Tónlistarkynningar við Háskóla Íslands

Með auknum áhuga almennings á því sem kallað hefur verið sígild tónlist jók þörfin á tónlistarkynningum til að styðja og efla flutning af þessu tagi. Á einstaka tónleikum voru verkin kynnt eða höfundar þeirra. Má þar t.d. minnast tónleika hins gamla kammermúsíkklúbbs og ISCM (185) árið 1949 þar sem formaður klúbbsins, Bjarni Guðmundsson, kynnti lítillega verkin og höfunda þeirra. Einnig má nefna kynningar Ríkisútvarpsins á tónskáldum og verkum þeirra sem nokkrir helstu tónlistarmenn landsins fluttu. Þátta Jóns Þórarinssonar tónskálds og ekki síður þátta Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds um nútímatónlist sem hófust árið 1961 – og heyrast enn – ber sérstaklega að minnast í þessu sambandi.

185 International Society for Contemporary Music.
Við Háskóla Íslands starfaði Karlakór Háskólastúdenta sem frá árinu 1951 starfaði óslitið í fjölda ára. Í nóvember 1953 tók kórinn upp þá nýbreytni að bjóða til tónlistarkynninga meðal nemenda. Hljómplötudeild Fálkans lánaði nemendum hljómplötur með verkum m.a. eftir Mozart og Wagner og kynnti Róbert A. Ottósson þau. Þessi starfsemi hélt áfram og gengust kórmeðlimir á fyrri hluta ársins 1954 fyrir tveimur kynningum með aðstoð Róberts A. Ottóssonar í tengslum við tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar. Í maímánuði sama ár gekkst kórinn fyrir kynningu á verkum yngri tónskálda Bandaríkjanna, þeirra Schales T. Griffes, Samuel Barber, William Grant Still og Charles W. Calmen. Nutu kórmenn aðstoðar Róbert A. Ottossónar, Guðmundar Jónssonar söngvara og Fritz Weishappel píanóleikara. Allar þessar kynningar voru opnar almenningi og var aðgangur ókeypis.
Vísir að tónlistardeild innan Háskólans var komið á fót árið 1955 fyrir tilstilli hins heimsfræga fiðluleikara Isac Stern. Íslendingar hafa alltaf verið ákaflega heppnir að fá til landsins í heimsókn marga bestu listamenn heimsins. Í janúar árið 1955 komu til landsins fiðluleikarinn Isac Stern og undirleikari hans Alexander Zakin. Þeir héldu nokkra tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni í Reykjavík fyrir meðlimi Tónlistarfélagsins sem kom í kring heimsókn þeirra félaga. Allar tekjur af tónleikunum gáfu þeir Háskóla Íslands til stofnunar tónlistarsafns við skólann. Í janúar 1955 birtist svohljóðandi gjafabréf í bæjarblöðunum:

Herra háskólarektor:

Við Alexander Zakin þökkum yður kærlega fyrir það, að okkur gafst kostur á að leika fyrir yður og stúdentahópinn og eiga við yður samræður. Við ferðumst víða um heim og þykir okkur hvarvetna miklu skipta að hitta ungmenni hvers lands. Okkur hafa þótt þau mjög þakklátir áheyrendur, og í okkar augum hefur unga fólkið miklu hlutverki að gegna í framþróun tónlistar og allra mennta. Af þessum sökum er mér það mikil ánægja að bjóða Háskóla Íslands allar tekjur mínar, sem orðið hafa að þessari skemmtilegu heimsókn til Íslands, í því skyni að opna megi tónlistarstofu með beztu fáanlegum tækum til hljómplötuleika, svo og vísi að tónplötusafni. Er það von mín, að slíku safni megi eigi aðeins koma gjafir víða að, heldur og að það megi verða vísir að tónlistardeild innan Háskólans. Okkur hefur þótt fólk hér vera með söngvísustu og áhugasömustu áheyrendum, sem við höfum fyrir hitt. Við trúum fastlega á gildi tónlistar í sköpun betra og fegurra mannlífs. Við viljum því af heilum hug hjálpa hverjum þeim, sem njóta vill hinna eilífu sanninda og fegurðar, sem eru ávextir blómaskeiða menningarinnar. Í þeirri von, að eiga enn eftir að sækja Ísland heim, kveð ég yður, kæri háskólarektor, alúðarkveðjum.

Yðar Isac Stern (186)

186 Morgunblaðið: 19. janúar 1955.

Það er ekkert vafamál að gjöf þessi gegndi mikilvægu hlutverki í þá átt að auka skilning og þekkingu fjölda fólks á tónlist. Keypt voru hin vönduðustu tæki og voru þau vígð við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Háskólans um vorið. Þetta þótti mikill menningarviðburður innan skólans og meðal vígslugesta var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Ásamt tækjunum voru keyptar í upphafi 55 plötur með úrvali hinna bestu verka. Mikill áhugi háskólamanna á gjöf þessari sýndi sig m.a. í því að á heimavist stúdenta, Nýja Garði, voru einnig góð hljómflutningstæki, sem sendiráð Bandaríkjanna gaf þangað af sama tilefni og gátu nemendur fengið lánaðar plötur til að leika þar.
Fyrsta opinbera tónlistarkynningin fór fram í október 1955 og var Páll Ísólfsson kynnir. Þá var fiðlukonsert Mendelssohns leikinn af hljómplötu, af áðurnefndum Isac Stern, með undirleik hljómsveitar undir stjórn Eugenes Ormandys. Einnig var flutt af plötum 7. Sinfónía Beethovens leikin af Fílharmónísku hljómsveitinni í New York undir stjórn Bruno Walters.
Upp frá þessu voru tónskálda- og tónlistarkynningar reglulegur viðburður innan Háskólans og ýmsir tónlistarmenn fengnir til þessara kynninga. Í nóvember 1956 var Vetrarferðin eftir Schubert flutt og voru þýðingar á ljóðaflokki Wilhelms Müllers ásamt frumtextanum afhentar á tónleikunum. Ein af okkar miklu óperustjörnum þess tíma, Guðmundur Jónsson söngvari, flutti inngangsorð til skýringar. Allur undirbúningur þessara tónleika var til fyrirmyndar og í mars 1957 var sami háttur hafður á er Guðmundur Matthíasson tónlistarkennari kynnti verk Schumanns, Frauen-Liebe und Leben, að frumtexti ásamt þýðingum Matthíasar Jochumssonar var afhentur áheyrendum í upphafi tónleika.
Hljómplötusafn Háskólans óx smám saman. Eftir að stjórn Fálkans gaf skólanum hljómplötur að verðmæti 10.000 krónur átti safnið 200 hæggengar hljómplötur í ársbyrjun 1958. Á sama ári kynnti Páll Ísólfsson allar sinfóníur Beethovens með skýringum. Nokkur erlend sendiráð gáfu einnig háskólanum plötugjafir og í september 1960 færði upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna skólanum 430 hljómplötur, ásamt spjaldskrá og skýringum á tónverkunum. Þessar hljómplötukynningar Háskólans hafa greinilega notið ákveðinnar virðingar í menningarlífi höfuðborgarinnar. Góð aðsókn að þeim sýnir ört vaxandi áhuga landsmanna á sígildri tónlist.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is