Tónlistarhöll í Reykjavík

Aðeins eitt af samkomuhúsum bæjarins er nothæft til hljómleikahalds. Fram að hernáminu var sæmilega greiður gangur að því til þessara nota. En nú orðið er varla um annan tíma að ræða til hljómleikahalds en klukkan hálf tólf að kvöldi, þar sem starfsemi eigenda hússins krefst alls annars tíma. Með þessu er fjölda manns bægt frá því að sækja hljómleika. Jafnvel þótt engu af þessu hafi verið til að dreifa, þá eru það fleiri en Tónlistarfélagið, sem alið hafa þá von í brjósti, að höfuðstaðurinn eignaðist sem fyrst glæsilega sönghöll, sem orðið gat miðstöð íslenzks tónlistarlífs… Það sama ástand sem svift hefur okkur húsnæði til daglegrar starfsemi og hljómleikahalds og torveldað alla starfsemi okkar hefur samtímis margfaldað peningaveltu landsmanna og fært ýmsum einstaklingum ótrúlegar upphæðir fjár. (56)

Nokkrar byggingar á Íslandi hafa ekki eingöngu orðið þekktar fyrir tilgang sinn og starfsemi þá sem þar fer fram innan dyra. Þær hafa einnig fengið rúm í sögu okkar fyrir þá sök hversu langan tíma hefur tekið að byggja þær. Misjafnlega hefur verið hlúð að listgreinum í landinu hvað varðar aðstöðu til að framfæra listina. Leiklistin fékk sína höll árið 1950 við byggingu Þjóðleikhússins og svo síðar við stórbyggingu Leikfélags Reykjavíkur, og enn áður Iðnó. Myndlistin hefur fengið Kjarvalsstaði og Listasafn ríkisins auk margra annarra smærri sala. Tónlistin hefur fengið… EKKERT!

56 Bréf úr safni Tónlistarfélagsins frá því í nóvember 1941.

Árið 1940 flutti Páll Ísólfsson erindi í Ríkisútvarpið og birtist tilvitnun úr því í grein í Vísi. Í henni sagði m.a.:

Það er mikið talað um, sem vonlegt er, að allt beri að gera til að varðveita þjóðerni og tungu. Um það þarf ekki að fjölyrða; það er sjálfsagt: Þess vegna þarf nú meðal annar að byggja yfir listirnar og söfnin. Við höfum ekki efni á því, að láta listaverkin grotna niður. Við höfum heldur ekki efni á, að vera lengur svo fátæk í þessum greinum, að margt af því allra bezta, sem býr með þjóðinni, fái ekki notið sín, vegna húsnæðisskorts. Þess vegna ætti nú að hefjast handa og byggja höll fyrir listirnar á góðum stað, sem bærinn gæfi. Höll þessi geymdi Þjóðminjasafnið og Myndasafnið, sem óðum er að stækka. Þarna ættu að vera minnsta kosti tveir salir til tónleikahalds, annar stór og hinn minni, og þarna mætti gjarna vera tónlistarskóli og myndlistarskóli, og ef til vill fleira. Eins og “vísindin efla alla dáð”, eins gera listirnar það. Háskólinn, höll vísindanna, er risinn af grunni. Höll listanna verður líka að rísa, voldug og glæsileg.” (57)

57 Vísir: 20. október 1941.

Orð Páls voru töluð á þeim tíma sem stríðsgróðinn var að flæða inn í landið (eins og bent er á í tilvitnun í bréfið frá Tónlistarfélaginu). Á þeim tíma sem hlutabréf, er varla höfðu verið “tombólutæk”, fengust ekki lengur fyrir tífalt nafnverð. Þeir, sem áður höfðu þurft að margtjasla saman skóreimum, gengu nú um á lakkskóm.

Það sem olli áhyggjum – svo sem reyndin var – að gróðinn fór á fáar hendur og var þetta kærkomna tækifæri stundargróðans ekki nýtt til að beina fé einnig í menningu og listir. Í lok greinarinnar í Vísi segir:

Efling íslenzkra lista á að vera einn ríkasti þátturinn í þjóðernisbaráttu okkar. Aldrei hefir verið auðveldara en nú að sýna þann skilning í verki. Þess vegna skulum við öll taka undir við Pál og strengja þess heit, að reisa hér listahöll, sem samboðin sé þeim hæfileikum, er þjóðin býr yfir.

Umræðunni var ekki lokið hér; hún var rétt að fara í gang – og er enn í gangi. En það var einnig þá – eins og oft þegar Páll sló einhverju fram í erindi, viðtali eða grein – sem eitthvað fór í gang. Umræðan hélt áfram, vonin um að eitthvað gerðist jókst og almenningur gerði ýmislegt til að svo mætti verða. Sem dæmi má nefna er það að í janúar 1944 hélt Samkór Reykjavíkur söngskemmtun í Reykjavík og gaf allan ágóðann af tónleikunum til byggingar tónlistarhallar í bænum. Einnig munu ýmsir aðrir kóra, hljóðfæraleikarar og einsöngvarar hafa lagt til sitt framlag.

Árið 1944 var gert sérlegt átak á vegum Tónlistarfélagsins til byggingar tónlistarhallar í Reykjavík. Hafist var handa við heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar og kom fyrsta heftið út það ár, Passíusálmarnir (52. útgáfa á 277 árum). Lítið heyrðist um þessi mál næstu árin. Þó tóku menn gleði sína aftur við byggingu Þjóðleikhússins, en eins og rakið er í kaflanum um Sinfóníuhljómsveitina, þá varð það skammgóður vermir.

Árið 1958 tilkynnti Tónlistarfélagið á blaðamannafundi að það hygðist ráðast í byggingu tónlistarhallar. Þar var ljóst að markmiðin sem Páll Ísólfsson talaði um tæpum 20 árum áður voru orðin heldur léttvægari. Ekki var þarna um að ræða neina tónlistarhöll, heldur nýtt húsnæði fyrir Tónlistarskólann í Reykjavík, með stórum tónleikasal. Sama ár kom út þriðja og síðasta bindi í heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar á vegum félagsins, það er Sálmar og hugvekjur.

Tónlistarfélagið hafði þá þegar yfir að ráða dálitlu fjármagni til að hefja bygginguna, en langt í frá nægilegt til að ljúka henni. Hugmyndir voru um að Hljómsveit Tónlistarskólans, sem stofnuð hafði verið árið 1943 af Birni Ólafssyni, fengi aðstöðu í kjallara byggingarinnar. Hún hafði nú fengið þennan titil – hét áður Nemendahljómsveit Tónlistarskólans – með það í huga að einnig fyrrverandi nemendur eða aðrir gætu leikið þar með. Tónlistarfélagið hafði fengið úthlutað lóð á Grensásvegi, á mótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar, til að byggja “höllina”, en ekkert varð úr þeim áformum. Engin spurning var að þörfin væri mikil á slíku húsnæði. Sinfóníuhljómsveitin hafði heldur engan samanstað fyrir starfsemi sína og starfaði t.d. á mörgum stöðum í bænum og greiddi háa húsaleigu.

Draumurinn um 1000 manna áheyrendasal varð þó að veruleika í Reykjavík árið 1961. Háskóli Íslands hafði á sama tíma áform um að reisa tónlistarhöll og kvikmyndahús. Byrjað var á grunni hússins í september 1958, og var það hús tekið í notkun á 50 ára afmæli skólans haustið 1961. Háskólabíó varð frá þeim tíma heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands og má nærri geta hvílíkur aðstöðumunur þetta varð fyrir hljómsveitarmenn. Húsnæðið er um 1800 m2 og tekur um 1000 áheyrendur í sæti. Hefur það síðan verið neyðarlausn Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fljótlega eftir að húsið var tekið í notkun hófst mikil umræða um hljómburð þar, og hefur svo verið nokkuð reglulega síðan. Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar, en húsið er byggt sem kvikmyndahús og því eru takmarkaðir möguleikar á því hvað hægt er að gera í hljómburðarmálum. 1968 voru gerðar heilmiklar breytingar á sviði bíósins og fenginn til landsins hljómburðarsérfræðingur til ráðgjafar. Árið 1970 vor tilkvaddir – vegna ítrekaðra kvartana bæði hljómsveitarmanna og hlustenda – ýmsir menn til að gefa skriflegt álit sitt á þessum breytingum. Niðurstöðurnar voru í stuttu máli þær að húsið væri óhæft til tónlistarflutnings. Nú mun það talið “nothæft”.

Tónlistarfélagið reisti árið 1963 stórhýsi – á þeirra tíma mælikvarða – undir starfsemi Tónlistarskólans í Skipholti í Reykjavík, þar sem hann er enn til húsa. Allan tímann hefur verið rekið kvikmyndahús á neðri hæðinni en starfsemin skólans verið á hinni efri. Kvikmyndasýningar hafa gefið félaginu miklar tekjur um árabil, og hafði það til margra ára einkarétt á sýningum á kvikmyndum ýmissa helstu bandarísku kvikmyndaframleiðandanna.

Tónlistarfélagið gafst ekki upp. Tíu árum síðar eða upp úr 1970 hafði Tónlistarfélagið uppi fyrirætlanir um að byggja tónleikahöll við Sigtún í Reykjavík. Þar skyldi vera tónleikasalur sem tæki um 1000 manns, kvikmyndasalur sem tæki um 500 manns og kammermúsíksal fyrir um 300 áheyrendur. Ástæðan var sú að húsnæði Tónlistarskólans í Reykjavík var löngu orðið of lítið. Þessi tónlistarhöll átti einnig að hýsa starfsemi Tónlistarskólans. Til er líkan af þessu húsi, en á lóðinni stendur nú hótel og aðrar byggingar. Upp úr 1980 komst þessi umræða aftur í gang og er nú í dag á því stigi að íslensk stjórnvöld hafa látið hafa það eftir sér að næsta stórframkvæmd í þágu menningarbyggingar í landinu verði Tónlistarhús. Tónlistarmenn og velunnarar þessa málefnis hafa því nú um þessar mundir unnið að því að safna fé meðal almennings í yfir 50 ár til að reisa hús er sæmdi tónlistinni. Málið hefur komið upp nokkuð reglulega á u.þ.b. áratugs fresti allan þennan tíma þannig að ekki er enn vonlaust að ætla að húsið verið tekið í notkun árið 2000, ef sú umræða sem nú er í gangi verður að veruleika – 60 árum eftir að hún hófst.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is