Tónlistarnefnd Tónskáldafélagsins

Eitt af verkefnum Tónskáldafélagsins var að stofna tónlistarnefnd til að gera tillögur um flutning tónlistar í útvarpinu. Tónskáldafélagið skyldi hafa fulltrúa í henni og fór þess á leit að útvarpslögum yrði breytt til þess að því gæti orðið. Tónskáldafélag Íslands ritaði eftirfarandi bréf til formanns útvarpsráðs, Ólafs Jóhannessonar, varðandi þetta mál hinn 15. apríl 1951:

Á aðalfundi Tónskáldafélags Íslands í gær voru undirritaðir kjörnir í nefnd til samvinnu við Ríkisútvarpið um tónlistarmál, enda voru þeir hr. Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson á fundinum og á engan hátt mótfallnir slíkri nefndarkosningu. Með tilvísun til samninga milli Ríkisútvarpsins og STEFs, þar sem fram er tekið að Ríkisútvarpið mæti með velvilja tillögum Tónskáldafélagsins í þessum efnum, leyfum vér oss að fara þess á leit að þér boðið oss á næsta fund útvarpsráðs til að ræða samkomulag um undirstöðuatriði þessara mála. (115)

115 Bréf Tónskáldafélags Íslands til formanns útvarpsráðs, dags. 15. apríl 1951.

15. maí 1951 ritar svo Tónskáldafélagið eftirfarandi bréf til Útvarpsráðs:

Undirrituð nefnd hefir meðtekið bréf skrifstofu Útvarpsráðs dagsett 10. þ.m. varðandi samþykkt á fundi Útvarpsráðs 18.f.m. Nefndin hefir átt fund með tónlistarráðunautum Ríkisútvarpsins þeim Páli Ísólfssyni og Jóni Þórarinssyni, og hafa þeir orðið nefndinni sammála um að leggja til að Útvarpsráð setji eftirfarandi reglur um flutning íslenzkrar tónlistar í útvarpinu, að svo miklu leyti sem tónverkin eru til á plötum eða böndum hjá útvarpinu:

1    Hvert íslenskt verk fyrir hljómsveit eða hljómsveit og kór sé ekki flutt í útvarpinu sjaldnar en 2 sinnum á ár.
2    Hvert íslenzkt verk stofutónlistar (hljóðfæralög, sónötur , dúó, tríó, kvartettar m.m.) ekki sjaldnar en 3 sinnum á ári
3    Hvert íslenzkt verk fyrir kór án undirleiks ekki sjaldnar en 6 sinnum á ári
4    Hvert íslenzkt einsöngslag ekki sjaldnar en að minnsta kosti 12 sinnum á ári
5    Hvert íslenzkt danslag eða skemmtilag sé ekki flutt sjaldnar en 52 sinnum á ári
6    Ókunn eða lítt kunn íslenzk tónverk séu á fyrsta og næstfyrsta ári endurtekin í útvarpinu ekki sjaldnar en 6 sinnum á ári með ekki lengra tímabili á milli en 10 dögum.
7    Ef talið er orka tvímælis að plötur eða tónbönd verka séu nothæfar að því er snertir flutninginn eða upptökugæðin, þá skulu tónskáldin sjálf eða erfingjar þeirra skera úr þessu að því er snertir þeirra eigin verk.

 

Þessar tillögur urðu að sannkölluðu baráttumáli. Tveimur árum síðar, þ.e. 11. mars 1953, birtust þessar tillögur í dagblöðum. Jón Leifs boðaði fréttamenn útvarps og blaða á sinn fund daginn eftir. Frétt kom frá þeim fundi deginum eftir og segir í henni m.a.:

Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands haldinn sunnudaginn 1. marz 1953 lýsir megnri óánægju sinni yfir vanrækslu þeirri, sem Ríkisútvarpið hefir, þrátt fyrir margítrekuð tilmæli, sýnt um útbreiðslu og kynningu á íslenzkri tónlist. Tónskáldafélagið hefir á seinustu árum oftsinnis farið þess á leit:
1    að kjörin yrði sérstök dagskrárnefnd tónlistar við útvarpið til að gæta hlutleysis og réttlætis í vali dagskrárliða tónlistar eins og 5. gr. laga um útvarpsrekstur og 7. grein reglugerðar um útvarpsrekstur mæla fyrir um og eins og tíðkast hvarvetna við útvarpsstöðvar annarra landa.
2    Félagið hefir einnig gert aðrar endurbótatillögur, m.a. um sérstakar reglur fyrir flutning íslenzkrar tónverka í útvarpinu, sem þar eru á plötum, og endurtekningar þeirra.Öllum þessum tilmælum hefur verið hafnað. Flutningur íslenzkrar tónlistar í útvarpinu hefir verið mjög lítið aukinn. Ríkisútvarpið hefir ennfremur vanrækt stórlega að hagnýta sína ágætu aðstöðu til að koma á dagskrárskiptum við erlendar útvarpsstöðvar og kynna þannig Ísland, íslenzka framleiðslu, íslenzk sjónarmið og íslenzka menningu og tónlist á erlendum vettvangi… Mbl. hefur aflað sér upplýsinga um að tónlistarráðunautar útvarpsins voru ekki staddir á fundi þessum, enda mun a.m.k. dr. Páll Ísólfsson hafa sagt sig úr Tónskáldafélaginu á sl. ári.

Sama dag barst Tónskáldafélaginu úrsagnarbréf Jóns Þórarinssonar.

Svarið sem þeir Tónskáldamenn fengu frá Útvarpinu gæti alveg eins verið: Hvern fjandann eruð þið að skipta ykkur af þessu. Ykkur kemur þetta ekki nokkurn skapaðan hlut við!
Í viðtali formanns og varaformanns Tónskáldafélagsins við formanns útvarpsráðs kom fram að að hans áliti kæmi ekki til greina að útvarpsráð setti einhverjar reglur um flutning tónlistar í útvarpinu. Útvarpið hefði tvo menn, Pál Ísólfsson og Jón Þórarinsson sem störfuðu með fullu umboði ráðsins við að sjá um tónlistardagskrá útvarpsins. Með öðrum orðum: Þeir réðu þessu í einu og öllu sjálfir.
“Sjaldan veldur einn þá tveir deila”, segir máltækið, og átt það við hér. Báðir höfðu eitthvað til síns máls. Valdabaráttan átti eftir að ríkja meðal þessara fylkinga næstu 20 árin, en tæpast verður hægt að losa útvarpsmenn algjörlega undan þeirri ásökun um að þeir hafi misnotað vald sitt á þessum árum. Staðreyndir tala þar sínu máli. Það er ekkert leyndarmál að þeir álitu mörg íslensk tónskáld skrifa svo lélega tónlist að hana bæri ekki að flytja í útvarpi. Þeir álitu einnig flutning margra hljóðfæraleikara og kóra svo lélegan að hann væri ekki samboðinn þjóðinni. Það er ekkert launungarmál að Jón Þórarinsson hefur alla tíð metið lítils bæði heimspekilegar og tónlistarlegar forsendur tónverka Jóns Leifs. Það er heldur ekkert leyndarmál að Páll Ísólfsson mat lítils tónlistarstarf Björgvins Guðmundssonar á Akureyri. Má þar vísa til “opins bréfs til tónlistardeildar” eftir Björgvin Guðmundsson sem gefið var út á prenti árið 1951 og fjallað var um hér að framan. En hvorki þá fremur en nú ríkti friður um listirnar.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is