Tónlistarhátíð Tónskáldafélagsins 1957

Haustið 1955 stóð til af hálfu Tónskáldafélagsins að minnast 10 ára afmælis þess með því að halda tónlistarhátíð þar sem flytja skyldi eingöngu íslenska tónlist. En á síðustu stundu var þessari hátíð frestað vegna skorts á sinfóníuhljómveit. Útvarpsstjóri, Vilhjálmur Þ. Gíslason, hafði lagt niður sinfóníuhljómveitina á vegum útvarpsins og því strandaði allt af sjálfu sér (sjá nánar kaflann um sinfóníuhljómsveitina). Hljómsveitin var síðan stofnuð að nýju 1956 og í apríl árið eftir varð draumurinn um íslenska tónlistarhátíð að veruleika. Dagana 27.-30. apríl 1957 var hátíðin haldin í Reykjavík í tilefni af 10 ára afmæli Tónskáldafélagsins (sem að vísu var árið 1955). En hvernig mátu ungu tónskáldin stöðu sína, hvernig var starf þeirra metið af “hinum eldri”? Jórunn Viðar tónskáld hugleiddi það í tímaritsgrein sama ár:

Aldrei hefur verið reynt að koma með einhverja nýjung hér á sviði lista svo að hún hafi ekki mætt áhugaleysi. Menn hefja ævistarfið fullir lífsgleði og bjartsýni, en um leið og þeir reyna að framkvæma eitthvað af áformum sínum er þeim greitt rothögg einhversstaðar frá. Þeir átta sig um stund – en sköpunarþráin verðu ekki bæld. Þeir reyna aftur – högg, – og aftur: högg högg. Samt eru rothöggin betri en sinnuleysið. Og svo er það þó vonin um samsæti á sjötugsafmælinu: Hver veit? Il faut continuer, sagði skáldið og hélt áfram að borða grautinn. (119)

Sundrungin og samstöðuleysið náði líklega hámarki sínu á þessum áratug – ekki aðeins í tónlistinni, heldur flestöllum öðrum listgreinum. Jórunn Viðar skrifar ennfremur:

Árum saman hefur undirrituð setið á fundum Tónskáldafélagsins og Bandalags íslenzkra listamanna og hlustað á þann mannamun sem gerður er á “skapandi” og “túlkandi” listamönnum. Alltaf hefur þetta haft sömu áhrif á taugakerfið í mér. Hvers vegna? Vegna þess að:

ef túlkandi list er ekki skapandi, þá er hún engin list
ef skapandi list er ekki túlkandi, er hún engin list
ef list er ekki sköpuð og túlkuð, er hún ekki list. (120)

119 Birtingur: 3. hefti, 1957. Jórunn Viðar.
120 Sama.

Á hátíðinni var gefin ákveðin mynd af stöðu tónsköpunar í landinu, þó svo ýmislegt hafi vantað þar á. Viðhorfin til hins nýja og hins gamla birtist kannski helst í umfjöllun um tónleikana, annars vegar frá Jóni Þórarinssyni, sem teljast verður á þessum tíma til yngri kynslóðarinnar, og hins vegar umfjöllun Eggerts Stefánssonar söngvara, sem hóf sinn söngferil árið 1916, árið áður en Jón fæddist. Um verk Jóns Nordal, Sinfonietta Seriosa skrifaði Jón Þórarinsson: “Þetta er að dómi þess, er þessar línur ritar, athyglisverðasta verk hátíðarinnar, þaulhugsað, vel unnið, hugmyndaríkt og á margan hátt glæsileg tónsmíð…”. Eggert Stefánsson skrifar hins vegar: “Senfonietta – lítil sinfónía eftir Jón Nordal. – Fannst mér hún ekki nógu lítil.” Í mati þessara tveggja manna mætist nýi og gamli tíminn, og einmitt á þessum árum verða kynslóðaskipti og ekki síst stílskipti í íslenskri tónsköpun. Nýtt líf fæðist í íslenskt tónlistarlíf og tími nýrra viðhorfa, í takt við það sem var að gerast á hinum Norðurlöndunum.
Þetta var ekki fyrsta tónlistarhátíðin sem haldin var með flutningi á íslenskri tónlist. Þeirri fullyrðingu aðstandenda hátíðarinnar andmælir Eggert Stefánsson í grein sinni í dagblaðinu Vísi:

Hann [formaður tónskáldafélagsins] hefur lagt áherzlu á að þetta sé fyrsta hljómleikahátíð íslenzkra tónskálda. Það rennur þá upp fyrir mér, að hér er ég í hópi manna, sem hafa falsað tónlistsögu Íslendinga. – Sögufölsun, hvað þá tónlistarinnar er svo algeng hér, að enginn nennir að elta ólar við slíkt. – Þetta var ekki fyrsta, þetta var líklega nær 100. hljómleikahátíð tónskálda. – Sveinbjörn Sveinbjörnsson hafi hér hljómleikahátíðir sínar fyrir aldamót. – Sigfús Einarsson hafði einnig tónskáldahátíð sína, rétt eftir aldamót. – Sigvaldi Kaldalóns hafði mörg tónskáldakvöld – og hátíðir. – Eggert Stefánsson hafði 20-30 tónskáldakvöld, þar sem verk flestra tónskálda sem eru á tónskáldakvöldunum 27.-30. apríl í ár voru flutt. Og svona má lengi telja, líka úti á landi. – Svo þessi Bjartur í Sumarhúsum hefur slátrað of fljótt þessum fyrirrennurum sínum.” (123)

121 Nýtt Helgafell 2. hefti; 1957.
122 Vísir: 8. maí 1957.
123 Sama.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is