Tónlistarskólinn í Reykjavík

Sú mikla vinna sem lögð var í tónlistarflutning í tengslum við Alþingishátíðina varð meðal annars til þess að menn gerðu sér betur grein fyrir slæmri stöðu hljómsveitarmála. Berlega kom í ljós sú staða að hér vantaði stórlega hljóðfæraleika sem væru það færir á hljóðfæri sín að hægt væri að flytja stærri verk svo vel færi. Til að hægt yrði að mynda hljómsveit, sem gæti staðið undir nafni sem slík, varð að byrja á byrjuninni. Fyrir forgöngu Páls Ísólfssonar og Franz Mixa var stofnaður tónlistarskóli í Reykjavík árið 1930, og voru það meðlimir Hljómsveitar Reykjavíkur sem héldu honum gangandi í 2 ár, en þá tók nýstofnað Tónlistarfélag við rekstrinum. Mixa hélt til Vínarborgar og réði til landsins fiðlu- og sellókennara við skólann, þá Karl Helle og Fr. Fleischmann. Þessir áhugasömu hljómsveitarmenn höfðu ekki bolmagn til að halda starfinu áfram og stefndi í að skólinn legðist niður á árinu 1932.
Með stofnun Tónlistarskólans var lagður grunnur að “alvöru” tónlistarlífi í Reykjavík. Skólanum óx smám saman fiskur um hrygg, enda hafði hann á að skipa úrvals kennaraliði allt frá upphafi. Með tímanum var svo stofnuð nemendahljómsveit, undir stjórn Björns Ólafssonar. Til landsins komu vel menntaðir erlendir hljóðfæraleikarar og gengu í þær kennarastöður sem Íslendingar gátu ekki skipað. Allt frá stofnun skólans var eitt af markmiðunum að mennta og þjálfa hljóðfæraleikara sem gætu leikið í sinfóníuhljómsveit. Í skólasetningarræðu á 25 ára afmæli skólans komst Páll Ísólfsson skólastjóri, svo að orði:

[að]…við stofnun skólans hefði þegar verið sett þrjú aðalmarkmið. Að undirbúa sinfóníuhljómsveit, þannig að skólinn útskrifaði nemendur, er síðar gætu starfaði í slíkri hljómsveit. Að efla músíkalska menningu í landinu og undirbúa nemendur er legðu fyrir sig tónlist sem lífsstarf og síðar sæktu til annarra landa til þess að fullnuma sig. (47)

Af þessum orðum má sjá að stofnendur skólans höfðu gert sér grein fyrir því árið 1930 að þeir yrðu að byrja á að ala upp kynslóð tónlistarmanna sem leggja mundi grunn að tónlistarlífi landsins í framtíðinni. Á fyrstu árum skólans var aðaláherslan lögð á að kenna á hin hefðbundnu strengjahljóðfæri auk píanós, tónfræði og tónlistarsögu. Að loknum fyrsta starfsvetri má lesa eftirfarandi athugasemd í skýrslubók skólans:

Kennslufyrirkomulag var þannig að hver nemandi fær tvo tíma (48) vikulega í aðalnámsgrein, tvo tíma í tónlistarsögu og 2 tíma í tónfræði, einn tíma í aukanámsgrein, t.d. píanó eða fiðlu. Nemendur voru 41 að tölu, þarf af 20 píanónemendur, 13 fiðlunemendur, 7 cellónemendur, 1 kontrabassanemandi, 1 Violanemandi, 5 theorienemendur. Sumir hafa þannig stundað 2 fög, svo sem t.d. fiðlu og píanó. Flestir nemendur höfðu hljómfræði sem aukafag, einnig tónlistarsögu. Píanókennarar voru þeir dr. Franz Mixa og Páll Ísólfsson. Fiðlukennari var Karl Heller. Celló: Fleischman. Tónlistarsögu og hljómfræði kendi Páll Ísólfsson sem einnig var skólastjóri. Próf fóru fram: miðsvetrarpróf í janúar og vorpróf í maí. (49)

Reykjavík í lok maí 1931, Páll Ísólfsson.

Eitthvað fækkaði nemendum næsta ár, og Karl Heller fiðlukennari sneri aftur til síns heimalands. Í stað hans var ráðinn nýr kennari sem átti eftir að taka þátt í íslensku tónlistarlífi mörg næstu árin, Hans Stepanek. Veturinn 1932-33 stunduðu hins vegar 54 nemendur nám við skólann og þeim fór síðan fjölgandi næstu árin.

Í lok skólaárs 1934 tóku fyrstu nemendurnir burtfararpróf. Það voru Björn Ólafsson á fiðlu, Helga Laxness á píanó, Katrín Dalhoff Bjarnadóttir á píanó og Margrét Eiríksdóttir á píanó. Prófdómari var Emil Thoroddsen. Katrín Dalhoff lauk svo tveimur árum síðar einnig burtfararprófi í fiðluleik.

Árið 1955, á 25. starfsári skólans, var fjöldi nemenda orðinn 150. Flestir (91) stunduðu nám í píanóleik, 22 á fiðlu, 18 söngnemendur, 4 klarinettnemendur, 2 sellistar, 2 í orgelleik og 1 á kontrabassa. Á þeim vetri voru 8 nemendur sem höfðu kontrapunkt og hljómfræði sem aðalnámsgrein og á vortónleikunum var m.a. leikið verk eftir einn nemenda skólans, Jón S. Jónsson. (50)

47 Morgunblaðið 13. september 1955.
48 Það skal undirstrika hér að inna hins íslenska tónlistarskólakerfis er hefð fyrir því að allir nemendur fá 2 x 30 mínútur í hljóðfæraleik.
49 Tónlistarskólinn: Nemendaskrá 1930 – 1936.
50 Hann fluttist síðar til Bandaríkjanna og gerðist kennari og tónskáld.

 

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is