Tónlistarsýningin 1947

Tónskáld á Íslandi eiga nú við álíka kjör að búa og rithöfundar hér á 13. öld, sem skráðu verk sín á skinn án hagnaðar. Þó er sá munur á, að handrit skáldanna fóru úr einum höndum í aðrar, vóru afrituð og lesin upphátt og í hljóði öllum landslýð til fyllilegra afnota. –
Leifar af þeim lifa.

Íslensk tónskáld rita verk sín á tortímanlegt efni Fáir geta lesið þau; – enn færri eða engir geta látið þau hljóma í landinu. Naumast eru hér skrifarar til, sem geti skráð þau. Fornskáldin höfðu fullan vinnufrið á höfuðbólum og klaustrum. Tónskáldin eiga sér ekki athvarf, nema til að semja alþýðlega söngva án samhengis listrænna þróunar.

Sýning tónlistar er til að láta sjást það, sem ekki getr hljómað. Íslenzkt og útlent
stendur hlið við hlið. Mörgum verðr hugsað: Hvað er þá orðið okkar starf í sjö hundruð sumur? Vér skynjum hinn mikla tónanna mátt: afl þjóðernis, – afl sambands milli þjóða, –orku, er skapað gæti, er fram liða stundir, þjóð vorri með öllum þjóðum fyllri rétt frelsis en nokkuð annað, sem íslenzkur andi og íslenzk hönd hafa látið frá sér fara. (102)

102 Úr hefti sem lagt var fram á Tónlistarsýningunni 1947.
Tónskáldafélagið sem stofnað var árið 1945 (sjá síðar) beitti sér fyrir því að komið yrði á tónlistarsýningu á öðrum fundi þess, 6. janúar 1947, að tillögu Jóns Leifs. Til að sjá um þessa sýningu voru kosnir þrír menn í nefnd, Jón Leifs, Karl O. Runólfsson og Hallgrímur Helgason. Á sama tíma var mikil sýningaralda í Reykjavík. Má þar nefna byggingarsýningu, sjávarútvegssýningu, og af tónlistarsýningunni tók svo við landbúnaðarsýning. Þessi sýning var fyrsta tónlistarsýningin sem haldin var á Íslandi. Við opnunina voru m.a. viðstaddir ráðherrar og fjöldi erlendra gesta.
Á fundi Tónskáldafélagsins vakti Jón Leifs máls á því að “hyggilegt mundi og menningarlega nauðsynlegt að efna til tónlistarsýningar, sem bæði yrði í nafni og undir forgöngu félagsins”. Á sýningunni mátti sjá ýmis forn hljóðfæri og var í tengslum við hana m.a. leikið á afsteypur fornra lúðra er fundist höfðu í jörðu í Danmörku. Umfjöllun fór fram um helstu þætti íslenskrar tónlistarsögu fram að þeim tíma og síðast en ekki síst var einn veggurinn skreyttur myndum af hljóðfæraleikurum að leika á hljóðfæri sem um hljómsveit væri að ræða. Höfuðtilgangur hátíðarinnar var m.a. að leggja fram nótur íslenskra tónverka sem óþekkt voru og nota tækifærið til að benda almenningi á ýmislegt sem gæti orðið tónlistinni í landinu til framdráttar – eins og til dæmis eitt stykki synfóníuhljómsveit! Kristján Eldjárn magister (síðar forseti Íslands) fjallaði um þessa sýningu í tímaritinu Samvinnunni og vitnar í grein sinni í fylgirit sýningarinnar. Þar segir m.a.:
Fyrir stafni sýningarskálans er mynd af því sem forstjórar sýningarinnar hafa kallað hinn mikla draum íslenzkra hljómlistarmanna: hljómsveit. Um þetta farast Jóni Leifs, tónskáldi, orð á þessa leið:

Höfuðverkefni sýningarinnar er að minna á gildi hljómsveita fyrir alla þróun tónmennta. Án hljómsveitar fær engin tónlist þróazt. – Við aðalvegg skálans er þögul eftirmynd hljómsveitar, – óskadraumur allra tónlistarvina í landinu. Sýnd er miðlungshljómsveit eða sá flokkur hljóðfæra, sem flutt getur hljómkviður Beethovens, þær er mannfærri eru – án þess að skerða tilætlun tónskáldsins.

Hljómsveit á Íslandi má ekki standa að baki nokkurri annarri hljómsveit erlendis að gæðum, – þarf eiginlega að vera betri en nokkur önnur hljómsveit: smáþjóðirnar þurfa að skara fram úr stórþjóðunum, ef þeim á að takast að vekja eftirtekt. Hins vegar getum vér látið oss nægja 50 manna hljómsveit til að byrja með og hún getur skólazt með því að flytja mörg sígild verk í fullkomnasta búningi áður en fleiri mönnum yrði bætt við”. (103)

Á sýningunni mátti sjá ýmis hljóðfæri, allt frá gömlum bronslúðrum, til algengustu hljómsveitarhljóðfæra nútímans. En það varð nú samt á öðrum vettvangi en hjá Tónskáldafélaginu sem baráttan fyrir “hinum mikla draumi hljómlistarmanna” fór fram, eða með öðrum orðum, stofnun hljómsveitar.
Við opnun tónlistarsýningarinnar kynnti Brynjólfur Bjarnason menntamálaráðherra reglugerð um flutningsrétt á ritverkum og tónsmíðum. Þar með var Tónskáldafélag Íslands gildur aðili að Norræna tónskáldaráðinu og varð þar með jafn rétthátt tónskáldafélögunum á hinum Norðurlöndunum.

103 Samvinnan: febrúar 1947.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is