það er auðsætt, að þessir menn hafa haft mikla óbeit á langspilinu vegna misbrúkunar þeirrar, sem svo opt átti sjer stað með það hljóðfæri; því ekki er hægt að neita því, að slíkt átti sjer opt stað. Þannig sá jeg t. d. einstöku menn í ungdæmi mínu, er spiluðu þannig á langspil, að þeir ljetu fingurinn leika lítið eitt fram og aptur á hverri nótu. er þeir studdu á, og kölluðu þeir það að „láta hljóðið dilla“. Af þessu leiddi það, að söngurinn hjá þessum mönnum varð lítið annað en einlægir smáringir og trillur. Svo hafa einnig mörg langspil, sem hinir og þessir lítt æfðir menn smíðuðu, verið skakkt nótusett og flest án hálftóna. En að segja mönnum að læra tónstigana tilsagnar- og hljóðfærislaust, er næsta erfitt, og næstum því hið sama og að sýna blindum lit; það vita þeir bezt, sem hafa orðið að berjast við það.“ Á öðrum stað í öðru brjefi segir Finnur enn fremur: „Ef nokkurn tíma verður gefin út íslenzk söngsaga, má ekki gleymast að geta þar eins manns, sem hefur unnið söngnum hjer á landi meira gagn en margur hyggur; en það er Ari sál. Sæmundsen á Akureyri. Leiðarvísir hans hefur gjört mjög mikið gagn, því eptir honum og með hjálp langspilanna gátu menn lært lögin í bók Guðjohnsens (1861); en eptir þeirri bók eingöngu gat, hjer vitanlega, enginn maður lært lag tilsagnarlaust.“

Nú um aldamótin (1900) eru langspil löngu gengin úr „móð“ og sjást nú varla nokkursstaðar, nema á einstöku söfnum utanlands og innan. Ekki er hljóðfæri þessu greinilega lýst í leiðarvísi Ara, því þá hefur hann álitið lýsingu þess óþarfa, þar sem hljóðfærið var þá svo almennt. Hinn enski ferðamaður Mackenzie, sem síðar verður nefndur og ferðaðist hjer um land sumarið 1810, lýsir langspili í ferðabók sinni og er þar allgóð mynd af því. Börn Magnúsar Stephensens voru að spila á þetta hljóðfæri, gestunum til skemmtunar, þegar þeir Mackenzie komu að Innrahólmi, og Þórunn dóttir Magnúsar gaf Mackenzie langspil það, sem myndin er af í ferðabókinni; voru þau börn Magnúsar og hann sjálfur mestu meistarar í því að spila á langspil. ekki síður en Ólafur stiptamtmaður, faðir Magnúsar, svo það er auðsjeð, að heldra fólkinu hefur ekki þótt nein læging að því í þá daga, að spila á langspil. Annar enskur ferðamaður, Hooker að nafni, kom einnig að Innrahólmi; spilaði dóttir Magnúsar einnig á langspil fyrir hann, og færir hann einnig til mynd af langspilinu í ferðabók sinni; en öðruvísi er sú mynd en myndin í bók Mackenzies, enda voru langspilin með tvennu móti; sum voru eins og aflangur kassi, mjórri i annan endann, en breikkaði svo jafnt yfir til hins endans; en sum voru með töluverðu hálfhrings-mynduðu útskoti út úr annari hliðinni við breiðari endann, og þóttu þau fínni og betri. Mynd af hinum fyr nefndu er í bók Mackenzies, en af hinum síðar nefndu í bók Hookers. Ekki er gott að lýsa langspili vel, nema hafa mynd af því, – ekki svo, að þeir skilji það vel, sem aldrei hafa sjeð það; en fyrir þá, sem hafa sjeð það, er lýsingin óþörf. Langspil má sjá á Forngripasafninu í Reykjavík. Á sumum langspilum var strengurinn ekki nema einn, á sumum tveir, á sumum þrír og jafnvel fleiri. Uno v. Troil, er áður var nefndur, sá á ferð sinni um Ísland 1775 langspil með sex messings-strengjum Magnús Stephensen minnist víða á langspil í ritum sínum, en ekki voru þau mjög almenn í þá daga. Langspil eru nefnd í mörgum sóknalýsingum nálægt miðri 19. öld, en þá eru þau að byrja að falla í gildi hjá alþýðu og þeim að fækka, sem kunnu vel að spila á þau. Þó má geta þess, að síra Vernharður Þorkelsson segir í lýsingu Hítarnessóknar á Mýrum 1841, að átta manns kunni á langspil þar í sókninni.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is