Tónskáldafélag Íslands – örlítið um Jón Leifs

Þar sem nafn Jóns Leifs (1899-1968) ber oft á góma í þessum kafla tel ég nauðsynlegt að gera örlitla grein fyrir honum hér.
Jón Leifs fór til Þýskalands árið 1916 til að læra tónlist. Hann varð tónskáld – umdeilt tónskáld – og fékk mjög misjafnar móttökur á verkum sínum þar sem þau voru flutt. Það er fyrst á seinustu árum að menn dæma verk hans fordómalaust. En Jón var einnig félagsmálamaður.
Eftir mörg ár bæði í Þýskalandi og Svíþjóð flutti Jón aftur til Íslands árið 1945. Strax eftir heimkomuna hóf hann að vinna að réttindamálum tónskálda og stofnaði m.a. Tónskáldafélagið (1945), STEF (1948), útgáfufyrirtækið Islandia Edition (1949), Alþjóðaráð tónskálda (1954). Þá vann hann að stofnun Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar (Í.T.–1968. Sjá þó nánar um það í kaflanum um Íslenska Tónverkamiðstöð) og fleira í sama anda.
Jón var allt sitt líf umdeildur maður – ekki aðeins fyrir tónlist sína heldur einnig fyrir harða baráttu að réttindamálum tónskáldanna. Hápunktur þessa var líklega vinna hans að stofnun STEFs. Þá mynd sem ég dreg upp af Jóni í kaflanum um persónu hans í tengslum við þátttökuna í Alþingishátíðinni stend ég við. En það hindrar mig ekki í því að undirstrika hið gífurlega framlag hans til íslensks tónlistarlífs eftir heimkomuna. Ævisaga Jón Leifs er ekki enn skrifuð en um hann og líf hans mætti skrifa margar bækur.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is